Sýnir færslur með efnisorðinu gamlir bílar. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu gamlir bílar. Sýna allar færslur

31 mars, 2019

Kúba: salsa, torg, bylting, bíltúr, listir, fullt af aksjón

Öldugangur við Malecón
Það var rólegheitamorgunn hjá okkur sem ákváðum að læra ekki salsa. Ég veit að hjá fR blundaði talsverð löngun í að skella sér í dansinn og maður varð nokkuð var við þá innri baráttu sem hún átti í varðandi þetta. Ég var búinn að dansa fyrir lífstíð á þorrablótum og Mánaböllum fortíðar og átti því ekki í einhverju stríði við sjálfan mig gagnvart salsa dansi.  Svei mér ef ég veit nákvæmlega um afstöðu fD, en í dansinn vildi hún ekki. 

Þetta var ágætur morgunn, með gönguferð niður að Malecón, götunni sem liggur þarna með sjónum og þar sem haföldur rísa fyrir utan til þess eins að kyssa sjóvarnargarðinn við götuna hraustlega og senda hvítan úða yfir umferðina sem þarna á leið um.
Íþróttatími
Við leituðum uppi og fundum nýlenduvöruverslun skammt frá híbýlum okkar, fyrst með þvi að spyrja eftir slíkri og í framhaldinu með því að fylgjast með fólki með hvíta plastpoka. Við ákváðum að ganga alltaf á móti slíku fólki og á endanum fundum við út hvaðan það kom. Það tíðkast nefnilega ekki á Kúbu að umhverfið sé útatað í rísastórum skiltum sem æpa "Hér, er ég!" þangað til maður verður ónæmur. Það var varla hægt að sjá að þarna væri verslun, en inn fórum við, Fyrir innan voru ekki heldur nein skilti. Röð af fólki stóð við kjötborðið og beið afgreiðslu. Við þurftum nú ekkert slíkt, en fundum það sem okkur vanhagaði um, greiddum fyrir að héldum áleiðis út. Við dyrnar stóð maður, sem óskaði eftir að sjá kvittun fyrir greiðslu. Síðan skoðaði hann í pokann og bar saman við það sem stóð á kvittuninni áður en hann hleypti okkur út í sólskinið á þessum salsamorgni. Heim á leið héldum við með góssið, en þá var einmitt íþróttatími í grunnskólanum. Gatan var lokuð í báða enda og  allskyns leikir og íþróttir iðkaðar þarna á malbikinu.

Eftir hádegið hófst síðan aldeilis fjölbreytt síðdegi sem náði langt fram á kvöld.  

Í húsi Fusters
Þar sem fólkið tíndist inn í rútuna fór ekki á milli mála hvað það hafði verið að gera. Þá og langt fram eftir degi mátti heyra óminn af umræðum um löng eða stutt skref og jafnvel einstaka sinnum brast einhver í salsadans algerlega fyrirvaralaust, en hvað um það.

Fusterlandia

Fyrst lá leið okkar í Fusterlandia sem er heldur betur merkilegur staður að koma á.  Þetta er heimili  José Rodríguez Fuster (1946). Hús hans allt, allur garðurinn í kringum það og næsta nágrenni er eitt keramiklistaverk. Því verður ekki lýst með orðum, en ég læt bara myndir í staðinn, sem dæmi um umhverfið sem þarna blasti við.

Mynd Fusters í hverfinu þar sem hann býr. Þarna  má þekkja þá félaga Fidel og Che. (símamynd)

Sovéska/rússneska sendiráðið

Rússneska sendiráðið (mynd af vef)
Það vitum við öll að samskipti Kúbu við Sovétríkin voru náin á sínum tíma. Við vitum líka að samskipti Kúbu við Bandaríkin voru ekkert sérlega hlý, eins og nærri má geta. 
Sovétmenn reistu veglegt sendiráð hjá þessari vinaþjóð í garði hinna frjálsu og hugrökku; ekki bara eitthvert hús heldur má með góðum vilja (sem ég, sakleysinginn, áttaði mig ekki á fyrr en fararstjórinn benti á það) líta á sem risavaxið "fokkjú" yfir hafið, en sendiráðið sendur einmitt þannig, að á milli þess og nágrannans í norðri er ekkert nema hafið. Hvað sem má segja um það, þá er þetta harla ósendiráðsleg sendiráðsbygging - líkist einna helst flugturni.

