Sýnir færslur með efnisorðinu Stokkseyri. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu Stokkseyri. Sýna allar færslur

09 janúar, 2016

Formannavísur á Stokkseyri 1891

Sigurður Pálsson á Baugsstöðum

Ég verð seint talinn til hóps þess fólks sem ber skynbragð á sjósókn á einhverjum tíma. Þrátt fyrir það á ég ekki langt að sækja tengsl við sjómenn og þá aðallega vegna þess að móðir mín, Guðný, fæddist á Baugsstöðum í Stokkseyrarhreppi og þar bjuggu foreldrar hennar Elín Jóhannsdóttir og Páll Guðmundsson og bræðurnir Siggeir og Sigurður. Af þessum hópi er Sigurður einn eftir og býr enn í gamla bænum, en hann fæddist 1928 og er því 87 ára um þessar mundir.  Hjá Sigga er flest með sama hætti og hjá foreldrum hans. Hann setur upp jólatré sem langafi minn smíðaði og býr yfir mikilli þekkingu á ættarsögunni.


Sjóbúðir á og í grennd við Baugsstaði
Foreldrar afa míns og ömmu bjuggu einnig á Baugsstöðum og þaðan voru stundaðir sjóróðrar á opnum bátum og ég  man eftir þeim síðasta sem var kallaður Græðir. Ég geri fastlega ráð fyrir að um útgerðina frá Loftsstaðasandi hafi þegar verið skrifað heilmikið þó ekki viti ég það. Þó svo væri ekki, yrði það aldrei mitt hlutverk að færa þá sögu í letur.


"Frá Baugsstöðum" - sjóbúðir

Það sem varð til þess að ég set inn þessa færslu voru 45 vísur sem ég rakst á úr fórum foreldra minna. Ekki veit ég hvort þær eru þegar til á prenti, en geri þó frekar ráð fyrir því, hef að minnsta kosti séð nokkrar þeirra í vísnaþáttum héraðsfréttablaða.

Höfundur vísnanna: Magnús Teitsson

Þetta er meðal þess sem ég fann um Magnús:
Magnús Teitsson (1852-1920) fæddist í Kolsholti í Villingaholtshreppi, var formaður í Garðbæ á Stokkseyri, síðar á Brún á Stokkseyri. Foreldrar hans voru Teitur Jónsson bóndi í Vallarhjáleigu í Gaulverjabæjarhreppi og kona hans Kristrún Magnúsdóttir.
Árið 1920 dó á Stokkseyri aldraður maður, Magnús Teitsson að nafni. Hann var ættaður af Eyrum og mun hafa átt þar heima alla sína ævi. Aðalatvinna hans framan af ævi voru sjóróðrar á vetrum og kaupavinna á sumrum. Stundum var hann líka háseti á þilskipum við Faxaf lóa, er sá útvegur tók að færast í aukana. Magnús var vel verki farinn og hinn hagasti, að hvaða verki sem hann gekk. Kunnastur er hann samt fyrir hinar smellnu vísur, er hann hafði jafnan á hraðbergi, því að hann var prýðilega hagmæltur og oft ótrúlega fljótur að koma saman vísu.
 Magnúsi er svo lýst, að hann hafi verið tæplega meðalmaður að hæð, en þrekinn og svarað sér vel, og beinvaxinn var hann fram á elliár. Hann var kringluleitur, réttnefjaður, fullur að vöngum og nokkuð kinnbeinahár. Hann var ekki ennismikill né höfuðstór. Það sem einkenndi hann sérstaklega frá öðrum, voru augun, þau voru fremur lítil, dökkmóleit, eldsnör og gáfuleg. Hann var dökkur á hár og skegg, alskeggjaður, og yfirskeggið úfið. Hann tók í nefið, og vildi þá neftóbak hnoðast í hið úfna yfirskegg og loka nösunum. Þess vegna hóf hann oft mál sitt með því að blása snöggt út um nefið. — Vín þótti honum mjög gott.  

Hér eru vísur Magnúsar um formenn á Stokkseyri 1891

Formennina veit ég ekkert um og flestar vísnanna skil ég hreint ekki. Það getur vel verið að þarna finni einhver vísu um langafa sinn.

Það skal heyra þjóðin svinn
þá, sem keyra um skervöllinn
fiska leira fákinn sinn
frá Stokkseyri um veturinn.

Adólf keyrir kaðla jó
kalt þó heyrist Ránar hó
örum meiri áls um mó
á Stokkseyri halur bjó.

Afla notar alvanur
ára gota framsettur
á keilu slotið kappsamur
frá Keldnakoti Bernharður.

Bensi ferðast fiska um lá,
fín þó skerðist lognin blá,
aðsókn herðir ötull sá,
Íragerði vestra frá.

Askinn fjarða um ýsu lá,
ei þó skaði bylgjan há,
blágóms jarðir beitir á
Bárður, Garði ytra frá,

Út á stikar ægi lon
á árablika í happa von,
breið þó lyki bláleits kvon,
Bjarni Nikulásarson.

Brátt ef slotar bylgjan há,
ber sig otalandi frá
báru gota á byrðings lá,
Bjarni, koti Hellu frá.

Flæðar músa frambrunar
frekt og knúsar bárurnar
bjargar fús um breiðan mar
Bjarni í húsi Símonar.

Ört, nær liggur aldan stinn,
ára Frigg á skervöllinn,
otar hygginn æ hvert sinn
Einar byggir Pálsbæinn.

