Sýnir færslur með efnisorðinu Miðfoss. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu Miðfoss. Sýna allar færslur

02 ágúst, 2021

Það sem maður ætlar sér

Ég læt mig hafa það að ítreka, að fyrir nokkru tók ég feil á fossum og er varla búinn að jafna mig á því enn. 
Nú get ég hinsvegar staðfest, með fullri vissu, að ég er búinn að ganga að Brúarfossi í Brúará í einstöku veðri, ásamt fD og tveim yngri börnum okkar. 

Það var með hálfum huga sem við lögðum af stað frá höfuðstað Suðurlands í talsverðri vætu.  Ætluðum að sjá til hvernig staðan væri í uppsveitum og taka mið af henni. 
Það þarf ekki að fjölyrða um, að á móti okkur tók þurrviðri, skýjað þó, en logn og hlýtt. Við hefðum sjálfsagt getað sagt okkur það sjálf og þannig væri veðrið á þessum slóðum. 
Stærsta áskorun okkar við upphaf göngunnar var, að reyna að sjá til þess að sérann (C-HR) fylltist ekki af asparglyttu, sem virtist taka feil á okkur og búnaði okkar, og trjágróðri. 
Fátt segir af göngunni, enda auðveld, að langstærstum hluta. Heilsuðum útlendingunum sem við mættum eða sem fóru fram úr okkur með Hæ eða Helló og fikruðum okkur framhjá drullupollum þar sem þá var að finna, tipluðum yfir stórgrýtiskafla, eftir því sem þeir urðu á vegi okkar. Stöldruðum stuttlega við Hlauptungufoss og Miðfoss, enda hafa þeim fyrrnefnda verið gerð nokkuð góð skil nú þegar. Sá síðarnefndi, í fegurð sinni, kallaði ekki á langa viðdvöl, enda markmið göngunnar annað.

Það hlýnaði eftir því sem á leið gönguna og ég óskaði þess að ég hefði klæðst stuttbuxum og ermalausum bol, frekar en því sem hafði orðið fyrir valinu í suddanum neðra. 


Brúarfoss er nú eiginlega meira nokkurskonar flúðir, en hefur samt eitthvað við sig, enda stöðugur straumur fólks þangað uppeftir. Mögulega er hann ofmetinn sem stórfenglegt náttúrufyrirbæri, sem maður myndi ferðast milli landa til að sjá, en umgjörðin við aðstæður eins og við fengum að njóta, var afar aðlaðandi.

Fram og til baka var þessi ganga nánast nákvæmlega 7 kílómetrar og meira en þess virði að leggja hana á sig.



Skúli Sæland fjallar um Brúarfoss og steinbogann sem eitt sinn myndaði brú yfir ána hér.

Litlir kallar og litlar kellingar

Heilsugæslustöðin í Laugarási á vígsludegi 1997 (mynd: Jónas Yngvi Ásgrímsson) Ég hefði óskað þess, að fyrstu dagar nýs árs yrðu ánægjulegri...