Sýnir færslur með efnisorðinu Hafnir. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu Hafnir. Sýna allar færslur

24 ágúst, 2025

Suðurnes: fjórði hluti: Hafnir, erfðabreytingar og brú


Eftir að hafa kynnt okkur lítillega leifarnar af ratsjárstöðinni á Stafnesi og aftökustaðinn í Gálgum og horft á starfsemina sem sjáanleg var sunnan Keflavíkurflugvallar, ókum við fyrir Ósinn og renndum í gegnum þorpið sem heitir Hafnir.
Hafnir (mynd af Wikipedia)

Þar lýstu ferðafélagarnir harla mismunandi skoðunum sínum á því hvernig myndi vera að búa þar. Annar hvað af og frá að þar væri hugsanlegt að setjast að: stöðugt rok og berangur. Hinum fannst að um væri að ræða kjörinn stað til búsetu, því þar væri enginn ys og læti og ekki nema um 15 km. á flugvöllinn.  Það var ákveðið að vera bara ósammála um þetta.    

Næst var á vegi okkar, eiginlega að óvörum, heilmikið af byggingum, sem við nánari skoðun reyndist vera starfsstöð Benchmark Genetics, sem ég minnist  ekki að hafa heyrt nefnt. Hélt þá að ef til vill færi þarna fram einhver leynistarfsemi, ekki síst vegna þess að þarna var allt rækilega girt af og umgangur óviðkomandi stranglega bannaður. Þegar heim kom leitaði ég uppi nafn þessa fyrirtækis. Það virðist sinna rannsóknum í erfðatækni af einhverju tagi, t.d. á laxi og rækju

Þarna vorum við farin að sjá til gufubólstranna frá Reykjanesvirkjun, en rétt áður en að henni kom, létum við okkur hafa það að skoða túristagildruna sem "Brúin milli heimsálfa" er. 
Frá vígslu brúarinnar 2002
(úr mynd Árna Sæberg)

Um hana sagði í frétt mbl um vígslu hennar árið 2002:
Hún er sérstök að því leyti að hún brúar bilið milli Evrópu og Ameríku. Á Reykjanesi eru margar sprungur sem tengjast flekamótum jarðarinnar, mótum Evrópu og Ameríku. Ísland stendur á þessum mótum, og þess vegna höfum við heitt vatn, eldgos og jarðskjálfta. Brúin er táknræn tenging milli Evrópu og Ameríku, og vígðu þrír ráðherrar gripinn með viðhöfn. 
Ekki langar mig nú að vera neikvæður og læt það því ekki eftir mér.
Við gengum fram og til baka yfir þessa brú, milli Evrasíu flekans og Ameríkuflekans og vorum nú ekkert miklu nær, svo sem. En látum vera.

Fyrir utan blasti Eldey við og framundan Reykjanesvirkun og Reykjanesviti.


Reykjanesvirkjun og Reykjanesviti, séð frá "Brúnni milli heimsálfa".

"Brúin milli heimsálfa"






Suðurnes: sjötti hluti: Brimketill og búið

framhald af þessu  Það var vissulega heilmargt áhugavert þarna á svæðinu í kringum Reykjanesvita , en að því kom að ferðinn var framhaldið o...