Sýnir færslur með efnisorðinu trú. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu trú. Sýna allar færslur

27 febrúar, 2019

Trú, völd og hagsmunir á biskupsstóli

Séð frá minnisvarða um Jón Arason.
Nei, það er nú ekki þannig, að ég ætli mér að gera einhverja lærða úttekt á þeirri samþættingu trúar, valda og hagsmuna af ýmsu tagi sem birtist þegar maður rennir í huganum yfir málefni Skálholtsstaðar. Ég er nú bara einn nágranni, sem hef stærstan hluta ævinnar átt heima í túngarði biskupsstólsins, rétt handan Keldunnar.
Ég hef afrekað það að:
- að vera kirkjuvörður þá er Sveinbjörn Finnson var staðarráðsmaður og fulltrúi þeirra "fyrir sunnan".
- að kenna við Lýðháskólann þegar sr. Heimir Steinsson var og hét.
- að hafa setið í sóknarnefnd og náð því, meira að segja, að verða sóknarnefndarformaður í nokkur ár.
- að þenja tenórröddina svo áratugum skiptir í Skálholtskórnum, bæði þeim eldgamla, gamla og nýja.
- nú síðast, að vera valinn til að setjast í varastjórn Skálholtsfélagsins hins nýja.

Þakskífur

Altarisverk Nínu Tryggvadóttur
Líf mitt allt og lítið brot sögu Skálholts í gegnum aldirnar, hafa átt samleið, svo um munar (fyrir mig, en ekki Skálholt).

Lái það mér hver sem vill, en þessi samleið hefur afskaplega oft gert mig afhuga Skálholtsstað og því starfi sem þar hefur verið unnið, en á sama tíma, hvort sem ég hef haft um það eitthvert ákörðunarvald eða ekki, þá hef ég ávallt haft og hef enn sterkar taugar til þessa staðar, vísast sterkari en margur sá sem um staðinn vélar eða hefur vélað.

Skálholt var endurreist eftir langan tíma niðurlægingar. Dómkirkjan reis og skólahús var byggt. Það var byggt yfir sóknarprestinn, organistann/kantorinn og rektorinn. Hvernig gátu þessar byggingar annað en upphafið Skálholt til fyrri stórfengleika?
Þarna voru allir möguleikar.
Það hefur hinsvegar ekki enn tekist að nýta þá svo sem vonir stóðu til.

Sannarlega lifir Skálholt á fornri frægð, og er þekkt um heiminn sem einn þeirra staða sem ferðamenn þurfa að heimsækja. Þekkt um hinn kristna heim. Þekktur sögustaður. Þekktur menningarstaður.

Það hafa margir lagt hönd á plóg í Skálholti, af alúð og heilum hug. Þar hefur margt ágætt verk verið unnið. Ég verð að viðurkenna að mér er það vart skiljanlegt hve mörgu góðu hefur verið komið þar til leiðar, þrátt fyrir það umhverfi sem staðnum er búið.

Skálholtshátíð 2018
Ekki treysti ég mér til að telja fram alla þá aðila, stofnanir, ráð, nefndir, félög, einstaklinga, fyrirtæki,   -  sem hafa með málefni Skálholts að gera, eða telja sig vita hvað staðnum er fyrir bestu. Þarna er um að ræða afskaplega ósamstæðan hóp, sem sjaldnast getur orðið einhuga um skipan mála í Skálholti í nútíð eða framtíð.
Allir þessir aðilar vilja vel, hver á sinn hátt og þar má segja að hnífurinn standi í vorri kú.
Það er tekist á um flest sem hugsast getur í tengslum við staðinn. Það takast á hagsmunir af ýmsu tagi, hagsmunir sem tengjast fjármagni, skipulagi, trú, nágrenni, lífsskoðun, ferðaþjónustu, landbúnaði, .....  Ég sé ekki tilgang með að reyna að telja saman alla þá hagsmuni sem hægja á málum sem tengjast Skálholti, en þessi staður er þess eðlis að það er mjög auðvelt að vera ósammála um hann og þegar þannig er háttað, er enginn hörgull á ósamrýmanlegum skoðunum.

