Sýnir færslur með efnisorðinu Snilld mín. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu Snilld mín. Sýna allar færslur

28 janúar, 2017

Minni kvenna - á minn hátt

Það er ótvíræður kostur við þorrabót eldri borgara í Biskupstungum, að það er ekki boðið upp á dansiball með tilheyrandi hávaða þegar fólk hefur matast og notið þess að syngja saman og fara með gamanmál.
Ég trúi því varla að það sé ég sjálfur sem skrifaði þetta. Ég, sem einu sinni sótti böllinn af engu minni krafti en aðrir á mínum aldri. Nú er bara öldin önnur  og einhvernveginn er maður þannig forritaður að hvert aldursskeið kallar á misjafnar kröfur til þess sem kalla má skemmtun.

Við fD ákváðum fyrir nokkru, að skella okkur á þorrablót eldri borgara í Aratungu, en það er alla jafna haldið viku eftir aðal þorrablótið, þar sem aðal fólkið er sagt að finna.  Við höfum farið nokkrum sinnum á þetta "ellibelgja blót" og hefur líkað ágætlega. Þetta hafa verið fremur lágstemmdar samkomur og ekki hefur skemmt fyrir þegar skemmtiatriði af aðalblótinu hafa fylgt með, en það er upp og ofan hvernig því hefur verið háttað - heldur lítið þessu sinni.

Hvað um það. Á miðvikudag fékk ég símtal frá formanni félags eldri borgara, Guðna Lýðssyni, þar sem hann fór þess á leit við mig að ég flytti minni kvenna á blótinu, þar sem ekki yrði um að ræða að endurflutt yrði það minni sem flutt var á aðalblótinu.  
Eftir talsverðar mótbárur varð það úr að ég gekkst inn á þetta, án þess að hafa hugmynd um hvernig hægt væri að fjalla um konur á svona samkundum án þess að fara yfir ásættanleg mörk. Ég huggaði mig við það, að þarna yrðu sennilega bara konur á aldur við mig, eða eldri, sem hefðu meira þol gagnvart því að "meðtaka lof og prís" úr munni manns á mínum aldri.
Hér fyrir neðan er síðan samsetningurinn, sem auðvitað er ekki hálfur án flutningsins. Mig grunar nú að margir þeirra um það bil 60 sem voru á blótinu í gærkvöld, hafi hreint ekki skilið hvað ég var að fara oft á tíðum, en svoleiðis er það bara.

Þorrablót eldri borgara föstudag 27. janúar, 2017

Ágætu konur og aðrir gestir

Ég hef mikið hugsað um það hvernig ég get mögulega nálgast þetta viðfangsefni, svona miðað við allt og allt. Ég var á tímabili að hugsa um að hringja í Guðna og tjá honum þá niðurstöðu mína að ég treysti mér ekki í verkið. Augljóslega gerði ég það ekki og tel mig sýna af mér heilmikinn hetjuskap með því að standa hér nú, á þorra árið 2017 og mæla fyrir minni kvenna.

Fósturlandsins Freyja, fagra Vanadís
Móðir, kona, meyja, meðtak lof og prís.
Blessað sé þitt blíða bros og gullið tár
Þú ert lands og lýða, ljós í þúsund ár.

Svona tjáði Matthías Jochumsson virðingu sína fyrir íslensku konunni fyrir vel á annað hundrað árum.
Enn syngjum við karlarnir þennan texta Matthíasar á þorrablótum. 
Vitum við allir hvað við erum að syngja eiginlega? Hvernig túlka nútímakonur þennan fallega og vel meinta texta? Ég held að þær séu bara sáttar – eða vona það, í það minnsta.

Eftirfarandi er skoðun ritstjóra barnablaðsins Sólaldar, árið 1918, en hann var karlmaður:
Matthías Jochumsson orti þetta um íslenzka kvenfólkið; um íslenzku mömmurnar, íslenzku konurnar, íslenzku stúlkurnar, og engin þjóð á til eins fallegt erindi um kvenfólkið sitt. Þið eigið öll að læra þetta erindi og kenna það hinum börnunum.
------- 
Við eigum að vita að Freyja er gyðja ástar og frjósemi í norrænni goðafræði. Við vitum ef til vill síður, að Vanadís er annað nafn á Freyju, en hún tilheyrði þeim flokki goða sem kallast Vanir, hinn flokkurinn er Æsir.

Annað það sem fram kemur í textanum sem sunginn verður á eftir, læt ég liggja milli hluta, enda er þarna um að ræða orð Matthíasar og hann þar með ábyrgur fyrir þeim.

Ég get glaður tekið undir þau öll, en er hinsvegar alveg tilbúinn að draga stuðning minn við innihald vísunnar til baka, telji Freyjur nútímans orðavalið ekki við hæfi þar sem það dragi upp aðra mynd af konum en þær geta sætt sig við.

Ætli sé ekki best að ég fari að byrja á minninu – MINNI KVENNA.

Það get ég sagt ykkur og það vitum við, að minni kvenna er hreint ágætt öllu jöfnu, en getur þó birst með ýmsum hætti eftir því hvernig viðrar.

Áður en ég held lengra vil ég halda því til haga, eins og fram hefur komið áður, að ég veit fullvel að minni kvenna snýst ekki um minni kvenna, heldur nokkurskonar lofgjörð um konur.

Mig grunar nú að þetta orð í þessari merkingu, sé eitt þeirra orða á íslensku sem eru að hverfa með tímans straumi og gæti vel trúað því að innan ekki svo langs tíma muni þeir (eða þau) sem fá það hlutverk að flytja minni kvenna (eða karla), tala um minni þeirra í stað þess að flytja minni þeirra. Mig grunar að sá tími sé ekki fjarri, að sá sem beðinn verður um að flytja minni kvenna muni spyrja hvernig hann eigi nú að fara að því og hvert hann eigi þá að flytja það.

Þannig hefði það getað verið, þegar Guðni formaður bað mig að flytja minni kvenna hér í kvöld, að ég hefði einmitt byrjað að velta fyrir mér hvert ég ætti nú helst að flytja þetta merka fyrirbæri. Þá kæmi mér mögulega fyrst í hug að flytja það til mín. Þar með yrði tilvera mín hugsanlega að mörgu leyti einfaldari og þægilegri.

Með því móti yrðu svona orðaskipti úr sögunni:
„Jæja, ljúfur. Ert‘ ekki tilbúinn?“
„Tilbúinn? Til hvers, ljúfan?“
„Þú ætlar þó ekki að segja mér, að þú sért búinn að gleyma því að við erum að fara í afmæli hjá systurdóttur minni, henni Töru Mist, litlu!“
„Þú hefur aldrei minnst á að við værum að fara í eitthvert afmæli!“
Ó, jú. Ég sagði þér frá því að fimmtudaginn var, klukkan korter yfir sex.“
„Aldeilis ekki!“
„Jú, ég er nú hrædd um það.“

Þegar hér er komið er það yfirleitt niðurstaðan, að minni mitt hafi brugðist mér og ég segi:
„Jæja“.
Því segi ég það, að hefði ég færi á að sameina minni konunnar mínu minni, yrði ég í góðum málum.

Mér er samt til efs að Guðni sé í aðstöðu til að biðja mig að flytja minni kvenna á einhvern stað, þó svo Guðni sé maður yfirvegaður, rólyndur og djúpur.

Eftir sem áður öfunda ég konur af minni þeirra, sem er þannig fyrir komið, að það er í mörgum hólfum. Hverju hólfi getur konan síðan lokað, eða opnað, eftir því sem við á hverju sinni. Það er þannig hjá mér að annað hvort man ég eða ég man ekki. Það er bara eitt hólf og ekki um það að ræða að ég geti lokað fyrir eitt við einhverjar tilteknar aðstæður og opnað fyrir annað, sem hentar þá aðstæðunum betur. Þannig getur t.d. þetta samtal átt sér stað:

„Dúllan mín. Ég er þá farinn. Á að vera mættur eftir korter.“
Þarna lokar konan því minnishólfi sem geymir upplýsingar um fundinn í félagi eldri borgara sem ég er að fara á og sem ég var sannarlega búinn að ssegja henni frá,  og opnar í staðinn sérstakt hólf sem geymir óvænta minnispunkta.
„Farinn? Farinn hvert, dúllinn minn? Þú varst ekki búinn að segja mér að þú væri að fara eitthvert í kvöld. Við ætluðum að kúra, krúsídúllinn minn. Ertu búinn að gleyma því?
„Þetta var ég sko búinn að segja þér, ítrekað.“
„Ó, nei. Þetta hefurðu ekki nefnt einu orði. Við ætluðum að kúra í kvöld.“

Þarna varð, sem sagt, félag eldri borgara af vænum sauð.

Ég ætlaði hreint ekki að tala hér um minni kvenna, heldur flytja minni kvenna eins og mér var uppálagt.
Nú er ég hinsvegar búinn að koma mér í þá aðstöðu að fara talsvert fram úr þeim tímamörkum sem mér voru sett:
„Bara svona nokkur orð“, var sagt. „Bara stutt“, svar sagt.
Eftir á að hyggja, er ég líklega bara búinn að tala um minni kvenna, flytja minni kvenna og mæla fyrir minni kvenna.
Það sem meira er, þá er ég búinn að mæra konur í aðdáun minni á kraftinum, sem geislar af þeim, þar sem þær stíga fram þessi árin til forystu hvar sem er í þjóðlífinu.


12 desember, 2015

Sópraninn vildi komast hærra

Staður: Skálholtsdómkirkja
Tími: 11. desember 2015
Tilefni: Jólatónleikar

Framundan var flutningur kóra úr uppsveitum með einsöngvurum, orgeli, trompet og klarinett á verki efti Sigvalda Kaldalóns, Kirkjan ómar öll. Því verður ekki á móti mælt að einhverjir tenórar báru nokkurn kvíðboga fyrir einni nótu í umræddu verki.

