Sýnir færslur með efnisorðinu Aqua Sports. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu Aqua Sports. Sýna allar færslur

27 mars, 2018

Þá er það frá (3)

...framhald þessa og þessa.

Sundið að stiganum gekk svo sem ágætlega að mér fannst og ekkert sem ég sá fyrir sem fyrirstöðu þess að ég gæti gengið um borð bara nokkuð hnarreistur. Að auki var hafflöturinn undir skut tvíbytnunnar í hvarfi frá öllum mögulegum áhorfendum, nema auðvitað sjókattarstjóranum og bananabátsfarþegunum þrem.
Ég náði til stigans, ætlaði að svifta mér upp úr, en uppgötvaði þá að ég hefði átt að skella mér í ræktina í vetur og styrkja upphandleggsvöðvana og jafnvel minnka  einnig lítillega þá þyngd sem vöðvunum var þarna ætlað að koma úr sjó.
Ég gat með öðrum orðum, ekki komið fæti upp í stigann, en neðsta trappa hans náði varla niður í hafflötinn.
Ég reyndi....
og ég reyndi...
og ég reyndi aftur. 
Ég komst að þvi, að ég virtist hafa grennst við átökin í kringum bananabátinn og sjóköttinn því ég varð var við að óþægilega mikið að þeim hluta líkamans, sem ekki hafði séð sól í ferðinni birtist áhorfendunum fjórum, skjannahvítur. Við svo búið mátti ekki standa og við tók hlé frá tilraunum til uppgöngu sem nýtt var til að reyna að bjarga því sem bjargað varð af virðingu minni að þessu leyti. 
Síðan reyndi ég aftur við stigann....
og aftur.
Handleggirnir titruðu, en hlýddu ekki. 
Hnjánum tókst ekki að ná festu á neðstu tröppunni.
Hversvegna í and......um gat sjókattarstjórinn ekki sett mig af við stefni bátsins, þar sem ég hefði getað stigið um borð í tvíbytnuna, tiltölulega vel á mig kominn?  Þessi spurning kom reyndar ekki í hugann fyrr en ég fór að fara yfir málið eftir á.
Þarna svamlaði ég sem sagt við stigann upp í tvíbytnuna án þess að komast lönd né strönd.
Hvar var áhöfn tvíbytnunnar?  Hví kom enginn mér til aðstoðar?

Björgunin

Frásögn fD eftir þessa atburði bendir til þess að talsvert löngu eftir að ég var þarna farinn að basla við að komast upp í stigann, hafi heyrst í talstöð tvíbytnunnar eitthvert kall sem varð til þess að skipstjórinn að stýrimaðurinn þustu aftur í skut og fD mun þá ekki hafa orðið um sel.
Loksins birtist mér efst í stiganum, stýrimaður tvíbytnunnar, fikraði sig niður stigann og rétti mér hönd, sem ég greip í og þar með tókst mér að troða vinstra hnénu upp í neðstu tröppuna.
Þar með var mér borgið.
Upp stigann lagði ég leið mína, rólega, titrandi fótum, þrútinn af adrenalínskoti, léttur í lund svona miðað við allar aðstæður, eins tilbúinn og ég gat verið til að mæta augnaráði hinna farþeganna  á tvíbytnunni. 
Það fagnaði enginn uppgöngu minni, þessari björgun minni úr háska. Engin samkennd, bara látið eins og ég væri ekki þarna. 
Það fékk ég að vita eftir á hjá fD (nema hvað) að þarna hefði ég birst, með sundbuxurnar óþægilega neðarlega, skjálfandi og másandi.  Það kom sér sannarlega vel, sem ég sagði í upphafi, að eina vitnið að ævintýri mínu, sem yrði til frásagnar á móðurmálinu var fD. Aðra sem þarna voru mun ég aldrei þurfa að hitta aftur og sannarlega hefði ég ekki þurft að skrifa neina frásögn af upplifun minni. Það geri ég ekki síst til þess að hún verði rétt frá fyrstu hendi, því ekki dettur mér annað í hug en að  eini samlandi minn í þessari ferð muni, með viðeigandi hætti segja frá þar sem því verður við komið. Sem sagt, rétt skal vera rétt.

Ekki tel ég ástæðu til að fjölyrða um framhaldið, jú það kom í ljós að ég hafði hlotið nokkrar skrámur við átökin í stiganum, en það var varla umtalsvert.

Moralen er.....