Plaza de la Revolución / Byltingartorgið


Byltingartorgið (mynd af vef)

72.000 fermetrar, hvorki meira né minna.
Tríóið á Byrltingartorginu, með Che Guevara í baksýn.
Ég minnist fréttamynda af Fidel Castro flytja óendanlega langar ræður á þessu torgi yfir þjóð sinni, og ekki síður heiminum öllum, því auðvitað var það stór hluti af leiknum. 
Á yngri árum var mér fremur hlýtt til byltingarleiðtoga af þessu tagi: þeirra sem leiddu fólkið til byltingar gegn kapítalisma, arðráni og kúgun. Þessi neisti er enn í mér, en má vísast muna sinn fífil fegri. Kommúnisminn var og er falleg kenning um alræði öreiganna, en það er eins með hann og aðrar mannkynsfrelsandi kenningar, að mannskepnan býr ekki yfir þeim þroska að leyfa þeim að ganga upp.
Á byltingartoirginu. Þar sem rauði bletturinn
er, stóð Castró þegar hann messaði yfir
þjóð sinni og heimsbyggðinni.
Þær eru dæmdar til að leiða af sér eitthvað allt annað en til stóð í upphafi.
Ekki neita ég því, að það var meiri upplifun fyrir mig að koma á þetta torg en ég lét uppi. Kannski vegna þess að einhver hluti af manni er og verður alltaf nátengdur þeim árum þegar maður var að mótast sem manneskja; árunum milli tektar og tvítugs.  Það sem á eftir kemur ævinnar er bara úrvinnsla úr því í ljósi aðstæðna hverju sinni. Þetta var djúpt (ef þú hefur ekki áttað þig á því ).

Hotel Naciónal

Þessi glæsibygging var opnuð 1930 þegar Kúba var einn helsti áfangastaður amerískra ferðamanna. Batista rændi völdum 1933 en ekki ætla ég að rekja þá sögu, nóg er nú skrifað hér samt. Í tengslum við valdaránið var umsátur um hótelið og á því dundi skothríð og sprenguárásir. Síðar, á bannárunum í Bandaríkjunum settist mafían þarna að og þar var haldin fræg ráðstefna mafíósanna: "The Havana Conference" sem gerð eru skil í mynd Coppola "The Godfather Part II". 
Þetta er sem sagt sögufrægt hótel og ekki laust við að sagan snerti mann í húsakynnum þess.

Í anddyri Hótels Naciónal (Þjóðarhótelsins)

Bíltúrinn

Tríóið í bíl sínum, ásamt bílstjóranum.