Forsaga málsins var sú, að við upphaf æfinga á þessu verki var það eins og hvert annað verk sem æft var; tenórinn dansaði um nóturnar, áreynslulaust þó svo ein nóta undir lok hvers erindis hafi tekið nokkuð á. Það var ekkert annað en áskorun og þetta var hið besta mál. Með þessum hætti var verkið æft nokkrum sinnum og það var að komast góð mynd á það.
Við þær aðstæður gerðist það allt í einu að einn sópraninn tjáði þá skoðun sína að sópranlínan lægi of lágt. Einhverjir fleiri sópranar tóku undir þessa skoðun.
Það vita þeir sem hafa sungið í kór, að það er ekki hægt að hækka þá línu sem ein rödd syngur, nema hinar hækki líka. Þar sem þarna var um að ræða athugasemd frá þungavigtarsópran varð það að ráði að stjórnendur hækkuðu verkið um heiltón, sem er alveg slatti (leiðr. það var hækkað um þríund, sem mun vera umtalsvert meira en heiltónn, sem gerir afrek tenóranna enn meira). Sannarlega myndi þetta þá einnig hækka háu nótuna sem áður er nefnd um heiltón (leiðr. þríund) líka.
Nú er það þannig, að tenórar eru í eðli sínu miklir sjentilmenn og þrátt fyrir mögulegar afleiðingar hækkunarinnar, tjáðu þeir sig tilbúna að takast á við verkið heiltón  (leiðr. þríund) hærra.
Í stuttu máli varð það úr og ekkert annað að gera en freista þess að pússa röddina einu þannig að ekkert brysti þegar á reyndi. Á æfingum gekk þokkalega að takast á við nótuna, ekki síst vegna þess að engir voru áhorfendurnir, en það var auðvitað alltaf ljóst að þegar stundin rynni upp á tónleikum, yrðu áhorfendur.  Það þarf ekkert að fjölyrða um, að það er í eðli tenóra að leggja sig ávallt fram um að röddin komist sem best til skila til áheyrenda og þá oft á kostnað þess hvernig þeir birtast áhorfendum.

Þá vík ég aftur að tónleikunum sjálfum og flutningi verksins.

Í þeirri útgáfu verksins sem þarna var skyldi flutt, syngur kórinn þrjú erindi, en inn á milli syngja sópran og tenór einsöng í millikafla.
Þar sem flutningur verksins var að hefjast; einsöngvarar, hljóðfæraleikarar, stjórnandi og kór klár, gerðist það, að tenórinn sem átti að fara að syngja einsöngsþátt sinn, ákvað að segja áhorfendum lítillega frá verkinu, sem var í góðu lagi auðvitað. Hinu var erfiðara að kyngja, að í kynningunni bað hann áhorfendur  að fylgjast sérstaklega með tenórunum í kórnum, því þeir fengju sko að taka á honum stóra sínum. Þarna varð því ljóst, að áhorfendur myndu einbeita sér að framgöngu tenóranna í þessu lagi, sem er auðvitað alltaf eðlilegt, en þarna gæti kastljósið mögulega sýnt flytjendur raddarinnar einu á heldur viðkvæmu augnabliki.

Flutningurinn hófst með tenórraddirnar í ofangreindum forgrunni. Ég, sem fyllti þarna flokk allmargra glæsilega uppsveitatenóra, var búinn að fara í gegnum leikskipulagið að svo miklu leyti sem ég myndi geta haft stjórn á því.  Ég hafði engar áhyggjur af áheyrendum, en gerði mér grein fyrir því að áhorfendur gætu mögulega orðið fyrir nokkru áfalli, en mér tækist ekki að halda tjáningu minni og innlifun í flutningnum í lágmarki.  Þarna varð að finna einhvern þann  meðalveg sem gæti talist ásættanlegur.
Tónninn nálgaðist og ég fann mig vera að missa tökin á  meðalveginum. Ég fann hvernig mér hitnaði smám saman í andlitinu (sem fól væntanlega í því að roði færðist yfir það). Þar sem tónninn eini datt inn fannst mér eins og allt andlitið færi sínar eign leiðir við að fylgja tóninum eftir, ýta honum úr hálsinum og yfir til áheyrendanna án efa á  kostnað upplifunar áhorfendanna.

Á hápunktinum fannst mér, að ténórinn sem beindi svo ljúflega athyglinni að raddfélögum sínum í kórnum, hefði betur valið sópraninn, sem þarna fékk að taka meira á því en til stóð í upphafi, nú eða altinum sem hafði haft orð á því að línan sem kom í hans hlut væri orðin og há, eða bassanum, sem bassaðist eins og hann bassast.

Þrátt fyrir ofangreint voru tónleikarnir harla skemmtilegir og þrátt fyrir að einsöngstenórinn hafi beint athygli áhorfenda svo óheppilega að röddinni einu, voru foreldrarnir í sópran og tenór afar stoltir af framgöngu síns manns.

Fyrir þá lesendur sem ekki þekkja þetta verk læt é hér fylgja myndband þar sem kór Glerárkirkju flytur það. Ég tek eftir því að þar syngja tenórarnir umrædda nótu aðeins í 2. erindinu.


Ég veit til þess að tónleikarnir voru teknir upp og vonast til að geta skellt upptöku af þessu verki hér inn í fyllingu tímans.

05 október, 2015

Af ljósinu á pallinum

Nú er liðinn sá tími að sólarljósið dugi til að lýsa upp sólpallinn. Í staðinn er nú notast við rafljós til að varpa birtu yfir svæðið.
Fyrir nokkru gerðist þetta:

"Það þarf að kaupa nýja peru í ljósið"

Við athugun varð mér ljóst að þetta var rétt. Langlíf peran sem gegnt hafði hlutverki sínu vel og lengi, gerði það ei meir.

"Er ekki til ný pera inni í búri? Við keyptum einhvern slatta til að hafa til vara".

Það leið ekki á löngu áður en pera sem reyndist vera til, var komin að dyrunum út á pallinn og þar með var kominn þrýstingur sem ekki var hægt að misskilja, á að það þyrfti að skipta um peru.  Ástæðuna fyrir þessum áhuga á peruskiptum má rekja til tiltekins viðhorfs fD til tiltekinnar smávaxinnar nagdýrategundar.
Sem oft áður þá hljóp ég ekki til og það var ekki fyrr en ég heyrði hurðinni út á pall lokað hratt nú rétt fyrir helgina og með fylgdu athugasemdir um að sést hefði til músar á pallinum.  Með þessari þróun mála óx þrýstingur á aðgerðir meira en svo að ég stæðist. og því var það að um helgina skipti ég um peru, setti nýja langlífis orkusparandi peru í ljósastæðið, með tilheyrandi átökum og veseni.

Og það varð ljós á ný.

Það næsta sem gerðist var þetta:
"Ferlega er óþægilegt þetta blikk á ljósinu."

Blikk, já. Hvað skyldi nú vera til í því? Ég athugaði málið og viti menn, ljósið blikkar lítillega. Ég hugsaði hratt, hafandi í huga að líkur hefðu vaxið á að aftur þyrfti að skipta um peru.
"Já, já. Þetta er sérstök tegund að perum sem blikka örlítið, en það dugir til að fæla burt mýs".

"Fæla burt mýs?"

"Já, það er vel þekkt, að þegar mýs lenda í svona ljósi fá þær oftar en ekki flogakast".

Við þessu öfluga svari gerðist ekki annað en fD ákvað að snúa sér að öðru og ég keypti mér smá frest.

Já, svona' er það við sjóinn víða,
sama gerist upp til hlíða,
sveinn og meyja saman skríða,
segjast elskast jafnt og þétt,
hvað er auðvitað alveg rétt.
Í hjónabandi að lifa og líða 
uns lausakaupamet er sett.

16 september, 2015

Tenór á ný

Ítalía 2007: Með Bubbu (Rannveigu Pálsdóttur) og
Kristni (Kristmundssyni) á Caprí.
Ég vildi gjarnan geta sagt að ástæða þess að ég ákvað að endurnýja samband mitt við Skálholtskórinn eftir nokkurra ára hlé, væri sú að ég teldi ótækt lengur að í kórinn vantaði sárlega þann fagra tenórhljóm sem lifnar í raddböndum mínum.
Ég get svo sem alveg sagt það og ég get vissulega trúað því, svona eins og sannir tenórar eiga að gera, en ég kýs að gera það ekki á þessum vettvangi. Það getur vel verið að ég velti mér upp úr aðdáun minni á silfurtærri fegurð raddar minnar í einrúmi heima og hver veit svo sem nema ég deili aðdáun minni á þeirri guðsgjöf sem ég bý yfir með fD? En það verður ósagt hér, enda lítillæti mitt of mikið til að fjölyrða um þessi mál.

Ef til vill er ástæðan fyrir skyndilegri endurkomu minni eitthvað tengd hækkandi aldri. Það kann að vera að mér hafi fundist að það væri nú farið að styttast í þeim tíma sem mér er gefinn á þessari jörð sem tenór og því siðferðisleg skylda mína að leyfa öðrum kórfélögum og tónleikagestum að njóta meðan notið verður. Það gæti mögulega verið að mér hafi fundist að þau gersemi sem raddbönd mín eru, yrðu að fá að njóta sín í eðlilegri tónhæð, annars væri það bara bassinn.
Mér líður seint úr minn þegar ónefndur (nú þarf ég að passa mig), eigum við að segja, aðili, sagði við ónefndan tenór, að rödd hans væri farin að dýpka eða dökkna og líklega réttast að hann færði sig í bassann. Eins og nærri má geta féllu þau orð í grýttan jarðveg og höfðu áralangar afleiðingar.  Ég skil viðbrögð tenórsins vel.

