Sýnir færslur með efnisorðinu Icelandair. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu Icelandair. Sýna allar færslur

10 ágúst, 2016

"Þessvegna flýgur þú betur með Icelandair", er manni sagt

Ég velti því fyrir mér, eins og sjálfsagt margir sem ekki fá þá þjónustu sem þeir greiða fyrir, hvort réttast væri bara að þegja og halda áfram með lífið, eða láta vita af óánægju minni með þjónustuna.
Ég ákvað að létta á mér, með réttu eða röngu, eftir flug með Icelandair frá Kaupmannahöfn til Keflavíkur þann 21. júlí. s.l.  Þann 25. júlí sendi ég félaginu bréfið sem birtist hér fyrir neðan. Síðan er liðinn hálfur mánuður og ég hef engin viðbrögð fengið, enda átti ég svo sem ekki von á þeim.  Að mínu mati hefur félagið haft ágætan tíma til að senda mér línu og þar sem hún hefur ekki borist, set ég sendinguna frá mér hér inn.

Póstur til Icelandair, 25. júlí 2016


Komiði sæl Icelandairfólk

Ég sendi þennan póst á þrjú netföng, sem mér fannst líklegust. Ef ekkert þeirra er rétt, óska eg eftir því að þessum pósti verði komið á þann eða þá aðila sem sjá um mál af þessu tagi.
Inngangur

Tilefni þess að ég ákvað að senda ykkur línu er ferð okkar hjónanna frá Kaupmannahöfn til Keflavíkur dagana 21.-22. ágúst s.l. Flugnúmer FI217. Ég reikna nú með að þið fáið slatta af sendingum að þessu tagi og þar með að þið munið sennilega henda þessu í ruslið og halda síðan áfram eins og ekkert hefði í skorist. Samt sendi ég þetta nú, ef ekki til annars, þá til að losa mig við það sem mér finnst ég þurfa að segja um þetta flug.

Sonur okkar býr með fjölskyldu sinni í Álaborg og þangað fórum við í heimsókn. Við vildum ekki bóka flug fram og til baka, þar sem óvíst var um hvenær af heimferðinni myndi verða. Við keyptum miða fyrir okkur bæði alla leið frá Keflavík til Álaborgar, með tveim flugfélögum, með 3ja daga fyrirvara á samtals kr. 67.941 (+ 4000 fyrir eina tösku) og vorum alveg sátt við að greiða þá upphæð, en ekki meira um það.

Miðakaupin
Svo kom að því að bóka flugið heim. Það var ekkert mál frá Álaborg til Kaupmannahafnar, á verði sem var bara mjög eðlilegt.

Þann 17. júli lá fyrir að við stefndum á að fara heim 21. eða 22. júlí og þá var vaðið í að panta.

Við leit að hentugu flugi frá CPH til REK fundum við eitt sem hentaði ágætlega að því er tímasetningu varðaði: Icelandair kl. 22:30 á kvöldi, sem þýddi að við gætum verið komin heim til okkar í Laugarás kl, ca 02:00 í síðasta lagi. Það réði einnig talsverðu við ákvörðun okkar, að af einhverjum ástæðum hefur það síast inn í huga okkar gegnum tíðina, að þó Icelandair sé ekki ódýrasti möguleikinn í flugi, þá sé um að ræða flugfélag sem veitir góða, örugga þjónustu.
Við bókuðum flug með Icelandair frá CPH til REK í gegnum tripsta.dk og greiddum fyrir það kr. 126.433 eða um 63.000 á mann á Economy-class. Sannarlega fannst okkur þetta yfirgengilega há upphæð fyrir flug til Keflavíkur, en létum okkur þó hafa það, kannski ekki síst vegna þess að það hafði verið okkar ákvörðun að kaupa ekki miða báðar leiðir í upphafi.
Síðan rökstuddum við þetta fyrir sjálfum okkur með þeim hætti að Icelandair væri traust og gott, íslenskt flugfélag með nýjan flugflota – sem sagt ekkert lággjaldaflugfélag sem enga þjónustu veitti um borð nema gegn aukagjaldi. Þarna myndum við fá þægileg sæti, gætum horft á kvikmynd, þyrftum ekki að greiða aukalega fyrir farangur og þar fram eftir götunum.

Í flugstöðinni
Ég orðlengi aðdragandann ekki frekar. Við vorum mætt á Kastrup kl. 20:30, fimmtudagskvöldið 21. júli. Á skiltum gátum við séð að flugið okkar væri á áætlun. Fórum í gegnum það sem fara þarf í gegnum og þar sem við komum í gegnum öryggisskoðunina blasti við okkur að ný áætlun fyrir flugið okkar sem átti að vera kl. 22:30 var 23:50, eða seinkun frá upphaflegri áætlun, um klukkutíma og tuttugu mínútur. Ætli það hafi ekki verið sérstaklega í ljósi þess verðs sem við höfðum greitt (kr. 63.000 á mann), en við þessar upplýsingar gerði all nokkur pirringur vart við sig. Við gátum þó huggað okkur við það að framundan var ferð í þægilegum sætum með skjá fyrir framan okkur þar sem við gætum smellt á einhverja þeirra ótal kvikmynda sem í boði væru í tæknilega fullkomnu afþreyingarkerfi vélarinnar.

