Sýnir færslur með efnisorðinu Arbol de la Paz. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu Arbol de la Paz. Sýna allar færslur

19 desember, 2025

Costa Rica (8) Himinblá á og tré

FRAMHALD AF ÞESSU

Ég hef áður minnst á það, að ég vissi í rauninni ekkert hvernig leið okkar lá um Costa Rica, utan, auðvitað, að kort af leiðinni fylgdi ferðagögnum. Ég var bara ekkert með ferðagögnin á mér og beindi athyglinna að einhverju öðru í staðinn. Það skipti svo sem ekki miklu hvert leiðin lá hverju sinni, heldur snérist þetta um að njóta þess sem bar fyrir augu.
Carlos bílstjóri og Guðni farastjóri
vinna að því að koma fólkinu í rútuna.
Það var í rauninni ekki fyrr en ég ákvað að setjast niður og taka saman yfirlit um ferðalagið, sem ég áttaði mig á mikilvægi þess, að hafa nokkuð á hreinu hvernig þeir vegir sem ekið var um lágu og hvar þeir staðir sem komið var við á, voru. Viti menn, mér tókst með aðstoð símans míns að finna út úr þessu, ekki síst vegna þess að allar myndir sem ég tók á hann, eru nákvæmlega merktar inn á kort. Þetta var mikilvæg uppgötvun fyrir framhaldið.

Þegar hér var komið var kominn þriðjudagurinn 18. nóvember og framundan lengsti akstur í þessari ferð, um 170 kílómetrar, sem google segir að taka tæpa 4 klst. ef hvergi væri áð, en það lá fyrir, að áningarstaðir yrðu í það minnsta þrír.
Hér fyrir neðan er kort af leiðinni sem ekin var þennan dag, frá bækistöðinni við Blue River (Río Azul/Bláá) til Los Lagos (Vatnanna/Stöðuvatnanna), en þar beið okkar gisting næstu þrjár nætur.

Ég tók nokkrar myndir á simann út um rútuglugga á leiðinni,
en þær eru númeraðar, eftir því sem ferðinni vatt fram.

Það voru símamyndirnar sem sýndu mér fram á það, að ferðin þennan dag hófst með því að ekið var í norður, í átt að Nicaragua. Þegar komið var að bæ eða þorpi sem ber nafnið Brasilia, var svo beygt til hægri.

Í grennd við Brasilia. Börn að leik fyrir utan heimili sitt,
og hestur á beit hálfur ofan í læk.


Eftir það bar svo sem fátt til tíðinda, en ég tók myndir við og við til að halda til haga umhverfinu sem við ókum um.


Það verður ekki sagt að í norðurhluta Costa Rica búi fólk við ríkidæmi á vestrænan mælikvarða, en ekki virtust börnin sem urðu á vegi okkar, vera neitt illa haldin, eða óhamingjusöm. Ríkidæmi felst nefnilega ekki bara í flottum húsum, glæsikerrum, eða feitum bankareikningum.

Segir nú fátt af ferð okkar fyrr en við komum til Upala, sem er um 15.000 manna bær og þar er tækniskóli á miðstigi að minnsta kosti, flugvöllur og spítali. Ekki áttum við neina viðdvöl þar, heldur var tekin beygja til hægri og haldið í suðurátt, allt þar til er við komum  til Bijaga de Upala sem er í Alaujela héraðinu.  Þar réttum við úr fótunum og okkar beið ágætur hádegisverður, á veggjalausum veitingastað. Þar valdi maður bara grunn (hrísgrjón af ýmsu tagi, baunir, grænmeti, ávexti) og síðan kjöttegund með. 
Eftir hádegisverðinn lá leiðin inn á einskonar þverveg í austurátt og ætlunin að kíkja aðeins á tvö áhugaverð náttúrufyrirbæri.

Þrír ferningar, f.v. hádegisverðarstaðurinn, Río Celeste (Himinbláa áin), Arbol de la Paz (Friðartréð)

Río Celeste

Við renndum yfir brú á Río Celeste, en handan hennar stöðvaði Juan Carlos, bílstjóri, og við fengum aðeins að kynna okkur þessa ágætu á, sem er himinblá á litinn, vegna allrei steinefnanna sem hún er mettuð af, enda er hún upprunnin á eldfjallasvæði. Þessi staður virðist hafa talsvert aðdráttarafl og þarna kom fólk bæði til að skoða og stunda böð. Við vorum nú bara á leið framhjá og því var ekki stansað lengi, en nóg til þess þó, rölta niður að ánni og taka myndir. Enginn úr hópnum lét vaða út í, enda kunnum við ekki á þær siðareglur sem gilda varðandi sundspretti á þessum stað. Sáum þó nokkra stunda einhverskonar böð.





Annar fararstjórnanna, hann Carlos átti afmæli flesta daga þessarar ferðar og því við hæfi að taka af honum eins og eina mynd á þessum stað, ásamt "unglingnum" honum Sighvati.

Arbol de la Paz

Áfram var svo haldið til austur um stund, en þá komum við á stað sem ekki lætur mikið yfir sér. Það er staðurinn þar sem friðartréð mikla er að finna.
Ekki neita ég því, að þessi risi er ansi áhrifamikill í látleysi sínu og risastærð. Þetta er ekki trjátegund sem hægt væri að rækta á Íslandi. Heiti þess mun vera Kapok/Ceiba (Ceiba pentandra), en mér hefur ekki tekist að finna íslenskt heiti á því. Mælingar á því, sem ég fann hér, greina frá því að við mælingu á því árið 2021 haf komið í ljós, að í 1.30 m hæð var ummál þess 22,55m og hæðin tæpir 50 metrar. Talið er að því hafi verið plantað þarna, eða sáð í kringum 1650 AD ± 200 ár, sem þýðir að það er 375 ± 200 ára gamalt. 
Á skilti sem er að finna við tréð stendur: 

Arbol de la Paz
Comite de recursos naturales XL semana de concervacion
4-10 Junio 1989
Friðartré
Náttúruauðlindanefnd XL Náttúruverndarvika
4-10 júní 1989

Ég vísa þessu máli til þeirra sem vita meira um þetta tré og sögu þess. Hér eru myndir af því:





Eftir sæmilegan tíma í undrun og aðdáun, stigum við ferðafélagarnir aftur um borð í rútuna, héldum svo áfram til austurs um stund, en þá lá leiðin til suðurs, til móts við eldfjallið Arenal, sem rís til himins fyrir ofan dvalarstað okkar næstu þrjár nætur: Los Lagos.

Framhald síðar.

Ef einhver skyldi ekki átta sig á því, þá má fá stærri útgáfu af myndum með því að smella á þær. 😜  Þá ítreka ég, að tölustafir á myndum vísa til kortsins efst. 




Costa Rica (8) Himinblá á og tré

FRAMHALD AF ÞESSU Ég hef áður minnst á það, að ég vissi í rauninni ekkert hvernig leið okkar lá um Costa Rica, utan, auðvitað, að kort af le...