Sýnir færslur með efnisorðinu áramót. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu áramót. Sýna allar færslur

30 desember, 2020

Í tilefni áramótasprengs.

Svona heldur nú lífið áfram, með þeirri kaflaskiptingu sem skapar umgjörð flestra mannvera í þann tíma sem þeim er úthlutað. Ég sagði við gamla vinkonu í símann í morgun, að nú væri ég kominn í sama kafla og hún, eini munurinn væri sá, að minn kafli er að byrja og hún er komin nokkrum blaðsíðum lengra. 
Merkilegt fyrirbæri þessi lífsbók okkar. Margir fá bara þunna bók með fáum köflum, en æ fleiri fá þykka og efnismikla bók. Það er víst ekkert réttlæti í því hvernig þessu er úthlutað.

Ég er bara harla þakklátur fyrir að hafa náð þessum kafla ævinnar og hlakka bara dálítið til að sjá hvað næstu blaðsíður færa mér.

Ekki meira um þessa bók.

Við fD höfum nú búið okkur heimili hér á Selfossi í 7 mánuði. Þegar við byrjuðum að búa voru heimkynnin ýmsar blokkaríbúðir, eða kjallarar hér og þar um höfuðborgarsvæðið á áttunda ártugnum. Svo fluttum við í sveitina. Þar bjuggum við í eintómum einbýlishúsum, allt þar til við komum okkur aftur fyrir í blokk. Komin aftur til upphafsins og freistum þess að sinna áhugamálunum af kostgæfni. Mitt verkefni snýr að því að safna saman heimildum um sögu Laugaráss. Það þokast áfram, en ég á enn eftir að ná almennilegum tökum á því að aga sjálfan mig. Eftir starfsævi þar sem bjalla tilkynnti mér með reglulegu millibili hvenær ég átti að fara á fætur eða standa mína pligt frammi fyrir fróðleiksþyrstu ungviði, er einhvern veginn svo afslappandi að ráða tíma sínum bara algerlega sjálfur. Það verður síðam til þess, að einhver púki á öxlinni hvíslar því stöðugt að mér, að ég hafi nægan tíma. Ekkert sérstaklega ráðagóður, þessi púki og ég mun nýta komandi ár til að pakka honum inn og koma fyrir í læstu geymsluhólfi í fataherberginu. 

Vonandi hef ég nægan tíma til að ljúka því sem ég hef sett markið á og gleðst jafnframt yfir því að hafa orðið mér úti  um áhugamál á eftirlaunaaldrinum, sem getur haldið mér tiltölulega ferskum (eða þannig) í einhvern slatta af árum til viðbótar. 


Árið 2020 hefur nú verið meira árið, en ég kvarta ekki. Ekkert okkar Kvisthyltinga hefur orðið fyrir barðinu á veiruskrattanum, utan þess auðvitað, að á okkur hafa verið settar ýmsar óþægilegar eða óskemmtilegar hömlur, svona rétt eins og aðrir hafa þurft að kljást við.  

Þetta ár megum við ekki afgreiða sem einhverja óþægilega minningu og halda síðan bara áfram eins og þetta gekk fyrir sig árið 2007 eða 2019. Við eigum að hafa lært ýmislegt nýtt, eins og til dæmis það, að lífið er ekki bara núna. Það er til eitthvað sem heitir saga. Hana nýtum við til að læra af. Svo er líka til framtíð, sem er algerlega í okkar höndum. Framtíð, sem vísindamenn segja okkur að sé ótrygg. Framtíð, sem er í okkar höndum, en ekki bara ykkar. 

Ekki neita ég því, að það er nokkur beygur í mér gagnvart komandi ári. Ég fæ það á tilfinninguna að stór hluti þessarar þjóðar og vel stætt fólk um allan heim, séu komin í spreng. Mér finnst að margir bíði þess að geta slett ærlega úr klaufunum á kostnað okkar allra, jafnskjótt og bólusetningin gegn veirunni er afstaðin.  
Auðvitað vona ég að við höfum dregið lærdóm af þessu ári. Vona að framundan séu rólegri tímar með minni neyslu og meiri skilningi á því, að við berum öll ábyrgð, ekki bara þið hin. 

Þá leyfi ég mér að þakka ykkur, sem hafið rennt í gegnum þessa pistla mína á árinu 2020, fyrir samfylgdina og óska ykkur þess að fá að takast á við árið 2021 af yfirvegun þess sem veit betur, eftir stórviðrið sem þá verður gengið yfir. 