Um kl. 10 var verslunum í flugstöðinni lokað, einni af annarri og einnig veitingastöðum.

Einhverntíma um það leyti komu nýjar upplýsingar á skjái sem greindu frá því, að nýr brottfarartíma væri áætlaður kl. 00:10, eða 1 klst og 40 mín seinna en upphafleg áætlun gerði ráð fyrir. Þetta varð ekki til að auka jákvæðni okkar hjónakornanna í gerð flugfélagsins.

Svo fór, að upp úr 23:30 gengum við að tilgreindu hliði og þá kom í ljós, að síðasta áætlun um brottför myndi standast, sem hún síðan gerði, nokkurnveginn.

Í flugvélinni
Í flugvélinni, TF-FIW, Boeing 757 27B, sem er 26 ára gömul og ber nafnið Búrfell, tóku við ný vonbrigði og pirringsefni sem ég leyfi mér að lista hér fyrir neðan:


1. Í sætisbökum var ekkert afþreyingarkerfi. Þar fór vonin um að geta dundað sér við eitthvað slíkt í þessu næturflugi. Vissulega má geta þess, að eftir að græjan var komin á loft og slökkt hafði verið á sætisbeltaljósum keyrðu flugþjónar um með vagn og hófu að dreifa iPad spjaldtölvum á einhverja farþega, virtist eins og þar væru börnin í fyrirrúmi, en okkur var ekki boðið að fá græju að láni.

2. Sætin voru grjóthörð og bara verulega óþægileg, þannig að maður gat enganveginn verið og ég náði ekki einusinni að festa blund, sem oftast gerist.

3. Við vorum með sæti í röð 9, næstfremstu sætaröðinni fyrir aftan innganginn í vélina. Maður í sætaröðinni fyrir framan mig teygði sig upp í spjald fyrir ofan sig, sjálfsagt bara af forvitni. Þetta spjald reyndist vera skröltandi laust. Ég vissi ekki á þeim tímapunkti að um væri að ræða 26 ára gamla flugvél og neita því ekki, að þarna fann ég fyrir umtalsverðum ónotum.

4. Flugstjórinn baðst velvirðingar á töfinni sem átti að hafa verið tilkomin vegna þess að þessi vél kom seint inn til Keflavíkur einhversstaðar frá. Auðvitað vissi flugfélagið um þá seinkun með nægum fyrirvara til að geta sent skilaboð tímanlega til farþega (að minnsta kosti þeirra sem höfðu greitt kr. 63.000 fyrir farið), svo þeir gætu þá bara dvalið lengur í Kaupmannahöfn. Engin slík skilaboð bárust og vorum við þó bæði með síma á okkur.

5. (afleiðing upphaflegs pirrings) Ég gætti þess auðvitað að láta ekki í ljós óánægju mín við starfsfólkið í vélinni, enda engan veginn við það að sakast. Hinsvegar var, við upphaf þessarar flugferðar, búið að opna aðgang að skúmaskotum í höfðinu á mér, sem varð til þess, að ég fann flestu eitthvað til foráttu. Þar má til dæmis nefna, að flugþjónninn sem tók brosandi við farþegunum þar sem þeir gengu um borð, var hreint ekki brosandi, nema bara með vel þjálfuðum andlitsvöðvum. Þar sem hún sagði „Góða kvöldið“ við hvern og einn, rak hún út úr sér tunguna á báðum „ð“-unum í góÐa og kvöldiÐ. Ég er eiginlega alveg hissa á sjálfum mér að hafa látið þetta fara í taugarnar á mér, en svona var það samt og lái mér hver sem vill. Annar flugþjónn, sem ekkibrosti stöðugt, var beðinn um kodda. Leitaði ekkibrosandi í hverri hillunni á fætur annarri, án árangurs. 
Viljið þið vera svo væn að gera ekki þá kröfu til starfsfólks og ganga stöðugt um með þetta hálfvitalega bros á vörum. Bros þarf að ná til augnanna, annars er það ekkert bros.

