Sýnir færslur með efnisorðinu Operation GOLDCROSS. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu Operation GOLDCROSS. Sýna allar færslur

16 júlí, 2018

Sagan um "Aðgerðina GULLKROSS"

Til þess að ekki komi til mögulegra málaferla á grundvelli laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga nr. 90/2018 eru  perósugreinanlegar upplýsingar ekki hafðar með eða afmáðar í því sem hér verður fram borið. Ég hugðist leita að glufu í þessum lögum, sem gerði mér í það minnsta kleift að sýna andlit fólks, án þess að þurfa að leita skriflegs leyfis, en þessi lög reynast ver 29 blaðsíður af texta af 12 pt stærð. Tæp 11000 orð.  Þar með ákvað ég að betra væri að sleppa fullum nöfnum einstakra persónua í þessari umfjöllun og sóða andlit sem kunna að sjást á myndum. 


Aðgerðin GULLKROSS

Aðdragandinn

Sumarið 2013 var í heimsókn í Kvistholti, ríflega ársgömul ungmey (uR) með fjölskyldu sinni og stórKvistholtsfjölskyldan saman komin. Þetta sumar var bjartara og hlýrra en það sem við lifum nú, reyndar svo gott að við ákváðum að borða úti á palli. Dekkað borð og allar græjur, ungviðið valhoppandi um pall og garð og stökkvandi á heitapottslok.
Ári fyrr hafði uR verið tekin í kristinna manna tölu og hafði af því tilefni fengið að gjöf gullkross, harla merkilegan, Lítinn, en merkilegan.
Myndin tekin 2013. Örin bendir á krossinn
Nú bar hún þennan kross um hálsinsinn og var farin að geta gert ýmsar kúnstir, svona eins og börn á hennar aldri, m.a. gat hún orðið klifrað upp á stól, ekki síst ef á borðinu var eitthvert góðgæti. Það var einmitt það sem hún gerði þennan dag og í því hún sveiflaði sér upp á stólinn vildi ekki betur til en svo að keðjan sem hélt skírnarkrossinum slitnaði, krossinn datt á pallinn og þaðan niður um rifu ofan í myrkrið undir.

Þannig fór um sjóferð þá.
Foreldrarnir vildu nú ekkert gera úr málinu, þó vissulega væra þarna um að ræða merkilegan kross, gott ef ekki afar merkilegan.

Síðan gerðist svo sem ekkert, utan það að fD bar með reglulegu millibili fyrir mig þetta mál með krossinn. Þar sem ég er nú eins og ég er, þá einhvernveginn stöðvaðist umræðan hjá mér. Ekki það að ég drægi úr mikilvægi þess að ná krossinum upp, heldur miklu frekar annað, sem ástæða er ekki til að fjölyrða um, en hefur með að gera áhuga minn á verklegum framkvæmdum.

Það eru liðin 5 ár síðan gullkrossinn hvarf undir pallinn.

Aðgerðin sjálf.


Það þurfti að skipta um rennur á húsinu. Mannskapur fenginn í það og allt gekk það ágætlega. Þarna fannst fD vera komið upplagt tækifæri til að freista þess að ná krossinum undan pallinum. Hraustir, vanir menn, sem gerðu það sem um væri beðið, umyrðalaust. Hún færði þetta í tal og sjálfsagt þótti þessum hraustu mönnum að verða við bón hennar.

"Þið þurfið bara að losa svona 4-5 spýtur. Ég leita svo undir pallinum og Palli festir svo spýturnar aftur".

Þeir losuðu 4 spýtur þar sem minnið sagði okkur fD að gullkrossinn hefði fallið niður. Svo hurfu hinir hraustu menn á braut. Eftir vorum við fD, en hún lagðist flöt á pallinn og kíkti niður um gatið. Með klóru í hönd byrjaði hún að kraka, en komst svo að því að 4 spýtur væru ekki nóg. Sú fimmta þyrfti að fara líka. Ég taldi að ekki væri kúbein til á þessum bæ og þar með væri málið sjálfdautt. Með það fór hún niður í kjallara og birtist hróðug skömmu síðar með kúbein, sem einhverntíma hefur dagað uppi þar. "Þú hélst að þú slyppir svona auðveldlega, já?"

Ég náði 5. spýtunni léttilega upp, eins og vænta mátti, en ljóst var að það breytti litlu, Að mínu mati yrði að fara undir pallinn til að leita. Fann ágætis plastdúk og breiddi hann ofan á moldina sem þarna er undir. fór síðan ofan í gatið, en sá strax að ég myndi aldrei geti lagst á þennan dúk, til þyrfti að koma einhver heldur smærri vexti og fíngerðari.

"Á ég þá að fara þarna niður", kvað fD. Svarið lá sjóst fyrir, það var engum öðrum til að dreifa. Niður fór hún og lagðist á plastdúkinn, leitaði inn undir pallinn.

Það var vart liðin mínúta og varla einusinni tími til að taka nóg af myndum af aðgerðinni, þegar heyrðist undrunarröddu: "Hann lá bara í höndinni á mér!" Síðan sýndi hún mér þennan örsmáa gullkross, varla nema centimetra að lengd.

Hvernig gat þetta hafa gerst? Það er hulin ráðgáta. Jafnvel ég hef ekki viðunandi skýringu. Mér hefur sýnst fD vera talsvert hugsi eftir þetta og ekki laust við að ætla megi að barnatrúin (veit reyndar ekki hvernig hún var hjá henni) hafi komið í huga hennar.

Krossinn fannst, það var nú aðalatriðið og 6 ára yngismey fær að skarta honum á ný.


Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...