Sýnir færslur með efnisorðinu Bláskógabyggð.. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu Bláskógabyggð.. Sýna allar færslur

13 janúar, 2020

Um veður og færð

Dýragarðurinn Slakki í vetrarbúningi (janúar 2020)
Þar sem ég sit hér á meðan dimm og köld vetrarnóttin breytist smám saman í kaldan og óvissuþrunginn vetrardag, er svo sem ekkert að frétta. Ég sé að pallgestirnir mínir eru byrjaðir að koma sér fyrir í trjánum, þess albúnir að taka flugið niður á borð til að hefja matarhátíð dagsins. Það er víst hægt að kalla það verkefni þeirra ýmsum nöfnum, en í sem stystu máli snýst það um það, að reyna að ná sér í nægilega mikið af fæðu í magann til að lifa af til næsta dags. Þetta eru fuglar himinsins og þeir lifa bara fyrir einn dag í einu; morgundagurinn er ekki til í þeirra huga.

Síðdegið og morgundagurinn eru hinsvegar til í mínum huga. Ég hamast við að afla mér upplýsinga um hvað er framundan, þyrstur í að fá sem gleggstar upplýsingar um hvað bíður mín hérna í í lognværum Laugarási. Sannarlega  finnst mér gott til þess að vita, að ég þarf ekki að komast neitt; hugsa hinsvegar til þeirra sem þurfa að vega og meta hvort þeir komast í vinnuna og ef þeir skyldu komast þangað, hvort þeir komast aftur heim. Útlitið fyrir þetta fólk er óvíst og samt ekki. Það fólk sem kemst líklega í vinnuna hér í uppsveitum, þarf að öllum líkindum að dvelja á vinnustaðnum sínum fram á morgundaginn, í það minnsta.

Ég þekki þetta. Ég þekki þessar aðstæður. Eins og einhver sagði einhverntíma: "Been there, done that".
Það fljúga í gegnum hugann vetrarmorgnar, jafnvel áratugi aftur í tímann, þegar ég þurfti að fara í vinnuna til að freista þess að kenna fróðleiksþyrstum ungmennum um Shakespeare, eða eitthvað í þá veruna, vetrarmorgnar þegar þar var logn í Laugarási, svo sem, en ég heyrði hvininn í trjátoppunum og vissi að þetta yrði tvísýnt, sem síðan varð oft raunin. Skálholtsbrekkan ófær, ófært við Spóastaði, eða Svínavatn eða Apavatn. Jafnvel blindöskuþreifandi bylur, svo ekki sást út úr augum.
Ég er bara harla feginn að þessir tímar eru frá, því það blundar nefnilega ekki í mér björgunarsveitarmaðurinn, sem finnst nokkuð áhugavert að takast á við óblíð náttúruöfl.

Vangaveltur um vetrarfærð leiða að sjálfsögðu hugann að  því, hvernig samfélagið styður við það fólk sem þarf að komast af heimilum sínum til vinnu, eða skóla, eða til að sinna öðrum mikilvægum erindum, þegar vetrarveður ganga yfir.

Snjóruðningstæki rennir í gegnum Laugarás í febrúar 2018.
Sú breyting sem hefur orðið á vetrarþjónustu veganna hér í uppsveitum á síðustu áratugum er slík, að jaðrar við að tala megi um byltingu.  Áður fyrr (nú tala ég eins og maður sem man tímana tvenna) voru vegheflar sendir á vegina, aðallega til að mjólkurbílar kæmust leiðar sinnar, kannski tvisvar eða þrisvar í viku.  Það kom meira að segja að það var ekki einu sinni reynt að ryðja vegi. Þegar heflarnir fóru hinsvegar um og plægðu sig í gegnum ófærðina, ruddu þeir snjónum út í kant og þar mynduðust  hryggir sem tryggðu það að allt varð kolófært skömmu síðar.
Þetta var þá og núna erum við hér, með stóra trukka sem æða í gegnum ófæra vegi og þeyta mjöllinni langt út fyrir veg. Þeir keyra um á heilmikilli ferð og geta því rutt margfalt það sem vegheflarnir réðu við á sama tíma í gamla daga.

