Sýnir færslur með efnisorðinu henging. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu henging. Sýna allar færslur

21 maí, 2017

Næstum búinn að hengja frúna

Það kemur í minn hlut að aka bílaleigubílum í útlöndum. Það er einhverskonar  kaleikur sem mér er ætlað að neyta af. Það gerir sig enginn annar líklegan til að taka þann kaleik af mér.
Það get ég sagt með góðri samvisku, að ekki líkar mér bragðið af því sem þessi kaleikur geymir; á allt eins von á því að það geti orðið mér að aldurtila áður en minnst varir.
Það eru ekki ýkja mörg ár síðan ég tók fyrst bílaleigubíl á erlendri grund. Sú ákvörðun hafði í för með sér talsverða angist í aðdragandanum. Tilhugsunin um að aka ókunnum bíl á Autobahn í Þýskalandi, á áður óþekktum hraða, eða að rata eftir GPS tæki um iðandi bílmergð stórborga, kallaði fram heilmikla ónotatilfinningu.
Í fyrsta sinn á Autobahn fór ég fljótlega að laumast yfir hundraðið, en fD tók því fjarri að við færum að reyna að halda í við umferðina allt í kringum okkur. Ég sá hinsvegar fram á, að íslenskur sveitavegaakstursmáti myndi ekki leiða til neins nema stórlyss og tók því þátt í því sem á umræddum slóðum telst vera eðlilegur aksturshraði. Fyrr en varði var ég farinn að færa mig milli akreina, en þar sem eru t.d. þrjár akreinar, telst sú sem er lengst til hægri vera sú hægasta, aðallega ætluð vörubílum eða örvasa gamalmennum. Sú í miðjunni virtist mér henta þeim sem voru svona á milungsróli, eða 120-130 km. hraða á klukkustund. Akreinin sem er lengst til vinstri er fyrir þá sem eru ekki til í að láta einhvern standa í vegi fyrir sér og þar er hraðinn léttilega um 150-160.
Í sem stystu máli er ég nú kominn á það stig í akstri á hraðbrautum, að ég er oftast lengst til vinstri, með fD sallarólega við hlið mér. Hún gerir allavega ekki athugasemdir við aktursmátann. Ég túlka það svo að hún sé fyllilega sátt, enda ekki svo sjaldgæft þegar við ökum um íslenska vegi að hún hvetji til framúraksturst við aðskiljanlegustu aðstæður, enda ökumennirnir fyrir framan, oft í þeim flokki sem kallast "fávitar".

Þetta var inngangur að nýjustu reynslunni af akstri bílaleigubíls, þessu sinni í Drottningarinnar Kaupmannahöfn.

Ég hafði pantað minnstu gerð af bíl á sérstöku tilboði.  Þegar á staðinn kom reyndist það ekki vera alveg sá bíll sem ég hafði ímyndað mér. Ekki beinskiptur með bensinvél, heldur sjálfskiptur, "hybrid" smábíll.  Ég átti sjálfskiptan bíl í gamla daga. Það var þá. "Hybrid" bíl hafði ég aldrei ekið. Ef einhver skildi ekki vita hvernig bíll það er, þá gengur hann að hluta til fyrir bensíni og stundum fyrir rafmagni sem hann framleiðir sjálfur við ákveðnar aðstæður.
Nú, ég hafði ekkert hlakkað til borgarakstursins sem framundan var, en þessir óvæntu þættir urðu ekki til að lækka streitustigið, þvert á móti.  Það sem síðan bættist við var, að GPS tæki Kvisthyltinga hafði gleymst heima og því var ekki um annað að ræða en taka slíkt á leigu (fyrir dágóðan pening). Þar bættist enn í kvíðapokann, þannig að þörf fyrir áfallahjálp var á næsta leiti. Allt slíkt fór fram innra með mér, því ekki vildi ég auka á angist fD yfir því að þurfa að sitja í bíl með mér í borgarakstri í útlöndum.   Svipbrigði mín og látbragð gáfu þar með ekki annað til kynna en allt væri þetta hið besta mál.
Einbeitingin við aksturinn frá Kastrup á áfangastað var slík, að ekkert kom upp á og ég varð smám saman öruggari undir stýri þessa jariss.
Daginn eftir var ég orðinn enn öruggari með þetta allt saman: vissi t.d. að maður verður ekki var við neitt þegar bílnum er startað, það gerir rafmagnið. Ég vissi orðið nokkurn veginn hvernig GPS tækið virkaði. Allt, sem sagt í góðu,
Við héldum af stað frá hótelinu á vit ævintýranna með tækið stillt. Allt klárt. Okkur var leiðbeint gegnum hringtorg og framundan beinn og breiður vegur, sem ég hafði meira að segja ekið um áður. Ég jók hraðann út úr hringtoginu, steig á kúplinguna til að skipta í næsta gír, svona eins og maður gerir.
Lesandinn getur gert sér það í hugarlund hvað gerist þegar maður stígur fast á bremsuna með vinstri fæti í bíl á 60 km. hraða.  Jarisinn nam staðar á punktinum. Í sekúndubrot skildi ég ekkert hvað hafði gerst. Ég heyrði korrhljóð úr aftursætinu, en þar hafði fD komið sér þægilega fyrir, með spennt öryggibelti og "alles".  Yngsta syninum hafði verið eftirlátið framsætið þar sem hann skyldi vera öldruðum föður sínum til halds og trausts, enda heimamaður.
Í kjölfar korrsins var þögn litla stund.
Svo hófst tiltekin tjáning, sem ekki er ástæða til að greina frá hér í smáatriðum.
Þarna vildi svo heppilega til að það var enginn bíll á eftir okkur, svo ekkert varð slysið, en vissulega var þetta atvik áminning um að aldrei skyldi maður verða of öruggur með sjálfan sig.

Það dugði þó ekki þegar til stóð að skila bílnum. Þar varð rangt metið hringtorg á Kastrup til þess að við urðum að aka langar leiðir til baka eftir hraðbrautinni til borgarinnar  áður en hægt reyndist að gera aðra tilraun, sem fór betur.

Ég er hinsvegar að verða nokkuð vel áttaður í akstri bílaleigubíl í útlöndum.

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...