Sýnir færslur með efnisorðinu islensk tunga. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu islensk tunga. Sýna allar færslur

02 febrúar, 2017

Ein afsökun

Tvennt er ástæða þessa pistils:
Eiður Guðnason er nýlátinn, en eins og einhverjir vita þá skrifaði hann ótrauður ríflega 2000 pistla á vef sinn eidur.is  til varnar íslenskri tungu.
Hitt tilefnið er viðtal við Sigurjón Björnsson í Kiljunni í gærkvöld. Sigurjón er níræður hefur í ellinni lagt fyrir sig þýðingar öndvegisrita yfir á íslensku. Í því sambandi sagði hann:
Þetta gefur manni tækifæri til að liggja yfir þessari tungu okkar, íslenskunni, sem að ég vil nú segja að sé gimsteinn Norðurlanda, gimsteinn norðursins, alveg eins og grískan er gimsteinn Evrópu, sérstaklega Suður-Evrópu og vísindamálsins, en við eigum þennan frábæra, blettlausa gimstein sem íslenskan er, ef hún er vel gerð og vel skrifuð.

Ég hef áhyggjur af hvað við förum illa með þessa arfleifð okkar, því að ég verð nú að segja það (það getur vel verið að það kallist bara hroki og merkilegheit, ég veit ekki hvað á að kalla það, eða þjóðrembingur), að eiginlega eina afsökun Íslendinga fyrir því að hafa haldið út á þessu skeri í þúsund ár, er það að við eigum þetta tungumál.
Eiður hélt áfram, þrátt fyrir að margir litu á hann sem einhvern sérvitring sem hefði einhverja þörf fyrir að láta á sér bera, teldi sig merkilegri en annað fólk, væri uppfullur af menntahroka og þar fram eftir götunum.
Sigurjón segir hér fyrir ofan:
"það getur vel verið að það kallist bara hroki og merkilegheit, ég veit ekki hvað á að kalla það, eða þjóðrembingur".
Það er nákvæmlega þetta sem er smám saman að ganga af þessari tungu okkar dauðri. Við eigum afar erfitt með að taka því þegar einhver setur ofan í við málfar okkar og beitum á slíkt skammaryrðum á borð við þau sem hér hafa verið nefnd og kæfum þannig þá sem mögulega gætu staðið vörð um þetta stórmerkilega tungumál, sem okkur hefur verið falið til varðveislu..  Okkur er að verða skítsama hvernig farið er með íslenskuna, við segjum sem svo, að meðan það skilst sem við segjum þá sé það fullnægjandi. Þvílík steypa.

Það sem mér finnst ekki síst alvarlegt er þegar fólk sem ber stóra ábyrgð á íslenskunni og viðgangi hennar, afgreiðir hörmungarnar sem á manni dynja, sem "eðlilega" þróun tungunnar. Hvaða vald eða réttindi hefur þetta fólk til að ákvarða hvað er "eðlileg" þróun?  Í mínum huga felst eðlileg þróun í því að tungan aðlagar sig að breyttu umhverfi af einhverju tagi. Þar er ekki einnifalið bullið sem veltur upp úr "merkilegasta" fólki þessi árin.  Ábyrgð þessa merkilega fólks er óhemju mikil og ein vitleysa sem það lætur út úr sér í fjölmiðli er óðar orðið vitekið mál. Eitt dæmi þó þau séu auðvitað orðin fjölmörg:  Vegna byggingu hússins verður að fresta þessu.

Við getum auðvitað bara farið þá leið, að leyfa málfarinu sem börnin lærðu í leikskólum og uxu síðan ekki frá, að taka smám saman yfir. "Það hefur verið sagt mér að það var bara eðlileg þróun tungunnar".  

Það þarf fólk eins og Eið til að halda áfram að standa á bremsunni gagnvart þeirri óþróun sem er hér á ferð.

Og, nei, ég ætla ekki að verða sá maður. :) þó svo mér blöskri óstjórnlega.

Og hana nú.


Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...