Sýnir færslur með efnisorðinu bandaríkin. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu bandaríkin. Sýna allar færslur

10 september, 2017

Árás á náttúruöflin

Jæja, nú virðast tugir þúsunda Bandaríkjamanna ætla að koma saman og skjóta fellibylinn Irmu niður.
Þetta eru auðvitað óendanlega fáránlegar fyrirætlanir, en ég brást nú samt við þessum fregnum með svipuðum hætti og ýmsu öðru sem fréttist frá landi hinna frjálsu og hugrökku.

Við nánari skoðun virðist svo sem ungum mamnni hafi eitthvað leiðst og ákveðið að stofna hóp á Facebook, sem hefur það markmið að hvetja fólk til að koma saman beita skotvopnum sínum (sem nóg er víst til af) á þetta ógnvænlega fyrirbæri.

Í alvöru talað finnst mér hreint ekki ólíklegt að einhverjir muni stilla sér upp þarna þegar fer að hvessa og hefja skothríð. Þetta fólk gerði Donald Trump að forseta. Hversvegna ætti það ekki að skella sér í að skjóta niður fellibyl?


Stærra mál

Ef maður trúir því að maður búi í stórfenglegasta landi jarðar, ("The greatest country on Earth"), hversvegna ætti maður að að sætta sig við það að náttúruöflin fái að fara sínu fram óhindrað?
Líklega er þetta þó hluti af miklu stærra máli og sennilega þarf ekki að  leita út fyrir íslenska landhelgi til að finna svipaðan hugsunarhátt. Það sama má væntanlega segja um flest önnur lönd á öllum tímum. Munurinn núna er sá, að mínu mati, að smám saman er sá hluti mannkyns sem veit fátt og skilur ekkert, að verða fjölmennari og valdameiri en hinn, sem veit og skilur eitthvað.  
Ef maður áttar sig t.d. ekki á því hvað það er sem veldur fellibyljum, hvers eðlis þeir eru, hvert umfang þeirra er, eða bara hvað þeir eru, þá er allt eins líklegt að maður trúi, ef einhver segir manni það, að það sé hægt að fara út í garð og skjóta hann niður.
Ég hugsa að það verði kannski ekki næst þegar gýs á þessu landi, en sennilega í ekki svo fjarlægri framtíð, að fólk telji sig þess umkomið að setja tappa í eldfjöll, eða að minnsta kosti varpa sprengum á þau. Þá verður líklega vísað til þess þegar hraunið sem rann í Vestmannaeyjum 1973  var stöðvað með því að sprauta yfir það vatni, eða þegar Jón Steingrímsson, eldklerkur stöðvaði hraunstrum frá Skáftáreldum 1783, í frægri eldmessu sinni. 

Maðurinn er smám saman að byrja að trúa því, að hann sé almáttugur, þó hann sé ekki merkilegri en smásætt rykkorn á eilífðaströnd alheimsins.  Hann er smám saman að missa sjónar á öllu samhengi  við það sem er, var og verður. Lifir í núinu í örheimi sínum og stekkur þaðan á allt það sem birtist í tölvum eða símum sem hann telur vera satt og rétt, en er í raun að stórum hluta hrein steypa.

Ég viðurkenni fúslega, að með því sem ég hef sagt hér, er ég líklega full svartsýnn á samferðamenn mína, en hvað á maður svo sem að halda?






Unga manninum leiddist og bjó til hóp á Facebook.  Á skömmum tíma safnaði hann 26000 nöfnum fólks sem ætlar að skjóta niður fellibyl.  Þessi hópur rataði á skömmum tíma inn á alþjóðlega fréttamiðla.   
Stofnandi hópsins var, að eigin sögn, að grínast, en hve margir trúa því raunverulega að hann búi yfir fullnægjandi staðfestingu á því að það sé hægt að skjóta niður fellibyl? Væru einhverjir Íslendingar tilbúinir að trúa því að með því að varpa sprengjum í eldgíg sé hægt að stöðva eldgos?
Ég veit það ekki, auðvitað.
Mér finnst það samt ekki ólíklegt. 
En, hvað finnst þér?





25 nóvember, 2016

Svei svörtum fössara

Getur lágkúran orðið öllu meiri?
Hvað í ósköpunum kemur okkur það við þótt Bandaríkjamenn fagni einhverjum atburði í sögu sinni?
Hvað í ósköpunum kemur okkur það við að verslunarmenn í Bandaríkjunum hafi tekið upp þann sið að marka upphaf jólaverslunar með einhverjum tilboðum og valið til þess daginn eftir þakkargjörðardaginn sinn?
Er ekki komið alveg nóg af þessari gagnrýnislausu eftiröpun á öllu því sem amerískt er?
Mér finnst Íslendingar gera óskaplega lítið úr sér með þessum hálfvitagangi.

Ekki bætir svo úr skák þegar verslanir geta ekki lengur þýtt heitið á þessum föstudegi bara yfir á íslensku og kallað hann "svartan föstudag". Nei, annaðhvort verður hann að kallast "Black Friday", eða það sem jafnvel enn skelfilegra: "S V A R T U R   F Ö S S A R I" Almáttugur.