Berlín 2008: Einbeittir tenórar takast á við
Gunnar Þórðarson og Arvo Part
Það kann að vera, eftir allt sem á undan er gengið í aðkomu minni að kórmálum í fleiri áratugi en ég kæri mig um að fjalla um, reynist mér erfitt að slíta tengslin við það undursamlega samfélag sem kór er, ekki síst ef það reynir dálítið á, maður sér árangur og nýtur uppskerunnar þegar vel gengur. Á þessum vettvangi hef ég nokkuð oft fjallað um kórmál og ekki alltaf leiftrandi af jákvæðni, enda í þeim tilvikum, ástæða til, að mínu mati. Það breytir því ekki, að þegar kór er samstiga í því að gera vel, þá er gaman að þessu.

Ég hef upplifað margt á kórævi minni og þar standa upp úr ótrúlega skemmtilegar ferðir á erlenda grund.  Líklega voru þær alltaf  gulrótin sem hélt öllu saman - sameiginlegt markmið sem glæddi áhuga umfram þann sem verður til af söngnum einum saman.

Berlín 2008: Á tónleikastað.

Ég kom á fyrstu kóræfingu í gærkvöld. Við fD mættum reyndar bæði og hún hyggst takast á við allra hæstu sóprantóna að fítonskrafti.
Í tenórstólana voru mættir tveir tenórar á besta aldri. Meðalaldur tenóra við upphaf þessa söngárs er 64,6 ár. Þar eru menn vel hærðir með grásprengt upp í hvítt hár.  Það var rætt um að mögulega bætist einn tenór í hópinn, sem lílega verður til þess að meðalaldurinn nær 65+. Allt hið besta mál og allar kenningar um að með aldrinum lækki rödd tenóra þannig að þeir verði að leita í bassann, eru húmbúkk eitt. Þarna virtist einmitt hið gagnstæða vera raunin og vel gæti verið að kliðmjúkur altinn fái frekar notið fyrrum tenóra þegar tímar líða.

Megi þetta allt fara vel.

31 ágúst, 2015

Í lífshættu á Kili

Ég þakka fyrir að sitja hér fyrir framan tölvuskjáinn í góðu yfirlæti í stað þess að öðruvísi sé komið fyrir mér. Reynsla gærdagsins hefur kennt mér (reyndar er ég alltaf að læra það sama í þessum efnum) að það sé mikilvægt að hugsa hvert skref áður en það er tekið. Ég hef reyndar haft þetta að leiðarljósi í því sem ég hef tekið mér fyrir hendur. Oft hef ég hinsvegar staðið frammi fyrir aðstæðum sem verða til þess að ég gleymi einu og einu skrefi og það var það sem gerðist í gær.

Við fD skelltum okkur í Kerlingarfjöll. Ég, með alla myndatökuútgerðina mína og hún með litlu spjaldtölvuna sína. Ég, til að taka myndir til að dunda mér síðan við í myndvinnsluforritum. Hún til að taka myndir á spjaldtölvuna sína til að finna flott form og liti til að mála eftir á dimmum vetrardögum sem framundan eru. Í sambandi  við spjaldtölvuna stóð ein spurning fD uppúr: "Af hverju sé ég bara sjálfa mig?" Ég læt lesendur um að finna út tilefni spurningarinnar.

Hér ætla ég ekki að fjalla um þær dásemdir sem í Kerlingarfjöllum er að finna, nema með nokkrum myndum, heldur það sem gerðist þegar myndatökum var lokið og haldið var í áttina heim aftur.

Við vissum að ferðin þarna uppeftir gæti tekið einhvern tíma þannig að það var ákveðið að taka með nesti, útileguborðið, útilegustólana og gastæki til að hita vatn í kaffi. Eftir Kerlingarfjöll þurftum við síðan að finna góðan og ofurrómantískan grasbala til að koma græjunum fyrir, hita vatnið og snæða í guðsgrænni náttúrunni á fjöllum. Þennan stað fundum við við Gýgjarfoss í Jökulfalli við veginn upp í Kerlingarfjöll. Hreint indæll staður og það sem meira var, þarna gat ég æft mig í að taka myndir af fossinum meðan vatnið hitnaði. Í sem stystu máli, settum við allt upp. Kúturinn var settur í gastækið, potturinn á og vatn í hann, skrúfað frá gasinu og kveikt á. Að því búnu kom ég þrífætinum fyrir á góðum stað og tók að mynda í gríð og erg. Ég prófaði mismunandi stillingar á filternum, mismunandi ljósop, mismunandi hraða og mismunandi hitt og þetta.
"Á að rjúka svona úr gastækinu?" spurði fD þar sem hún stóð allt í einu fyrir aftan mig, en myndatakan fór fram í um 20 m fjarlægð frá eldunarstaðnum.  Mér varð litið við og sá hvar blásvartur reykur liðaðist upp af tækinu, augljóslega ekki úr pottinum. Það fór um mig við þessa sjón, eins og vænta mátti. Eitthvað var ekki eins og það átti að vera. Annaðhvort var tækið bilað, eða ég hafði gert einhver mistök við tengingar.

"Nei, það á ekki að rjúka svona úr tækinu" varð mér á orði í huganum þar sem ég skildi myndatökutækin eftir á bersvæði við beljandi Jökulfallið á sama tíma og túristarúta nam staðar skammt frá, og hraðaði mér í átt að eldunarstaðnum. Þarna var augljóslega eitthvað mikið að, en eins og vænta mátti sýndi ég fumlaus viðbrögð þótt inni í mér ólgaði óvissan um hvað þarna gæti gerst í þann mund er ég nálgaðist tækið til að slökkva á því.  Ég byrjaði á að loka snöfurmannlega fyrir gasstreymið og átti  von á því að þá og þegar spryngi gaskúturinn í andlitið á mér.  Tækið allt var orðið glóandi heitt, en gaskútnum er komið fyrir inni í því, eins og sjá má á meðfylgjandi mynd.
Eftir nokkra stund hvarf ég aftur að tækinu þó svo hættan á sprengingu væri enn ekki liðin hjá og tók pottinn af hellunni, en hún er laus. Þá blasti við mér miði á hellunni sem greindi frá því, svo ekki varð um villst, að hluti af því að græja tækið til notkunar væri að snúa hellunni við. Þá rifjaðist það upp fyrir mér og þannig hafði ég gert þetta áður. Þarna hafði ég haft hugann meira við myndatökur en eldamennsku og því fór sem fór.

Mér tókst að snúa hellunni rétt og þegar tækið hafði kólnað nokkuð kveikti ég aftur á því og nú var allt með eðlilegum hætti, vatnið hitnaði, brauðið var smurt og álegg skorið. Það var etið og drukkið í guðsgrænni náttúrunni  og einu áhyggjurnar sneru að því hvort við vektum meiri athygli túristanna sem framhjá fóru, en vegurinn framundan, með þeim mögulegu afleiðingum, að þeir ækju á Qashqai þar sem hann stóð í vegarkantinum.

Svo var fram haldið ferðinni heim á leið.


24 júní, 2015

Sundbuxnakaupin

Það er svo komið að 10 ára gamlar sundbuxur mínar eru komnar úr tísku og ekki bara það, því þær hafa einnig orðið fyrir útlitsáverkum vegna þess að þær hafa verið notaðar til ýmissa annarra athafna sen sunds gegnum árin.  Niðurstaða mín varð sú, í tilefni af fyrirhugaðri ferð, þar sem gert er ráð fyrir að fólk sé frekar í sundbuxum en þessum venjulegu, svörtu vinnubuxum, að ég yrði að endurnýja sundbuxurnar.
Þetta tilkynnti ég fD og hún gerði ekki athugasemdir við þessar niðurstöðu mína.
Auðvitað vissi ég að val á sundbuxum gæti orðið  allt annað en einfalt því þar koma að ótal breytur sem get haft áhrif á valið.  Það hvarflaði að mér að  mér að það væri nú gott ef kæmi nú svona spurningaleikur á Fb: What kind of swimsuit suits you best? Take the test. Þá þyrfti ég bara að svara svona 10 spurningum og fengi niðurstöðuna svart á hvítu. Það er enginn svona spurningaleikur í gangi.
Svo hófst ferðin til höfuðstaðar Suðurlands, en þar þurfti að sinna ýmsum erindum, meðal annars að athuga hvort þar fengjust viðeigandi sundbuxur. Þó margt annað sem gerðist í þessari kaupstaðarferð hafi verið óendanlega skemmtilegt og fróðlegt, þá einbeiti ég mér bara að þessu sundbuxnamáli hér og nú.
A
Það var auðvitað fD sem stakk upp á líkegustu versluninni og ég átti allt eins von á að hún héldi áfram að stinga upp á, alveg þar til búið væri að greiða fyrir mögulegar buxur.
Þar sem enginn var Fb leikurinn til að hjálpa mér við val á svona flík, þá varð ég sjálfur að búa mér til spurningar með helstu breytum, því auðgljóslega yrði um margt að velja og mikilvægt að ég setti fram sjálfstæða skoðun þegar kæmi að sundbuxnavalinu.
Hér eru áhugaverðar spurningar sem sundbuxnakaupandi gæti þurft að svara til að taka upplýsta ákvörðun:
1. Hvað ertu gamall?
   Valkostirnir væru einhver aldursbil
2. Hvernig ertu í vexti?
   Valkostirnir væru á bilinu frá vaxtarræktarmaður upp í "Hvað áttu við?"
B
3. Hjúskaparstaða?
    Valkostir frá því að vera á lausu og upp í "harðgiftur í 40 ár"
4. Stundarðu sund?
    Valkostir frá aldrei og upp í daglega.
5. Hefurðu þörf fyrir að vera áberandi.
    Valkostir frá því að vera "nei engan veginn" og upp í "nú, auðvitað".
6. Hverjar eru stjórnmálaskoðanir þínar?
    Valkostir eru þetta venjulega frá vinstri til hægri.
C
7. Hver er uppáhaldsliturinn þinn?
    Valkostir óræðir, en eitthvað sem tengist litum. 
8. Til hvers ætlar þú að nota sundbuxurnar?
     Valkostir tengjast óhjákvæmilega svarinu við spurningu 4.
9. Hefur þú frelsi til að kaupa þær sundbuxur sem þig langar í?
   Valkostir á bilinu "Nei, alls ekki" og upp í "Já, auðvitað! Þó það nú væri!"
10. Vantar þig raunverulega sundbuxur?
    Vakostir frá "Neeeei, ætli það" og upp í "Auðvitað! Hverskonar hálfvitaspurning er þetta?"