31 desember, 2019

...og aldrei það kemur til baka

Er lífið eins og brún lagterta?
Einhvernveginn tekst tímanum sem liðinn er, alltað að koma til baka í einhverju formi. Það flýr í rauninni enginn fortíð sína, því hún býr innra með honum. Þarna inni býr þekking og reynsla, bæði um það sem fortíðin gaf og tók. Hún gaf okkur lífið sem leiddi okkur á þann stað sem við erum nú á þessu gamlárskvöldi. Hún tók frá okkur fjölmargt samferðaferðafólk og einnig ýmislegt sem gekk úr sér eftir því sem nýtt og þægilegra kom í staðinn. Hún gaf okkur tækifærin sem við gripum og nýttum okkur og tók frá okkur tækifærin sem við nýttum ekki.  Hún gaf okkur flestum börn og barnabörn, sem við getum glaðst yfir og verið stolt af og tók frá okkur tækifærin til að njóta þess að fylgjast með afkomendum okkar blómstra.
Það er nefnilega þannig, í núinu sem við lifum, að við hugsum ekki nægilega um það, að á morgun verður þetta nú orðið að fortíð okkar; fortíð sem við mögulega lærum síðan ef - eða ekki.

Það ætti að vera tími og tækifæri um áramót til að velta þessu samhengi öllu fyrir sér.

Áður en ég fer lengra með þessar vangaveltur mínar, kýs ég að láta bara af þeim og fara að hugsa um núið smá stund og taka kannski upp þráðinn aftur á morgun.  Ég þykist nokkuð viss um það, að við getum öll glaðst með sjálfum okkur, yfir því sem við höfum vel gert á lífsgöngunni, og jafn viss er ég um, að við sjáum eftir ýmsu því úr fortíðinni sem við gerðum eða gerðum ekki. Þannig er þetta nú bara.

Þar með þakka ég ykkur, sem hafið látið svo lítið að kíkja á þetta blogg mitt, endrum og sinnum, fyrir heimsóknirnar. Ég óska þess, okkur öllum til handa að árið 2020 verði ár endurskoðunar og ár lærdóms af því sem liðið er og uppbyggingar í kjölfarið.

Gleðilegt ár.

29 desember, 2016

"Ein frá Sólveigarstöðum!"

Flugeldur sem KvisturArt hyggst setja á loft á áramótum,
á miðnætti og nokkrir furðu lostnir furðufuglar.
Þá fóru allir út á miðnætti og fylgdust með flugeldaskotum annarra íbúa í þorpinu. Í Kvistholti var, heldur minna um stóra flugelda en hjá þeim sem betur voru stæðir. Það var reynt að stíla frekar upp á magnið en stærðina, enda í rauninni það mikilvægast sem næst manni var; það sem maður fékk sjálf(ur) að kveikja í.
Elstu pjakkarnir tveir voru farnir að sýna áhuga á að skjóta rakettum og þá komu ílurnar litlu í góðar þarfir, afar margar og ódýrar.

Hjá ýmsum öðrum var þetta allt stórfenglegra og þegar einhver skaut var hrópað, svo enginn missti nú af:
"Þarna kemur ein frá...." (svo var bærinn nefndur). Allir snéru sér þangarð. "VÁÁÁÁ þessi var flott!" "Þarna kemur ein frá...." (bærinn aftur nefndur). Allir snéru sér þangað. "Þessi var ekkert sérstök". 
Og svona gekk þetta. Raketturnar flugu á loft hver af annarri og ávallt var tekið eftir hvaðan þær komu. Það var hægt að sjá hver væri stórtækastur, sem var auðvitað ákveðið merki um velgegngni á árinu. Í Auðsholti mun hafa verið einhver sjómaður, sem skaut alltaf upp skiparakettu.

KvisturArt lýkur flugeldasýningu sinni
með kvenskörungum.
Svo liðu árin. Fjárhagurinn í Kvistholti fór heldur batnandi og þar með varð mögulegt að veita meira fé til flugeldakaupa. Börnin stækkuðu líka og jafnframt því minnkaði áhugi þeirra "fíriverki". Það sem einnig gerðist var að að trén sem Laugarásbúar höfðu plantað af dugnaði fyrir áratugum, stækkuðu og þar með varð erfiðara að greina hvaðan hvaða flugeldur, eða bomba, kom. Þetta gat jafnvel leitt til rökræðna, þegar fólkið var ósammála um uppruna flauganna.

Nú eru börnin auðvitað flogin úr hreiðrinu, en eftir situr einhver lítil neisti frá fyrri tíð og af þeim sökum, en þó aðallega til að styjða björgunarstarf í landinu, er alltaf keypt eitthvert fíriverk í Kvistholti. Einnig núna, en þessu sinni í nafni nýja gæluverkefnisins sem ber heitið KvisturArt.

Það má sem sagt segja, að Laugarásbúum og þeim sem eiga leið um Laugarás, hvort sem það er vegna þess að þeir hafa beinlínis komið af þessu tilefni eða af öðrum ástæðum, er boðið að horfa á þessa flugeldssýningu og njóta.  Auk þess sem þessum flugeldi verður skotið á loft, af fD sjálfri, verður lítilsháttar annað fíriverk beint í kjölfarið.

