Sýnir færslur með efnisorðinu leki. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu leki. Sýna allar færslur

20 apríl, 2019

Við öllu búinn (994)

Jarðarbúar hafa áhyggjur af því á vatnsskortur sé yfirvofandi og að margir séu þegar farnir að þjást vegna hans.  Þetta er sannarlega áhyggjuefni.  Ísland er ekki land þar sem líkur eru á skorti á þessu lífgefandi efni í fyrirsjáanlegri framtíð og það má reikna með að fólk muni í æ ríkari mæli sækja hingað einmitt vegna vatnsins.  
Ég ætlaði mér nú ekki að velta mér upp úr "sviðsmyndum" af þessu tagi hér og nú, heldur tæpa á mjög praktísku máli, en þar er um að ræða vatn á vitlausum stöðum.


Skálholtskirkja, föstudagurinn langi, 2019
Ég reyni enn að beita tenórrödd minni í Skálholtskórnum og er farinn að velta fyrir mér hvenær þeim þætti í lífi mínu lýkur og hvað verður til þess að ég læt af þessum söng þegar að því kemur.
Verður það bara einfaldlega ellin?
Verður það kannski dvínandi trúarhiti minn?
Verða það flutningar mínir af svæðinu?
Kannski bara kórfélagarnir?
Þessu get ég ekki svarað enn, enda ekki umfjöllunarefni hér.

Eins og vænta má þá, er mikið sungið þessa dagana: á skírdagskvöld, á föstudeginum langa og á páskadag, en nú er sá dagur framundan og ég hef verið að velta fyrir mér, hvernig best verður að takast á við hann, ekki vegna tónlistarlegs vanda af neinu tagi, því þar er allt á hreinu. Trúarlega þætti læt ég öðrum í eftir, því sem við á, svo þar er ekki um vanda að ræða.
Nei, hér er um að ræða afar hagnýtan (praktískan) vanda, sem ég er að leita bráðra lausna á.

Skálholtsdómkirkja lekur.
Á skírdagskvöld hófu dropar að falla ofan á kórinn þar sem hann söng af hjartans lyst viðeigandi trúarverk. Það féllu dropar á öxlina á sópransöngkonu og það féllu dropar á nótur tenórsöngvara. Aðvitað létu þau þetta ekki á sig fá, enda of einbeitt í söng sínum til þess. Ég reikna samt með að þau hafi hugleitt þessa reynslu í framhaldinu.

Skálholtskirkja, föstudagurinn langi, 2019
Í gær, á föstudaginn langa, rigndi enn og lekinn sýndi meira ógnandi tilburði en áður. Tenórarnir þrír máttu hafa sig alla við að tapa ekki einbeitingu og tókst það. Sópranarnir höfðu þá fært sig framar og þannig í skjól fyrir þessu vatni, sem seytlað hafði niður í gegnum kirkjubygginguna; fundið sér leið niður á milli samskeyta, sem eiga auðvitað að vera örugg.

Það voru ræddar lausnir, en engar sem leyst gætu í bráð þann vanda sem þarna er við að eiga. Ég set hér efst mynd af mögulegri lausn, en það þarf ekki að hugsa lengi til þess að komast að því að til fambúðar myndi vandinn teljast óleystur.  Það má ímynda sér hvernig kirkjugestir myndu bregðst við 20 manna kór syngja "Bjarna" undir svona höfuðfötum. Líklegast færi boðskapurinn fyrir ofan garð og neðan.

Það þarf að grípa til varanlegrar lausnar á dómkirkjulekanum. Hann hefur verið fyrir hendi árum saman og fer vaxandi.
Það er ekki svo að ég eigi einhverra perónulegra hagsmuna að gæta í þessu máli, utan auðvitað að sitja í polli einstaka sinnum. Hér er um að ræða stærra mál en svo, og er hluti af þeirri vegferð sem þessi þjóð er á og reyndar allar vestrænar þjóðir, gagnvart trú og kirkju. Mig grunar, að það verði ekki vegna trúarinnar eða kirkjunnar, sem Skálholtsdómkirkju verður við haldið svo sem full þörf er á.  Þegar gert verður við hana eins og þarf, þá munu verða að koma til sjónarmið sem snúa að varðveislu menningarminja og ómetanlegra dýrgripa sem þessi þjóð á. 

Skálholtskirkja, föstudagurinn langi, 2019

Ég er með þessu ekki með neinar meiningar gagnvart einu né neinu, en tel bara einfaldlega að trúarbrögð, hverju nafni sem nefnast, eigi ekki upp á pallborðið hjá þjóðinni, af tveim ástæðum fyrst og fremst, (að mínu mati, sem er bara mitt mat, og ekkert annað):
1. Kirkjunni hefur mistekist að ná til fólks, sennilega, annarsvegar, vegna þess að henni hefur ekki tekist að ganga í takt við tímann og, hinsvegar, vegna þess að ýmsir þjónar hennar hafa  ítrekað klúðrað málum með tilheyrandi afleiðingum í hugum fólks.
2. Þessi þjóð, eins og aðrar vestrænar þjóðir, telur veraldleg verðmæti standa framar og vera mikilvægari en þau sem andleg myndu teljast. Það er nánast svo, að hver manneskja líti orðið á sjálfa sig sem guð sinn.

Hvað sem þessu öllu líður, þá þarf að halda áfram endurreisn Skálholts. Viðgerð á gluggum Gerðar Helgadóttur og altarisverki Nínu Tryggvadóttur, tókst einstaklega vel.  Það verður hinsvegar að sjá til þess, að byggingin sem hýsir þessar gersemar fái það viðhald sem veitir þeim það skjól sem þær þurfa.


Sæludagar í sandkassanum (12 - LOK)

Framhald af þessu Þannig er það víst alltaf, að það sem byrjar á annað borð, því lýkur á endanum. Þannig var það einnig með þessa ferð til D...