Sýnir færslur með efnisorðinu myndir. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu myndir. Sýna allar færslur

01 ágúst, 2016

Kraðak eða ekki kraðak

Ég setti mér það markmið að upplifa um þessa um þessa verslunarmannahelgi (á þessari verslunarmannahelgi, ef maður á ættir að rekja til Grundarfjarðar eða þar um kring) hvernig ástandið er á Geysissvæðinu þegar ferðamannafjöldinn er eins og hann getur mestur orðið.  Ég stóð við það og hafði með mér EOS-inn svo hægt væri síðar að sannreyna upplifunina.
Veðrið var auðvitað eins gott og best var á kosið, utan það að það hefði mátt vera skýjað, svona upp á birtuskilyrðin að gera.
Ég og samferðafólk vorum síðan þarna uppfrá í um tvo klukkutíma frá því um kl. 11:00 til 13:00, og gengum á Laugarfell þaðan sem er ágætt útsýni yfir svæðið. Eins og við mátti búast var þarna á sama tíma og við fjöldi ferðamanna af ólíku þjóðerni, en fjarri því að teljast eitthvað sem þetta svæði ræður ekki við að taka við.  Ég neita því ekki, að ég hafði átti von á talsvert  meiri fjölda en reyndin var, ekki síst þar sem fréttir höfðu greint frá því að metfjöldi skemmtiferðaskipa lægi í Reykjavíkurhöfn.


Niðurstaðan var sem sagt sú, að ég náði ekki markmiðinu um að upplifa kraðak á Geysissvæðinu. Ég hefði kannski á að hringja á undan mér og spyrja hvenær dags þarna væru flestir á ferð.

Þeir sem hafa áhuga á að skoða myndir geta smellt hér.

07 júlí, 2016

Einn komma fimm kílómetrar um álfabyggð

MYND 1 -
Aðal gönguleiðin á Vörðufell (um það bil)
Þegar við gengum á Vörðufell í (eld)gamla daga fórum við aðra leið en nú. Þá var lagt af stað frá sumarbústaðnum sem er beint á móti Iðu (sjá mynd 2) - ég í það minnsta. Leiðin lá í gegnum stórgrýtisbelti í miðri hlíðinni, sem var auðvitað því stórfenglegra sem göngufólkið var lágvaxnara. Ekki held ég að við höfum endilega verið að ganga á fjallið, kannski frekar að heimsækja þann ævintýraheim sem þessir klettar (eða stórgrýti) var.
MYND 2
Ljósasta minning mín frá einni slíkri gönguferð átti sér stað þegar ég var líklega í kringum 10 ára. Ekki þori ég samt að fullyrða það.  Við fórum þarna uppeftir, nokkrir strákar á líkum aldri (man ekki eftir að það hafi verið stelpur í hópnum).  Gott ef við vorum ekki í feluleik eða einhverjum slíkum á milli klettanna, en þar voru ótæmandi möguleikar á að láta sig hverfa. Það var farið að líða á dag og framundan að halda aftur heim. Við stóðum nokkrir í lok leiks, austan megin við stóran klett. Hliðin sem að okkur snéri var slétt og lóðrétt, hefur verið svona 3-4 m á hæð.
Það sem þarna birtist okkur greiptist síðan í hugann. Fyrir framan klettinn voru steintröppur sem lágu niður á við, að timburhurð í því sem kalla má "rómönskum" stíl.  Hurðin var járni slegin, lamir, umbúnaður og lokur.
Þarna stóðum við um stund og hver hlýtur að hafa hugsað sitt. Það gæti verið gaman að banka á dyrnar. Hvað ætli gæti gerst?
Niðurstaðan varð, í ljósi þess að við höfðum allir heyrt og lesið um álfa, að við vorum fljótir niður af fjallinu og heim, því ekki höfðum við hug á að ganga í björg.