Hvað lærði ég, þessi ævintýradraumóramaður, svo af þessu öllu saman?
Ég lærði bara hreint ekkert umfram það sem ég vissi áður, t.d. það að maður ætti ávallt að taka sér það fyrir hendur og þróa áfram, sem maður hefur hæfileika, getu, aldur  og burði til. 
Svo einfalt er það. 
Einhverntíma var sagt: "Kóngur vill sigla, en byr hlýtur að ráða".  Ég finn það eiga við mig í þessu sem ýmsu öðru, sem leiðir hugann að því, að ég á enn eftir að fara í fallhlífarflug (para-gliding). Ég er búinn að nefna það nokkrum sinnum við fD, hvort við ættum ekki að skella okkur í svoleiðis ævintýri. Ég þarf ekki að fjalla um viðbrögðin.
Hvað af verður? Byr hlýtur að ráða.

Fallhlífarflug - Para gliding

 

 

26 mars, 2018

Þá er það frá (2)

Örin bendir á höfund. Mynd fD
.... framhald af þessu

Nei, þetta var ekki að gerast!
En auðvitað var það að gerast.

Öll könnumst við miðflóttaaflið, sem felst í því að sá hlutur sem er á ferð í einhverja átt, leitast við að halda áfram í þá átt, jafnvel þó svo annar kraftur komi til sem reynir að breyta stefnu hans. Það þekkja, til dæmis hjólreiðamenn, að til þess að beygja þarf að halla sér inn í beygjuna þannig að krafturinn í þá átt verði meiri sem sá sem vill draga mann áfram í beina línu. En nóg um eðlisfræði.

Sjókattarstjórinn, sem sagt, ákvað að taka krappa beygju á fullri ferð, líklegast í þeim tilgangi að gera túrinn meira spennandi fyrir okkur, sem á bananabátnum sátum.

VELTAN

Ég hallaði mér ekki inn í beygjuna (hafði öðrum hnöppum að hneppa, sem kölluðu á fulla einbeitingu). Þar með sat ég uppréttur í þann mund er bananabáturinn kipptist inn í beygjuna í kjölfar sjókattarins. Ekki veit ég hvort meðreiðarfólk mitt hafði vit á að taka á móti beygjunni eins og full þörf var á, en það skipti ekki máli.
Banabáturinn valt.
Tíminn hægði á sér.
Ég fór á kaf.
Þegar maður er við það að falla fram af kletti, reynir maður að ná handfestu í einhverju. Ég hafði auðvitað handfestu. Henni sleppti ég ekki fyrr en mér varð ljós fáránleiki þess að hanga í bananabát á fullri ferð á hvolfi, neðansjávar.

Í SJÓNUM

Auðvitað var engin hætta á ferð, en þarna vorum við öll fjögur komin í sjóinn, Sjókattarmaðurinn brunaði til baka, sagði "sorrí" og velti bananabátnum á réttan kjöl og benti okkur á að klífa um borð.
Klífa um borð, já.
Það var einmitt það.
Þarna fyrir framan mig gnæfði bananabáturinn. Mér varð það strax ljóst, að upp í hann kæmist ég aldrei. Reyndi samt og var næstum búinn að velta honum aftur. Sjókattarstjórinn sagði okkur að klifra upp í bátinn beggja megin frá. Allt í lagi, breski strákurinn flaug auðvitað upp sín megin, en ég var engu nær, jafnvel þó svo pjakkurinn reyndi að toga mig upp. Ég held að fyrr hefði ég togað hann niður mín megin.
Örin bendir á höfund. Mynd fD

Að þessu fullreyndu og ég orðinn nokkuð móður, sagði sjókattarstjórinn mér að skella mér upp á pallinn sem var aftast á sjókettinum. Þarna voru allir samferðamenn mínir á bananabátnum komnir um borð í hann. Ég einn eftir í sjónum og gerði atlögur að því að komast um borð í sjóköttinn, en þær báru harla lítinn árangur. Við eina tilraunina munaði minnstu að sjókötturinn ylti og stjórinn hrópaði upp yfir sig: "No, no, no!".

