Sýnir færslur með efnisorðinu dvalarheimili. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu dvalarheimili. Sýna allar færslur

13 júlí, 2018

Hvað er verið að tala um?

Ég ætlaði nú að hætta að vera að skipta mér af óljósum hugmyndum sem sveima um samfélagsmiðla í framhaldi af viðtali Magnúsar Hlyns Hreiðarssonar við oddvita Hrunamannahrepps, Halldóru Hjörleifsdóttur, á Bylgjunni fyrir nokkrum dögum, undir fyrirsögninni: Kanna möguleika á að koma upp hjúkrunarheimili.  Það reyndist  hinsvegar erfiðara en ég hafði haldið, því eftir lítilsháttar skrun yfir facebook í kjölfar þessarar frétta komst ég að því að þeir sem tjáðu sig virtust nokkuð almennt á því að heppilegsti staðurinn fyrir "hjúkrunarheimilið" væri húsnæðið sem Húsmæðraskólann á Laugarvatni skildi eftir sig og sem varð síðan að Íþróttafræðasetri KHÍ og síðar HÍ og sem tilheyrir nú HÍ, eftir því sem ég best veit. Ég get alveg verið sammála því að þarna er um að ræða afar hentugt hús fyrir dvalarheimili eldri borgara. Fjarri mér að hafa eitthvað á móti því.
Í fréttinni spyr MHH oddvitann ítrekað um hjúkrunarheimili og oddvitinn segir mikinn skort á hjúkrunarrými í uppsveitum.

Í umræðum í framhaldinu var mér tjáð þetta, af manni sem er vel inni í sveitarstjórnarmálum í uppsveitunum: Í mínum huga er ekki vafi á því að verið er fyrst og fremst með í huga dvalarheimili.

Þarna var sem sagt eitthvað annað uppi á teningnum en hjá oddvita Hrunamannahrepps í viðtalinu. 

Mér er því spurn: 
Um hvað er verið að tala? 
Til hvers að hleypa einhverri umræðu af stað þegar forsendurnar eru kannski vitlausar og fólk fer að tala í kross?
Á hvaða stigi er þetta mál meðal sveitarstjórnarfólks? 
Er kannski búið að ákveða eitthvað? 
Er búið að greina hvar þörfin liggur?
Er sveitarstjórnarfólk búið að koma sér niður á sameiginlegan stað?
Það eru reyndar margar aðrar spurningar, en það hefur engan tilgang að henda þeim út í tómið si svona.

Það sem ég gerði, til að fá betri mynd af því hvað um er að ræða, var að fara á vef Velferðarráðuneytisins og þar er að finna skilgreiningar á dvalarheimili, annarsvegar og hjúkrunarheimili, hinsvegar. Á þessu tvennu er talsverður munur. 

Dvalarheimili
Dvalarrými eru í húsnæði sem er sérhannað fyrir þarfir aldraðra sem ekki eru færir um að annast heimilishald þrátt fyrir heimaþjónustu. Skilgreint er í lögum um málefni aldraðra og reglugerð um stofnanaþjónustu aldraðra hvaða þjónusta skuli vera fyrir hendi í dvalarrýmum, en þar á meðal annars að vera varsla allan sólarhringinn, öryggiskerfi í hverri íbúð og völ á fjölbreyttri þjónustu, svo sem mat, þvotti, þrifum og félags- og tómstundastarfi.
Hjúkrunarheimili
Hjúkrunarrými eru á hjúkrunarheimilum og heilbrigðisstofnunum, ætluð öldruðu fólki sem er of lasburða til að geta búið heima með þeim stuðningi sem er í boði, svo sem heimaþjónustu, heimahjúkrun, dagdvöl, hvíldarinnlögn eða búsetu í dvalarrými. Í hjúkrunarrými skal veitt hjúkrunar- og læknisþjónusta auk endurhæfingar og annarrar þjónustu sem skilgreind er í lögum um málefni aldraðra og reglugerð um stofnanaþjónustu aldraðra.
Þá höfum við það. Það er kannski búið að ákveða hvað er verið að tala um, en þá þarf það að liggja fyrir, opinberlega, trúi ég.

Ég skoðaði lítillega þá þjónustu sem er í boði á Lundi á Hellu og á Krkjuhvoli á Hvolsvelli.
Þjónusta á Lundi

Þjónusta á Kirkjuhvoli

Það er rétt að geta þess, að Lundur og Kirkjuhvoll eru hjúkrunar- og dvalarheimili og hýsa því nokkuð breiðan hóp fólks.

Mikilvægast í þessu öllu er að það verði fundið úrræði fyrir aldraða í uppsveitunum í samræmi við þörf.  Hvaða þjónustuþörf hefur helst leitt eldri borgara í uppsveitum í dvöl í öðrum byggðarlögum?
Er það stefna sveitarfélaganna í uppsveitum að gera eldra fólki kleift að dvelja á heimilum sínum eins lengi og nokkur kostur er?  Þessi hugmyndafræði virðist mér eiga talsvert upp á pallborðið þessi misserin.

Svo ætla ég að reyna að hætta þessu og treysti því að það verði fagleg niðurstaða, en önnur, óviðkomandi sjónarmið verði ekki látin ráða för.

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...