Mörgum árum seinna átti ég leið um þetta svæði og reyndi að finna steininn sem ég bar í huganum, en leitin bar engan árangur. Ég efast oftast um að ég hafi séð þennan álfabústað, en samt aldrei nægilega mikið til að ég hendi þessu atviki í glatkistu minninga.  Kannski var var þetta bara eitthvað sem varð til í ævintýragjörnum barnshuganum. Hver veit?  Kannski getur einhver þeirra sem þarna voru með mér vottað að eitthvað líkt því sem ég lýsti, hafi átt sér stað.

Á 63. aldursári gekk ég á Vörðufell í gær ásamt fD og uG. Ekki reyndist gangan sú neitt sérstaklega auðveld, en við vörðuna hvarf öll þreyta. Ég hafði unnið sigur á sjálfum mér. Leiðin niður var lítið auðveldari, en talsvert öðruvísi erfið, þó.
Ofan af fjallinu opnast  einstök sýn yfir Laugarás, auðvitað, en ekki er síður magnað að sjá hvernig árnar fjórar: Tungufljót, Hvítá, Stóra-Laxá og Brúará sameinast ein af annarri áður en Hvítá leggur leið sína niður í Flóa, þar sem hún tekur Sogið til sín og breytist í Ölfusá.  Þá er fjallahringurinn auðvitað yfirmáta glæsilegur.



Smella á myndirnar til að stækka þær.


VIÐBÓT





16 maí, 2015

Með ásjónur engla

Í dag langaði mig að prófa nýja filterinn minn (Tiffen variable ND), en það þýðir bara það, að það myndefnið þarf að vera á hreyfingu til að ná fram tilteknum áhrifum. Fossar eru t.d. tilvaldir til þess arna. Ég veit bara um einn foss í nágrenninu og ég er nú búinn að komast að því að hann kallast Dynjandi og er í Brúará um það bil kílómetra fyrir ofan brúna. Ég hef reyndar ekki rannsakað til hlítar hvort þetta er rétt nafn þessa foss, eða flúða, en kalla hann bara Dynjanda þar til annað kemur í ljós.
Til að komast að fossinum er í fljótu bragði um tvær leiðir að ræða. Annarsvegar gengur maður frá brúnni, meðfram ánni þar til komið er að fossinum. Þessa leið fór ég einhverntíma í gamla daga.
Hina leiðina sá ég með því að fara á Google-maps. Sú leið virðist ótrúlega einföld: það liggur akvegurvegur frá Biskupstungnabraut og nánast alveg að fossinum.
Það þarf ekki að spyrja að því hvora leiðina ég valdi, og við fD lögðum í hann eftir að ég hafði tínt til græjurnar, sem verða stöðugt umfangsmeiri (og flottari).
Ég vissi að það var hlið þar sem ekið er inn á veginn niður að ánni, en hafði aldrei kannað hverskonar hlið það var. Nú veit ég það hinsvegar.
Þar sem ég beygði af aðalveginum, blasti við mjög sterkbyggt hlið og á því var skilti sem gaf skýrt til kynna að þarna væri um einkaveg að ræða. Það varð þá svo að vera, og við fD vorum þess albúin að yfirgefa Qashqai og ganga spölinn niður að ánni. Sannarlega var sá kostur og aka þennan spöl þó talsvert eftirsóknarverðari.
Í þann mund er við vorum að stíga frá borði, bar að bifreið innan af svæðinu handan hliðsins. Þegar hún nálgaðist opnaðist hliðið hægt og rólega og ég ákvað að reyna að ná sambandi við ökumannin til að kynna mér hve mikinn einkaveg væri þarna um að ræða. (Þetta gat verið einkavegur eins og sá sem liggur heim í Kvistholt og þetta gat líka verið einkavegur þar sem alvarleg viðurlög eru við akstri í óleyfi og jafnvel kölluð til lögregla. Hliðið benti til þess að einmitt sú gæti verið raunin).
Bílstjórinn, kona á ríflega miðjum aldri, stöðvaði bíl sinn hjá okkur og renndi niður hliðarrúðunni, þess albúin að tilkynna okkur að þarna færum við ekki í gegn. Í sama mund rann hliðið til baka og lokaði leiðinni. Spurningu minni um hvort það gæti verið möguleiki að við fengjum að aka veginn handan hliðsins svaraði hún sem svo:
"Þetta er einkavegur", hverju ég svaraði þannig að ég hefði fullan skilning á því, og svo framvegis og gaf til kynna að þá næði þetta ekki lengra. Konan horfði rannsakandi á okkur um stund en sagði svo:
"Þið eruð svo heiðarleg á svipinn að það hlýtur að vera óhætt að hleypa ykkur í gegn", og þar með ýtti hún á opnara (svona eins og notaðir eru á bílhurðir) og hliðið rann frá.
"Það gæti orðið vandamál hjá ykkur að komast út aftur, en það er yfirleitt hægt með því að........(hér vil ég ekki ljóstra upp um aðferðina). Ef það gengur ekki þá verðið þið að semja við einhvern um að hjálpa ykkur".
Spennan ætlaði ekki að verða endaslepp þennan daginn. Þar sem við erum spennufíklar, ekki síst fD, létum við slag standa og ókum þennan veg sem við alderi höfðum farið áður, könnuðum sem sagt ókunnar slóðir á 30 km hámarkshraða eins og tilskilið var, engin ástæða til að taka áhættuna á að verða tekinn fyrir of hraðan akstur. Qashqai var lagt  við sumarhús sem greinilega var mannlaust. Það, eins og ótrúlega mörg hús, sem við höfðum ekki áður haft vitneskju um, stóð á fögrum stað á bakka Brúarár og við blasti fossinn Dynjandi, sem venjulega væri nú bara kallaður flúðir frekar en foss.

