Sýnir færslur með efnisorðinu heimsmálin. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu heimsmálin. Sýna allar færslur

03 apríl, 2015

Að eiga kökuna og étana

Álftirnar kvökuðu í morgun þar sem volgran frá lóninu rennur í Hvítá og ég freistaði þess að láta sem ég svæfi, en vissi að það myndi ekki leiða til þess að það yrðu úr því einhver raunverulegur svefn. Sú varð heldur ekki raunin. Ég er farinn að sjá afskaplega margt jákvætt við að þurfa ekki að sofa langt fram eftir morgni. Eitt af því sem gefur morgnum gildi er tækifærið sem þeir veita manni til að velta fyrir sér stóru málunum. Gallinn við þær vangaveltur, hinsvegar er, að þær verða ekkert nema vangaveltur. Sannarlega tekst mér að leysa mörg stór mál í huganum, en jafnskjótt geri ég mér grein fyrir tilgangsleysi pælinganna og þeirra lausna sem spretta fram í hugskotinu.

Hér læt ég fylgja eitt dæmi um það sem ég nefni hér fyrir ofan.

Ég hef lengi velt fyrir mér hversvegna þessi þjóð horfir meira vestur yfir haf, til Bandaríkja Norður Ameríku þegar leitað er fyrirmynda eða lausna á verkefnum í íslensku samfélagi, en til þeirra þjóða sem næst standa okkur sögulega og landfræðilega. Mér hefur fundist þetta undarlegt og illskiljanlegt. Hér á ég t.d. við eftirfarandi:

- ameríski daumurinn og sá íslenski fela í sér það sama. Hér á einstaklingurinn hafa hafa frelsi til að verða ríkur og frægur. Þennan draum ala menn með sér þó möguleikarnir virðist oftast harla litlir. Þeir eru valdir til forystu sem lofa peningum í vasann, jafnvel þó það sé ekki það sem lofað er í raun. Það hljómar bara svo vel.

- foreldrar líta á það sem skyldu sína að borga allt uppihald og skólagöngu fyrir börnin sín og finna hjá sér þörf til að safna í sjóð "college fund" í því skyni.

- það eiga að vera lágir skattar og á móti á fólk að þurfa að greiða sérstaklega fyrir heilbrigðisþjónustu og skólagöngu barna sinna.

- ljósvakafjölmiðlar keppast um áhorf með auðmeltu afþreyingarefni sem að mestu eru framleitt í Bandaríkjunum, þar sem "góði kallinn" sigrar og amíslenski draumurinn fær að rætast.

- það er horft til dollarans þegar rætt er um nýja mynt.

- unga fólkið fer á "deit" og það gefur Valentínusardagsgjafir.

Ég gæti tínt margt til sem bendir til þess að þessi þjóð þrái að líkjast þjóðunum sem byggja risaveldið í vestri, en ég nenni því bara ekki.

Skv uppl. frá Hagstofu Íslands. Ef rennt er yfir dagskrá
Stöðvar 2 og Skjás 1s blasir við að stærstur hluti erlends
efnis á uppruna í Bandaríkjunum.
Áhrif þessa á þjóðarsálina þurfa ekki að koma á óvart.
Á sama tíma og þráin eftir að "meikaða" eða verða rík og fræg einkennir þjóðina, með öllum þeim óstöðugleika sem því fylgir, eru háværar kröfur um að við fáum að njóta þess sem kallað er "norræn velferð". Ef fólkið "meikar" það ekki á þessu landi og fær ekki fullnægjandi aðstoð þegar ekkert gengur, þá er horft til nágrannalandanna þar sem, jú, skattar eru háir, en launin eru hærri og samfélagið veitir á móti þjónustu án endurgjalds. Þar er ekki greitt fyrir læknisþjónustu, túlkaþjónustu og skóla svo einhver dæmi séu nefnd.  Þessi samfélög eru kannski ekki mjög spennandi fyrir fólk sem elur í brjósti sér íslenska drauminn. Þau eru  fyrirsjáanleg og kannski frekar leiðinleg að einhverra mati, en veita á sama tíma öryggi og stöðugleika.

Lukkuriddarar samtímans berja á því að þetta land sé land hinna frjálsu, land möguleikanna, landið þar sem fólkið getur orðið svo óendanlega ríkt af veraldlegum auði. Það er minna gert úr því að þetta sé ef til vill einnig landið þar sem yfirborðsmennska, populismi, sjálfsdýrkun og plebbaskapur eru helstu einkennin.

Ég held að fari ekkert á milli mála hvora tegund þjóðfélags ég aðyllist. Þessi þjóð veit hinsvegar varla í hvorn fótinn hún á að stíga.



26 október, 2010

Það má auðvitað ekki segja það, en.......

Endalok vestrænnar menningar eru framundan. Þetta er í það minnsta skoðun Margrétar Pálu, helsta forvígismanns svokallaðrar Hjallastefnu, eins og ég skildi viðtal við hana í útvarpinu í morgun.  Ég hef oftar en ekki verið sammála því sem þessi ágæta kona hefur fram að færa, ekki síst varðandi uppeldismál.  Auðvitað verð ég að viðurkenna, að ég heyrði ekki nema hluta viðtalsins, þann hluta þar sem hún tjáði þá skoðun sína að við í hinum vestræna heimi  stæðum frammi fyrir því, innan ekki svo langs tíma, að menningarheimur okkar líði undir lok. Þessi skoðun féll umsvifalaust að því sem ég hef stundum verið að velta fyrir mér. Það sem ég velti stundum fyrir mér er þess eðlis að það er eins gott að hafa ekki hátt um það í veröld rétttrúnaðarins.