Fokku barða fetar á,
frek nær skarðar kólgan há,
alúð sparar enga sá,
Einar, Garðhúsunum frá.

Siglu bolla um síla lá
setur holt í afla stjá
með ýta stolta á öldu blá,
Einar, holti Borgar frá.

Borða kjóa beita má,
breið þá hói aldan grá,
gedduflóa gruggið á
Grímur, Móakoti frá.

Árna kiði á öldu knur
ýtir sniðugt hugaður,
straums á iðu stöðugur,
Steindórs niður, Guðmundur.

Oft þó heyrist hrönin blá
Halldór keyrir neglu má,
hjá Stokkseyrarseli
siglir leirinn mjaldurs á.

Þó Ægir vaði öflugur
ára naðinn framsetur
á keilu traðir kappsamur,
Kolbeinsstaða Hallgrímur.

Hannes eigi hræðast má,
hátt þó geygi röstin blá,
ríður fleyi Roðgúl frá
rastar veginn breiðan á.

Ingvar Karels kundur snar,
kalt þó svari hafmeyjar,
lætur fara fokku mar
fram á þara leiðirnar.

Létt þó blundi báru són,
borða hundi laus við tjón,
Vernharðs kundur vaskur, Jón
vel fær heundið sels á lón.

Hvals á frón hinn hugdjarfi
hlunni lóna stýrandi,
gildur þjónar gæfunni
gætinn Jón í Framnesi.

Eins þó láar ærist knur,
aflann háa Jón finnur,
Holti frá um haföldur
hestinn ráa fram setur

Jón þó sveimi jötuns gól,
jóinn teymir ára á ról,
ekki feimins áls á ból,
á nú heima á Rauðárhól.

Á húna kiði ei hræðist tjón,
hátt þó iði bylgju són ,
þræðir sniðugt þorska lón
Þórðar niður, ungur, Jón.

Flæðar keyrir fákinn sinn
á fiska leirinn vel heppinn,
þó jötuns heyrist jögunin,
Jón, Stokkseyrar húsbóndinn.

Dvergasteinum dregur frá,
djarft þó veini bylgjan há,
Jón, með sveina um síla lá
sinn að reyna kaðla má.

Jafnt þó brúsi báru frón,
borða krús á mjaldurs lón,
ýtir fús með afla bón,
á Móhúsum bóndi, Jón.

Eins þó blekki báran há,
bila ekki stjórinn má,
öllum þekkur ýtum sá,
ungur Kekki, Jón er frá.

Þó virða lýi veðra þrá,
viskustiginn sigla má,
húna kríu á höfin blá
hann Júníus, Seli frá.

Áls um bungu æ forsjáll
ára lungi beitir þjáll,
þó seltu drungi sýnist háll
sonur ungur Þórðar, Páll.

Pálmar keyrir kaðla, dýr,
kaldan þeyinn ekki flýr.
Áls á leirinn ötunn, skýr,
á Stokkseyri núna býr.

Dreka hnellinn ára á,
þó aldan skelli flúðum hjá,
mjaldurs svellið miðar á
Magnús, Helli kominn frá.

Magnús beitir ára örn,
áls um bleytu reynir vörn,
borinn Teiti um byrðings tjörn,
þó báran þeyti reiði gjörn.

Hafs á fletin, hugdjarfur,
hlunnjó setur öflugur,
aflann metur auðfengur,
Árna getinn, Sigurður.

Sigurð glaðan met ég minn,
más um traðir velheppinn,
keipa að hlaða kak fann sinn
Kalastaða húsbóndinn.

Fokku hundinn framsetur,
fyrr en blundar hræsvelgur,
hafs á grundu hugaður,
Hinriks kundur, Sigurður.

Teignum beina ferðast frá,
frek þó kveini aldan blá,
Siggi á hreina sela lá,
sigluteina jónum á.

Hrauk frá gengur, hugaður,
hót ei lengur við dvelur,
síls á engi, Sigurður,
sínum drengja hóp meður.

Upp þó skvettist ýsu frón,
orkumettur, laus við tjón,
aflar þétt á ára ljón
einn frá Stéttum, Sigurjón.

Eins þó bralli aldan blá,
ekki hamla ferðum má,
djarft að svamla um síla lá,
Símon, Gamla hrauni frá.

Lungi hröðum ára á,
oft með glöðum huga sá,
lýsu tröðum löngum  á,
Leiðólfsstöðum, Snorri, frá.

Sturlaug fúsan svo ég sá,
sigla brúa um löginn blá,
stýra húsum Starkaðs frá,
stór ei knúsan gæfan má.

Þórður ráa þægum gant,
þeysa náir, laus við stant,
Skipum frá um laxa lant,
liðugt gáinr, tefji brant.

Torfi Söndu treður frá,
tjóni og gröndum horfinn frá,
keipa bröndusina sá,
sesttur löndin karfa á.

Öldu glaði ýta má
ei hann skaðar bylgjan há,
þá með hraða um þorska lá
Þórður Traðarholti frá.

Þröst á fjala þéttur gengur,
Þorkell, valinn Magnús bur,
hátt þó gali Hræsvelgur,
heppinn talinn, formaður.

Ýta og fljóðin æ hvert sinn,
annist góður drottinn minn,
svo má þjóðin, þýð og svinn
þylja ljóðin, stirðkveðin.






Litlir kallar og litlar kellingar

Heilsugæslustöðin í Laugarási á vígsludegi 1997 (mynd: Jónas Yngvi Ásgrímsson) Ég hefði óskað þess, að fyrstu dagar nýs árs yrðu ánægjulegri...