Á SJÓKETTINUM

Örin bendir á stigann sem um er rætt.
(mynd af síðu Aqua Sports)
Það var svo ekki fyrr en mér var nánast alveg þrotinn kraftur, að mér tókst að smeygja vinstra hné upp á pallinn aftast á kettinum. Titrandi áði ég þar litla stund, brölti síðan upp og tókst einhvern veginn að setjast fyrir aftan sjókattarstjórann, sem tók stefnuna á tvíbytnuna sem þarna var í nokkurri fjarlægð (sem betur fer).
Um það bil 10 metrum fyrir aftan tvíbytnuna spurði stjórinn hvort ég kynni að synda, hverju ég játti, auðvitað. Þá spurði hann hvort ég gæti synt að stiganum í skut tvíbytnunnar (sjá mynd), hverju ég svaraði einnig játandi og sem ég síðan gerði, eftir að hafa stungið mér með eins umtalsverðum glæsibrag og efni stóðu til af sjókettinum.

VIÐ STIGANN

Ég gerði, eðlilega, ráð fyrir því að uppganga mín úr hafinu inn á þilfar tvíbytnunnar gæti orðið mér til eins mikil sóma og hæfði persónu minni, eftir þær svaðilfarir sem að ofan er lýst.

Það varð sannarlega ekki svo.

Frá því mun ég greina í síðasta hluta, í fyllingu tímans.

FRAMHALD>>>>>>

25 mars, 2018

Þá er það frá (1)

I
Þetta er bananabátur sá sem fjallað er um, en þó ekki með
sömu ævintýramönnunum.
nngangur að þessu er fremur óáhugaverður, en telst samt nauðsynleg undirbygging þess sem á eftir kemur.

Það blundar í mér ævintýramaður og þeirri tilfinningu deili ég ekki með fD, sem helst vill vera með belti, axalabönd og frauðgúmmíhellur allsstaðar þar sem hún kemur við.
Ég hef átt mér ýmsa drauma varðandi ævintýri og hef fylgst með öðrum lenda í ævintýrum, en það hafa, af einhverjum ástæðum, ekki verið örlög mín að leitast beinlínis eftir einhverju sem kemur blóðinu á hreyfingu og kýlir mig upp af adrenalíni. 
Viljinn er og hefur verið fyrir hendi og ég hef nálgast það æ meir, eftir því sem árin líða, að verða mér úti um einhver þau ævintýr sem eftir má taka. Innri krafa um að takast eitthvað spennandi og krefjandi á hendur hefur farið vaxandi eftir því sem árunum hefur fjölgað. Það var því beinlínis ákvörðun mín, í nýafstaðinni ferð okkar fD til Taurito á Gran Canaria, á slóðir þar sem ekki heyrðist önnur íslenska en okkar í nánast tvær vikur, að  láta til skarar skríða. 

Þetta var inngangurinn.

Aqua sports - Catamaran - Bananabátur

Aqua Sports

CATAMARAN tvíbytnan
Hér er um að ræða fyrirtæki sem býður sólarferðalöngum mikið úrval af allskyns ævintýralegri reynslu bæði á láði og legi. Það sem varð fyrir valinu hjá okkur fD var sigling með tvíbytnu, svokallaðri Catamaran. Hluti af þessari siglingu átti síðan að vera ýmislegt, eins og gengur, en allavega varð niðusrstaðan að skella sér í þessa ferð.
Af minni hálfu var þar einn þáttur sem kitlaði mest: • Banana boat ride var það, heillin. Að því ævintýri öllu kem ég betur síðar, en sú reynsla er beinlínis tilefni þess að ég sest niður og skrifa eitthvað um harla venjulega túristaupplifun. Við vitum öll hvernig slík upplifun er: þú verður að einhverri vöru sem þarf að fara í gegnum eitthvert tiltekið ferli gegn einhverju tilteknu gjaldi.

Catamaran tvíbytnan og höfrungaskoðun

Siglt til hafs í höfrungaleit. Taurito í baksýn.
Í bænum Mogan gengum við um borð í þessa fínu tvíbytnu ásamt um 20 öðrum (tvíbytnan er gerð fyrir 100 farþega) og síðan var siglt til hafs, einhvern slatta af mílum, í leit að höfrungum. Seljandi ferðarinnar hafði sagt okkur að nú væri "höfrungatíminn" og sýnt okkur myndskeið í símanum sínum því til staðfestingar.
Hvað um það, enginn sást höfrungurinn, en á móti sáum við eina talsvert stóra skjaldböku svamla í yfirborðinu og einu sinni eða tvisvar sáum við hvalsbak í fjarska. Svo var haldið til baka og þeir sem ekki voru sjóveikir snæddu innifalinn málsverð.
Þegar komið var að ströndinni var tvíbytnan fest við akkeri og þeir sem vildu (þrír) fengu færi á að snorkla stutta stund.

