Hvað í ósköpunum kemur okkur það við þótt Bandaríkjamenn fagni einhverjum atburði í sögu sinni?
Hvað í ósköpunum kemur okkur það við að verslunarmenn í Bandaríkjunum hafi tekið upp þann sið að marka upphaf jólaverslunar með einhverjum tilboðum og valið til þess daginn eftir þakkargjörðardaginn sinn?
Er ekki komið alveg nóg af þessari gagnrýnislausu eftiröpun á öllu því sem amerískt er?
Mér finnst Íslendingar gera óskaplega lítið úr sér með þessum hálfvitagangi.
Ekki bætir svo úr skák þegar verslanir geta ekki lengur þýtt heitið á þessum föstudegi bara yfir á íslensku og kallað hann "svartan föstudag". Nei, annaðhvort verður hann að kallast "Black Friday", eða það sem jafnvel enn skelfilegra: "S V A R T U R F Ö S S A R I" Almáttugur.
Ef einhverjir skyldu nnú ekki átta sig á samhenginu þá er þetta m.a. sagt á Vísindavefnum um Þakkargjörðardag Bandaríkjamanna:
Fyrsta þakkargjörðardaginn héldu enskir púrítanar, svonefndir pílagrímar, haustið 1621. Þeir höfðu í september árið áður hrökklast með skipinu Mayflower frá borginni Plymouth á Englandi að strönd Massachusettsflóa. Þar stofnuðu þeir nýlenduna Plymouth. Eftir harðan vetur en góða sumaruppskeru ákváðu pílagrímarnir að þakka Guði fyrir alla hans velgjörninga með þriggja daga hátíð. Þeir buðu innfæddum einnig að taka þátt í veislunni, en til matar voru einkum kalkúnar og villibráð.Svo leiddi eitt af öðru:
Árið 1863 mælti Abraham Lincoln (1809-1865) forseti svo fyrir að allir Bandaríkjamenn skyldu halda hátíðlegan þakkargjörðardag fyrir gæði síðasta árs. Hann skyldi haldinn síðasta fimmtudag í nóvember, en sá dagur var í nánd við daginn sem George Washington gaf út yfirlýsingu sína. Ritstjóri kvennablaðsins Lady’s Magazine, Sarah J. Hale (1788-1879), hafði þá lengi barist fyrir þessu máli. Árið 1939 breytti Franklin D. Roosevelt (1882-1945) forseti dagsetningunni í fjórða fimmtudag nóvembermánaðar og bandaríska þingið staðfesti tillögu hans árið 1941.Er einhver sérstakur skortur á dögum til að gera sér dagamun á þessu landi elds og ísa?
Það getur verið að svona séum við bara: að hingað hafi flykkst forðum fólk af sömu tegund og nú er nýbúið að kjósa stórundarlegan forseta yfir sig vestanhafs. Það eru ýmis merki þess að við höfum gert slíkt hið sama hér og meira að segja orðið á undan "frændum" okkar fyrir westan.
Ég vil hinsvegar skrifa þetta að stórum hluta að endalausa ásókn okkar í bandarískar sápuóperur og mátt fjármagnsins, sem dregur okkur til að kaupa það sem við höfum ekki raunverulega þörf fyrir.
Hættum þessari vitleysu.
---------------------
Það er enginn ritstjóri sem metur þessi skrif áður er þau fara í loftið, nema ég, sem kýs að láta mér vel líka.
Þetta var blástur dagsins og ég get þar með farið að hugsa um eitthvað uppbyggilegra.