Það var einhvernveginn alltaf ljóst, að í þessari ferð myndum við fara í bíltúr með áratuga gömlum amerískum köggum. Hvað var meira viðeigandi, en að bruna úr hlaði á Hótel Naciónal á einum slíkum?
Prinsessurnar leggja í hann frá Hotel Naciónal.
Það varð sem sagt raunin. Það sama virtust langflestir í hópnum einnig hafa hugsað því bílarnir streymdu að hótelinu og upp í þá stigu langflestir Kúbuferða-langarnir. Við tók klukkutíma ferð um staði í borginni sem við höfðum ekki áður kíkt á.   
Í hlut okkar þriggja kom bíll sem var árgerð 1948 og sem hafði síðan (frá byltingu væntanlega) verið í geymslu, en gerður upp fyrir 10 árum og fékk eftir það, það hlutverk að aka svona túristum. 
Það var ekki ég sem ákvað að setjast í framsætið; aðrar ákvarðanir urðu til þess. Mér var ætlað að eiga við bilstjórann, sem reyndist ekki afspyrnu sleipur í öðru tungumáli en sínu, sem var bara ágætt, enda ég svo sem enginn sérstakur áhugamaður um gamla bíla. Ég spurði hann þó aðeins og hann svaraði aðeins, milli þess sem hann þeytti yfir umhverfið miklum lúðrahljóm, sem olli því að við skríktum með einhverjum hætti í hvert sinn. Þetta var fyndið fyrst.
Þetta var hin skemmtilegasta ferð bara, en talsverð olíustybba var þó þarna í framsætinu, sem ég hygg að aftursætisfarþegarnir hafi ekki orðið varir við; þeir nutu þess bara að leika prinsessur. Bílferðinni lauk síðan við útidyrnar hjá okkur. 

Fabrica de Arte Cubano

FAC (mynd af vef)
Ef einhver hefur ímyndað sér að eftir allt sem þessi dagur hafði fært hópnum, væri nóg komið og tími til að huga að draumnum um pizzuna, þá ímyndar hann sér vitleysu. Það var nefnilega heilmikið atriði eftir: út að borða í nútímalistarmiðstöðina Fabrica de Arte Cubano - FAC), þar sem gamalli verksmiðju hafði verið breytt í feikimikla listamiðstöð. Það var upplifun að koma á þennan stað. Fyrir utan var röð fólks en með okkur var farið sem VIP gesti þar sem við vorum leidd inn í sali undir vökulum augum tröllvaxinna öryggisvarða. Leiðin lá eftir rangölum þar til við komum að lokum í veitingasal sem var okkur einum ætlaður og greinilega byggður úr gámum af einhverju tagi, þaklausum.
Verk á FAC (mynd af vef)
Eftir ágæta máltíð gengum við um salina til að skoða verkin sem þarna voru sýnd og þau voru sannarlega með ýmsum hætti. Meðal annars var þarna að finna verkið sem ég set hér mynd af, til vinstri.
Rétt er að taka fram, að ég tók ekki með mér myndavél í þessa heimsókn, en náði mér í þessar á vefnum.

Ef ég á að segja eitthvað um gestina, sem ég ætla augljóslega að gera, þá voru þeir ekki af því tagi sem við höfðum aðallega umgengist í þessari ferð. Á sínum tíma hefðum við kallað þá "uppa" hérna á landinu bláa.  

Við þrjú, ólíkt einhverjum öðrum úr hópnum, komumst síðan út án vandkvæða. Einhverjir lentu í brasi sem ég eiginlega ákveð að skauta framhjá, þó um hina ágætustu eftiráskemmtun hafi ugglaust verið að ræða hjá þeim.
Fyrir utan listamiðstöðina var svo komið með mig, eftir að hafa gengið hæð eftir hæð til listaverkaskoðunar, að ég þurfti nauðsynlega að tylla mér aðeins og sá ekki annað færi yil þess en skellinöðru sem lagt hafði verið fyrir utan. Í þann mund sem botn minn snerti sæti skellinöðrunnar, var engu líkara en einhverskonar hryðjuverkaárás hefði átt sér stað, Feikilegt sírenuvæl, sem ég áttaði mig fljótlega á, að kom frá skellinöðrunni, brast á. Fólk í nágrenninu snéri sér við, eða leit upp og starði á mig, sem hafði bara ætlað að hvíla lúin bein, en ekki stela skellinöðru. Ekki fer ég nú  að útlista svipbrigðin sem við blöstu þarna í daufu skini götuljósanna, hvorki þeirra né mínum.

Enginn smá dagur og ekki stefndi í síðri dag daginn eftir, en þá skyldi lagt snemma af stað. 



Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...