Svo tekur við nýtt ár með nýjum áskorunum.

23 janúar, 2016

Janúar blús - þreyjum þorrann

Ætli mér sé ekki óhætt að fullyrða, að ástæðu þagnar minnar á þessum síðum undanfarið megi rekja til árstímans. Fyrstu tveir mánuðirnir hafa aldrei talist með þeim vinsælustu í huga mér og mér liggur við að segja að séu þeir nánast hundleiðinlegir, í það minnsta svona í stórum dráttum. Ég veit að þetta er ekki fallega sagt og sjálfsagt ekki á bætandi mögulegan miðsvetrarblúsinn í hugum ykkar sem þetta lesið.

Grámi þessa dags í síðari hluta janúarmánaðar kallar ekki fram neinn sæluhroll. Það er kalsarigning og hvasst í nágrenni Laugaráss.  Landsliðið, sem oft hefur nú lýst um þennan dimmasta tíma ársins, er úr leik og maður verður að halda með Degi eða Guðmundi. Þorrablót Tungnamanna var í gærkvöld, en þangað fór ég ekki. Laugarásbúar halda sig heima við og það er hálka á vel ruddum gangstígum. Framundan eru síðustu dagar janúarmánaðar og þá tekur febrúar við, og svipað ástand.

Ég er nú bara að grínast með þetta allt saman, verður það ekki að teljast líklegt? Í allri þeirri sút sem við kunnum að upplifa á þessum árstíma, þurfum við ekki annað en beina athyglinni að því hve heppin við erum í þessu landi allsnægtanna og undrafegurðarinnar.
Líf flestra okkar er harla öruggt og við njótum þess, að lúta forystu á stjórnmálasviðinu sem slær hvert heimsmetið á fætur öðru á hinum aðskiljanlegustu sviðum. Við höfum í rauninni óbilandi trú á þeirri braut sem leiðtogar okkar ryðja fyrir okkur. Við erum þess fullviss að forysta þeirra muni færa okkur alla þá brauðmola sem við eigum skilda. Við megum ekki vera vanþakklát því óendanleg viska landsforeldranna, þó stundum skorti okkur vit eða sýn til að skilja hvert þeir eru að leiða okkur, mun á endanum leiða okkur inn í fyrirmyndarríkið þar sem hver fær það sem hann á skilið, hvorki meira né minna.

Sannarlega er ástæða til að gleðjast, til að fagna ljósinu, ekki aðeins ljósi eldhnattarins sem dag frá degi hækkar á himinhvolfinu, heldur ekki síður viskunni, réttsýninni, mannskilningnum, kossunum og faðmlögunum sem leiðtogar okkar eru svo ósinkir á og sem veita okkur innblástur til afreka sem við höfum ekki getað ímyndað okkur að væru á okkar færi.

Ég er viss um að ég gæti orðið öflugur áróðursmeistari  tiltekinna stjórnvalda austast í Asíu, ef dæma má af því sem ég hef lamið inn hér fyrir ofan. Mér virðist reynst auðvelt að breyta svörtu í hvítt og öfugt, í samræmi við það hvernig vindar blása hverju sinni. Slíka andagift get ég fyrst og fremst þakkað undursamlegri leiðsögn minna ástkæru leiðtoga.

Þessi skrif eru innblásin af starfi íslenskra stjórnvalda, segja jafn mikið og jafn lítið. Þau eru af ásettu ráði eins og þau eru, hvork of né van. Allt eins og því er ætlað að vera.

Megi fínu jólapeysurnar okkar gleðja ykkur, kalla fram
lítil bros, auka bjartsýni og efla trú á íslenska þjóð.





30 desember, 2015

Þorpið í skóginum á nýju ári: Ofar og hærra

Það sem hér fylgir hentar örugglega ekki öllum jafn vel, mér hentar það ágætlega. Ég freista þess að það beina spjótum mínum ekkert sértaklega  mikið að neinum, vonandi ekkert, en kannski eitthvað. Ég veit það ekki fyrr en ég verð kominn lengra.
Árið sem er að líða hefur falið í sér merki um að jákvæðra breytinga sé að vænta í Laugarási.

Ferðaþjónusta

Ég hef þegar fjallað um eitt slíkt merki þess sem framundan er hér. Síðan það var ritað hef ég fengið frekari staðfestingu á að þarna er alvara á ferðinni. Áætlanir gera ráð fyrir að haustið 2017 taki 72 herbergja lúxushótel til starfa þar sem sláturhúsið stendur nú, á einstaklega fögrum stað, þar sem Hvítá, Hvítárbrúin og Vörðufell sameinast um að móta sérlega fagurt umhverfi. Þetta hótel á að rísa þar sem ég var búinn að leggja til að við uppsveitamenn myndum sameinast um að byggja veglegt hjúkrunarheimili nánast á hlaðinu við heilsugæslustöðina.