Ég ætla nú, þó í litlu sé, að láta vaða.

Já, við erum sem sagt á fallandi fæti, vestræn samfélög. Við eigum ógrynni veraldlegs auðs, við menntum börnin okkar upp úr öllu valdi, við erum nánast að verða guðir að eigin mati (eigum að geta allt) og þar með verðum við stöðugt sjálfhverfari með þeim afleiðingum að við eignumst færri börn, því þau trufla allsnægtalífsstíl okkar.
Með þessu móti getur ekki farið öðruvísi en svo, að okkur fækki. Það þýðir ekki að þeim störfum sem sinna þarf fækki - ef eitthvað er þá fjölgar þeim, því við krefjust æ meiri þjónustu. Einhverjir verða að taka þessi störf að sér. Þá tökum við okkur til og flytjum inn vinnuafl, sem oftar en ekki tilheyrir ekki sömu menningarelítunni og við og dundar sér enn við að fjölga mannkyninu, eins og vera ber. Með árunum fer síðan að myndast misvægi. Þjónarnir okkar verða hluti af þjóð okkar og fara að gera kröfur um réttindi og betri störf, ekki síst í krafti fjöldans.  Þá vöknum við upp við vondan draum, en bara of seint. Þá þýðir nú lítið að tala um fullveldi, auðlindir og menningararf.

Við gerum þá kröfu, að ungarnir okkar verði meira og minna hlaðnir menntagráðum af ýmsu tagi (væntanlega til upphafningar á okkur sjálfum). Það verður að viðurkennast, einfaldlega vegna þess að það er ekki hægt að bera móti því, að það eru bara tiltölulega fáir sem eru þannig innréttaðir, að þeim henti langskólanám. 
Við í þessu landi höfum skellt við þessu skollaeyrum og opnum allt fyrir öllum sem vilja, með þeim afleiðingum, smám saman, að námið þynnist út og verður í raun harla ómerkilegt ef grannt er skoðað, ekki síst þegar háskólar (hugsið ykkur ef að það væru 7 háskólar í 300000  manna borg í öðrum löndum) eru farnir að keppa um nemendur, með þeim afleiðingum, að námið er gert léttara og styttra = innihaldsrýrara.

Til þess að vera ekki að lengja mál mitt úr hófi ætla ég að lýsa því, afar stuttlega, hvernig og hversvegna ég við breyta íslensku menntakerfi.
1. Tiltekinn, fámennur hluti þjóðarinnar lýkur háskólanámi eða sambærilegu verk- og/eða listnámi. Við þurfum ekki fleiri í þennan geira, ekki síst ef skoðaður er sá skaði sem "hámenntaðir" vanvitar hafa komið til leiðar á undanförnum áratugum. Þetta væri nám sem gerði miklar kröfur, enda veldust þangað aðeins þeir sem sannalega væru til þess færir. Ég vil setja spuningamerki við þörfina á því að allt það nám sem nú er á háskólastigi þurfi að vera þar.

2. Tiltekinn, stór hluti þjóðarinnar lýkur hóflegu námi, einhversstaðar í grennd við það sem nú er sveinspróf eða stúdentspróf. Hérna væri bara venjulegt fólk, sem hefði síðan góðan námslegan grunn til að halda "hjólum atvinnulífsins" gangandi svo vel væri.

3. Tiltekinn, hóflegur hluti þjóðarinnar lýkur grunnnámi og tekur að sér þjónustu og framleiðslustörf (ég held jafnvel að þetta sé varlega áætlað). Hér væri það ágætis fólk sem sæi hag sínum best borgið með því að vera ekkert að braska í einhverju sem það hefði engan áhuga á hvort sem væri.

Ég er búinn að horfa upp á, í bóknámsframhaldsskóla, fólk sem er afburðanemendur á því sviði, en jafnframt ósjálfbjarga á öðrum sviðum. 
Ég er líka búinn að horfa upp á afskaplega öfluga einstaklinga sem eru algerlega áhugalausir um bóklegt nám þó svo allt leiki í höndunum á þeim. 
Þá er ég er búinn að horfa upp á einstaklinga sem eru gjörsneyddir getu og/eða vilja til náms af þessu tagi, kveljast einhvern veginn áfram með stöðugt dvínandi sjálfsmynd.

Ekki fer ég í grafgötur um að þessar skoðanir muni víða falla í grýttan jarðveg hjá okkur sem er svo annt um frelsi og velferð einstaklingsins. Auðvitað er ég sammála því, að best væri ef þetta gæti gengið fyrir sig án þess að til kæmu þröskuldar og kröfur, en með þessum skrifum er ég nú bara að hugsa um það sem kæmi sér best fyrir samfélagið í heild (Nú - bara kommúnísti!)

Þegar upp er staðið, ættum við að velta fyrir okkur (þessi hamingjusama þjóð) í hverju raunveruleg lífshamingja felst.  Einnig má velta fyrir sér hvort sérfræðimenntun sé ekki, þegar allt kemur til alls, eftirsókn eftir vindi.

Þá er ég búinn að koma þessu frá. Þetta þokast :)

Sæludagar í sandkassanum (12 - LOK)

Framhald af þessu Þannig er það víst alltaf, að það sem byrjar á annað borð, því lýkur á endanum. Þannig var það einnig með þessa ferð til D...