Ég var örugglega búinn að fara í gegnum allar þessar spurningar í
huganum þegar við fundumm sundbuxnarekkann í búðinn sem fD hafði bent mér á.
D
Afgreiðslumaðurinn var unglingspiltur og fór yfir helstu þætti í úrvali sundbuxna verslunarinnar. Af einhverjum ástæðum benti hann mér ekki að þær sundbuxur sem maður kallaði alltaf "sundskýlu" áður fyrr. Síðan benti hann á flokk sundbuxna sem hann sagði að fylgdi ákveðið vandamál með stærðir - það þyrfti að gefa upp mittismál. "Þá verður bara að mæla", varð mér á orði og sú umfjöllun varð ekki lengri og ungi maðurinn hvarf á braut eftir að hafa bent mér á að það væri sjálfsagt að ég fengi að máta, ef ég vildi! Þrátt fyrir að mátun á sundbuxnum væri möguleg, hélt ég áfram að skoða.


E
Þarna var ákveðinn flokkur sundbuxna þar sem stærðirnar voru gefnar upp sem S, M, L, XL og XXL.
"Þú þarft ekki stærra en XL(?/!)" - ég set þarna tvo möguleika um greinamerki þar sem mér var ekki fullljóst hvernig skilja bæri það sem fD sagði.
Þessar sundbuxur voru til í þrem litum, og þá má sjá á meðfylgjandi myndum. Þegar stærðin var klár í huga mér stóð ekkert annað út af en liturinn.
"Það sér minnst á svörtu" - heyrðist í sjálfskipuðum ráðunaut mínum.

Ég fór úr þessari búð með sundbuxur í poka, en hvaða lit of lögun skyldi ég hafa valið?  A, B, C, D eða E?
 

25 apríl, 2015

Tveggja kerru barnahús (fyrri hluti)

Ég átti einusinni kerru. Hún var reyndar ekki til stórræða og reyndist ekki mikið notuð þegar til kom. Þá átti ég Land Rover Discovery og það var ekki hægt að segja að ég liti mjög vel út þar sem ég dró þessa kerru aftan í honum. Hún einhvernveginn lafði í honum þannig að aftasti hluti hennar nam nánast við jörðu. Svo eignaðist ég bíl sem var ekki með dráttarkúlu og kerran stóð bara algerlega ónotuð. Svo gerðist það dag einn um vetur að ég fékk snjóruðningstæki til að létta á heimreiðinni og hlaðinu, að kerran lenti fyrir tönninni og kengbeyglaðist og skekktist. Þar með lauk sögu hennar, utan þess  að nágranni sem hefur áhuga á að gera við dót, falaðist eftir henni þar sem hún stóð skökk og skæld úti í kanti einhverjum árum seinna.

Síðan hef ég ekki átt kerru.

Ég ég á núna bíl með dráttarkúlu.

Nágrannar mínir eiga ágætis kerru.

Ég, og reyndar fD einnig, eigum barnabörn og skógi vaxið og skjólgott land, með alla möguleika á að geta orðið prýðis leiksvæði fyrir ungt fólk.
Sem afi hef ég tilteknar skyldur, sem felast líklega einna helst í því að skapa jákvæða ímynd Kvistholts  í hugum unganna. Jákvæð ímynd verður til vegna þess að eitthvað er skemmtilegt eða áhugavert.

Jæja, hvað um það, það kom bæklingur í póstkassann. Þar var að finna mynd af barnahúsi. Ákvörðun var tekin. Húsið pantað. Nokkru síðar kom tilkynning um að húsið væri komið í verslun í höfuðstað Suðurlands. Það þurfti að ákveða hvernig það yrði sótt.
Það var hringt í nágranna sem á kerru.
Kerrulán reyndist auðsótt mál.
Upp rann dagurinn sem húsið yrði sótt.
Ég fór á Qashqai til að ná í kerruna, í íslensku vorveðri. Það hafði verið frost um nóttina og hitinn var rétt að skríða yfir frostmarkið.
Það var þarna sem hið raunverulega tilefni þessara skrifa gerði vart við sig.
Það reyndist fremur þungt að draga kerruna að dráttarkúlunni. Það var eins og annað kerruhjólið væri stíft. Öll fór þó tengingin eins og til stóð, beislið small á kúluna að rafmagn í sting og þar með ók ég af stað í Kvistholt til að nálgast fD, áður en lagt yrði í hann. Það heyrðist eitthvert undalegt hljóð frá kerrunni, en ég skrifaði það á frostið, og mögulega að eigandanum hefði lásðst að smyrja legur, eða eitthvað slíkt. Skömmu eftir að lagt var af stað hætti þetta hljóð að heyrast og ferðin niðrúr gekk svo sem til stóð.
Í versluninni var gengið frá kaupunum og eftir allanga bið, sem hentar mér afar vel, svo þolinmóður sem ég er, tók afgreiðslumaður á lagernum við afgreiðsluseðli mínum og hóf síðan leitina að húsinu, fann það, innpakkað á palli og náði í framhaldi af því í stórna lyftara, sem hann síðan notaði til að lyfta húsinu (þegar ég segi húsinu á ég auðvitað við niðursniðnu timbrinu sem fer í húsið, þegar og ef mér tekst einhverntíma að setja það saman) upp á kerruna, sem reyndist ekki alveg nógu stór til að húsið kæmist ofan í hana. Úr varð að afgreiðslumaðurinn fann tvær spýtur sem hann lagði þvert á kerruna og tyllti síðan húsinu ofan á. Húsið var ekki fest með öðrum hætti og fD hafði á því orð að það væri miður viturlegt að keyra með þetta svona í Kvistholt. Það taldi hún ekki verða ferð sem endaði vel (ég nota hér ekki beinlínis þau orð sem fD notaði, en þeir sem til þekkja verða bara að gera sér í hugarlund hver þau voru).
Allt klárt og ekið af stað í síðustu búðina áður en haldið yrði uppeftir.
Ég steig út úr Qashqai við búðina og þá fannst mér ég taka eftir að annað kerruhjólið hallaði lítillega inn á við að ofan (eða út að neðan). Þetta skrifaði ég í fyrstu á fjaðrabúnað kerrunnar og sinnti þar með erindum mínum í áðurnefndri verslun. Þegar ég kom síðan að kerrunni aftur sá ég að hitt kerruhjólið var fullkomlega eins og maður býst við að kerruhjól séu. Þegar ég bar hjólin tvö saman sá ég greinilegan mun á hjólunum.  Sannarlega langaði mig ekki til þess (see no evil....) en ég ákvað samt að leggjast á hnén til að athuga hvort eitthvað væri að sjá við hjólið innanvert.  Þar sem mér hafði tekist að koma mér á hnén og kíkja undir kerruna sá ég það sem ég vildi síst af öllu sjá: skekktan hring þar sem öxullinn gekk inn í hjólið og mér varð ljóst á þeirri stundu að þessi kerra myndi ekki flytja húsið í Kvistholt. Mér var jafn ljóst að ég gæti ekki skilið hana eftir með húsinu á, á þeim 4 bílastæðum sem ég hafði lagt í.
Þær aðstæður sem þarna voru uppi buðu upp á grafalvarlega (tískuorð í íslensku þessar vikurnar) sviðsmynd (tískuorð í íslensku frá tímum gossins í Holuhrauni).

Frá framhaldinu verður greint í síðari hluta.

08 febrúar, 2015

Betra seint


Ég hef ekki haft mörg orð um dugnað minn til verklegra framkvæmda, en nú get ég ekki orða bundist. Ég er búinn að koma sjálfum mér ítrekað á óvart undanfarnar vikur, svo oft reyndar, að dugnaður minn er hættur að koma á óvart.  Það hefur komið í ljós að verklegar framkvæmdir henta mér að mörgu leyti mjög vel. Mig hefur reyndar alltaf grunað að í mér leyndist dugnaðarforkur, en ég hef passað mjög vel að gefa honum ekki lausan tauminn. Undanfarnar vikur hef ég létt af honum öllum hömlum og það er ekki að sökum að spyrja. Það stefnir í að það verði til íbúð í kjallaranum ef áfram heldur sem horfir. Hver veit nema innan skamms verð fD komin á kaf í ferðaþjónustu með útleigu á 50 fermetra túristaíbúð. Ég veit um að minnsta kosti tvær slíkar nú þegar í Laugarási.


Hvað um það. Kjallarinn í Kvistholti hefur verið nánast óhreyfður í 30 ár, svo það var í raun tími til kominn að huga að framtíðarnýtingu hans. Svo varð ákveðin opnun, með látlausum flutningi  vinnustofu fD upp á efri hæðina, sem áður hefur verið fjallað um hér og hér. Með þeirri aðgerð varð bara ekki aftur snúið, og undanfarnar helgar hafa verið undirlagðar. Nú er komið öndvegis gólfefni á tvö herbergi og innan skamms verða komnar hurðir fyrir öll dyraop.  Svo hefur verið ýjað að því að taka snyrtinguna í gegn og þá er ekkert eftir nema eldhúsið.
Kva, það verður nú lítið mál fyrir Pál, sem nú þegar hefur komið sjálfum sér á óvart með parketlagningu sem hefði verið hverjum húsasmíðameistara til sóma. Enn augljósari varð snilldin þegar hurðakarmar voru settir í. Eitt baðherbergi og eldhús verða sennilega tertusneið í ljósi þess sem lokið er. Reyndar á eftir að setja hurðirnar í rammana og enn liggur ekki fyrir hvort þær passa, en til þess standa þó vonir.

