![]() |
"Göngum yfir brúna" - milli lífs og dauða |
Ég vissi eiginlega ekki hvernig ég færi að því að tækla þessa göngu, treysti því ekki fullkomlega sem sagt var á skipulaginu, að um væri að ræða "þægilega" göngu, enda, eins og allir vita þá er það sem Everestfara finnst þægilegt, ekki endilega þægilegt samkvæmt mínum málskilningi. (Síðari rannsókn mín leiddi til þeirra upplýsinga að þessi ganga væri flokkuð sem "intemediate" eða miðlungserfið).
Svo var það þetta með sundið. Ekki var annað að skilja, en að fólk yrði að klæðast viðeigandi fatnaði innan fata þar sem ekki var getið um að fataskiptaklefar væru þarna við fossinn. Allavega ákvað ég að fara ekki í þessa göngu í mörgum lögum af fötum, nóg yrði nú samt. Þar með ákvað ég einnig, að ekki myndi ég stinga mér í silfurtæra tjörnina fyrir neðan fossinn. Það er alltaf gott þegar maður kemst að niðurstöðu um málin.
![]() |
Gengið og gengið |
Þar sem reyndin varð sú, eins og ég upplifði hana, að þarna var um talsverð lengri leið en Guðni hafði gefið upp, skoðaði ég málið þegar heim var komið. Þetta fann ég á vefnum "Lonely planet"
This pleasant spot within a protected park consists of a ranchón (farm-style restaurant) serving pez gato (catfish) from the on-site fish farm. Take the Huellas de la História trail (3.6 km) to the refreshing Javira Waterfall. With a stop for lunch in the ranchón (thatched-roof restaurant) it can make an excellent day trip.
![]() |
Vespuþyrping á klettavegg |
Sannarlega er einnig spurning um það hvort ég er hér að fara frjálslega með sannleikann. Ég hef nefnilega ekkert fast í hendi varðandi þessa vegalengd. Þar með verður að taka þessa umfjöllun mína með hæfilegum fyrirvara, eins og nærri má geta.
Eins og fram hefur komið, lá leiðin, á fyrri hluta þessa dags inn í Parque el Cubano (Cubano garðinn), sem er stutt frá Trinidad. Rútan flutti okkur að upphafsstað göngunnar þar sem okkar beið einhverskonar "kraftdrykkur" Síðan hófst gangan á skemmtilegan hátt með því hópurinn þurfti að ganga yfir hengibrú.
![]() |
Temaðurinn og kona hans |
![]() |
Fossinn. leðurblökuhellirinn og tjörnin |
Þarna var ég nú bara farinn að sætta mig við hlutina eins og þeir voru og þar kom að við komum að fremur stórum kofa með stráþaki þarna í óbyggðunum. Þar býr maður sem sagður er lifa á því að gefa göngufólki te. Þetta te mun eiga að veita fólki kraft til að ljúka göngunni að Javira fossinum þar sem tjörnin er. Ég varð ekki var við þennan kraft svo sem, enda varla við því að búast að einn tebolli valdi einhverri dramatískri breytingu á lífsneistanum.
Auðvitað komum við loks að fossinum, þar sem einhver úr hópnum skelltu sér til sunds og kíktu á leðurblökurnar, sem þeir einir fengu að sjá sem í tjörnina fóru.
Eftir nokkrar myndir ákváðum við þrjú að halda til baka og segir ekki af þeirri göngu, sem bendir til þess að ekki hafi hún farið sérlega ílla í okkur.
![]() |
Þær tvæ, fD og fR í karabíska hafinu. |
Ég var stoltur af sjálfum mér eftir gönguna og þar með ánægður með að hafa sigrast þarna á sjálfum mér, eina ferðina enn. Þar fyrir utan þakklátur fyrir að hafa fengið að leggja þetta á mig.
Það beið okkar matur í ríkisstað þegar við komum til baka, en þar, eins og víðast annarsstaðar í ferðinni, var matarlystin afar slök. Reyndar var hún það allan tímann, hvernig sem það verður nú útskýrt.
Síðdeginu eyddum við á Playa Ancón, sem mun eiga að kallast Playa Trinidad í framtíðinni. Þetta var okkar tækifæri til að geta sagst hafa unað okkur á sólarströnd í karabíska hafinu. Ekki slæmt. Ströndin þessi var auðvitað aldeilis ágæt, enda í karabíska hafinu og nú getum við sagt "been there, done that".
Strandferðin hefði átt að nýtast til að safna kröftum fyrir heilgrillaða grísinn (sem varð ekki heilgrillaður vegna þess að það fannst ekki grís að réttri stærð) um kvöldið, en dugði samt ekki til að efna í annað eins kvöld og á La Rosa.
Auðvitað mættum við á staðinn, og borðuðum indælis grísinn, en eitthvað vantaði upp á að tankurinn dygði til frekari afreka þennan daginn. Það sama var hreint ekki að segja um talsvert marga aðra ferðafélaga og mér er ekki kunnugt um allt sem þarna fór fram, sem frétti af einhverju síðar.
Það fór svo að rúmið góða á La Rosa tók mér fagnandi tiltölulega snemma, þetta síðasta kvöld í Casilda.