Ef einhverjir skyldu nnú ekki átta sig á samhenginu þá er þetta m.a. sagt á Vísindavefnum um Þakkargjörðardag Bandaríkjamanna:
Fyrsta þakkargjörðardaginn héldu enskir púrítanar, svonefndir pílagrímar, haustið 1621. Þeir höfðu í september árið áður hrökklast með skipinu Mayflower frá borginni Plymouth á Englandi að strönd Massachusettsflóa. Þar stofnuðu þeir nýlenduna Plymouth. Eftir harðan vetur en góða sumaruppskeru ákváðu pílagrímarnir að þakka Guði fyrir alla hans velgjörninga með þriggja daga hátíð. Þeir buðu innfæddum einnig að taka þátt í veislunni, en til matar voru einkum kalkúnar og villibráð.
Svo leiddi eitt af öðru:
Árið 1863 mælti Abraham Lincoln (1809-1865) forseti svo fyrir að allir Bandaríkjamenn skyldu halda hátíðlegan þakkargjörðardag fyrir gæði síðasta árs. Hann skyldi haldinn síðasta fimmtudag í nóvember, en sá dagur var í nánd við daginn sem George Washington gaf út yfirlýsingu sína. Ritstjóri kvennablaðsins Lady’s Magazine, Sarah J. Hale (1788-1879), hafði þá lengi barist fyrir þessu máli. Árið 1939 breytti Franklin D. Roosevelt (1882-1945) forseti dagsetningunni í fjórða fimmtudag nóvembermánaðar og bandaríska þingið staðfesti tillögu hans árið 1941.
Er einhver sérstakur skortur á dögum til að gera sér dagamun á þessu landi elds og ísa?

Það getur verið að svona séum við bara: að hingað hafi flykkst forðum fólk af sömu tegund og nú er nýbúið að kjósa stórundarlegan forseta yfir sig vestanhafs. Það eru ýmis merki þess að við höfum gert slíkt hið sama hér og meira að segja orðið á undan "frændum" okkar fyrir westan.
Ég vil hinsvegar skrifa þetta að stórum hluta að endalausa ásókn okkar í bandarískar sápuóperur og mátt fjármagnsins, sem dregur okkur til að kaupa það sem við höfum ekki raunverulega þörf fyrir.

Hættum þessari vitleysu.
---------------------
Það er enginn ritstjóri sem metur þessi skrif áður er þau fara í loftið, nema ég, sem kýs að láta mér vel líka.

Þetta var blástur dagsins og ég get þar með farið að hugsa um eitthvað uppbyggilegra.

08 nóvember, 2016

"...all men are created equal" í tilefni dagsins

Ég velti því fyrir mér, svona í tilefni dagsins, hvort sjálfstæðisyfirlýsing Bandaríkjanna heimili konu að vera forseti.

Ég lærði ensku þannig, að það væri munur á MAN og A MAN, þar sem hið fyrrnefnda vísar til alls mannkyns og er ekki  til í fleirtölu og hið síðarnefnda merkir karl(maður) sem er síðan MEN í fleirtölu.
Það hefur enginn fengið mig til að efast um að svona sé þetta og hafi alltaf verið.
Sambærilegt orð í íslensku er dálítið öðurvísi og vefst ansi mikið fyrir okkur.
Ef þú er kvenkyns mannvera þá ertu KONA eða KVENMAÐUR ef þú er karlkyns mannvera ertu með sama hætti KARL eða KARLMAÐUR. Orðið MAÐUR í íslensku vísar hinsvegar til beggja kynja.  Þetta virðist mörgum okkar ekki vera ljóst, enda tala þau um KONUR og MENN, sem maður hlýtur þá að skilja sem svo, að konur séu ekki hluti af mannkyninu, heldur eitthvað allt annað.
Nóg um það.

Eftirfarandi er umræddur hluti úr sjálfstæðisyfirlýsingunni:
"We hold these truths to be self-evident, that all men are created equal, that they are endowed by their Creator with certain unalienable Rights, that among these are Life, Liberty and the pursuit of Happiness."
Við lítum svo á að allir karlmenn séu skapaðir (fæddir) jafnir og svo framvegis.  Þetta var upprunalega merkingin, fyrir utan það, að sjálfsögðu, að þarna var aðeins átt við frjálsa, hvíta karlmenn sem áttu eignir. "really meant that "all free, property-owning males are created equal".
Það var meira að segja svo, að Thomas Jefferson, sem skrifaði yfirlýsinguna átti sjálfur 200 þræla, sem augljóslega nutu ekki sömu réttinda og hann.
Þó fólk segi nú að þó svo aðeins sé talað um karlmenn í yfirlýsingunni þá sé merkingin nú orðin miklu víðtækari og nái til allra.
En er það svo í raun?
Er ekki einmitt líklegt, að þessi yfirlýsing sé einn stærsti þröskuldurinn í vegi fyrir jafnrétti kynjanna og jafnrétti kynþáttanna, eða jafnrétti, yfirleitt?

Svona eru nú pælingar manns einfaldar á þessum mikla degi Bandaríkjamanna. Dálítið trumpískar, bara.

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...