50 m ganga var allt sem til þurfti til að komast að ánni. Græjurnar settar upp, stilltar og hvaðeina sem þurfti til myndatöku. Það var ágætur bónus að geta fylgst með og myndað straumandarpar og auka stegg sem létu fara vel um sig við bakkann okkar megin.
Segir ekki af myndatökunni fyrr en henni lauk, enda um að ræða enn eina æfinguna í að ná tökum á broti þeirra möguleika sem búa í græjunum.

Þegar konan ók frá okkur við hliðið fannst mér hún glotta, frekar en brosa, sem gæti þýtt að ráðið sem hún gaf okkur til að komast úr aftur væri ekkert sérstaklega gott.  Af þessum sökum fylgdi því nokkur spenna að aka veginn til baka á löglegum 30 km hraða, að hliðinu.
Hvernig skyldi enda vor för?
Á leiðinni sáum við nokkra einstaklinga horfa rannsakandi á löglegan akstur okkar og mér fannst ég geta greint af svipbrigðum þeirra og látbragði að við værum ekkert sérlega velkomin á þessum slóðum og að það gæti nú verið fróðlegt að sjá hvernig við færum að því að komast út.
Hliðið nálgaðist æ meir og spennan fór vaxandi.
Þar sem við vorum að verða komin að verklegu hliðinu tók það sig til og renndi sér kurteislega til hliðar og hleypti okkur í gegn og þar með hafði ráð konunnar dugað til.

Við heimkomu skoðaði ég afraksturinn til þess eins að komast að því að ég get gert betur, eins og ávallt.  Hvað væri líka varið í að ná einhverri fullkomnun á þessu sviði frekar en öðrum, ef út í það er farið.

14 desember, 2014

Hverabrauð í Laugarási

Það er einhver sérstakur ilmur í loftinu í Laugarási um þessar mundir (enda logn), ekki ósvipaður þeim sem maður finnur við að aka framhjá Hellisheiðarvirkjun. Ástæðu þessa má rekja til veglegs smíðisgrips Benedkts bónda í Kirkjuholti, en það er bökunarpottur fyrir hverabrauð sem nú er orðinn hluti af landslaginu á hverasvæðinu. Potturinn er úr ryðfríu stáli og hinn vandaðasti að allri gerð.

Auðvitað tóku Laugarásbúar við sér, tíndust út úr skóginum með mjólkurfernur í fanginu og hófu að baka brauð.

Það gerðum við Kvisthyltingar einnig.  Við vildum hinsvegar vera öðruvísi og fundum okkur blikkdunk og freistuðum þess þannig að vikja ekki mjög frá þeirri bakstursaðferð sem notuð var hér fyrir um 60 árum. Uppskriftin sem notuð var, var sú sama og þá, einnig.

