Sýnir færslur með efnisorðinu Dagskráin. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu Dagskráin. Sýna allar færslur

22 ágúst, 2017

Ég, lestrarhesturinn

Þetta er nú bara sett hér inn í geymslu.
Fyrir nokkru fékk ég eftirfarndi sendingu í skilaboðum á samfélagsmiðli:

Heill þér Tungnamaður : - )
Ég sé um Lestrarhestinn í Dagskránni og leita að fólki sem les bækur.
Má ég senda þér spurningar sem þú færð sjö heilaga daga til að svara?
Að því loknu sendir þú mér svörin ásamt vænlegri mynd og ég les yfir og bý til fyrirsögn og svo birtist það í Dagskránni fljótlega

Eftir nokkur orðaskipti varð úr að ég tók þett að mér, fékk sendar spurningarnar og þegar tími vannst til, svaraði ég þeim eftir bestu getu.   Afraksturinn birtist síðan í Dagskránni þann 17. ágúst. 
Um þetta hef ég ekki fleiri orð, en þetta er hinn óritrýndi texti sem frá mér fór.
---------------------------------------------------
Helstu punktar um æviskeiðið
Ég fæddist og ólst upp í Laugarási í Biskupstungum fyrir allmörgum árum. Þar hef ég eytt lunganum úr ævinni, síðustu áratugina með eiginkonunni Dröfn Þorvaldsdóttur, leikskólakennara, en börn eignuðumst við fjögur. Foreldrar mínir voru Guðný Pálsdóttir, frá Baugsstöðum í Flóa og Skúli Magnússon, garðyrkjubóndi, sem eyddi æsku og unglingsárum á Héraði áður en hann hélt suður á bóginn.
Ég lauk stúdentprófi frá Menntaskólanum að Laugarvatni 1974, BA prófi í ensku og uppeldisfræði, auk diplómanáms í opinberri stjórnsýslu frá HÍ. Eftir þetta tók stafsævin við, en ég byrjaði sem grunnskólakennari í nokkur ár. 1986 kom ég til starfa í ML, fyrst sem enskukennari, bætti síðan námsráðgjöf við og loks stöðu aðstoðarskólameistara. Frá þessu hausti lýkur opinberum starfsferli mínum og annað tekur við.

Hvaða bók ertu að lesa núna og hvað vakti áhuga þinn á henni?
Að langmestu leyti nota ég lestur til að skapa aðstæður fyrir góðan nætursvefn. Þær bækur sem ég les til að ná því arna eru aðallega þess eðlis að falla ekki undir það sem kallað er „fagurbókmenntir“, heldur nær því sem kalla má „léttmeti“. Bókin sem ég er að lesa einmitt um þessar mundir er spennuþrungið léttmeti af þessu tagi.

Hver er uppáhalds barnabókin þín og hvers vegna?
Af einhverjum ástæðum kemur Bláskjár, eftir Franz Hoffmann alltaf fyrst upp í hugann þegar ég hugsa til barnabóka. Þessi bók hafði töluverð áhrif á mig á sínum tíma. Hinsvegar las ég heil reiðinnar býsn sem barn og unglingur; lagði helst ekki frá mér bækurnar fyrr en þeim var lokið og þá skipti tími sólarhrings engu máli. Þetta voru bækur Ármanns Kr. Einarssonar og Stefáns Jónssonar meðal annars. Einnig kom Enid Blyton sterk inn auk þess sem ég held að ég hafi lesið allar bækurnar um kappann Bob Moran og Hauk flugkappa, svo eitthvað sé nefnt. Svo þróaðist smekkurinn eftir því sem árin liðu þó vissulega gætu einhverjir talið hann fremur óþroskaðan enn þann dag í dag.

Segðu frá lestrarvenjum þínum?
Ég las mikið alveg fram á fertugsaldurinn. Svo dró bara einhvern veginn smátt og smátt úr því án þess að ég tæki í rauninni eftir því. Skýringuna uppgötvaði ég síðan þegar í ljós kom að ég þurfti orðið að nota lesgleraugu. Eðlilega þurfti ég að lesa heilmikið vegna vinnunnar, aðallega bókmenntaverk eftir breska og bandaríska ritjöfra. Í gegnum þann lestur áttaði ég mig á muninum milli vandaðra bókmennta og léttmetis, en hann felst, að mínu mati, í því að það er hægt að velta fyrir sér ræða það fyrrnefnda. Hið síðarnefnda styttir stundir, kryddar og stuðlar að slökun, svona rétt eins og svefninn sjálfur, en um hann segir Shakespeare í Makbeð:
„... svefninn góða,
sem greiðir flókinn rakþráð vorra rauna,
er hvers dags ævilok og stritsins laug,
særðum hug balsam,
best og hollust næring,
sem lífið ber á borð."

(Makbeð. Þýð. Helgi Hálfdánarson)

Hvers konar bækur höfða helst til þín?
Höfða til og höfða til. Eftir því sem árunum fjölgar hefur áhuginn á sögulegu efni vaxið, ekki kannski vegna áhuga á sögunni sem slíkri, heldur til þess að taka saman brot héðan og þaðan og skrifa síðan sjálfur um sögulegt efni, aðallega sem tengist nærumhverfi mínu. Ég er meira og minna lesandi allan daginn, en þar er ekkert eitt sem upp úr stendur.

Er einhver bók eða skáld sem hefur haft sérstaklega mikil áhrif á þig? Hvers vegna?
Ég er ekki þeirrar gerðar að halda upp á rithöfunda eða skáld. Vissulega ólst ég upp við þá hugmynd að bækur skiptu máli á hverju heimili. Fyrir um 30 árum fékk ég tilboð um að kaupa Íslendingasögurnar og Laxness eins og hann lagði sig með afborgunum. Ég stóðst ekki mátið og rökstuddi þetta fyrir sjálfum mér og frúnni sem svo, að með kaupunum myndi ég hafa nóg að lesa þegar ég kæmist á eftirlaun. Þá sá ég auðvitað ekki fyrir þá þróun sem orðin er og sé nú fram á að reyna að skipta tímanum réttlátlega milli Facebook og Gísla sögu Súrssonar eða Heimskringlu. Það verður eitthvað. Þar fyrir utan stend ég frammi fyrir því að þurfa að fara losa mig við bækur, sem stöðugt safnast inn á heimilið. Vonandi þurfa þær ekki að enda í pappírsgámi, en bókasöfn teljast ekki lengur sérlega ákjósanlegur arfur.

Ef þú værir rithöfundur hvernig bækur myndir þú skrifa?
Ég myndi annarsvegar skrifa hugljúfa spennusögu í þó nokkrum bindum (svona í Taggart-stíl). Sagan myndi gerast í heimavistarframhaldsskóla, þar sem enginn dagur væri öðrum líkur; hver uppákoman tæki við af annarri meðal nemenda og starfsfólks ekki síður. Þar væri að finna fjölbreyttan hóp skrautlegra persóna sem myndu lenda í ótrúlegustu ævintýrum. Aðalpersónan, húsbóndinn á heimavistinni, myndi verða miðpunkturinn í þessari sögu, enda bærust flest málin inn á hans borð til úrlausnar. Ég held ég skelli mér bara í að skrifa fyrsta hluta.
Hinsvegar myndi ég skrifa ljóðabókina „Þorpið í skóginum“ sem innihéldi prósaljóð af dýrasta tagi.

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...