"Þar er ekki neitt".

Ég hef fjallað nokkuð ítarlega um þá skoðun mína, að betri staður fyrir aldraða í uppsveituim á ævikvöldi, sé vandfundinn. Það gerði ég í þessum pistlum:
Einskis manns eða allra
Sólsetur í uppsveitum (1)
Sólsetur í uppsveitum (2)
Sólsetur í uppsveitum (3)
Ég stend að sjálfsögðu við allt sem þar kemur fram og er enn þeirrar skoðunar, að Laugarás sé afar hentugur staður fyrir hjúkrunarheimili. Einnig fyrir dvalarheimili fyrir aldraða eða þjónustuíbúðir fyrir aldraða.  Ég veit það hinsvegar, eftir að hafa heyrt það í umhverfi mínu, að svona hugmyndir falla í afar grýttan jarðveg í uppsveitum. Einu rökin sem ég hef heyrt gegn þessum skoðunum mínum hljóða upp á, að í Laugarási "sé ekki neitt", sem ég get auðvitað ekki tekið sem sterk, vel ígrunduð rök. Ég nenni hinsvegar ekki að fara að fjargviðrast frekar um þetta mál, enda veit ég að ástæður fólks fyrir andstöðu við uppbyggingu af þessu tagi eða öðru í Laugarási, eru aðrar og, mér liggur við að segja "heimóttarlegri", en það vil ég ekki segja.
Vonbrigði mín í þessu máli snúa auðvitað fyrst og fremst að því, að sveitastjórnum á svæðinu skuli ekki takast að sjá mikilvægi samstöðunnar í þessu máli.
Mér sýnist að Selfoss verði valinn sem staður fyrir hjúkrunarheimili til að þjóna öldruðum í uppsveitunum.

Fólksfjölgun

Ég neita því ekki, að ég var farinn að gerast nokkuð svartsýnn á framtíð Laugaráss á tímabili. Íbúarnir gerðu ekkert nema eldast og hverfa lengra inn í skóginn. Það var svo komið að framundan blasti við að skólabílaakstur myndi leggjast af.
Svo frétti ég af því, að ungt par með barn væru flutt á staðinn. Nokkru síðar bættist annað par við, með tvö börn. Nú veit ég af tveim  pörum til viðbótar  sem koma eftir áramótin eða á fyrri hluta árs með hóp af börnum. Fregnir af þessu tagi eru ótrúlega jákvæðar og bætast við fréttirnar af hótelbyggingunni.

Einkaframtak

Ég hef aldrei verið einhver sérstakur talsmaður einkaframtaks á þeim sviðum sem lúta að grunnþjónustu við íbúa þessa lands. Ég fagna hinsvegar einkaframtaki þar sem það á við og samgleðst þeim sem vel gengur á þeim vettvangi.  Í þeirri stöðu sem Laugarás er í, í uppsveitasamfélaginu, verður það einkaframtakið sem eitt getur framkallað breytingar. Það er ekki mengað af hrepparíg, þarf ekki að hafa neitt í huga við val á stað fyrir starfsemi sína annað en, að þar muni það mögulega fá viðunandi arð af starfseminni.  Sú starfsemi sem þannig verður til, elur síðan af sér aðra starfsemi, og skýtur þannig stoðum undir frekari þróun byggðarinnar.


Það var síðast í gær að ég fregnaði að á nýju ári verði stigið annað mikið skref sem mun efla byggðina í Laugarási, en ég tel mig ekki geta farið nánar út í það á þessu stigi.

Með því að atvinnutækifærum fjölgar í Laugarási, og þar með íbúunum blasa við fleiri jákvæðar breytingar eins og hver maður getur ímyndað sér. 


--------------------------------------------------



Ég leyfi mér að halda því fram að árið 2016 verði árið þegar ný bylgja uppbyggingar í Laugarási hefst. Jafnvel gæti hún orðið stærri en sú sem var á síðari hluta sjöunda áratugs síðustu aldar.

Það er nóg af fallegum stöðum fyrir aldraða í Laugarási þó svo sláturhúslóðin verði nýtt fyrir hótel og það má alltaf vona, að viðhorfsbreyting  eigi sér stað.

Loks þakka ég lesendum þessara pistla minna kærlega fyrir lesturinn á árinu og óska þeim alls hins besta á nýju ári.


Sæludagar í sandkassanum (12 - LOK)

Framhald af þessu Þannig er það víst alltaf, að það sem byrjar á annað borð, því lýkur á endanum. Þannig var það einnig með þessa ferð til D...