Sýnir færslur með efnisorðinu Arenal vatn. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu Arenal vatn. Sýna allar færslur

05 janúar, 2026

Costa Rica (13) - Leiðin til Tamarindo

Frásögnin hefst hér
FRAMHALD AF ÞESSU

Á þessum degi, sem var föstudagurinn 21. nóvember, vorum við að gera okkur klár, þegar það bárust af því fregnir, að rútan væri biluð og við skyldum bara koma okkur vel fyrir og halda ró okkar. Nú, það var einmitt það sem við gerðum. Rútan komst í lag, en hvað var að henni, eða hvernig tókst að laga það, er ekki á mínu færi að segja frá.  Svo var bara lagt í hann. Hér fyrir neðan er leiðin sem ekin var þennan dag, um 210 kílómetrar. 



Fyrri hluti hennar lá eftir harla krókóttum vegi meðfram Arenal vatninu (Lago Arenal), sem er stærsta stöðuvatnið á Costa Rica, 85 km² að stærð, örlítið stærra en Þingvallavatn, sem mun vera 83,7 km². Dýpt þessa stöðuvatns er á bilinu 30-60 metrar.
Arenal vatnið var upphaflega lítið, náttúrulegt stöðuvatn, en með stíflu sem var lokið 1979, við Presa Sangregado (þar ókum við einmitt yfir þegar við skelltum okkur á hengibrýrnar í frumskóginum) fór allt land undir 550 m yfir sjávarmál undir vatn, en ríkið tók þetta land eignarnámi. Tveir bæir við vatnið, Arenal og Tronadora hurfu undir vatn og íbúunum komið  fyrir í nýjum bæjum í nágrenninu.
Vatnsaflsstöðvarnar sem urðu til við þetta framleiddu upphaflega 70% af orkuþörf landsins, en nú um 17%. Það má segja að orkuframleiðslan þarna sé drifkrafturinn í grænorkustefnu landins.

Eftir að hafa ekið hlykkjóttan veginn norðaustan vatnsins lá leiðin til vesturs og síðan í suður, þar sem áð var um stund, með útsýni yfir vatnið og eldri herramaður gerði sitt besta til að leiðbeina ökumönnum um hvar og hvernig þeir gætu lagt bifreiðum sínum.



Áfram var svo haldið í vesturátt, enn eftir fremur krókóttum vegi, allt þar til við komum í bæinn Cañas, en þar eru íbúar ríflega 30.000. Þar neytti hópurinn ágæts hádegisverðar á litlu veitingahúsi, áður en haldið var úr á hraðbrautina, Ctra. Interamericana N (Inter Amercan Highway) - sem liggur nánast eftir endilangri Ameríku, en hún sker þennan bæ í sundur. 
Ekki vorum við búin að aka lengi þegar komið var að aðaláningarstaðnum þennan daginn, en það var Centro de Rescate Las Pumas. Þarna er um að ræða einskonar björgunarmiðstöð og athvarf fyrir villt dýr. Þess ber að geta, að dýragarðar, eins og við skiljum það orð, eru bannaðir í Costa Rica. 



Svissnesk hjón, Werner Hagnauer og Lily Bodmer, fluttu til Costa Rica árið 1959 til að starfa hjá Hacienda La Pacífica í Cañas. Mér skilst að það hafi verið einhverskonar athvarf fyrir fugla.
1971 keyptu þau síðan  búgarð til að stunda sjálfbæra ræktun.
Þarna hóf Lily að taka á móti villtum dýrum sem voru í vanda af ýmsu tagi, sem of langt mál væri að fara yfir hér. 
1985 ákváðu hjónin að selja búgarðinn, en héldu eftir um 85 ha og stofnuðu það sem er í dag er þessi miðstöð sem við heimsóttum þarna. 
Verkefni miðstöðvarinnar er að bjarga, endurhæfa og sleppa villtum dýrum, eftir því sem hægt er.
Nú er það Hagnauer stofnunin sem heldur utan um þetta starf og það er fjármagnað með frjálsum framlögum og aðgangseyri gesta sem heimsækja stofnunina og njóta þess að sjá dýrin sem þar er að finna og lesa sögu þeirra, en við hvert risastórra búra sem dýrirn eru í, er að finna spjöld með nöfnum þeirra (já þau fá nöfn) og sögu, sem er sögð í fyrstu perónu. Ég leyfi mér að setja hér örfá dæmi:

MALEKU
JAGUAR (Panthera onca): Felidae

"Ég kom hingað í október, 2021. Maður kom með mig til dýralæknisins í kassa og það var talið að ég væri 2-3 mánaða gamall. Það er ekkert vitað um uppruna eða örlög móður minnar."






PEPE
SPIDER MONKEY (Ateles geoffroyi)
"Ég var gerður upptækur árið 2020 í Santa Cruz. Kona hafði drepið móður mína til að éta hana - meðan ég var enn ófæddur. Eftir að ég fæddist, héldu þau mér föngnum (bundnum) (sem er óleyfilegt)." 


LAMBI
WHITE-TAILED DEER (Odocoileus virginianus): Cervidae
"Ég kom hingað 2018 frá bagaces, þegar ég var tveggja mánaða. Fjölskylda hafði fundið, yfirgefinn, sennilega vegna þess að veiðimenn höfðu drepið mömmu. Aðlögun mín/endurhæfing hjá fjölskyldunni gekk ekki sem skyldi vegna þess að ég myndaði of mikil tengsl við mannfólkið og þess vegna var ekki hægt að sleppa mér út í náttúruna aftur."


ANASTACIA
SCARLET MACAW (Ara macao): Psitacidae
"Mér var haldið ólöglega í húsi í Cañas. Nágranni stökk yfir girðingu bakatil og tók mig og fófór með mig heim, en þá var ég bara með eina stélfjöður, engar aðrar fjaðrir á líkamanum. Hinir ararnir (macaw) hérna eru líka komnir úr svipuðum aðstæðum.


Vegna þess að dýrin voru flest inni í stórum búrum, tók ég harla fáar myndir þarna, en hér eru nokkrar.





Þetta var ansi áhrifamikil heimsókn og fróðleg, en áfram var haldið, eftir hraðbrautinni til vesturs í átt til Liberia (þar sem við lentum þegar við komum til landsins). 
Það átti ekki af Carlosi rútubílstjóra að ganga, en skömmu eftir að við lögðum upp í þennan legg, heyrðist einhver skellur þannig að hann stöðvaði farartækið úti í kanti til að athuga hverju sætti. Þá kom í ljós að einhver hlíf, fremst á rútunni, hafð dottið af og hún fannst ekki, og því var bara haldið áfram.
Við Liberia var svo haldið til suðurs í átt til Tamarindo. Mesta spennan snérist um það, hvort okkur tækist að sjá sólarlagið. Það tókst, eins og hér má sjá:


Svo bæti ég kannsi einhverju við um þriggja nátta dvölina á þessum stærsta ferðamannastað í ferðinni. Hún var nú ekkert slor.

Costa Rica (14) Kyrrahafsströndin

Frásögnin hefst  hér FRAMHALD AF  ÞESSU -------------------------------------- Eins og maður gerir á ferðalögum, renndum við í hlað á 4 stjö...