Sýnir færslur með efnisorðinu orð. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu orð. Sýna allar færslur

20 febrúar, 2019

Með okkur í vasanum

Ég veit það ósköp vel, að þetta er ekki til neins, ekki bara vegna þess að þið eruð nú ekkert sérstaklega mörg sem leggið á ykkur að lesa þessi skrif mín um allt og ekkert, heldur ekki síður vegna þess hve ódýr orðin eru orðin. 
Vægi þeirra fer síminnkandi á sama tíma og fjöldi þeirra eykst.
Eftir því sem orðunum fjölgar verður æ erfiðara að greina á milli sannleika og lygi og það verður æ auðveldara að stjórna okkur.
Eftir því sem orðunum fjölgar verður æ erfiðara að taka ákvarðanir því með orðum má flækja málin svo og menn vita varla hvað snýr upp og hvað niður í lok orðaflaumsins, sem lýkur reyndar aldrei.

Þegar upp er staðið munu þeir standa með pálmann í höndunum og okkur í vasanum, sem tala hæst og endurtaka mest, einföld skilaboð sem smám saman fara að klingja ómeðvitað í hausnum á okkur.  Með öðrum orðum, þá munu þeir sem sem eiga nægt fjármagn til að stýra því sem við fáum að heyra, ráða heiminum. Við verðurm að glingri sem þeir fitla við í vasanum við og við, gleypandi molana sem að okkur eru réttir.

Nánast á hverjum degi birtast loftbólur ofan úr djúpinu, þar sem það er geymt sem ekki má ná yfirborðinu. Samt sleppa alltaf þessar bólur. Örlög þeirra eru að springa eða verða sprengdar, jafnvel áður en okkur hefur tekist að skilja hvað þær fela í sér.  Þær eru sprengdar með orðum og endurtekningum. Svo sleppur bara næsta bóla og sagan endurtekur sig.

Sannarlega er ég búinn að fullyrða mikið hér fyrir ofan og gera ansi hreint lítið úr okkur, almúganum.
Ég reyni hér að nefna bara nokkur atriði til að reyna að undirbyggja fullyrðingar mínar:

Laun bankastjóra fylltu eina bóluna, en svo var hún sprengd þegar  það var upplýst að launin væru hófleg miðað við allt og allt og að ákvarðanir um launahækkun hafi verið varkár.  Dettur einhverjum í hug að innihald þessarar bólu og uppistandið sem varð þegar hún sprakk, leiði af sér einhverjar breytingar?  Það finnst mér afar ólíklegt og afskaplega mörg okkar, sem jafnvel fyllum lægstu launaþrepin, eru bara harla sátt og finnst þetta eðlilegt.

Hefur einhver lagt það á sig að bera saman þjónustu bankanna þriggja, við okkur sem  eigum hjá þeim einhverjar innistæður?  Þeir eru sagðir ástunda samkeppni sín í milli.
Um verðskrá Arion banka sagði Gylfi Zoega, hagfræðiprófessor fyrir stuttu:
„Ég, sem venjulegur maður, get varla lesið þetta. Þó að ég fari upp í sumarbústað í einn mánuð þá gæti ég ekki munað þetta. Ef ég ætti, sem neytandi, að bera saman verðskrá eins og þessa við verðskrá Íslandsbanka eða Landsbankans þá gerði ég ekki annað. Þetta flækjustig er viljandi og flækjustigið kemur í veg fyrir öll samskipti. Bankarnir keppast um stóru fyrirtækin sem vilja fá lán en almenningur? Það er engin leið að efla samkeppni um bankaviðskipti almennings þegar verðskrá er svona óskýr.“
Jú, þessi bóla sprakk dag einn fyrir nokkru, og svo ekki söguna meir.  Vitlausustu viðbrögð bankanna hefðu að sjálfsögðu verið að svara þessu að einhverju leyti. Þeir vita hvernig fer með þessar bólur.

Þetta snýst ekki bara um bankana. Það er af nógu að taka. Sumar bólur koma upp á yfirborðið oftar en einu sinni. Þannig var með mál starfsmannaleigunnar. Fyrri bólan sprakk, en auðvitað gerðist svo ekki neitt. Síðari bólan sprakk og gerir einhver ráð fyrir að innihald hennar verði nú tekið föstum tökum? Ég er harla efins, ekki síst í ljósi þess, að nú hefur okkur verið birt annað innihald þessarar bólu, sem stangast algerlega á við hið fyrra. Hvort var þarna um að ræða stóralvarlegt mansalsmál, eða leikþátt Roma fólks (Sígauna) frá Rúmeníu, til að gera grín að okkur.  Hverju trúum við? Hverju höfum við forsendur til að trúa? Tökum við kannski bara ættjarðarástina á þetta?

Svo eru þar stjórnmálamennirnir okkar, sem eru þar sem þeir eru vegna þess hve góðir þeir eru í að tala - hve mörgum orðum þeir geta komið frá sér.. Það sem er í höfðinu skiptir minna máli, harla oft.  Er það virkilega svo, að sú hliðin sem við almúginn sjáum, sé bara leikrit. Getum við nefnt marga þingmenn, sem eru það sem þeir virðast eða segjast vera?   Ég á í braski með það.  Þurfum við að beita hlerunum til að komast að hinu sanna um þessi sverð og skildi íslensku þjóðarinnar?
-------------

Ég viðurkenni það fúslega, að ég finn talsvert oft fyrir þreytu á þessu samfélagi okkar; öllum þessum orðum, sem segja svo margt, en eru bara hljóðbútar eða skriftákn, þegar upp er staðið.

Ég viðurkenni það einnig að vera búinn að reyna að finna flöt á að tjá mig um þetta, svo sæmilega skipulegt megi teljast, en hef ekki fundið hann. Mér tókst samt að komast að niðurstöðu, og hún er þessi:
Það skiptir engu máli hvað ég segi, ef það mögulega reynist skipta einhvern einhverju máli, þá verður eitthvað annað til þess að snúa honum aftur.   

Þar með varð niðurstaðn sú að byrja bara og sjá svo til hvar ég setti punktinn aftan við innihaldið, en sannarlega ekki efnið, því það er óþrjótandi.

Þar með set ég punktinn.

punktur



Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...