18 apríl, 2011

Í útlöndum er ekkert skjól

Kvisthyltingar þeir að hafa kosið að dvelja til skemmri eða lengri tíma erlendis, koma stundum til tals í samræðum við gamla unglinginn, sem alloft hefur átt sinn þátt í að efla andagift við þessi skrif.  Það bregst ekki, þegar 'útlendingana' ber á góma, að sá gamli skýtur þessu að, á einhverjum tíma:


Ja, í útlöndum er ekkert skjól,
eilífur stormbeljandi.
sagði skáldið.

Hann vissi nú ekkert hvaðan þetta var komið og uppi hafa verið kenningar í samræðunni um, að hér hafi verið á ferðinni einn úr fyrri bylgju útrásavíkinga okkar, sem gisti kóngsins Kaupmannahöfn á einhverjum tíma, áður fyrr.

Myndin sem var þarna dregin upp, var af Íslendingnum, sem fór utan í leit að fé og frama, en reyndist  þegar upp var staðið, hafa dottið í það þar ytra og legið úti allan veturinn fyrir hunda og manna fótum, síðan komið heim í heiðardalinn og gert lítið úr því að dvelja ytra vegna þeirra aðstæðna sem að ofan er lýst.
Forvitni mín um uppruna þessara lína hefur aukist jafnt og þetta og loks tók ég mig til og gúglaði. Niðurstaðan var hreint ekki sú sem ég átti von á.
Hér er um að ræða línur úr vögguljóði eftir Nóbelsskáldið, en vissulega virðist það ort til að dásama dýrð og fegurð föðurlandsins og allt það skjól og öryggi sem það veitir þegnum sínum:
Íslenskt vögguljóð (á Hörpu)
Ég skal vaka og vera góð
vininum mínum smáa
meðan óttan rennur rjóð,
roðakambinn bláa,
og Harpa syngur hörpuljóð
á hörpulaufið gráa.

Stundum var í vetur leið
veðrasamt á glugga:
var ekki' eins og væri' um skeið
vofa' í hverjum skugga?
Fáir vissu að vorið beið
og vorið kemur að hugga.

Sumir fóru fyrir jól.
fluttust burt úr landi,
heillum snauðir heims um ból
hús þeir byggja' á sandi.
Í útlöndum er ekkert skjól,
eilífur stormbeljandi.

Þar er auðsýnt þurradramb
þeim sem út er borinn,
engin sól rís yfir kamb
yfir döggvuð sporin.
Þar sést hvorki lítið lamb
né lambagras á vorin.

Þá er börnum betra hér
við bæjarlækinn smáa,
í túninu þar sem trippið er.
Tvævetluna gráa
skal ég, góði gefa þér
og gimbilinn hennar fráa.

Og ef þig dreymir, ástin mín,
Oslóborg og Róma,
vængjaðan hest sem hleypur og skín
hleypur og skín með sóma,
ég skal gefa þér upp á grín
allt með sykri og rjóma.

Eins og hún gaf þér íslenskt blóð,
ungi draumsnillingur,
megi loks hin litla þjóð
leggja' á hvarm þinn fingur
á meðan Harpa hörpuljóð
á hörpulaufið syngur.
HALLDÓR LAXNESS

1 ummæli:

  1. Jammm...;) "ég skal gefa þér upp á grín
    allt með sykri og rjóma"

    Þetta ljóð er eitt af þeim sem móðursytur mínar vitna oft í og mér hefur ætíð fundið svo ansi hreint snorturt og sniðugt.

    En nú mun ekki Nóbelsskáldi svara
    hef ei til þess hugdjöfung
    og heldur er til verks of ung.

    Hirðkveðill Kvistholts svara ekkii Nóbelsskáldinu.

    SvaraEyða

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...