Sýnir færslur með efnisorðinu siglingin. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu siglingin. Sýna allar færslur

08 janúar, 2026

Costa Rica (15) Fen á fjöru

Frásögnin hefst hér
FRAMHALD AF ÞESSU

--------------------------------------
Fyrri heili dagurinn okkar í Tamarindo var ekkert skipulagður, þannig að við höfðum alveg frjálsar hendur með hvað við tækjum okkur fyrir hendur og sáum svo sem ekki fram á annað en rölta um ströndina, eða bæinn til að leyfa tímanum að líða. Guðni (fararstjóri) hafði hinsvegar nefnt sem möguleika, að skella sér í siglingu inn í fenjasvæðið. Ég átti nú ekki auðvelt með að sjá fyrir mér fenjasvæði þarna í nágrenninu, en þegar við ókum inn í bæðinn daginn áður, hafði glitt í einhverja báta gegnum trjágróðurinn. 
Vissulega leit ég á þetta sem möguleika, en þar sem ég er nú ekkert fyrir að braska meira í hlutum en ég þarf, reiknaði ég ekki með  að það yri eitthvað úr svona leiðangri.  Það var þá, þennan morgun, að við hittum tvo ágæta ferðafélaga okkar, sem við höfðum haft meiri samskipti við í ferðinni en marga aðra. Þetta eru þau Arnborg og Þorgeir og við nefndum þennan möguleika við þau, svona í framhjáhlaupi. Þeim leist harla vel á og við nánast ákváðum þá að leggja í að kanna málið, í það minnsta. 
(Stækka til að sjá betur)
Þau hittu síðan Sólrúnu og Jón, sem líka voru áhugasöm og þannig varð bara úr að við sexmenningarnir, hófum göngu út í óvissuna til að athuga hvort við fyndum kannski einhvern bátsmann sem væri til í að sigla með okkur um fenjasvæðið. 
Þetta var nú ekki löng ganga sem við tókumst þarna á hendur, en ágætis hreyfing eftir aðalgötunni í bænum. Þegar við síðan komum að líklegum stað til að stefna niður að sjónum, gerðum við nákvæmlega það. Þar var, við fyrstu sýn, harla lítið um að vera. Þarna var háfjara og  þetta leit ekkert sérstaklega vel út . En svo rákumst við á náunga sem var á göngu í fjörunni og þá kom í ljós að hann var eitthvað viðloðandi bátasiglingar um fenjasvæðið. Sagði hann að bróður sinn örugglega vera tilbúinn að skjótast með okkur og gerði okkur tilboð sem við gátum ekki hafnað, $35 á mann, eða um 4500 krónur. Hann fór þá með okkur að bát sem þarna var á floti og frá trjágróðrinum aðeins innar á ströndinni kom bróðirinn. Svo var gengið frá greiðslu, okkur sexmenningunum komið þannig fyrir, að þunginn dreifðist rétt, og þá var bara stefnan tekinn inn í ósa árinnar sem aðskilur tvær strendur: Playa Grande og Playa Tamarindo.
Sexmenningarnir í góðum gír.
Báturinn var í líkingu við þennan, hér hægra megin: (því miður láðist mér að mynda bátinn, skipstjórann og sölumanninn):

Sem fyrr segir  var háfjara þegar við ákváðum að takast siglinguna á hendur og það hafði í för með sér, að skipstjórinn þurfti stöðugt að leita leiða framhjá grynningum, eða beita skipstjórnarlegum aðferðum við að losa fleyið af strandstað. Við þokuðumst samt áfram þarna upp árósinn og inn í fenjasvæði og það fór ekkert milli mála hver sjávarstaðan var á flóði.


Við vorum ekki komin langt upp ána, þegar dýralífið fór að láta á sér kræla og fyrst voru það aðallega hegrar af ýmsu tagi. 
Ég freistaði þess að leita uppi nöfn á þeim dýrum sem urðu á siglingaleið okkar. Ég treysti mér ekki til að fullyrða um að allt sé rétt greint og ef svo reynist ekki vera, bið ég um að verða látinn vita, svo ég geti bætt úr. Þá bendi ég aftur á, að til að sjá stærri útgáfu myndanna þarf bara að smella á þær.






Látum duga með hegrana. Þeir voru augljóslega vanir mannaferðum á svæðinu og gerðu lítið annað en gjóa á okkur augum við og við þegar við renndum upp að þeim eða í nágrenni við þá. Það var eins með skipstjórann (bróðurinn) okkar og Alejandro (leiðsögumanninn ír ferðinni); hann bjó yfir þessu læsi á dýralífið, sem við erum augljóslega síðri í. Hann sveigði þarna þvers og kruss, ekki bara til að forðast grynningar, heldur ekki síður vegna þess að hann hafði séð eitthvert dýr við bakka árinnar. Það kom ekkert að sök þó það hafi komið til tals að það væri dálítil "kaupstaðarlykt" af honum. Þarna fann hann hvert dýrið á fætur öðru og sagði heilmikið frá því, án þess að ég, í það minnsta, væri miklu nær. Ætli hafi ekki komið tvennt til: enska var ekki móðurmál hans og svo hafði mótorhljóðið truflandi áhrif. Hvað sem þessu líður, þá var þarna vanur maður á ferð, sem kunni sitt fag.

Og svo birtust fleiri dýr, enda leikurinn til þess gerður:







Eðlurnar lokkaði skipstjórinn til okkar með því að fleygja til þeirra ananasbitum. Fyrst var bara ein eða tvær þarna á bakkanum, en þær þustu margar í viðbót fram úr skógarþykkninu þegar þær uppgötvuðu þetta góðgæti og voru fljótar að gera því góð skil.






 Einn ungan krókódíl sáum við þegar skipperinn stefndi allt í einu að landi. Það kom mér einna helst á óvart, að hann var tiltölulega smár miðað við þær hugmyndir sem ég hafði nú gert mér um þessi dýr.  Þó hann væri smár, þarna grafkyrr á bakkanum, vorum við eindregið hvött til að fara nú ekki að freistast til að setja fót úr fyrir borðstokkinn. Við hlýddum því, að sjálfsögðu.
Svo sáum við fleiri  svona kappa, aðallega á sundi, tilbúna að gæða sér á okkur ef færi gæfist.






Mér varð á að leita aðeins upplýsinga um þetta svæði, þegar heim var komið og rakst þá á eftirfarandi:

Það var hluti af þessari siglingu okkar þarna um fenjasvæðið, að kíkja inn á stað þar sem apar munu vera allfjölmennir, en þar lenti báturinn á grynningum, sem ekki varð komist yfir, svo ekki var um að ræða en snúa við.
Þar með var haldið aftur í átt til sjávar og við fullsátt við siglinguna. 


Allt gekk vel þarna niðurúr og hinn bróðirinn kom að okkur þar sem við stigum frá borði og bauðst meðal annars til að fara með okkur á einhvern stað í nágrenninu þar sem skjaldbökur verpa í sandinn. Það var reyndar mjög áhugavert, en nú var farið að síga heldur betur á seinni hluta dvalarinnar á Costa Rica, svo við urðum að afþakka. Svo gengum við sem leið lá eftir ströndinni heim á hótelið.

Svo kom kvöldið með sínu og þá nóttin, alveg eins og venja er til. Framundan síðasti dagurinn í þessu ævintýralega landi.

----------------------------
Nú fer að styttast í þessu, en það er ekki búið.


Costa Rica (15) Fen á fjöru

Frásögnin hefst  hér FRAMHALD AF  ÞESSU -------------------------------------- Fyrri heili dagurinn okkar í Tamarindo var ekkert skipulagður...