16 desember, 2014

Fjögur sýnishorn frá Aðventutónleikum í Skálholti

Þar sem ég lagði í það verkefni að taka lifandi myndir af hluta tónleikanna tél ég rétt að setja afraksturinn hér inn til að hafa hann aðgengilegan á einum stað.

Á þessum tónleikum sungu þrír einsöngvarar, þau Þóra Gylfadóttir, sópran, Egill Árni Pálsson, tenór og Ásgeir Páll Ágústsson, baritón og þrír kórar sem einn: Söngkór Miðdalskirkju, Skálholtskórinn og Kirkjukór Ólafsvalla- og Stóra-Núpskirkju undir stjórn þeirra Jóns Bjarnasonar og Þorbjargar Jóhannsdóttur.
Jón Bjarnason lék á orgel og Smári Þorsteinsson kitlaði slagverk í nokkrum lögum.

Gesu bambino

Gaudete

Ó, helga nótt

Enn á ný við eigum jól

14 desember, 2014

Merki Kvisthyltinga

Merkið á sínum stað á húsinu.
Upp úr 1980 hófst bygging íbúðarhússins í Kvistholti. Það verkefni tók talsverðan tíma, ekki síst vegna tregðu þáverandi byggingafulltrúa Marteins Björnssonar til að samþykkja teikningarnar. Bréfaskipti mín og Marteins frá þeim  tíma eru gullmolar (að mínu mati).

Framkvæmdir hófust og ég fékk Böðvar Inga á Laugarvatni til að slá upp fyrir sökklinum. Síðan tók Steingrímur Vigfússon við og gegndi hlutverki byggingameistara úr því.

Þegar kom að því að slá upp fyrir kjallaranum þótti mér það tilvalin hugmynd að útbúa merki innan á mótin og dundaði mér við það verk í pökkunarskúrnum í Hveratúni. Þarna sagaði ég niður, heflaði og pússaði trélista sem ég negldi síðan innan á mótin áður en steypubílarnir frá Steypustöð Suðurlands renndu í hlað.

Merkið sem síðan hefur blasað við hverjum þeim sem í Kvistholt hefur komið, hefur mér þótt nokkuð vel heppnað, en því var ætlað að tákna einhverskonar gróður, enda vorum við þá búin að rækta rófur, kínakál og eitthvað fleira í einhver ár og það var fyrirhugað byggja gróðurhús, sem síðan reis undir lok 9. áratugarins.  Við hófum einnig strax að landið komst í okkar umsjá að planta trjám vítt og breytt, litlum ræflum sem nú eru orðin að ferlíkjum.

Merking merkisins reyndist vel við hæfi, hér óx allt, gróðurinn og börnin og við sjálf, þó það hefði verið að mestu láréttur vöxtur.

Nú er ég búinn að teikna merkið upp og hyggst nota það sem vörumerki fyrir Kvisthyltinga, hvað sem mönnum getur fundist um það.

Ég hef ekki borið ákvörðun mína um þetta merki undir neinn í fjölskyldunni, þannig að það ágæta fólk verður bara að kyngja því, en hefur frelsi til að nota það að vild í því góða sem það tekur sér fyrir hendur.
Þetta á nefnilega að vera nokkurskonar gæðastimpill.

Ég geri mér grein fyrir að það felst talsverður hroki í því að ein fjölskylda eigi sérstakt merki, en læt mér það auðvitað í léttu rúmi liggja.

11 júlí, 2014

Keðjusagarfrúin

"Þarf að gera eitthvað fleira?" spurði ég, harla slakur, þar sem við Kvistholtshjón renndum úr hlaði stórmarkaðs í höfuðstað Suðurlands um hádegisbil í dag. Innkaupin höfðu gengið átakalaust fyrir sig og ég hafði meira að segja sýnt talsvert frumkvæði í innkaupunum, þó flest af því væri allt annað en stóð að listanum hjá fD, þar á meðal rauðrófur og chili.
"Ég ætla að kaupa keðjusög", kom svarið, eins og ekkert væri sjálfsagðara. Þó ég hafi ekki látið á neinu bera, fór lítillega um mig við þessa ákveðnu yfirlýsingu. Ég renndi meira að segja í huganum yfir það sem gerst hafði í innkaupaferðinni en fann ekkert það í henni sem gæti gefið tilefni til að keypt yrði keðjusög, en hvað vissi ég svo sem? Eitt var mér ljóst, þegar fD er búin að taka svo eindregnar ákvarðanir verður þeim ekki breytt, nema hún geri það sjálf.
"Það er nefnilega það" sagði ég því og renndi mér út úr hringtorginu í átt að annarri byggingavöruversluninni.
"Nei, ekki í þessa. Ég ætla að fara í hina". Þar með var komin fram tvöföld ákvörðun sem erfitt yrði að hagga: það skyldi keypt keðjusög í tiltekinni byggingavöruverslun, og ekki meira um það að segja.
Ég fann fljótlega leið til að snúa við, enn ekki alveg viss um hvernig ég ætti að taka þessu öllu saman, en brátt fékk ég meira að vita.
"X (sálfræðingur) sagðist hafa notað keðjusög sem hann hefði fengið hjá þessari byggingavöruverslun til að saga niður tré hjá sér og þó stofnarnir væru 40 cm í þvermál hafi sögin runnið í gegnum þá eins og hnífur smjör við stofuhita. Ég vil þannig  keðjusög". 
Nú, úr því X hafði sagt þetta, hlaut það að vera rétt. Ég velti fyrir mér örskotsstund hvort blandan sálfræðingur og keðjusög gæti með einhverju móti orsakað hættuástand á heimilinu, en sá strax að þar gæti ekki verið rökrænt samhengi.

Þar með renndum við í hlað á réttri byggingavöruverslun.

Þar innan dyra var allt í rólegheitum, en svo undarlega sem það hjómar var, eins og fyrir yfirnáttúrulega krafta, búið að raða upp á borð keðjusögum af ýmsum gerðum, beint á móti innganginum. Það sem meira var, þær voru með 25% afslætti. Á þeim, tímapunkti varð mér ljóst, að út úr þessari verslun færum við ekki keðjusagarlaus.
Ég fann á endanum afgreiðslumann sem ku vita ýmislegt um keðjusagir og sýndi honum með látbragði sverleika þeirra trjáa sem hún þyrfti að ráða við.

"Ég vil fá sög eins og sálfræðingurinn notaði". Það var fD sem kom þarna inn í umræðuna, og hafði í engu slegið af ákveðni sinni.  Þar með gengum við í halarófu inn í vélaleigusalinn. Þar kom í ljós að tiltaknar Texas vélar voru aðallega notaðar í leigunni, svo þær hlutu að vera réttu vélarnar. Það voru teknar niður tölur svo ekkert færi á milli mála. Síðan voru fest kaup á sálfræðingsvélinni, með 25% afslætti.
"Þarf að gera eitthvað fleira?" spurði ég þar sem við renndum úr hlaði byggingavöruverslunarinnar.
"Nei, ekkert fleira", og þar með lá leið í Kvistholt, með keðjusögina.
Við renndum í hlað og við blöstu tilvonandi fórnarlömb keðjusagarinnar.
"Þau eru ekki næstum því jafn sver og þú sýndir afgreiðslumanninum."
Ég kvað fD misminna um sverleika trjáa í Kvistholti sem biðu nú dauða síns.
Ég get nefnilega líka verið ákveðinn.

--------------

Ég reyndi nýlega að fá vottorð hjá Pétri þess efnis, að ég þyldi ekki búðarölt. Hann neitaði, en sagði aðeins að maður ætti að forðast það sem maður þyldi ekki.
Ég lét mynda á mér mjóbakið í dag. Kannski kemur þá í ljós að ég þoli ekki skógarhögg. Hver veit?.

Varðandi X þá vil ég ekki nafngreina hann fyrr en hann hefur gefið mér til þess leyfi.

23 júní, 2014

Línuvörðurinn sem handleggsbrotnaði

Línuvörðurinn á góðri stund til hægri á myndinni.
Það er hálfgert norðvestan áhlaup á Bolungarvík, en það kemur ekki í veg fyrir að mikilvægur leikur Bolungarvíkuliðsins og ónefnds aðkomuliðs fari fram. Áhorfendur streyma á völlinn og það er hugur í fólkinu. Korteri fyrir leik gengur á með vongóðum hrópum um að nú verðið aðkomuliðið tekið í nefið.

Dómaratríóið gerir sig klárt og allt er til reiðu, en það er ekki laust við að hann sé dálítið óöruggur með verkefni sitt þar sem hann er nýbúinn að fá réttindi til að starfa sem línuvörður í annarri deild. Það er smá hnútur í maganum; það eru aðallega rangstöðurnar sem hann kvíðir, því þær eru afar viðkvæmar og vandmeðfarnar. Ekki dregur það úr kvíðanum að eiginkonan er komin til að fylgjast með leiknum og hún er alltaf tilbúin að láta hann heyra af því ef henni finnst honum ekki takast vel upp. Þá eru börnin hans tvö einnig á leiknum og eðlilega er honum mikið í mun að takst vel upp af þeim sökum.

Þetta bara verður að ganga vel.

Það er ákveðið að hann verði á hliðarlínunni fjær áhorfendastæðunum og það er honum nokkur léttir því þá heyrir hann síður tilfallandi ónot frá mögulega ósáttum áhorfendum. Hann gætir í fyrri hálfleik þess vallarhelmings sem Bolungarvíkurliðið sækir á og áhorfendurnir eru flestir bolvískir.

Leikurinn er flautaður á og átök liiðanna hefjast. Hvorugt liðið ætlar sér að gefa þumlung eftir í því ati. Leikurinn færist fram og aftur um völlinn og hann verður ávallt að gæta þess að vera í góðri stöðu varðandi rangstöðuna, fyrir utan að verða að fylgjast nákvæmlega með hvort liðið setur boltann útaf og í hvora áttina hann á að benda með flagginu, einkennisbúnaði línuvarða.

