Sýnir færslur með efnisorðinu hressingarganga. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu hressingarganga. Sýna allar færslur

03 september, 2017

Er þetta þá svona?

Það var engu líkara en ellin ætlaði að taka mig með trompi á fyrsta degi.
Þegar þeir sem yngri eru héldu til vinnu, ákvað ég að hugsa frekar um heilsuna, klæddi mig upp og skellti mér í hressingar- eða heilsubótargöngu. Logn og blíða svo sem vant er í Þorpinu í skóginum, lítilsháttar ilmur af hausti í loftinu, tækið stillt á markmið dagsins.
Fyrirhuguð leið lá út fyrir á, með viðkomu í bakaleiðinni í apótekinu, enda hefur mér verið sagt að ef ég ætla að vonast til að ná sjötugsaldri þurfi til að koma tiltekin lyf, og það var kominn tími á uppfæra birgðirnar.
Léttur í spori lagði ég síðan í hann, blístraði jafnvel með sjálfum mér, sveiflaði handleggjunum hressilega og fullvissaði sjálfan mig um að þetta væri nú lífið.
Þar sem ég nálgaðist brúna var ekki laust við að mér fyndist eitthvað vera að gerast í vinstra fæti. Einhverskonar doðatilfinning fór að láta á sér kræla, en ég taldi þetta auðvitað bara vera tilfallandi, bara hluti af endurnýjun vöðvanna og æðakerfisins. Það myndi lagast þegar jafnvægi kæmist á.
Fyrir utan brú hafði bætt nokkuð í þessa tilfinningu og ekki laust við að vinstri fóturinn væri orðinn svo dofinn að sjálfvirkur göngutakturinn liði fyrir.
Ég ákvað þarna að skipta yfir í stýrðan göngutakt, til að að lagfæra þessa veilu. Það gerði ég með því að beita hægri fæti venjulega, en þegar kæmi að vinstra fæti að flytjast fram, lyfti ég honum umtalsvert hærra. Áður en ég tók á þetta ráð, leit ég vel í kringum mig, því ekki vildi ég verða til þess að einhver áhorfandi þyrfti að fara að velta fyrir sér hvaða stælar þetta væru, og jafnvel skella upp úr yfir atganginum.
Hvað um það, í allmarga metra gekk ég svona, hægri fóturinn gekk eins og venjulega, en sá  vinstri hófst hátt á loft í hverju skrefi. Viti menn, doðatilfinningin hvarf úr vinstra fætinum og ég gekk hressilega áfram, vissi að þetta hafði bara verið eitthvað tilfallandi.
Það reyndist nú samt ekki hafa verið svo, því eftir nokkra metra með venjulegri gönguaðferð fór allt í sama farið, og nú hafði það bæst við, að niðurstig vinstri fótar endaði í einhverskonar skelli á malbikinu, skelli sem ég hafði ekki stjórn á. Til að reyna að útskýra þetta nánar, þá er það þannig, við venjulega göngu, að hællinn nemur fyrst við jörðu, síðan ilin og því næst færist þunginn fram á tær, sem spyrna fætinum fram í næsta skref.  Vinstri fóturinn á mér hafði það hinsvegar svo að hann hálf skall á jörðinni, allur í einu og beið þess síðan að sá hægri myndi knýja hann áfram í næsta skref.
Með svona göngulagi má ljóst vera, að sá sem hefði horft á, hefði  séð fyrir sér draghaltan eldri borgara.
En, ég þurfti að koma við í apótekinu.
Upp að dyrum þess liggja steintröppur. Upp þessar tröppur þurfti ég að komast og það taldi ég ekki verða mikið mál; lyfti vinstra fæti til að stíga í neðstu tröppuna og veit síðan ekki fyrr til en ég slengist fram fyrir mig. Til þess að komast hjá því að lenda á andlitinu bar ég fyrir mig hendurnar. Sú hægri náði ekki  fyllilega rétt á tröppu, eða réttara sagt það var aðeins vísifingurinn sem náði á tröppubrún og hefur líklega sveigst aftur í einar 90°, en það vissi ég ekki þá, því mér var of mikið í mun að tryggja að fallið yrði eins virðulegt og kostur væri, enda var þarna annar viðskiptavinur á leið í apótekið.
Það þarf auðvitað ekki að hafa um það mörg orð, en ég spratt umsvifalaust á fætur og lét sem ekkert væri, valhoppaði upp þær tröppur sem eftir voru, heilsaði frú Geirþrúði og bauð hana velkomna aftur til starfa eftir námsleyfi og fékk hjá henni lyfjaskammtinn.
Gekk síðan heimleiðis.
Við allt þetta hafði vinstri fóturinn komist í samt lag og starfaði fullkomlega eðlilega það sem eftir var göngunnar.
En þá tók hægri vísifinguinn að gefa frá sér ótvíræð merki um að hafa orðið fyrir umtalsverðu hnjaski. Liðurinn sem tengir fingurinn við höndina stokkbólgnaði og fyrr en varði var höndin orðin eins og á fulla kallinum í Skeiðaréttum/Reykjaréttum í gamla daga, þegar hann var búinn að berja mann og annan.
Svona var staðan þegar fD kom heim úr vinnu: flest hafði þróast til verri vegar. Hún jós auðvitað yfir mig vorkunnsemi sinni og umhyggju; hafði orð á því að líklega tengdist þetta því stóra skrefi sem ég hafði nýtekið, inn í heim eftirlaunaþegans.
Ég sagði fátt, en hugsaði því meira.

Í gær hitti ég síðan konu úr Biskupstungum, eitthvað eldri er hún en ég, sem skoraði á mig að stofna hóp á Facebook fyrir þá sem komnir eru yfir sextugt. Þar væri hægt að ræða málefni þessa hóps og ef til vill efla starf fyrir þennan aldurshóp í Tungunum.

Ég er ekki búinn að ákveða hvort ég tek þetta dramtíska skref. Væri ég með því, að gefa endanlega eitthvað upp á bátinn?  Væri ég með því að hefja samkeppni við Félag eldri borgara í Biskupstungum (FEBÍB)? Kannski ekki - enda eru þeir víst ekki margir alla jafna á samfélagsmiðlum og tilheyra annarri kynslóð.  Kannski vantar einhvern vettvang fyrir þessa millikynslóð, sem er ekki alveg hætt þátttöku í atvinnulífinu, en er farið að draga aðeins saman seglin, þó í fullu fjöri sé.

------------------------------

Svona til að koma í veg fyrir misskilning, þá var raunveruleikinn ekki alveg eins dramatískur og látið er í veðri vaka hér fyrir ofan. 
Andið rólega, góðu konur. 😁

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...