Í dag gerum við allt aðrar kröfur til vetrarþjónustu en áður. Við viljum að öllum helstu vegum sé haldið opnum, ekki síst vegna þess að við erum miklu hreyfanlegri en áður; sækjum vinnu hér og þar. Þurfum að geta treyst á að komast leiðar okkar þegar þess er nokkur kostur. Þessu hefur verið mætt vel, víða.

Þá er komið að kaflanum, eða efninu.

Vetrarþjónusta Vegagerðarinnar 2019.(af vef Vegagerðarinnar) 

Ég er nú ekki að ljóstra upp um neitt leyndarmál, þegar ég greini frá því, að Vegagerðin telur ekki þörf á að senda snjóruðningstæki á veginn milli Reykja á Skeiðum og Spóastaða á þriðjudögum og laugardögum. 
Þann 1. janúar 2019 voru íbúar í Laugarási 121,
sem þýðir að viðmið Vegagerðarinnar er rangt.
Ég læt liggja milli hluta hvernig mokstri er háttað aö öðru leyti hér í uppsveitum, en efast ekki um, að það fólk sem býr í grennd þeirra er vel að daglegum mokstri komið.  Mér hefur fundist og finnst enn, að það sé algerlega ótækt, að Skálholtsvegurinn skuli látinn ómokaður tvo daga í viku og lít á það sem hreina mismunun. Mér hefur skilist að moksturstíðnin sé ákveðin út frá umferðartalningu af einhverju tagi. Það sé með öðrum orðum excel skjal sem segir til um hvort mokað skuli hér í gegn rétt eins og allt í kringum okkur. 

Ég leyfi mér að nefna hér fernt* sem rök fyrir því, að hér ætti ekki síður að moka daglega, en annarsstaðar hér í kring:
1. Auðvitað vitum við öll, að það fólk sem stundar vinnu frá Laugarási, þarf ekkert síður að komast til vinnu  en  annað fólk sem sækir vinnu utan heimilis. Þeim fjölgar stöðugt, sem svona háttar til hjá.
2. Í Laugarási er heilsugæslustöð fyrir  uppsveitir Árnessýslu. Veikindi eða slys spyrja ekki um vikudaga.
3. Hér eru stór garðyrkjubýli sem eru háð því að koma vörum á markað og rekstrarvörum af ýmsu tagi heim. 
4. Þannig háttar til að útfarir flestra uppsveitamanna eru gerðar frá Skálholtsdómkirkju. Fyrir því er rík hefð hér eins og víða til sveita, að útfarir fari fram á laugardögum.

Ég hvet sveitarstjórn til að kippa þessu í liðinn. 
Vegagerðin er stofnun sem horfir á excelskjöl. Sveitarstjórn er pólitískt fyrirbæri, sem hefur það mikilvæga hlutverk, meðal annarra, að skapa sem bestar aðstæður fólks innan síns áhrifasvæðis. Hún á ekki að lesa bara excelskjöl.

Í dag er mánudagur og því mokstursdagur á Skálholtsvegi. Enn sit ég við skriftir.
Hér var ruðningstæki að renna í gegn kl 13.30.
Það var ekki ófært í morgun, svo því sé haldið til haga, en er þetta sá tími sem mokstur á sér stað að jafnaði á þessum vegi? Ef svo er, þá finnst mér það vera fyrir neðan allar hellur.

Svo vil ég gjarnan að þessu verði kippt í liðinn:

Brot úr dagskrá á þorrablóti Skálholtssóknar í janúar, 2019.
---------------------
VIÐBÓT:
* Tvennt í viðbót er full ástæða til að nefna:

5. Allmikil ferðaþjónusta er í Laugarási og gestir geta átt hingað leið á hvaða degi vikunnar sem er.
6. Börn í Laugarási þurfa að komast í grunn- og leikskóla, eins og önnur börn. Vissulega er skólaakstur á ábyrgð sveitarfélagsins, en foreldrar leikskólabarna flytja sjálfir sín bön í leikskólann, jafnt á þriðjudögum sem aðra daga. 

Fleira mætt ugglaust tína til, en það ætti nú að vera óþarft.


Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...