Sýnir færslur með efnisorðinu Þorlákshöfn. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu Þorlákshöfn. Sýna allar færslur

12 ágúst, 2019

Glæpakvendið

Hún sat þarna í svörtum Chevrolet og fylgdist með okkur þegar við ókum framhjá afleggjaranum. Klukkan var hálfsjö að morgni rétt fyrir austan Grindavík og við á leið eftir Suðurstrandarvegi í átt til Þorlákshafnar, en það er um sextíu kílómetra spotti. Ætlun okkar var að koma við í Krýsuvík, en þangað hafði fD ekki komið í einhverja áratugi. Það kann að teljast undarlegur ferðatími uppsveitafólks, að vera á þessari leið á þessum tíma, en við vorum að koma frá flugvellinum þar sem við höfðum skilað af okkur dóttur og barnabörnum í flug og hugðumst breyta aðeins til með leiðina heim. 
Hún var með þykkt, ljóst hár og í dökkum fötum, líklegast leðurgalla. Sat þarna í þessum svarta bíl og leit í átt til okkar þar sem við brunuðum framhjá. Ég var nú svo sem ekkert að velta þessum bíl eða konu sérstaklega fyrir mér fyrst í stað, nema kannski í það augnablik sem það tók mig að velta fyrir mér að þetta væri líklega ekki alveg venjulegt.

Eftirför

Eftirförin hófst þar sem rauði krossinn er.
Það var ekki fyrr en þegar við ókum upp Siglubergsháls, sem leið liggur norðan Festarfjalls, að mér varð litið í baksýnisspegilinn. Þá sá ég hvar svarti bíllinn ók í humátt á eftir okkur í um 200 metra fjarlægð, sem þurfti svo sem ekki að vera neitt óeðlilegt, en samt sem áður fór ég að fylgjast með honum og tók smám saman eftir því að fjarlægðin milli bílanna hélst óbreytt hvort sem ég ók hraðar eða hægar. Þá byrjaði ég að velta þessu öllu fyrir mér. Stór,svartur, amerískur bíll, ljóshærð, leðurklædd kona við stýrið, fyrir klukkan sjö að morgni á fáförnum vegi.  Hversvegna hélt hún sama hraða og ég?  Beið okkar einhverskonar fyrirsát á þeim 50 kílómetrum sem framundan voru til Þorlákshafnar? Myndi hún láta til skarar skríða á einhverjum fyrirfram ákveðnum stað? 

Minkurinn

Við þessar aðstæður kom mér í hug atvik úr barnæsku þegar ég þurfti að ganga í niðamyrkri milli gamla bæjarins í Hveratúni og þess nýja, en það er ekki nema 50-60 metra vegalengd. Þá fór ég allt í einu að ímynda mér, að það væri minkur að elta mig og tók til fótanna. Skelfingin óx síðan með hverju skrefi. Auðvitað var enginn minkur að elta mig, en ímyndunaraflið var sannarlega í góðu lagi. 
Ég komst að því þarna, að enn var ímyndunaraflið ekkert farið að ryðga og ég tók eftir því að ósjálfrátt var ég farinn að auka hraðann. Svarti bíllinn hélt samt bilinu óbreyttu.

Farðu framúr!

Ég prófaði að hægja ferðina til að gefa konunni kost á að fara fam úr og bruna sína leið í austurátt, inn í sólarupprásina, en það virkaði ekki, hún hélt sömu fjarlægð milli bílanna.  Nú var svo komið, að ég nefndi þennan svarta bíl við fD, en það varð til þess að hún fór líka að fylgjast með svarta bílnum. Við vorum meira að segja farin að ræða ýmsa möguleika varðandi það sem þarna gæti veið um að ræða, til dæmis að bak við einhverja hæðina framundan biði okkar fyrirsát úr undiheimum Reykjavíkur, eða þá að í svarta bílnum leyndust fleiri en ljóshærða konan og að á ákveðnum tímapunkti myndu þau láta til skarar skríða, taka fram úr og loka veginum áður en þau gerðu árás.