Það var hálfgerð helgistund að fara með brauðið í pottinn; skrúfa lokuna lausa og lyfta lokinu með þar til gerðu handfangi og koma blikkdunknum fyrir á stálgrindinni í botni pottsins. Þegar þetta gerðist voru ein 8 brauð í bökun, öll í 1s lítra mjókurfernum með álpappír í toppin sem gegndi óræðu hlutverki.  Þrátt fyrir mikinn brauðafjölda komst blikkdunkurinn vel fyrir. Þarna hófst síðan sólarhringsbið eftir að brauðið bakaðist. Þegar heim var komið var tiltekið símtææki stillt á tíma svo brauðið yrði nú sótt þegar það væri tilbúið.

Síminn klikkaði auðvitað og fD vaknaði til meðvitundar um brauðið skömmu eftir tilsettan tíma, en ég vaknaði ekki. Það varð síðan mitt hlutskipti, eða það kom í minn hlut að ná í nýbakað og ilmandi hverabrauðið. Segir ekki af leiðangrinum fyrr en heim var komið og athugað hvernig áferðin á brauðinu væri, svo ekki sé nú talað um bragðið og ilminn.

Það gekk treglega að ná brauðinu úr dunknum, en það gekk. Svo var skorin sneið, sem gekk þokkalega, utan velþekkta límáferð nýbakaðs hverabrauðs, sem veldur erfiðleikum við beitingu á hefðbundnum hnífum. Hér þyrfti að koma til vírskurðargræja (nenni ekki að útskýra það nánar).
Bragðið færði mig 50 ára aftur í tímann, en mér fannst brauðið heldur skorta sætleika í samanburði við nútíma hverabrauð.

Þetta var fyrsta tilraun og þær verða líklega fleiri þar til fullkomnun verður náð, því alltaf skal stefnt að fullkomnuun.

17 nóvember, 2014

"Jæja, er dýrðin þá komin í hús?"


Ég ætla að leyfa lesendum að giska á hver það var sem lét fyrirsögnina sér um munn fara þar sem ég kom heim með kassann sem geymdi nýjustu græjuna á heimilinu.

Ég hef áður lýst því yfir  að í mér leynist ákveðin tegund af græjufíkli, þó svo slíkar yfirlýsingar hæfi vart manni á mínum aldri. Ég get hér með bætt því við, að ég er afskaplega athafnasamur maður í því sem hentar mér eða sem áhugi minn beinist að og við slík tækifæri kýs ég að bíða ekki með það til morguns sem ég get gert eins og skot. Það sem mér hugnast hinsvegar síður að fást við, bíður oftar en ekki von úr viti og af því hef ég fengið að heyra gegnum tíðina, en minna upp á síðkastið, enda fD væntanlega farin að átta sig á hvern mann ég hef að geyma. Varla seinna vænna.

Nú tekur við lærdóms- og æfingatími og sem ég vænti mikils af, því hér er á ferð harla áhugaverð græja. 

05 nóvember, 2011

Hvernig fara þau að því að opna þær ekki?

Einu sinni fyrir ævalöngu ætlaði ég að fara að safna frímerkjum, þá undir áhrifum frá Barnablaðinu Æskunni, en þar var einhver Sigurður Þorsteinsson, að mig minnir, með frímerkjaþátt.


Ég byrjaði og svo hætti ég.
Ætli ég hafi ekki komist að þeirri niðurstöðu, að söfnunarárátta væri ekki hluti af persónueiginleikum mínum. Ég hef haldið mig við það síðan og ekki verið sakaður um söfnunaráráttu, nema þá helst þegar fD telur að ég ætti að henda einhverju sem ég tel mig geta haft not af síðar.

Í dag tókum við þátt í safnaradegi með því að skjótast í næstu sveit, þar inn í félagsheimilið, þar sem söfnunarnördarnir voru búnir að koma sýnisgripum sínum fyrir. Yfirleitt var þarna ekki um heil söfn að ræða, en t.d. á pennasafnarinn tæpl. 35000 penna! Ég veit að uglur fG eru talsvert miklu fleiri en þarna voru sýndar (fG fór þá leið að ráða sýningardömur til að sjá um uglurnar fyrir sig - kannski til......æi..ég nenni ekki að spinna það lengra).

