Sýnir færslur með efnisorðinu mannlegt eðli. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu mannlegt eðli. Sýna allar færslur

03 febrúar, 2018

Fer hún upp?

Ekki veit ég hverskonar hugsunarháttur það er, kannski eitthvað eðlislægt og sem er hluti af því að vera manneskja, en ég er ekki alveg viss nema það hvarfli að mér að það gæti verið spennandi ef Hvítá leysti af sér klakaböndin með dálitlum látum.
Þetta er ekki beinlínis falleg hugsun, en ég skýli mér á bak við það, að við mannfólkið viljum alltaf hafa einhverja "sensasjón", einhver átök, eitthvað stórt sem setur líf fólks úr skorðum. Þannig nærast fjölmiðlar á hörmungafréttum því enga næringu fá þeir úr því sem slétt telst og fellt.
Flóð í Hvítá gæti sett og hefur sannarlega sett líf fólks úr skorðum

Vísir, 3. mars, 1930
Áin mun hafa runnið alveg yfir Bræðratungu heim að bæ og yfir alla Skálholtstungu upp að Skálholtsásum. Bærinn Reykjanes í Grímsnesi, við Brúará, var umflotinn, og varð ekki í ívo daga komist úr bænum. Bátur úr Skálbolti komst þangað í morgun. Vatnið var á miðjar síður á bestunum i hesthúsinu í Reykjanesi. Við nánari fregnum úr Tungunum er vart að búast fyrr en í fyrsta lagi í kveld, er menn geta farið á milli, sem horfur eru á

Já, við mannfólkið viljum einhverskonar uppnám, eitthvað sem kemur eilitlu róti á tilfinningar okkar, eitthvað sem snertir okkur, við viljum "sensasjón". Hvað ætli við höfum einhvern áhuga á einhverju venjulegu? Ófarir annarra eru okkur að skapi, ekki í orði, auðvitað,  Það er meira að segja svo, að allt þjóðlífið er orðið gegnsýrt af þessari þrá okkar eftir "sensasjón", allt frá athugasemdakerfum (kommentakerfum) fjölmiðla eða samfélagsmiðla til æðstu stofnana ríkisins.

Það er nefnilega orðið þannig, að það ná engin mál í umræðuna hjá okkur, nema þau feli í sér "sensasjón".  Ef persónulegur harmleikur liggur að baki, þá er áhugi okkar vakinn. Ef lögbrot eða siðferðisbrestur liggur að baki rísum við upp í heilagri vandlætingu.  Við erum nefnilega svo óskaplega "góð". Samt erum við það ekki í reynd. Við erum dálitlir hrægammar, ekki í orði, heldur innra með okkur, eða í raun.
Ég er svona líka, tel ég, þó ég voni að svo sé ekki. Ég vel og hafna, skanna yfir fyrirsagnir og ef þær vekja ekki áhuga minn, læt ég vera að lesa lengra.  Svona er þetta bara.    

Ég er í aðstöðu til að rannsaka þetta eilítið þar sem ég hef dundað mér við að skrifa þessa pistla við og við. Ég get síðan séð hve margir skoða eða lesa. Ég hef tekið eftir því, að ef ég fjalla um eitthvert ólán sem hefur hent mig, fjölgar lesendum, ef ég fjalla um skoðanir, án þess að þær feli í sér einhverjar öfgar, hlýtur umfjöllunin heldur dræmar viðtökur.  Ef ég skreyti umfjöllunina með fyrirsögn sem gæti jafnvel talist hneykslanleg, þá fjölgar lesendunum.
Hér má sjá nokkur dæmi af handahófi um fjölda þeirra sem hafa í það minnsta opnað á bloggpistla.  Þessir tveir sem fóru upp fyrir 2000 lesendur eiga sínar skýringar í allmikilli "sensasjón".

Svona gerir maður í janúar         84  Hér greini ég frá linsukaupum.
Austur verður vestur og öfugt     83 Hér pæli ég hvernig Hvítárbrúin snýr.
Ekki mjög trúlegt                        57 Hér segir frá myndatökuferð í Skálholtsása og fleira.
Árás á náttúruöflin                      75 þetta er um tilraun til að skjóta niður fellibyl.
Jón frændi                                   71 segi frá nokkuð fjarskyldum frænda frá Alberta sem við tókum á móti.
„Fokkings fávitar“                      501  um viðskipti við rútubílstjóra á brúnni
Aumingja konurnar                    5758
Til Hildar                                    2684
Svo segi ég ekki meira um það  963 um hjúkrunarheimili í Laugarási.

-------

Eins og svo oft áður, tókst mér að víkja umtalsvert frá því efni sem til stóð að fjalla um: mögulegt flóð í Hvítá.  
Ég er í sjálfu sér engu nær. Áfram lifir í mér strengurinn sem kallar á að áin "fari upp" með látum. Hann togast á við hina strengina, sem eru talsvert mildari í afstöðu sinni og leiða mig frekar inn á þau svið þar sem allt er slétt og fellt.  
Ég afgreiði þetta bara þannig, að það skiptir engu máli hverjar óskir mínar eru í þessum efnum. Þær breyta engu um það sem verður.

Smá sensasjón í lokin: 



Haförn þessi flaug rétt ofan Hvítárbrúar í gær í fylgd annars. Bráðabirgðagreining Kristins Hauks Skarphéðinssonar hjá Náttúrufræðistofnun er svona: 

Litlir kallar og litlar kellingar

Heilsugæslustöðin í Laugarási á vígsludegi 1997 (mynd: Jónas Yngvi Ásgrímsson) Ég hefði óskað þess, að fyrstu dagar nýs árs yrðu ánægjulegri...