Sýnir færslur með efnisorðinu Evrópukeppni. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu Evrópukeppni. Sýna allar færslur

18 júlí, 2017

Dómarinn

Samband mitt við kattspyrnu er vísast talsvert sérstakt. Ég fylgdist aðeins með henni í gamla daga, á menntaskólaárum, aðallega vegna þess að bekkjarbræður mínir, þá aðallega Eiríkur Jónsson Vorsabæjarbur, æviráðinn talsmaður fyrir og sérfræðingur um Manchester United og Selfyssingurinn Helgi Þorvaldsson (áhangandi sama liðs), lifðu fyrir þetta og einhvernveginn sogaðist ég stundum að sjónvarpstækinu á laugardögum, þeim til samlætis.  En að halda með sama liði og þeir kom auðvitað ekki til greina.  Leeds United varð mitt lið, aðallega vegna þess að það þurfti að halda með einhverju liði til að nenna að hanga yfir þessu og til að geta verið ósammála félögunum.  Svo bara hætti ég að spá verulega í knattspyrnu. Þegar knattspyrnuáhugamenn í hópi nemenda spurðu mig eitt sinn hvað liði ég héldi með í ensku knattspyrnunni, sagði ég það fyrsta sem mér datt í hug: Grimsby. Ætli þetta hafi ekki verið þegar varðskipin okkar voru að skera aftanúr breskum togurum í íslenskri landhelgi fyrir nokkrum árum.
Ég ætlaði nú ekkert að fara að skrifa hér um löngu liðna tíma, en þetta var svona til að skapa ákveðið samhengi.
Auðvitað fylgist ég með því þegar íslenskt landslið í knattspyrnu keppir á stórmóti, eins og gerðist í fyrra og síðan aftur núna. Ég horfi meira að segja á aðra leiki í slíkum mótum eftir því sem tími gefst.

Þar með er ég kominn að raunverulegu umfjöllunarefni þessa pistils.

Ef ég á í sérstöku sambandi við knattspyrnu þá get ég fullyrt, að fD er mér miklu fremri að því leyti. Ég held ég geti fullyrt að aldrei hafi ég heyrt hana segja eitt jákvætt orð um knattspyrnu.  Í þeim fáu tilvikum sem ég kveiki á sjónvarpinu, eftir að hafa munað eftir því að þar mætti fylgjast með stórleik í Evrópukeppni landsliða, hefur hún um það einhver orð, eins og t.d.: "Þú ætlar þó ekki.....?" og svo framvegis.  Ef ég síðan leyfi mér að, að standa upp frá leiknum til að rétta úr mér, eða hvíla mig, heyrast oftar en ekki athugasemdir um tilgang þess að vera að kveikja á sjónvarpinu og horfa síðan ekki á það.
Þrátt fyrir þetta allt, kemur í ljós, þó sannarlega fari það ekki hátt og sé aldrei viðurkennt, að áhugi fD á knattspyrnu er talsvert meiri en margur gæti ímyndað sér. Auðvitað þykist hún ekki horfa, þar sem hún situr og leggur kapal, en hún býr yfir þessum öfundarvekjandi eiginleika að geta gert fleira en eitt í einu. Hér og þar á hún það til að gera aðskiljanlegustu athugasemdir við gang leiksins (hvað er eiginlega mikið eftir af þessu?), einstaka leikmenn (það á nú bara reka þessa út af!) eða dómarann (hvað er eiginlega að þessum dómara?). Það er fátt um millileiðir eða grá svæði í sófadómgæslu fD.

Ég nefndi það í gær að það gæti verið gaman að sjá hana þarna á vellinum við dómgæslu, helst þannig að hún væri með hljóðnema sem væri tengdur hátalarakerfi vallarins. Þannig gætu gestir á leikvangnum fylgst betur með gangi mála; ekki aðeins því sem leikmenn væru að dunda sér við, heldur ekki síður þeim athugasemdum sem dómarinn léti sér um munn fara.
"Þá yrði nú loksins einhver áhugi á þessum leikjum", voru viðbrögð fD.
Ég er að sumu leyti sammála.

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...