Þarna var margt til sýnis: Auglýsingabæklingar fyrir landbúnaðartæki, límmiðar af niðursuðudósum, fuglastyttur, gömul lækningatæki, hnífar, pennar, bjöllur, smáleirtau, silfurskeiðar, krúsir, þjóðbúningadúkkur...og síðast en ekki síst smáflöskur með áfengum drykkjum í - eða það er allavega sagt - ætli það sé nú bara ekki litað vatn í flestum.


Það var allavega bara nokkuð vel varið tímanum sem fór í þessa skoðunarferð.
Fleiri myndir

09 október, 2011

Það slapp fyrir sextugt.

Það var fyrir um það bil 50 árum sem leiðir fólksins á myndinni lágu saman í Reykholtsskóla í Biskupstungum.

Eftir talsverð heilabrot áhugamanna um að freista þess að stofna til endurfunda, varð tvennt til þess að af samkundunni varð, með svo gæsilegum hætti sem raunin var:
a. Ef þetta gerðist ekki fyrir 60 ára aldurinn þá væri búið að tapa hópnum inn í starfsemi eldri borgara, en þaðan eiga menn víst ekki afturkvæmt svo glatt.
b. Tilkynnt var um áður óbirtar myndir frá barnaskólaárunum, sem þarna átti að sýna.

Í gær var samkoman góða. Flestir komu, en ekki allir, af ýmsum ástæðum. Gengin spor voru nú orðin nokkuð máð, en með góðum vilja mátti ferðast í tímanum til tíma gleði, leikja, harms, trega og gleymsku.
Þarna voru boðaðir árgangarnir sem fæddust 1952-54, sem hafa af einhverjum undarlegum ástæðum lítið hreyft sig úr stað á öllum þessum árum.
Myndir fyrir áhugasama
Fremri röð f.v. Páll M Skúlason, Ragnhildur Þórarinsdóttir, Geirþrúður Sighvatsdóttir,
Guðrún Hárlaugsdóttir, Kristín Björnsdóttir.
Aftari röð f.v. Sveinn A Sæland, Sigurður Þórarinsson, Pétur Hjaltason, Gunnar Sverrisson,
Ragnar Lýðsson,  Magnús Jónasson, Þorsteinn Þórarinsson.
Þarna vantaði, eftir því sem ég man, sem er líklega ekki alveg rétt, þessi:
Gróa Kristín Helgadóttir, Magnús Kristinsson, Loftur Jónasson,
Hjálmur Sighvatsson, Einar Jóhannsson.

05 október, 2011

Töfraveröld Laugaráss og nágrennis

Ég leyfði mér að fara enn eina ferðina um Laugarás og nágrenni í gær. Myndefnið sveik ekki frekar en fyrri daginn, og ekki EOSinn, PROlinsan og BILORA þrífóturinn.
Sannarlega förlaðist myndasmiðnum ekki heldur.
Nefni svo ekki forritið sem notað var við að koma myndunum í það form sem þær eru í hér.
Það er slatti í viðbót, sem jafnvel slá þessum við, HÉR.


10 september, 2011

Öskumistursferð

Nýja Hvítárbrúin séð frá Bræðratungukirkju (stækka? - smella)

Útsýnið vestur yfir er ekki amalegt
Fleiri myndir úr þessari laugardagsöskumistursbílferð

09 september, 2011

Rolla í laugvetnskum skógi

Tiltölulega andlitsfrítt lamb í laugvetnskum skógi.


Það er sannkölluð réttastemning á Laugarvatni á þessum haustmánuðum. Þegar ég kem í vinnuna á morgnana tekur yfirlætislaust og afslappað jarmið á móti mér, gamalærnar spásséra um hlöðin og garðana, gönguferð um skóginn vekur upp í manni hungrið í safaríkt lambakjöt.
Laugarvetningar eru löngu hættir að ergja sig á þessum heimalningum sínum, þeir líta svo á að hvert blómaker sem sleppur, sé sigur. Aðdáunarverður eiginleiki, þetta rólyndislega og jafnvel, á einhvern óútskýranlegan hátt, jákvæða viðhorf til fjárins, sem hefur tamið sér þetta sérstaka nábýli við íbúana.

