Sýnir færslur með efnisorðinu Njáls saga. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu Njáls saga. Sýna allar færslur

04 október, 2021

Mǫrðr hét maðr

Ég hygg að dr. Haraldur Matthíasson hafi fengið að hlutverk, einhverntíma veturinn 1975-6, að leiða mig og bekkjarfélagana í ML í gegnum undraheima Brennu-Njáls sögu. Síðan eru liðin mörg ár og mikið vatn hefur til sjávar runnið og allt það. Njáluminni mitt er ekkert sérstakt, frekar en ýmislegt annað. Jú, ég veit eitthvað um Gunnar og Hallgerði og Njál og Bergþóru og Njálssyni, sennilega vegna þess að í kringum þetta fólk var ansi mikill hasar á sínum tíma. Mögulega man ég eitthvað af þeirra málum enn, vegna þess að það er erfitt að vera Íslendingur án þess að um þau sé fjallað á ólíklegustu stöðum og lífi þeirra þannig viðhaldið í þjóðarsálinni.
Á þessum tíma, fyrir næstum hálfri öld, var víst margt annað en Njála, sem vakti með mér meiri áhuga eða fékk meiri athygli frá mér. Nú er svo margt orðið breytt, eins og nærri má geta. 

Í fyrrahaust hugðist ég taka þátt í starfi hóps sem ætlaði að lesa Njálu og fjalla um hana eftir því sem ástæða þætti til. Af þessu varð ekki af augljósum ástæðum. Á þessu hausti er Njála aftur á dagskrá og ég mættur þar galvaskur, til að bæta fyrir athyglisskortinn í gamla daga. "Það getur varla nokkur Íslendingur lifað innihaldsríka ævi, nema vera búinn að kynna sér þetta öndvegisrit" hugsaði ég þar sem ég var næstum búinn að steingleyma fyrsta samlestrinum. Nú eru lestrarnir orðnir þrír og söguþráðurinn farinn "þykkna".  Er það sem hér fylgir, kveikjan að öllu því sem síðar gerist?


Kannski voru það álögin sem Gunnhildur lagði á Hrút, sem ollu þessu, sem síðar olli öllu sem á eftir fylgdi. Hvað var orsök og hvað var afleiðing?
Ég ætla ekki að hætta mér lengra, að svo komnu máli, en treysti því, að fornsagnaspekingarnir sem halda utan um lesturinn og það djúpvitra fólk, annað, sem þátt tekur, muni opna fyrir mér alla leyndardómana sem sagan felur í sér. 
Ég er ekki enn kominn á það stig að treysta mér til að kveða upp úr um höfund Njálu. Ég er enn bara að fylgjast með og lesa eftir því sem mér gefst tími til.

Litlir kallar og litlar kellingar

Heilsugæslustöðin í Laugarási á vígsludegi 1997 (mynd: Jónas Yngvi Ásgrímsson) Ég hefði óskað þess, að fyrstu dagar nýs árs yrðu ánægjulegri...