Hann hann er farinn að mæðast, en hingað til hefur allt gengið vel. Hann er búinn að veifa á nokkrar rangstöður, athugasemdalaust að mestu, og hann hefur veifað rétt á innköstin.  Þegar líður á fyrri hálfleik á hann stöðugt erfiðara með að fylgja varnarlínu aðkomuliðsins og eftir mestu hlaupn sér hann stjörnur, en hann SKAL ekki lát á neinu bera.
Hann verður líklega að fara að hætta að reykja.

Seinni hálfleikur er flautaður á, og hann er upphafshress, telur sig munu ráða vel við þetta eftir frekar velheppnaðan fyrri hálfleik. Áfram gengur boltinn hratt villli vallarhelminga og hann verður að hlaupa fram og hlaupa til baka, aftur og aftur, ávallt einbeittur á varnarlínu Bolvíkinga, sem enn hafa ekki skorað og ekki fengið á sig mark heldur.
Skyndilega hefst enn ein stórsókn aðkomuliðsins og hann tekur á sprett með öftustu varnaramönnum, en þá vill það til að hann flækir  hægri fæti óvænt aftur fyrir þann vinstri og fellur til jarðar. Hann verður að halda veifunni í hægri hendi, en það þýðir að hann hefur bara þá vinstri til að bera fyrir sig, sem hann og gerir.
Hann heyrir smellinn greinlega.
Honum sortnar fyrir augum.
Auðvitað bægir adrenalínið mesta sársaukanum frá til að byrja með, en svo langar hann að öskra frá sér nístandi sársaukann sem heltekur hann skömmu síðar.
Leikurinn heldur áfram og það virðist enginn hafa tekið eftir honum. Leikkurinn er í járnum og hvorugt liðið ætlar að gefa færi á sér. Dómarinn fylgist einbeittur með leikmönnunum, en síður með línuvörðunum, að minnsta kosti ekki þeim sem nú reynir að brölta á fætur með illa brotinn handlegginn, veinandi inni í sér af sársauka.
Ef hann væri leikmaður væri nú þegar búði að kalla á sjúkrabíl..... en hann er línuvörður og línuverðir njóta ekki sömu þjónustu meðan á leik stendur og leikmennirnir.
Það dansa stjörnur fyrir augum hans og tárin streyma úr augunum. Hann sér allt í móðu, en er samt staðinn á fætur, staðráðinn í að standa sína plikt, en kemst fljótlega að því að það mun ekki ganga. Hann verður að fá aðhlynningu.
Þar sem hann er fjær áhorfendum, getur hann ekki vakið athygli þeirra á bágindum sínum og eina leiðin sem hann sér, sér til bjargar, er að lyfta upp veifunni og veifa. Það er hinsvegar merki um leikbrot af einhverju tagi, en ekki handleggsbrot.
Þar sem ekkert sérstakt er í gangi í leiknum hunsar dómarinn veifuna, og sendir línuverðinum skýrt merki um að svona geri maður bara ekki. Hann verður að ná athygli, svo hann heldur áfram að veifa og nú eru leikmennirnir farir að hlæja að þessum ruglaða línuverði og allir hættir að taka mark á honum. Það er ekki fyrr en aðkomuliðið missir boltann útaf og hann dæmir því innkastið, sem allt verður vitlaust og leikmenn Bolungarvíkur hnappast að honum í bræði sinni. Þá tekst honum á gera grein fyrir því, eftir langa syrpu af fúkyrðum, hvernig komið er, en það fer ekki á milli mála, þegar grannt er skoðað, að um er að ræða opið brot á vinstri framhaldlegg.
Eðlilega er brugðist við þegar þetta liggur fyrir og línuvörðurinn fær viðeigandi aðstoð.

Ekki er vitað til þess að þessi línuvörður hafi gætt línunnar eftir þetta.
Og hann reykir enn.

ps. þessa frásögn heyrði ég hjá fD fyrir stuttu, í örútgáfu, þar sem leikur í HM var í gangi og henni þótti við hæfi að trufla einbeitingu mína.  Það þarf ekki að taka fram að henni þótti þetta afar fyndið atvik. Tók það reyndar fram að línuvörðurinn, sem ekki verður nefndur hér á nafn hafi ekki enn áttað sig á hinni kómísku hlið málsins.

ps ps Ég vona að mér verði einhverntíma fyrirgefið hve frjálslega ég hef hér farið með staðreyndir málsins.

11 janúar, 2014

Sextíu árin svifin eru að baki (2)

Það var að morgni föstudagsins 27. desember, að síminn hringdi. Sá sem hringdi kynnti sig sem blaðamann á tilteknu dagblaði og að hann starfaði við þann hluta þess blaðs sem kallaðist Íslendingar. Hann spurði hvort hann mætti ræða við mig í tilefni yfirvofandi afmælis.
Þarna þurfti ég að hugsa hratt, sem ég gerði auðvitað. Eldsnöggt renndi ég yfir, í huganum allt það sem mælti með því að ég svaraði þessu játandi og allt sem mælti gegn.
Þetta eru tvær megin ástæðurnar sem mæltu eindregið gegn því að ég samþykkti að taka þátt í umbeðnu  viðtali:
1. Frá því núverandi ritstjóri tók við þessu blaði, hef ég aldrei flett því, jafnvel þó svo ég sæti einn heima hjá mér með eintak af blaðinu á borði fyrir framan mig í boði fD. Ekki hef ég heldur farið inn á vef þessa blaðs.  Já, já, lesendur verða bara að sætta sig við að svona er ég nú og ég hef ekki hugsað mér að breyta því. Með þessu móti hef ég að mörgu leyti verði sáttari við sjálfan mig en ella hefði verið.
2. Ég hef ekki tilheyrt þeirri manngerð sem telur það mikilvægt að halda sjálfum sér á lofti út á við. Þeir sem vilja sjá hver ég er, eða fyrir hvað ég stend, geta kynnt sér það. Að öðru leyti hef ég leyft umheiminum (fyrir utan þennan vettvang, auðvitað) að vera lausan við fregnir af því hverskonar snillingur ég er, að flestu leyti. Ég tel mig vera svona, eins og kallað hefur verið - prívatmanneskja eða "private person".

Þetta er það sem mælti hinsvegar með því að ég tæki í mál að taka þátt í þessum leik:
1. Ég hef stundað það nokkuð, aðallega mér sjálfum til skemmtunar, að fara aðrar leiðir en fólk á endilega vona á, og mér hefur stundum tekist að sýna á mér óvæntar hliðar. (jú, víst!)
2. Ég beiti nokkuð oft ákveðinni og fremur kaldranalegri kaldhæðni í daglegum samskiptum. (það held ég nú).
3.  Hér var um að ræða ákveðin, óeiginleg, tímamót í lífi mínu, en því gæti verið tilvalið fyrir mig að sýna nýja hlið.
4. Upp að vissu marki tel ég mig búa yfir ákveðnum húmor, ekki síst gagnvart sjálfum mér.
5. Maðurinn í símanum var afar kurteis, og virtist vera eldri en tvævetur.
6. Með umfjöllun um mig í þessu blaðið yrði minna pláss fyrir annað, sem hefði verri áhrif á þjóðina.

Eftir 5 sekúndna umhugsun samþykkti ég viðtalið, sem síðan fór fram og tók um 45 mínútur. Þar kom í ljós að viðtalstakandinn hefði alveg geta skrifað um mig án þess að hafa við mig samband, því hann gat fundið allt sem um mig var að segja með því að gúgla.
Á meðan á viðtalinu stóð gekk á með símhringingum, og ég fékk skilaboð um að það væri blaðamaður að reyna að ná sambandi við mig. Mér var farið að líða eins og einhverri mikilsháttar manneskju með öllum þessum áhuga fjölmiðlanna og það kann að hafa haft áhrif á það sem ég lét frá mér fara.
Viðtalinu lauk. Skömmu síðar hringdi síminn og þar var á ferð blaðamaður sem óskaði eftir viðtali við mig í tilefni af afmælinu. Þarna var ég orðinn heitur, og til í allt, en samt varð ekki af þessu viðtali, þar sem þessi reyndist vera frá sama blaði og hinn, og ég taldi að nóg væri að gert, þó eflaust hefði umfjöllun um persónu mína einnig farið vel, t.d. þar sem staksteina er að finna, öllu jöfnu (þá var að finna í þessu blaði þegar ég sá það síðast fyrir 5-6 árum).

Ég fékk viðtalið sent til yfirlestrar og mér var falið að senda tilteknar myndir, sem hvort tveggja gekk vel fyrir sig.

Mánudaginn 30. desember birtist svo viðtalið í þessu blaði.
Ég verð að viðurkenna, að sjálfhverfa mín olli því, að ég skoðaði umrædda opnu, en hinsvegar ekkert annað. Mér varð ekki um sel til að byrja með og þá aðallega vegna stærðar myndefnisins, en þá varð mér aftur hugsað til þeirra raka sem ég hafði fært með sjálfum mér fyrir að taka þátt og ákvað að láta þetta  ekki á mig fá.
Yngsti sonurinn lét mynd af greininni inn á samfélgsmiðil og þar tóku að birtast athugasemdir, flestar fremur jákvæðar og aðrar athyglisverðar:


Hér var á ferð samstarfsmaður minn, sem áttaði sig fullkomlega á hvað þarna var á ferðinni.
Svo kom annar samstarfsmaður, sem tók annan pól í hæðina, væntanlega í þeirri von að ég færi loks að nálgast lífsskoðanir hans, sem seint mun verða, eins og hver maður getur ímyndað sér. Það stóð ekki á viðbrögðum kvennanna, sem ávallt taka upp hanskann fyrir mig þegar því er að skipta:


Hvað sem því öllu líður fór þetta allt nokkuð ásættanlega og ég hef hafið vegferð mína inn í nýjan áratug ævinnar (reyndar hef ég vart mátt á heilum mér taka frá því afmælið skall á sökum ólukkans pestar sem á mig hefur lagst og sem óðum er að rjátlast af mér - ég hafna því að hún hafi verið áminning um að nú væri kominn tími til að hugsa málin upp á nýtt).
---
Þann 30. desember fékk ég ýmsar góðar kveðjur, þar sem mér voru eignaðir ýmsir góðir kostir, bæði að því er varðar eðliseiginleika mína og ytra útlit. Allt þetta lyftir mér upp.
Ein kveðjan, frá æskufélaga á sjötugsaldri, fékk mig til að staldra aðeins við:

Í "denn" minnist ég þess að einhverntíma hafi ég reynt að ímynda mér, hvernig komið yrði fyrir mér árið 2000. Þá yrði ég 47 ára. Sú hugsun leiddi ekkert af sér sem eðlilegt var. Ætli foreldrar mínir hafi ekki verið á þeim aldri þá og þau voru nú bara talsvert öldruð í mínum huga þá. 
Að hugsa sér sjálfan sig enn síðar, sem sextugan stútungskall, sem væri farinn að huga að starfslokum og lífeyristöku, var auðvitað enn fjær. 

