Sýnir færslur með efnisorðinu fjölmiðlar. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu fjölmiðlar. Sýna allar færslur

11 febrúar, 2020

Talað í tómið

"Útvarp Reykjavík, Útvarp Reykjavík. Klukkan er sjö. Nú verða sagðar fréttir. Fréttirnar segir Jón Múli Árnason". Hvert skyldi ég nú vera að fara með svona upphafi? Það er auðvitað góð spurning.
Þannig er, að einusinni var ég yngri; ólst reyndar upp við það, að það var bara ein útvarpsstöð sem sá okkur fyrir fréttaefni og svo kom Tíminn í bunkum með mjólkurbílnum tvisvar í viku eða svo.  Þá treystum við því einhvernveginn, að þær fréttir og sú umræða sem okkur stóðu til boða, væru sannleikanum samkvæmar. Hvort þær voru það í raun, hef ég ekki hugmynd um.
Hundruð þúsunda Ölfusáa hafa runnið til sjávar síðan og margt hefur gerst.  Við tók, smátt og smátt, einhverskonar kapítalískt frelsi, sem er búið að koma okkur í vægast sagt ótrúlega stöðu.

Tvennt á undanförnum dögum varð svo til þess, að ég ákvað að reyna að koma þessu heim og saman í hausnum á mér. Annarsvegar Söngvakeppnin sem fram fór s.l. laugardagskvöld og sem ég lét mig hafa að sitja yfir og meira að segja fD líka.. Hinsvegar eftirmál Óskarsverðlaunahátíðar sem gærdagurinn flutti okkur.

Ég hef engar athugasemdir við að við vöndum val okkar á fulltrúum í söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöða, og ég fagna því, eins og landsmenn flestir, að íslenskt tónskáld skuli hafa hlotið Óskarsverðlaun fyrir tónlist sína í kvikmynd. Málið snýst ekki um það.

Skyldi ég vera sá eini sem upplifði fimmfalda endurtekningu á framlögum í söngvakeppninni eins og einhverja tegund af móðgun? Mér fannst eins og væri verið að gera lítið úr mér sem manneskju með augu og eyru.

Skyldi ég vera sá eini sem fannst umfjöllun fjölmiðla um Óskarsverðlaunin ganga úr hófi fram í gær? Þeir byrjuðu að segja mér það snemma morguns að okkar fulltrúi hefði hlotið Óskarsverðlaun og síðan í öllum fréttatímum það sem eftir lifði dags á öllum miðlum. Það voru ekki bara fréttirnar á ljósvakmiðlum sem greindu frá þessu, heldur líka allir mögulegir þættir allan daginn. Ég neita því ekki að ég fékk það á tilfinninguna, að þessi umfjöllun snérist ekki um neytndur miðlanna eða Óskarsverðlaunahafann, heldur þá sjálfa. "Sjáiði bara hvað við erum góð í að fjalla um þetta! Erum við ekki með betri vinkil á þetta en hinir fjölmiðlarnir!?"

Kannski var þetta allt bara vegna þess að það var bara ekkert annað í fréttum. Ekki veit ég það, enda engir fjölmiðlar til að segja mér frá því, því þeir voru í öðru.

Kannski var þetta einhver eðlislæg minnimáttarkennd okkar Íslendinga.

Kannski er ég bara óhóflega mikill fjölmiðlaneytandi, sem ólst upp við að hlusta á alla fréttatíma.

Það sem fór kannski síst í mig var, að tiltekinn hópur í samfélaginu virðist eigna sér þetta tónskáld; það sé fulltrúi hans, en ekki annarra Íslendinga.

Nei, þótt segja megi að athyglisgáfa mín fari minnkandi, þá meðtók ég það, eftir eina endurtekningu á föstudagskvöldið, hverskonar tónlist var borin á borð fyrir mig í söngvakeppninni. Ég skildi það kl. 07.00 á mánudagsmorgun, að íslenskt tónskáld hefði hlotið Óskarsverðlaun í Hollywood og fagnaði því með sjálfum mér - sem Íslendingur (Ég fann reyndar ekki hjá mér þörft til að tjá mig um það á samfélagsmiðlum). Í framhaldi af þessari vitneskju hefði verið fínt að sjá mynd af verðlaunaafhendingunni um kvöldið og síðan viðtal kannski daginn eftir.

Þegar upp er staðið snýst þessi blástur minn ekki um endurtekningarnar á laugardagskvöldinu eða á mánudaginn, heldur um lítilsvirðandi endurtekningar á sömu fréttunum, yfirleitt, rétt eins og gert sé ráð fyrir að maður hafi jafn öflugt minni og músarskott. Ég er hinsvegar alveg sáttur við fréttir heilu dagana þar sem um er að ræða einhverja framvindu mála, t.d. að landrisið sem var 3.2 cm sé orðið 3.3.

Jæja, þá er það frá.
Best að fara að halda áfram með lífið.

Litlir kallar og litlar kellingar

Heilsugæslustöðin í Laugarási á vígsludegi 1997 (mynd: Jónas Yngvi Ásgrímsson) Ég hefði óskað þess, að fyrstu dagar nýs árs yrðu ánægjulegri...