Bananabáturinn

Sjóköttur á fullri ferð. Svona var þetta.
Í þann mun er snorklararnir voru búnir að snorkla litla stund kom sjóköttur (jet-ski) á fleygiferð að afturenda tvíbytnunnar, með bananabát í eftirdragi. Fyrir þá sem ekki vita, þá er bananabátur uppblásinn, ílangur belgur með minni belgjum á hvorri hlið, augljóslega til að halda honum á réttum kili. Ofan á belgnum eru síðan handföng fyrir farþegana.
Nú var kallað í hátalarakerfið að til boða stæði ókeypis ferð með bananabátnum.
Mér dettur ekki í huga að neita því, að þar sem ég stóð þarna frammi fyrir ákvörðun, sem hafði eiginlega verið meginforsenda þess að ég var nokkuð áfram um að fara í þessa siglingu, komu á mig innri vöflur, sem ég held að ekki hafi verið greinanlegar hið ytra. 
Það var kallað eftir þátttakendum í bananabátsferðina og ég lýsti mig reiðubúinn ásamt þrem öðrum. Ég spurði reyndar einn starfsmanninn hvort þetta væri mögulega eitthvað sem ekki hentaði mér, að teknu tilliti til aldurs og líkamlegs atgerfis. Starfsmaðurinn gaf ekki til kynna að ákvörðun mín væri út í hött.
Þar með greip ég björgunarvesti sem stóð til boða, en var fljótlega klæddur aftur úr því og síðan í annað, heldur verklegra.
Bananabátnum var lagt að skut tvíbytnunnar og fyrstu farþegarnir skutluðust upp á hann fremst, sænskt par um tvítugt. Þá kom að mér, eins og ég er. Eitthvað lét mjöðmin af sér vita þar sem ég klöngraðist léttilega (reyndi að láta það virðast léttilegt og gretti mig í átt frá mögulegum áhorfendum) um borð í bátinn, eða réttara sagt upp á belginn, þar sem ég greip um handfang fyrir framan mig. 
Síðasti farþeginn var táningspiltur, breskur og hann settist fyrir aftan mig. Þarna vorum við þá komin fjögur (19-19-64-16).
Svona var bananabáturinn. Farþegarnir eru aðrir.
Þar sem við vorum búin að koma okkur fyrir var ekkert til fyrirstöðu og sjókattarmaðurinn brunaði af stað. Eðlilega byggðist upp talsverð spenna innra með mér þar sem smám saman strekktist á kaðlinum sem tengdi sjóköttinn og bananabátinn. Allskyns hugsanir sóttu að, meðal annars pælingin um hvað í ósköpunum ég væri þarna búinn að koma mér út í. Þetta væri bara eitthvert unglingasport og engan veginn hæfandi virðingu eftirlaunamanns með minn starfsferil.  Ég huggaði mig við það, jafnharðan, að eina vitnið að þessum atburði, sem til frásagnar yrði í mínu málumhverfi, væri fD og hún rétt réði því hvort hún léti eitthvað frá sér fara einhversstaðar (sem hún svo auðvitað gerði). 

Nú var kaðallinn orðinn fullstrekktur og farskjótinn tók við sér. Það var eins og við manninn mælt, á skammri stund vorum við komin á fulla ferð, hoppandi og skoppandi um hafflötinn og við og við gengu lítilsháttar gusur yfir okkur þegar við brunuðum í gegnum öldugang sem sjókötturinn myndaði þar sem hann þeyttist áfram í sveigum til beggja hliða. 
Þetta var bara gaman. 
Stúlkan skríkti, það heyrðist minna í piltunum tveim  og ekkert í mér. Sannarlega hefði ég getað rekið upp einhver öskur hér og þar, en þar setti ég mörkin. Nóg var samt.
Svona gekk þetta fyrir sig um stund, gleðin, spennan, kitlið í maganum. Harla gott, bara.

En svo ákvað sjókattarstjórinn að taka krappa beygju........

Framhald þessarar frásagnar verður skráð þegar ég hef náð að móta í kringum það viðeigandi orðaheim. 


Litlir kallar og litlar kellingar

Heilsugæslustöðin í Laugarási á vígsludegi 1997 (mynd: Jónas Yngvi Ásgrímsson) Ég hefði óskað þess, að fyrstu dagar nýs árs yrðu ánægjulegri...