Ég var við jarðarför í gær. Fyrrverandi nemandi, rétt skriðinn yfir tvítugt, lést eftir bílslys á afmælisdaginn minn. Það er skammur vegur milli lífs og dauða og þá er ekki spurt um aldur. Í þeim efnum er sanngirnin engin. 

Sannarlega vonast ég til að fá að njóta efri ára fullfrískur og þætti ekki slæmt að takst að viðhalda tiltölulega jákvæðu lífsviðhorfi - losna við að verða fúllynt og þreytt gamalmenni, en - "den tid den sorg" - ég er enn á fullu og verð, um langa hríð enn, ef......
-------------------------
Vegna tilmæla þeirra sem ekki hafa séð fjölmiðlaumfjöllun þá sem hér hefur verið vísað til:







13 desember, 2013

Andvarp tenórsins


Það var spurning hvort ætti að taka til tvo stóla eða þrjá. 
Kórfólkið streymdi að. 
Hann tók þrjá. Það hlyti að fara að rætast úr þessu. 
Þarna kom einn. Þá voru þeir orðnir tveir.
Sópranarnir streymdu inn kirkjugólfið. 
Altarnir streymdu inn kirkjugólfið.
Meira að segja birtist hver bassinn á fætur öðrum. 
En það komu ekki fleiri tenórar
Það voru komnir tíu til  fimmtán sópranar, tíu til fimmtán altar og fimm bassar. 
Tenórarnir urðu bara tveir.
Einn stóllinn var auður.

Jæja, það þýddi ekkert að vorkenna sjálfum sér.
Það var ekki annað í boði en að standa sig.
Hreinsa úr kverkunum, liðka þindina, finna hvernig kjálkarnir mýktust.
Gæta þess samt að láta ekki á neinu bera. 
Tenórar láta ekki á neinu bera.
Þeir þurfa þess ekki því þeir búa yfir hinni einu rödd - röddinni hreinu, sem tónskáldin hafa úthlutað sínum fegurstu línum.

Svo var æft. 

Yfir sópranana tíu til fimmtán risu fögru tenórraddirnar tvær.
Yfir altana tíu til fimmtán flögruðu tenórraddirnar tvær.
Yfir bassana fimm gnæfðu tenórraddirnar tvær.
Þær renndu sér um tónstigann, af leiftrandi léttleika og fyrirhafnarleysi.
Þær hittu fyrir allt sem almættinu er kærast, og það brosti af velþóknun.
Röddina einu skiptir fjöldinn ekki máli. 
Það er fegurðin sem á alltaf síðasta orðið.
Það er léttleikinn, styrkurinn, stöðugleikinn.
Það er tenórinn.



03 desember, 2013

Dramb er falli næst

Ég gæti líka tekið jákvæða nálgun á reynslu mína í dag með því að beita orðatiltækinu: Svo lengi lærir sem lifir.

Forsagan er sú að ég fór í vinnuna sem fyrr á þessu hausti og búinn með sama hætti og venja stendur til, en búnaðinum mun ég ekki lýsa því það gengi of nærri virðingu minni.
Veður var bara nokkuð gott; hafði snjóað lítillega og gekk á með rólyndislegum éljum. Allt eins og vera bar og ég sinnti minni vinnu.

Um miðjan morgun hringdi samstarfsmaður sem var á leið úr höfuðborginni yfir Mosfellsheiði, miður sín yfir að hafa ekið bifreið sinni út af í dimmu éli "um 10 mínútur frá Þingvöllum". Hann reyndist þó heppinn þar sem hann fékk fljótlega aðstoð við að koma bifreiðinni upp á veginn og kom í til vinnu á tilsettum tíma, nokkuð skekinn af reynslunni.
Í hádeginu gekk ég síðan nokkuð djarflega fram í að skjóta á borgarbarnið fyrir klaufaskapinn. Vísaði ég til dæmis til þess að svona væri það þegar fólk úr 101 færi í bíltúr upp í sveit og þar fram eftir götunum. Samstarfsmaðurinn tók þessu öllu vel þó ég viti nú ekki hvernig honum varð innanbrjósts við skotin.
Hádegið leið og ég þurfti að bregða mér stuttan spöl á Qashqai, en nú voru élin orðin þéttari og meiri. Á leið minni til baka gekk yfir svo mikið él að ég sá lítt út um framrúðuna, og þar sem ég var að beygja inn heimreiðina að vinnustaðnum, fann ég skyndilega að Qashqai fór fram af einhverju og í sama mund áttaði ég mig á því að ég hafði ekki hitt á heimreiðina og var kominn útaf. Ég ek nú á fjórhjóladrifinni bifreið, svo ég taldi þetta ekki verða mikið mál og þar sem ég þekkti staðhætti vel, gaf ég bara í til að freista þess að komast upp á heimreiðina. Þá kom auðvitað í ljós að það hafði skafið í kantinn og þar var kominn alldjúpur skafl, sem, þegar upp var staðið, reyndist fjórhjóladrifnum kagganum mínum ofviða. Ég reyndi auðvitað allt, með engum árangri, yfirgaf loks farartækið og staulaðist í gegnum skaflinn í kantinum og upp á heimreiðina í þann mund er élinu slotaði. Þarna blasti Qashqai við hverjum sem sjá vildi, æpandi vitnisburður um einstakan klaufaskap. Hver myndi svo sem trúa því að élið hefði verið svo dimmt sem það var?
Auðvitað komst ég svo að því að fólk glotti, tísti, kumraði og skellihló að aðstæðum mínum. Ég reyndi að hlæja með, en hið innra blasti við allt önnur mynd.
Sannarlega voru menn boðnir og búnir til að aðstoða og á endanum skaust Qashqai úr skaflinum, með aðstoð Kirkjuholtsbóndans. Endirinn var vissulega góður, en lexía dagsins var þörf: Ég mun framvegis sýna fyllstu hluttekningu þegar samferðamenn mínir lenda í óhöppum í aðstæðum sem ég þekki ekki.
  

23 nóvember, 2013

Sagan um veggspjaldið

Þessi texti, sem fjallar um aðdraganda þess að veggspjaldi, í tilefni af geðræktaarári Heilsueflandi framhaldsskóla, var komið fyrir í Menntaskólanum að Laugarvatni. Frásögnin var sett saman í tilefni af Jólahlaðborði STAMEL og ML og flutt um borð í fólksflutningabifreið GT á leiðinni frá Kvistholti í Efstadal. Ég geri ekki ráð  fyrir að neinn sem ekki er kunnugur málum í skólanum hafi gagn eða gaman af því að lesa þennan texta, en ég set hann hér eiginlega í geymslu.
En svona hljóðar þessi frásögn: 

Ég hef ágætan skilning á því að andrúmsloftið í Menntaskólanum að Laugarvatni hafi verið dálítð rafmagnað undanfarna 10 daga eða svo. Fyrir því eru góðar og gildar ástæður sem ég ætla að reyna að gera grein fyrir að hluta til á þessum vettvangi. Þetta er ef til vill áhættuatriði hjá mér, enda verð ég óhjákvæmilega að snerta ýmsa strengi sem eru mis viðkvæmir.

Þetta hófst, eins og það snýr að mér, þegar fyrir lá að hreyfingarárinu var að ljúka og geðræktarárið var framundan. Ég fór að heyra utan að mér að einhverjar breytingar væru í farvatninu á stýrihópnum. Þetta heyrði ég hvískrað í nágrannaskrifstofunni - engin bylting, en svona lítilsháttar andlitslyfting.

Formlega frétti ég ekki af neinum hrókeringum fyrr en ég fékk póstinn. Þar var almennur inngangur og í beinu framhaldi kom þetta:
Nú er verkefnið geðrækt eins og við vitum. Í ljósi verkefnisins og tengsla geðheilbrigðis við mætingar, ástundun og almenna líðan ert þú til í að .... vera í hópnum ?
Einstaklega vel undirbyggt, reyndar svo vel að ég sá enga undankomuleið – og svaraði því póstinum efnislega í lítillæti mínu, og var síðan boðin sálfræðiaðstoð í svari við svarinu.

Þarna fór boltinn að rúlla – við tók málþing um geðræktarárið þar sem kynnt var til sögunnar veggspjald, sem skólar gátu fengið sér að kostnaðarlausu – 1.30x2 – með ýmsum gagnlegum upplýsingum fyrir nemendur – ég og annað hópsfólk vorum á því að þiggja veggspjaldið. Það var ekki mikið testósterón á þessu málþingi. Hví?

Segir nú ekki af þessum málum fyrr en fyrir um þrem vikum, þegar pósturinn tilkynnti um stóran pakka á pósthúsinu á Selfossi, sem hann kæmi ekki í póstbílinn. Það var samdóma álit þeirra sem um fjölluðu innanhúss, að það væri gagnrýnisvert að senda svo stóran pakka með póstinum og ýmislegt fleira var sagt.

