Sýnir færslur með efnisorðinu 1979. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu 1979. Sýna allar færslur

23 febrúar, 2019

Stundum kallað PERMANETT

Við eigum öll sögu, þar með talinn ég sjálfur. Mig grunar að margir telji mig vera fremur venjulegan náunga, sem fetar þessa venjulegu slóð gegnum lífið. Ég held það bara líka, svona í stórum dráttum.

Samt á ég auðvitað sögu, sem að sumu leyti lýsir frávikum frá því sem þessi almenna mynd af mér kann að gefa til kynna, í það minnsta gagnvart þeim ykkar sem þekkja minna til mín. 
Ég á góða spretti í sögurammanum mínum, sem ég er stoltur af, og aðra sem ég vil síður að séu hluti af því sem fólk veit um mig. Hinsvegar finnst mér, svona þegar maður lítur til baka, þeir vera bara nokkuð "töff". 

Árin 1978 og 1979 ( 40 ár síðan) bjó ég með fD og eins árs syni í Kópavogi, langt kominn með námið sem ég hafði valið mér.
Í nágrenninu bjó frú Auður, mágkona mín með sínum manni og börnum. Hún starfaði sem hárgreiðsludama (fyrirgefðu, Auður), eða hvað sem fólk vill eða má kalla það fólk sem leggur á sig að klippa til og snyrta hár fólks.
Einhvernveginn æxlaðist það svo, í einhverju "bríaríi" að ég lét tala mig inn á að fá mér svokallað "permanent" eða "permanett" eins og ég sá það oft nefnt og skrifað. Ekki man ég hvort þær systur þurftu að tala mig til, enda skiptir það ekki máli, úr því sem komið er, en allavega reyndist ég nægilega tilbúinn til að fara þessa ótroðnu slóð til að aðgerðin var ákveðin og síðan framkvæmd.

Það vitum við öll nú að þetta fyrirbæri kallast PERMANENT, sem auðvitað er alþjóðlegt orð yfir eitthvað sem er varanlegt. Það ber að hafa það í huga að þetta fyrirbæri var, almennt séð, svona kvenna-dæmi. Konur fengu sér permanent. Þarna var hinsvegar langt liðið á áttunda áratuginn og frægir karlmenn sáust æ oftar á myndum þar sem þeir skörtuðu permanenti og virtust bara nokkuð sáttir.


Ég reikna með að ég hafi hugsað sem svo, að ég gæti alltaf vísað til tískustrauma ef ég fengi athugasemdir við uppátækið. Verkið fólst, eins og sjá má á myndunum í því að sérhæfðum permanent rúllum var komið fyrir með einhverjum sérhæfðum hætti, eins og reglur kváðu á um. Síðan man ég eftir litlum plastbrúsa með efni sem sprautað var á rúllurnar, en þarna mun hafa verið um að ræða  einhverskonar festi, sem síðan olli því að hárið hélst í einhvern tíma, svona líka svakalega krullað.
Ég minnist þess ekki að hafa orðið fyrir aðkasti vegna þessa uppátækis, enda var þetta að verða nokkuð viðtekið hjá karlmönnum sem töldust vera eitthvað. Ég þykist hafa fulla vissu fyrir því að svili minn hann Anfinn (maður frú Auðar) hafi fengið samskonar hanteringu. Til sannindamerkis um það fann ég mynd þá sem sjá má hér neðar, þar sem ekki verður um það villst, að permanent hefur verið sett í karlinn.
Já það er nú það.

Þá er komið að því að uppljóstra um þetta allt saman, með persónum og leikendum.  Ef einhver svo mikið sem brosir út í annað, þá er tilgangi mínum með þessum undarlega pistli náð. Jafnframlýsi ég því yfir að ég tel persónuverndarlög ekki ná til þessara myndbirtinga, enda myndirnar löngu fyrndar - teknar nánast í fornöld.

"The Man"

Anfinn og frú Auður

fD 




Litlir kallar og litlar kellingar

Heilsugæslustöðin í Laugarási á vígsludegi 1997 (mynd: Jónas Yngvi Ásgrímsson) Ég hefði óskað þess, að fyrstu dagar nýs árs yrðu ánægjulegri...