Sýnir færslur með efnisorðinu Konungur Ljónanna. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu Konungur Ljónanna. Sýna allar færslur

26 mars, 2017

"Við vorum ekkert hræddar"

Við skelltum okkur á leiksýningu nemenda Menntaskólans að Laugarvatni í Aratungu í gærkvöld, ég og tvær sonardætur: Júlía Freydís (8) og Emilía Ísold (5).  Þær fengu að sitja á fremsta bekk, en ég kom mér fyrir aftast, með EOS-inn í næsta nágrenni við fólkið sem stýrði ljósum, hljóði og tónlist.
Þá er ég búinn að setja upp aðstæðurnar.

Ég hef nú ekki lagt það í vana minn að setja mig á einhvern hest, sem leiklistargagnrýnanda og geri það ekki heldur hér, en auðvitað tek ég mér það bessaleyfi, að hafa skoðun samt.
Ég fékk fljótlega á tilfinninguna, að leikstjórnini væri mjög fagmannleg, enda vanur maður, Guðjón Sigvaldason, sem sá um þann mikilvæga þátt. Sviðssetningin var öll hin ágætasta.

Það þekkja nú flestir söguna um Konung ljónanna, hann Simba, foreldra hans, vini og þann hættulega heim sem hann fæddist inn í og því fjalla ég ekkert um söguþráðinn.

Hvernig komu ML-ingarnir þessu svo frá sér?
Sonardæturnar og önnur börn sem þarna voru, en þau hafa verið 20-30, voru greinilega þeirrar skoðunar, að  vel væri gert. Hópurinn sat kyrr í sætum sínum allan tímann og lifði sig inn í verkið. Gerði stundum athugasemdir, hló og klappaði.  "Mér fannst Skari, skemmtilegastur og svo var hann líka góður leikari með góða rödd", sagði önnur sonardóttirin í leikdómi sínum. "Stelpuhýenan er góður leikari, hún er svo falleg", sagði hin.  Þær eru búnar rifja upp atriði úr verkinu, hafa jafnvel brostið í sönginn "Hakuna Matata". við og við.

Aparnir voru einstaklega apalegir og hýenurnar fáránlega hýenulegar, gnýirnir gný(s)legir. Jamm, dýrin sem birtust á sviðinu voru bara sérlega dýrsleg.

Það sem ég tók eftir, standandi aftast í salnum, var hver framsögnin var skýr. Það er ekki sjálfgefið á þessum tímum, þegar maður heyrir ungt fólk oft tala álíka skýrt og Gettu betur keppndur í hraðaspurningum.  Svei mér ef ég heyrði ekki hvert orð sem barst frá sviðinu.
Framsögnin var líka afar eðlileg, lifandi og tjáningarrík við hæfi.

Ég gæti alveg farið að fjalla um frammistöðu einstakra leikenda. Ég sé engan tilgang með að fara að reyna að gera þar upp á milli, Langflestir stóðu sig með afbrigðum vel og skólanum er sómi að því að sýna myndina sem þarna birtist af hæfileikaríkum nemendum hans.





Nú skuluð þið, lesendur góðir, drífa ykkur á sýningu í nágrenni við ykkur, en Konungur ljónanna verður sýndur sem hér segir:
Sun. 26 mars kl. 14:00 í Aratungu, Reykholti
Þri. 28. mars kl. 20:00 í Þingborg
Mið. 29. mars kl. 20:00 í Félagsheimili Seltjarnarness
Fös. 31. mars kl. 20:00 í Hvoli, Hvolsvelli
Lau. 1. apríl kl. 16:00 í Hvoli, Hvolsvelli 
Sun. 2. apríl kl. 19:00 í Leikskálum, Vík

Sonardæturnar vilja fara aftur og hyggjast reyna að fá foreldra sína með.



FLEIRI MYNDIR - ef vill

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...