Sú skoðun er talsvert algeng í mínu umhverfi að það hljóti að hvíla einhver álög á "Skálholtstorfunni", þar sé aldrei friður. Ég hef heyrt fólk halda þeirri skoðun fram að þetta eigi uppruna sinn í þeirri stund þegar Jón Arason og synir hans voru hálshöggnir árið 1550.  Til þessa vil ég ekki taka afsöðu svo sem, en verði ekki málefnum Skálholts skipað með skilvirkari hætti, munu þessi átök (jæja, mismunandi skoðanir eða sýn) halda áfram.
Það er nú mín auðmjúka skoðun, að ákvörðunarvald um málefni staðarins þarf að vera hjá einum aðila, sem "að bestu manna yfirsýn" leggur þær línur sem feta skal. Þessi aðili þarf að vera í afar góðum tengslum við staðinn, þekkja sögu hans og mikilvægi fyrir þjóðina og nágrennið mjög vel.

Biskupshúsið / Gestastofa
Það er vel þekkt máltæki sem segir, að því verr gefist heimskra manna ráð sem fleiri koma saman. Ekki tek ég nú svo stórt upp í mig að vilja halda þessu fram þegar málefni Skálholtsstaðar eru annars vegar, fjarri því, en hinsvegar tel ég að málefnum staðarins sé ekki vel komið með svo marga álitsgjafa og/eða ákvörðunaraðila sem raun ber vitni.

Svo er það þetta með Biskupshúsið eða Gestastofuna, sem nú stendur þarna á hlaðinu og bíður framtíðarhlutverks síns.
Í hvers/hverra höndum er að ákveða hvert það verður?  Hvað dvelur?




12 desember, 2015

Sópraninn vildi komast hærra

Staður: Skálholtsdómkirkja
Tími: 11. desember 2015
Tilefni: Jólatónleikar

Framundan var flutningur kóra úr uppsveitum með einsöngvurum, orgeli, trompet og klarinett á verki efti Sigvalda Kaldalóns, Kirkjan ómar öll. Því verður ekki á móti mælt að einhverjir tenórar báru nokkurn kvíðboga fyrir einni nótu í umræddu verki.

Forsaga málsins var sú, að við upphaf æfinga á þessu verki var það eins og hvert annað verk sem æft var; tenórinn dansaði um nóturnar, áreynslulaust þó svo ein nóta undir lok hvers erindis hafi tekið nokkuð á. Það var ekkert annað en áskorun og þetta var hið besta mál. Með þessum hætti var verkið æft nokkrum sinnum og það var að komast góð mynd á það.
Við þær aðstæður gerðist það allt í einu að einn sópraninn tjáði þá skoðun sína að sópranlínan lægi of lágt. Einhverjir fleiri sópranar tóku undir þessa skoðun.
Það vita þeir sem hafa sungið í kór, að það er ekki hægt að hækka þá línu sem ein rödd syngur, nema hinar hækki líka. Þar sem þarna var um að ræða athugasemd frá þungavigtarsópran varð það að ráði að stjórnendur hækkuðu verkið um heiltón, sem er alveg slatti (leiðr. það var hækkað um þríund, sem mun vera umtalsvert meira en heiltónn, sem gerir afrek tenóranna enn meira). Sannarlega myndi þetta þá einnig hækka háu nótuna sem áður er nefnd um heiltón (leiðr. þríund) líka.
Nú er það þannig, að tenórar eru í eðli sínu miklir sjentilmenn og þrátt fyrir mögulegar afleiðingar hækkunarinnar, tjáðu þeir sig tilbúna að takast á við verkið heiltón  (leiðr. þríund) hærra.
Í stuttu máli varð það úr og ekkert annað að gera en freista þess að pússa röddina einu þannig að ekkert brysti þegar á reyndi. Á æfingum gekk þokkalega að takast á við nótuna, ekki síst vegna þess að engir voru áhorfendurnir, en það var auðvitað alltaf ljóst að þegar stundin rynni upp á tónleikum, yrðu áhorfendur.  Það þarf ekkert að fjölyrða um, að það er í eðli tenóra að leggja sig ávallt fram um að röddin komist sem best til skila til áheyrenda og þá oft á kostnað þess hvernig þeir birtast áhorfendum.