Segir nú ekki af þessum pakka fyrr en morgun einn þegar hann hafði ratað inn á skrifstofu skólameistara. Þarna reyndist maðurinn hafa átt leið á Selfoss á jeppanum. Þar tók hann pakkann, sem var reyndar alltof stór fyrir stórt farartækið. Það var ekki látið skipta máli, inn fór pakkinn, 1.30x2 þannig, að hann lá eftir jeppanum endilöngum og var sveigður yfir bílstjórasætið. Ég leyfi fólki síðan að ímynda sér þær aðstæður sem öðrum ökumönnum á Biskupstungnabraut og Laugarvatnsvegi voru búnar síðdegis þennan dag.

Næstu daga var minnst á þennan pakka, veggspjaldið, við og við, í skrifstofuumhverfinu. Ég fékk það dálítið á tilfinninguna að þarna væri kominn heitur pakki. Heita pakka þarf að meðhöndla gætilega, með þykkum vettlingum eða pottaleppum. Tilvera pakkans kom til umræðu á skrifstofu skólameistara, en þar gat hann augljóslega ekki átt framtíðarstað. Tilvera hans kom einnig til tals á skrifstofusvæðinu að öðru leyti. Þá jafnvel upp úr eins manns hljóði, sem viðbrögð við tölvupóstum. Dagarnir liðu og að því kom að tölvupóstar voru sendir á fleiri aðila og þar kom málið inn á mitt borð, vegna tengsla minna við geðræktarárs stýrihóp um heilsueflandi framhaldsskóla.

Þarna hófst eiginlega atburðarás sem fullvissaði mig um mikilvægi þess að halda svona geðræktarár. Ég treysti mér ekki, á þessum vettvangi til að lýsa, eða vitna í sendingarnar eða hver sagði hvað. Þarna var komið upp eitthvað, sem hljómaði svo einfalt en var samt svo flókið.

Í grunninn snerist umræðan um heppilegan stað fyrir veggspjaldið, sem var 1.30x2. Aðilar máls færðu rök fyrir skoðunum sínum og rök gegn skoðunum hinna eða hins. Ég leyfði mér að koma lítillega inn í umræðuna, ekki síst til að slá aðeins á hitann. Auðvitað fikraði ég mig varlega inn á hverasvæðið, enda beggja megin borðs, eins og reyndar í mörgum málum innanhúss. Ég leik nefnilega tveim skjöldum.








Margt væri hægt að ræða um póstsendingarnar í aðdraganda ákvörðunar um staðsetningu veggspjaldsins sem ekki er tími til að rifja upp hér, en með réttu eða röng kom þetta kvæði Gríms Thomsen, "Á Glæsivöllum", upp í hugann nokkrum sinnum:


Hjá Goðmundi á Glæsivöllum
gleði er í höll,
glymja hlátra sköll
og trúðar og leikarar leika þar um völl
en lítt er af setningi slegið.
Áfengt er mungátið
og mjöðurinn er forn,
mögnuð drykkjarhorn,
en óminnishegri og illra hóta norn
undir niðri er stiklunum þruma.
Á Grími enum góða
af gulli höfuð skín,
gamalt ber hann vín
en horns yfir öldu eiturormur gín
og enginn þolir drykkinn nema jötnar.
Goðmundur kóngur
er kurteis og hýr,
yfir köldu býr.
Fránar eru sjónir en fölur er hans hlýr
og feiknstafir svigna í brosi.
Á Glæsivöllum aldrei
með ýtum er fátt,
allt er kátt og dátt.
En bróðernið er flátt mjög og gamanið er grátt,
í góðsemi vegur þar hver annan.
Horn skella á nösum
og hnútur fljúga um borð,
hógværi fylgja orð,
en þegar brotna hausar og blóðið litar storð
brosir þá Goðmundur kóngur.
Náköld er Hemra
því Niflheimi frá
nöpur sprettur á.
En kaldara und rifjum er konungsmönnum hjá,
kalinn á hjarta þaðan slapp ég.
                                  (Grímur Thomsen)

Ekki dettur mér í hug að halda því fram að umfjöllunarefni kvæðisins eigi sér einhverja skírskotun í samskpti starfsfólks skólans. Mér fannst hinsvegar í lagi að lesa þetta kvæði í því samhengi sem er hér til umræðu, ekki síst í montvímunni eftir niðurstöður ráðuneytisúttektar.

Svo er það aftur að veggspjaldinu.

Um tíma virtist stefna í óefni með ákvörðun um staðsetninguna. Hugmyndir um staðsetningu fólu í sér mis mikla virðingu fyrir veggspjaldinu. Það má ímynda sér, t.d. að sú hugmynd að setja það upp á þröngum gangi kæmi til af reynslunni af flutningnum frá Selfossi. Við þessar aðstæður sá ég fram að að þurfa að beita mér af yfirveguðum þunga í málinu. Þarna sendi ég því frá mér tvo pósta og ég er eindregið þeirrar skoðunar að þeir hafi ráðið úrslitum um staðarvalið:

Í þeim fyrri segir svo:
Ég vil nú svo sem ekkert sérstaklega vera að velja á milli sjónarmiða að þessu leyti, en hallast þá að því að það væri skynsamlegra, í ljósi stöðu stofnunarinnar á Geðræktarári í verkefninu Heilsueflandi framhaldsskóli, að setja spjaldið á áberandi stað, sem ég á erfitt með að fallast á að gangurinn við fyrirlestrasalinn falli undir.

Í þeim síðari, sem endanlega gerði út um málið, að mínu mati, sagði ég þetta:
Föstudagsmorgunninn fíni
Er fullur af múskati,
gremju og dulitlu gríni
og geðræktarplakati.
Fyrir þá sem ekki þekkja muninn á múskati og matarsóda þá er múskat krydd sem maður notar lítið af og því má segja að þar sem vísan greinir frá morgni sem var fullur af múskati, þá hafi verið heldur mikið kryddað.

Það var ákveðið að setja veggspjaldið á vegginn á móti matsalnum. Þar með fór þetta stóra mál yfir á framkvæmdastig. Það þýðir nú samt ekki að fullrætt væri allt sem ræða þurfti.

Þar hefst í raun annar kafli frásagnar og mér er til efs að hægt sé að leggja þá frásögn á þennan hóp við þessar aðstæður.

Það sem þurfti að gera til að veggspjaldið kæmist upp var aðallega tvennt:
     A. Það þurfti að skrifa inn á það upplýsingar sem er sérstakar fyrir okkar svæði.
     B. Það þurfti að koma því á sinn stað með fagmannlegum hætti.

Í staðsetningarákvörðunarferlinu var aðeins eitt sem þurfti að ákveða, og því er lýst nokkuð hér að framan. Nú þurfti að ákveða tvennt sem síðan þurfti að framkvæma. Mér þótti vandséð hvernig það gæti gengið, enda kom í ljós að það ferli varð síst einfaldara en hitt.

Hópsformaðurinn tók saman, í talsvert löngu máli, upplýsingar um helstu stofnanir og fyrirtæki í grenndinni sem honum þótti rétt að geta á veggspjaldinu – sendi þessar þetta tillögur sínar á hópinn með óskum um athugasemdir eða fleiri tillögur, með engum árangri, en það eru nú yfirleitt örlög slíkra tölvupóstsbeiðna. Þannig stóð það mál þegar kom að því að ákveða hver skyldi rita upplýsingarnar á veggspjaldið. Þar reyndust margir kallaðir, en aðeins einn var á endanum útvalinn, en þá var staðan orðin sú, að sá sem fenginn hafði verið til að setja veggspjaldið upp (það mál var afgreitt á hinni stóru skrifstofunni) kom til að framkvæma verkið, þá hafði skriftarmálið ekki verið útkljáð, sem kostaði þar með fýluferð uppsetningarmannsins.

Það mun hafa verið skotið á stuttum fundi til að stilla saman strengi. Tími var ákveðinn, skrifarinn fékk embættið og allt var klárt. Sú yfirlýsing uppsetningarmannsins, að hann kæmi ekki fet fyrir en búð væri að ganga frá skriftinni, varð síður en svo til að tefja fyrir framkvæmd hennar.

Veggspjaldið var lagt á borð í mötuneytinu. Því næst þurfti að ræða margt:

Hve nákvæmar ættu upplýsingarnar að vera
Hvernig átti að raða þeim
Átti skriftin/letrið/upplýsingarnar að halla með tilteknum hætti
Hve stórt ætti letrið að vera, átti það kannski að vera misstórt
Átti að skrá þarna einkafyrirtæki.
Hve langan tima átti ritarinn að fá til að æfa sig.
Það má nærri geta að þetta ferli allt tók á, en ég var þarna þátttakandi í aukahlutverki, silent partner, en með tillögurétt.

Þegar settur hefur verið lokafrestur á verk þá lýkur því á lokafresti á Íslandi, ekki fyrr og ekki seinna. Þannig var það einnig með þetta verk.

Uppsetningarmaðurinn kom fet á tilsettum tíma og tókst á við sinn hluta verkefnisins af festu. Verk hans hefði ekki gengið jafn vel og raun bar vitni ef ekki hefði komið til ómetanleg aðstoð frá brytanum, sem var matarlega séð með allt á hreinu fyrir hádegisverðinn og mér, sem hef innsýn í ótrúlegustu kima mannlífsins – hokinn af reynslu og víðsýni.

Veggspjaldið er komið upp og fyrir óinnvígða gerðist að algerlega hnökra- og vesenislaust. Sagan hér að framan greinir frá litlu broti þess sem gerðist undir niðri.

Ég gæti auðveldlega tekið fyrir önnur mál sem hafa verið ofarlega í umræðunni innan stofnunarinnar að undanförnu. Það verður að bíða betri tíma. Eitt þeirra er enn á tölvupóststigi og þar er heldur bætt í en hitt.


Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...