Einn og einn heyri ég að vísu nefna það, að til þess að breyta stöðunni sé ekki um annað að ræða en skjóta bæði gamalærnar og lömbin. Það verði bara að drífa í því.

Svo er sagt að eigandinn hlæi bara að öllu saman - en það get ég ekki staðfest.
Posted by Picasa

04 september, 2011

Rollur á beit á menntaskólatúninu

Ég var á ferð með nýju linsuna mína í dag, en á hana hefur verið minnst lítillega áður.  Meðal annars stillti ég mér upp hjá Spóastöðum og smellti af mynd af Laugarvatni. Það var þá sem það rann upp fyrir mér hvílíkan grip ég er með á EOSnum :)

Hér er fyrst öll myndin:

Síðan er það klipptur bútur úr henni.


27 ágúst, 2011

Canon EF 4,0-5,6/70-300 L IS USM

... er mín.
Heimur í hundsauga.

Nú hefst tímabil þar sem henni verður beitt af krafti.

Maður er nú stundum sérstakur.

23 júní, 2011

Úrhelli

Ekki beinlínis búið að vera hitabeltisveður á Fróni undanfarið, en það kom ekki í veg fyrir að himnarnir opnuðu sig svo rækilega að ískristallarnir höfðu ekki tíma til að þiðna fyllilega áður en þeir féllu til jarðar og þar með á mannvirki Kvisthyltinga.
Svona er Kvistholt í dag.




21 júní, 2011

Afleggjarar

Útlandaferð vorsins lá til Görlitz, austast í Þýskalandi, en þar býr þessi unga kona ásamt foreldrum sínum. Heldur var nú skemmtilegt að endurnýja kynnin við hana.
Júlía Freydís Egilsdóttir
 Skömmu eftir að við snérum úr Evrópuferðinni átti þessi ungi maður leið til landsins frá Álaborg, þar sem hann elur manninn ásamt foreldrum sínum. Hann kom við og leyfði okkur fD að njóta nærveru sinnar um stund.
Gabríel Freyr Þorvaldsson

22 maí, 2011

Nú er það grábrúnt

Þetta er nú sent til áhugamanna um Laugarás, sem ég veit að eru margir.
Upp úr kaffinu færðist öskuský yfir þorpið eina, og við sem héldum að við nytum einhverrar sérlegrar verndar náttúruaflanna.






18 mars, 2011

Takk, Sko....

Nú áðan skelltum við fD okkur á frumsýningu nemenda ML á frumsömdu verki sem kallast Sko....  Vettvangur verksins er heimavist skólans og þar takast á fulltrúar mismunandi tónlistarstefna. Inn í það allt saman blandast síðan ýmislegt það sem ætla má að eigi sér stað í heimavistarheimi þar sem kynni eru náin og ýmislegt látið flakka.

Hér er á ferðinn harla skemmtilegt verk, ekki síst fyrir það að það var frumsamið að öllu leyti, bæði tónlist og texti. Slíkt ber að meta.


Auðvitað bar verkið keim af því að ekki voru atvinnumenn á ferð, en samt var þetta afskaplega vel gert. Ég vil ekki síst nefna tónlistina, sem var auðvitað frumsamin eins og annað. Hljómsveitin stóð sig heldur betur í stykkinu.


Þá sýndu allnokkrir leikarar afbragðs takta.

Guðbjörg Guðjónsdóttir, formaður árshátíðarnefndar
ásamt leikstjórunum Árnýju Fjólu Ásmundsdóttur og Brúsa Ólasyni

Litlir kallar og litlar kellingar

Heilsugæslustöðin í Laugarási á vígsludegi 1997 (mynd: Jónas Yngvi Ásgrímsson) Ég hefði óskað þess, að fyrstu dagar nýs árs yrðu ánægjulegri...