Þá vík ég aftur að tónleikunum sjálfum og flutningi verksins.

Í þeirri útgáfu verksins sem þarna var skyldi flutt, syngur kórinn þrjú erindi, en inn á milli syngja sópran og tenór einsöng í millikafla.
Þar sem flutningur verksins var að hefjast; einsöngvarar, hljóðfæraleikarar, stjórnandi og kór klár, gerðist það, að tenórinn sem átti að fara að syngja einsöngsþátt sinn, ákvað að segja áhorfendum lítillega frá verkinu, sem var í góðu lagi auðvitað. Hinu var erfiðara að kyngja, að í kynningunni bað hann áhorfendur  að fylgjast sérstaklega með tenórunum í kórnum, því þeir fengju sko að taka á honum stóra sínum. Þarna varð því ljóst, að áhorfendur myndu einbeita sér að framgöngu tenóranna í þessu lagi, sem er auðvitað alltaf eðlilegt, en þarna gæti kastljósið mögulega sýnt flytjendur raddarinnar einu á heldur viðkvæmu augnabliki.

Flutningurinn hófst með tenórraddirnar í ofangreindum forgrunni. Ég, sem fyllti þarna flokk allmargra glæsilega uppsveitatenóra, var búinn að fara í gegnum leikskipulagið að svo miklu leyti sem ég myndi geta haft stjórn á því.  Ég hafði engar áhyggjur af áheyrendum, en gerði mér grein fyrir því að áhorfendur gætu mögulega orðið fyrir nokkru áfalli, en mér tækist ekki að halda tjáningu minni og innlifun í flutningnum í lágmarki.  Þarna varð að finna einhvern þann  meðalveg sem gæti talist ásættanlegur.
Tónninn nálgaðist og ég fann mig vera að missa tökin á  meðalveginum. Ég fann hvernig mér hitnaði smám saman í andlitinu (sem fól væntanlega í því að roði færðist yfir það). Þar sem tónninn eini datt inn fannst mér eins og allt andlitið færi sínar eign leiðir við að fylgja tóninum eftir, ýta honum úr hálsinum og yfir til áheyrendanna án efa á  kostnað upplifunar áhorfendanna.

Á hápunktinum fannst mér, að ténórinn sem beindi svo ljúflega athyglinni að raddfélögum sínum í kórnum, hefði betur valið sópraninn, sem þarna fékk að taka meira á því en til stóð í upphafi, nú eða altinum sem hafði haft orð á því að línan sem kom í hans hlut væri orðin og há, eða bassanum, sem bassaðist eins og hann bassast.

Þrátt fyrir ofangreint voru tónleikarnir harla skemmtilegir og þrátt fyrir að einsöngstenórinn hafi beint athygli áhorfenda svo óheppilega að röddinni einu, voru foreldrarnir í sópran og tenór afar stoltir af framgöngu síns manns.

Fyrir þá lesendur sem ekki þekkja þetta verk læt é hér fylgja myndband þar sem kór Glerárkirkju flytur það. Ég tek eftir því að þar syngja tenórarnir umrædda nótu aðeins í 2. erindinu.


Ég veit til þess að tónleikarnir voru teknir upp og vonast til að geta skellt upptöku af þessu verki hér inn í fyllingu tímans.

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...