6. (afleiðing upphaflegs pirrings) Farþegum var tilkynnt, að ljósin í vélinni yrðu slökkt, en jafnframt bent á að fyrir ofan sætin væru lesljós. Allt í lagi með það. Ég ýtti á viðkomandi hnapp fyrir ofan mitt sæti. Ég þurfti reyndar að teygja mig beint upp í lofti tið að kveikja. Ljósið kviknaði ekki í fyrstu og reyndar ekki hjá neinum. Aðspurð greindi ekkibrosandi flugþjónninn frá það að þau myndu sennilega kvikna þegar hreyflarnir færu í gang. Viti menn, það gerðist. Ljósið sem átti að lýsa mér var beint fyrir ofan höfuðið á mér og lýsti beint ofan á höfuðið á mér, nánar tiltekið þann hluta þess þar sem hár eru mjög strjál og varla til staðar. Ljósið lýsti sem sagt ekki á bókina sem ég ætlaði að fara að lesa og þar sem ég hafði ekki áhuga á að farþegar fyrir aftan mig fengju að njóta upplýsts höfuðs míns, slökkti ég ljósið aftur og lét mér í staðinn nægja daufa skímu frá ljósi frúarinnar.

Þessi 26 ára gamla vél fór í loft og flutti okkur til Keflavíkurflugvallar með þeim þægindum eða óþægindum sem í boði voru. Þægindin fólust aðallega í kaffibollanum sem ég fékk án þess að greiða fyrir. Gat líka fengið gosdrykk eða vatn ókeypis (jeij).

7. (afleiðing upphaflegs pirrings) Þar sem vélin var lent í Keflavík var það fyrsta sem flugþjónn sagði í hátalarakerfið: Góðir farþegar, VELKOMIN HEIM! , og hrópaði nánast síðasta hlutann (feitletraða). Er þarna um að ræða einhverja stefnu sem var tekin eftir að Lars Lagerbäck tjáði sig um hve yndislegt væri að heyra „velkomin heim“ í hvert sinn sem lent væri í Keflavík? Ég er sammála því, að það er yndislegt, svo lengi sem það er ekki hrópað. Ég beið eiginlega eftir að farþegarnir tækju sig til, lyftu upp handleggjunum og hrópuðu „HÚH“. Þeir gerðu það ekki.

8. (afleiðing upphaflegs pirrings) Flugvélinni var lagt talsvert langt frá flugstöðinni í Keflavík og farþegar síðan ferjaðir með rútum í flugstöðina, sem er svo sem allt í lagi. Það sem var ekki allt í lagi var, að rúturnar settu farþegana út eins langt frá komusal flugstöðvarinnar og mögulegt er. Ég geri mér grein fyrir að þarna er varla við félagið að sakast, en engu að síður, ofan á annað smátt og stórt varð ekki til að fegra myndina að þessu ferðalagi.

Ég geri mér fyllilega grein fyrir því, að það eru miklar annir í flugi á þessum árstíma og skiljanlegt að það geti orðið tafir á flugi. Ég geri mér líka grein fyrir því, að þið þurfið að nýta allar vélar sem þið eigið til að flytja alla þá farþega sem bóka með ykkur flug um allan heim, ekki síst til Íslands. 
 Það sem ég er ósáttur við, fyrst og fremst er, að hafa greitt kr. 63.000 fyrir flugferð sem var eins og ég hef lýst hér að ofan. Að mínu mati er það algerlega út úr korti, en byggir sjálfsagt á því að einhverjir þurfi að greiða hluta miðaverðsins fyrir þá farþega sem fengu miða á lága verðinu, sem hægt er að auglýsa daginn út og inn.

Ég sló inn af rælni einhverja daga í september og þar kom í ljós eftifarandi verðlagning á flugsætum:

Miðinn er 47.000 kr. ódýrari en það sem ég þurfti að greiða. Það er að mínu mati algerlega ótækt. Mér er sama hvað ykkur finnst um það. Í mínum huga væri það eins og ég þyrfti að borga þrefalt verð í búð fyrir mjólk sem er að verða búin.

Eitt jákvætt vil ég nefna. Við lentum á CPH kl. 09:30 að morgni 21. júli og áttum síðan flug kl. 22:30, eins og áður er nefnt. Við vorum búin að hafa áhyggjur af hvernig við gætum geymt farangur á flugvellinum. Svo komumst við að því, að það var hægt að tékka hann strax inn og þar með var það mál leyst.
___________________________________________________________

Þessi sending hefur tvennan tilgang:

1. Að fá útrás fyrir pirringinn vegna þessarar flugferðar og síðan geta haldið áfram fullur jákvæðni og bjartsýni.

2. Leggja fram kvörtun, sem líklegast lendir bara í ruslakörfunni, en hefur samt verið lögð fram.

Ég veit ekkert hvað ég geri við þessi skrif ef þið svarið mér ekki með einhverjum hætti: útskýrið fyrir mér hversvegna ég þurfti að greiða kr. 63.000 (126.000 alls) fyrir þessa flugferð. Ef ég hefði greitt um kr. 20.000 á mann hefði ég þagað yfir þeim vonbrigðum sem þessi ferð var okkur. Ég vænti svars/viðbragða sem allra fyrst.

Með góðri kveðju

Litlir kallar og litlar kellingar

Heilsugæslustöðin í Laugarási á vígsludegi 1997 (mynd: Jónas Yngvi Ásgrímsson) Ég hefði óskað þess, að fyrstu dagar nýs árs yrðu ánægjulegri...