Engin Krýsuvík

Meðan á þessum pælingum stóð birtist afleggjarinn að Krýsuvík skyndilega, en hraðinn á okkur var slíkur að ég hefði ekki náð að hægja á tímanlega, til að taka beygjuna inn á hann nema nauðhemla, sem leit ekki vel út og hefði getað kallað fram skyndiárás glæpahyskisins í svarta bílnum. Þó svo fD hefði óskað þess að fá að skoða Krýsuvík, loksins, eftir að áratugir höfðu liðið frá því hún kom þangað síðast í sunnudagsbíltúr með foreldrum sínum, lagðist hún gegn því að ég sneri við til að hægt yrði að uppfylla drauminn.  Meðan við komumst að þeirri niðurstöðu, að halda bara áfram án heimsóknar í Krýsuvík, hafði ég dregið talsvert úr ferðinni. Það hafði konan á svarta bílnum einnig gert, sem varð til þess að enn styrktist grunur minn um að ekki væri allt með felldu.

Bjargar trúin?

Framundan urðum við, með góðu eða illu, að ná einhverjum áfangastað þar sem fólk væri fyrir, en um slíkt var ekki að ræða fyrr en í Vogsósum eða Strönd, að því er við töldum og þangað voru rúmlega 20 kílómetrar í gegnum auðnina. Vegurinn gaf fullt tilefni til þess og ég jók því hraðann (eins og þegar meintur minkur hafði elt mig forðum), í þeirri von að glæpamennirnir eða kókaínfíklarnir væru í svarta bílnum, en væru ekki að undirbúa fyrirsát.
Enn hélt konan á svarta bílnum sömu fjarlægð. Ekkert annað gerðist og það var nokkur léttir þegar Strandarkirkja birtist framundan.

Hringt í lögreglu?

Áttum við að leita ásjár hjá fólkinu sem þarna býr klukkan sjö að morgni? Hvað áttum við að segja við það?  Niðurstaðan af þeirri umræðu, sem reyndar var ekki umræða nema í hugasfylgsnum, var að freista þess að ná til Þorlákshafnar, sem nú var í um 20 kílómetra fjarlægð. Það var áhætta, en með því myndum við forðast að lenda í vandræðalegu samtali við ókunnugt fólk um glæpamenn sem væru á hælunum á okkur. Mér hafði ekki einu sinni komið til hugar að benda fD á að hringja í lögregluna þegar eftirförin stóð sem hæst, en sannarlega hefði það símtal geta orðið nokkuð skondið, svona eftir á að hyggja.

Björgun í augsýn

Eftir því sem við nálguðumst Þorlákshöfn fannst okkur að líkur á því að á okkur yrði framinn glæpur, minnkuðu með hverjum kílómetranum. Líkurnar urðu sáralitlar þegar Þorlákshöfn tók að blasa við og hurfu endanlega þar sem við ákváðum að beygja af hringtorginu inn í bæinn, meðan konan á svarta bílnum renndi út úr torginu í norðurátt.
Léttir.
Leið okkar lá inn í sofandi Þorlákshöfn með fánum og blöðrum skrýdd hús og garða og götur. Framundan var hamingjudagur í þessu bæjarfélagi.

Ótti við auðnina

Ég hef velt nokkuð fyrir mér hversvegna þessi ljóshærða kona í svörtum stórum jeppa, beið okkar á þessum afleggjara við Grindavík klukkan hálf sjö að morgni og elti okkur síðan þessa 50 km. leið til Þorlákshafnar.  Ég get ímyndað mér margar ástæður fyrir þessu, en ég tel að sú sem er líklegust myndi ekki beinlínis falla í kramið á þessum tímum og læt því vera að upplýsa um það mat mitt.

--------------

Þessi saga byggir nokkuð lauslega á sönnum atburðum. 

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...