Sýnir færslur með efnisorðinu Borgarleikhúsið. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu Borgarleikhúsið. Sýna allar færslur

13 febrúar, 2017

Hvað er list, eiginlega?

Þessi mynd er list. Hún ber heitið:
"Un pissoir dans une galerie d'art"
Fyrirsögnin er spurning sem mannfólkið hefur spurt sig gegnum aldirnar. Áður var skilgreiningin örugglega talsvert þrengri en nú og ég held að það sé vegna þess að það er enginn lengur sem telur sig þess umkominn að ákvarða hvar skilin liggja milli þess sam kalla má list og þess sem er bara ruglað flipp, eða eitthvað þaðan af vitlausara.
Ég held að nú sé allt list, ef sá sem setur það frá sér segir að það sé list.

Tilefni þessa pistils míns er helgarferð okkar fD í höfuðborgina. Ég mun mögulega síðar gera grein fyrir öðru í því sambandi, en núna læt ég duga þann þátt ferðarinnar sem snéri að listneyslu okkar í ferðinni, sem sem má segja að hafi verið talsverð.
Það sem ég segi hér á eftir, ber enganveginn að túlka sem árás á þá listamenn sem voru svo óheppnir að fá mig í heimsókn,  Þetta er almennara en svo. Lýsingar mínar á verkunum sem ég fékk að upplifa munu væntanlega eiga ekki síður við margt annað sem, hlotnast hefur sá heiður að skoðast sem list, í einhverjum kimum.
Ykkur, lesendur góðir, er velkomið að taka skoðunum mínum eins og ykkur finnst réttast, en hafið það í huga, að ég er á sjötugsaldri og þessvegna: "Hvað veit ég svo sem?"

Upplifun 1: Við höfðum aldrei komið í Hafnarhúsið, sem oft ber á góma þegar listir eru annarsvegar. Þetta eru feikilega mikil húsakynni. Á neðri hæðinn er risastór og hrár sýningarsalur (það virðist vera inni í dag, hrátt og dimmt). Þar sem við gengum inn í þennan sal, tók fyrst á móti okkur saltbingur (virtist vera salt). Honum hafði verið sturtað þannig að hann lá utan í dyraumbúnaðinum og ég velti fyrst fyrir mér hvernig dyrakarmurinn muni fara út úr snertingunni við þetta efni.   Nokkru innar, á miðju gólfi, var annar saltbingur og á hann var varpað hreyfimynd ofan úr loftinu. en þar hafði verið komið fyrir skjávarpa innan í hluta úr loftræstistokk.   Flest verkin á sýningunn fólust síðan í samskonar aðferð: hreyfimynd sem sýndi nærmyndir af líkamshlutum (væntanlega listamannsins) þar sem hún/hann var í ræktinni. Aldeilis var þetta ógurlega merkilegt, ef þannig má að orði komast, eða hitt þó heldur. Mér fannst þetta mikil sóun á stóru rými.
Eftir þetta, ég eins og ávallt, til í að gefa hlutum séns, öfugt við samferðamanninn, héldum við upp á næstu hæð. Hafi neðri hæðin kveikt efasemdir um að list væri að ræða, þá slokknaði þarna uppi öll von um að heimsóknin í þetta musteri listarinnar yrði til þess að auðga andann á nokkurn hátt. Uppi komum við inn í þrjá myrkvaða sali þar sem sjónvarpstækjum hafði verið komið fyrir hér og þar og eitthvert ótrúlegt flipp átti sér stað á hverjum skjánum á fætur öðrum.  Ég sagði fátt, var orða vant.

Þegar sýningarsalirnir höfðu verið afgreiddir stóð eiginlega bara eitt eftir: "En hvað með 1600 kallinn sem ég borgaði við innganginn?" 

Mér leið dálítið eins og karlinum í einu vídeoverkinu, sem hafði verið komið fyrir aftan í sendibíl með grímu fyrir andlitinu þannig að hann gat ekkert séð eiginlega ekki andað. Svo var þessum sendibíl  ekið eftir hálf ófærum vegi, að því er vistist og karlinn hentist fram og til baka, hjálparlaus og við það að kafna.  Þannig var nú líðanin.

Upplifun 2: Listupplifun kvöldsins fólst í þriggja tíma setu í Borgarleikhúsinu undir verki sem gerði ekkert nema draga mann niður í þunglyndi, ef það hefði þá verið hægt.  Leikararnir skiluðu sínu með miklum sóma, en að öðru leyti....... Jæja, ætli ég þegi ekki bara um það, enda hefur traustið á sjálfum mér, þegar list er annars vegar, beðið hnekki eftir þessa menningarreisu.

Litlir kallar og litlar kellingar

Heilsugæslustöðin í Laugarási á vígsludegi 1997 (mynd: Jónas Yngvi Ásgrímsson) Ég hefði óskað þess, að fyrstu dagar nýs árs yrðu ánægjulegri...