Sýnir færslur með efnisorðinu Valdi. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu Valdi. Sýna allar færslur

04 janúar, 2020

Aldarminning tvö (2)

Til  forna mun hafa varið sagt, að fjórðungi brygði til móður, fjórðungi til föður, fjórðungi til fósturs og fjórðungi til nafns. Ekki ætla ég að kveða upp úr um það hvort á þessu er eitthvað  byggjandi, hinsvegar get ég fullyrt, eftir kynni mín af fjölmörgu ungu fólki gegnum tíðina, að áhrif þess umhverfis sem það sprettur frá, eru ótvíræð. Ég tel að í uppeldinu og umhverfinu klæðist börnin hjúp sem myndar þá mynd sem þau gefa af sér út í umhverfið. Það þarf síðan oft að fletta af ysta hjúpnum til að finna þá raunverulegu persónu sem undir býr.

Ég er hér að gera tilraun til að koma í orð einhverjum fljótandi minningum um tengdaföður minn sem fæddist austur í Skaftafellssýslu fyrir nákvæmlega einni öld.  Mig grunar að hann myndi ekki taka skrifum af því tagi sem hér er um að ræða, fagnandi, hefði hann eitthvað um þau að segja, en eins og hver maður getur ímyndað sér, þá er hann harla varnarlaus, eins og staðan er.

Líf Þorvaldar Runólfssonar, sendibílstjóra, fór aldrei hátt út á við og ætli hann hafi ekki viljað hafa það þannig? Maður veit ekki, svo sem. Maður veit aldrei fyllilega hvað bærist með fólki; hvaða vonir eða hvaða þrár.
Var líf Valda það líf sem hann hefði helst kosið sér? Sannarlega hef ég ekki hugmynd um það og karlinn hefði síðastur manna farið að tjá sig um eitthvað slíkt - hefði í það minnsta hnusað aðeins ef spurður. Hann tilheyrði þeim stóra hópi sinnar kynslóðar sem ekki var mulið undir í æsku. Þegar æskunni lauk tók síðan við að vinna  og  bjarga sér. Mér er ekki kunnugt um hvernig skólagöngu hans var háttað, en tel þó, að hún var ekki löng. Brauðstritið, sem svo hefur verið kallað, tók við af æskunni á tímum þar sem skyldurnar voru mikilvægari en réttindin.

Hvernig brauðstritið hófst fer af fáum sögum. Mér skilst að hann hafi lagt leið sína snemma á suðvesturhornið til eldri bræðra sinna sem þangað voru þá farnir og farið að vinna með þeim. Mér finnst ég hafi heyrt að til að byrja með hafi það verið fiskvinnsla suður með sjó.
Þar kom að hann kynntist jafnöldru sinni, Guðbjörgu Petreu Jónsdóttur, skagfirskri mær, rétt rúmlega tvítugur og þau festu ráð sitt í júní 1944. Hann gekk dóttur hennar, henni Pálínu Skagfjörð (Pöllu), í föður stað og þau gerðu sér hreiður í hálfgerðum óbyggðum, á Álfhólsvegi 17 í Kópavogi. Þar reistu þeir bræður, hann og Þorsteinn, parhús á tveim hæðum, sem fjölskyldurnar fluttu í 1947 (mögulega fyrr, en fasteignaskrá nefnir þetta ártal). Þetta hús varð síðan aðsetur beggja með fjölskyldum sínum út ævina.

Sendibíllinn og fjölskyldubíllinn.
Y271 var ávallt skráningarnúmerið.
Þegar ég fór að koma þarna við sögu um miðjan áttunda áratuginn, var Valdi búinn að stunda sendibílaakstur lengi. Bíllinn sem hann átti var af einhverri ókennilegri tegund, sem hafði verið yfirbyggð. Þar áður veit ég til að hann ók Volkswagen rúgbrauði, sem var einnig fjölskyldubíllinn á bænum.

Fram að mínum tíma í tengslum við fjölskylduna, sá ævi þeirra Valda og Bubbu bæði ljós og skugga. Alvarleg veikindi Valda, líklega um 1960, sem urðu til þess að hann var fluttur á sjúkrahús í Danmörku þar sem hann þurfti að dveljast talsvert lengi, lögðust þungt á fjölskylduna, en þá voru dæturnar þrjár, sem komu í heiminn 1952, 1954 og 1956, komnar til sögunnar, auk Pöllu.  Eftir að Valdi kom síðan heim aftur tóku við bjartari tímar, held ég, því þegar ég kom til sögunnar virtist ekki skorta neitt. Það var nú samt ekki svo, að aukinni velmegum fylgdi vaxandi flottræfilsháttur. Fjarri fór því. Bæði unnu hjónin á Álfhólsveginum utan heimilis, hann keyrði sinn sendibíl og hún afgreiddi í verslun.
Áttræður
Um miðjan áttunda áratuginn urðu nokkur tímamót þegar Valdi keypti nýjan Ford Econoline, rauðan, sjálfskiptan, sem var skýrt merki um batnandi hag. Það var þó örugglega ekki til að gera sig eitthvað meira gildandi í samfélaginu, sem þessi endurnýjun atvinnutækisins átti sér stað. Ég held að það hafi verið miklu frekar að tímarnir í bílskúrnum við viðgerðir á þeim gamla hafi verið orðnir heldur margir. Hann tók sig nú bara vel út á nýja Fordinum, sá gamli.

Valdi var mikill sóldýrkandi og lá út á grasflöt hvenær sem færi gafst og árlega leyfðu þau sér þann munað að skjótast til Kanarí í nokkrar vikur og alltaf á sama hótelinu, sem ég man ekki nafnið á (Broncemar?), en sem er vel þekkt meðal systranna.

Áttatíu og sex
Einhvern veginn varð það úr, þegar þau skruppu í eina þessara ferða, að Valdi treysti mér fyrir Fordinum til sendibílaaksturs. Ég átta mig ekki enn á því hvernig honum datt þetta í hug, en mögulega að hluta til, til að viðhalda tengslum við fastakúnnana. Einn þeirra var Ríkið, eða ÁTVR og annar Háskólabíó.
Ekki ætla ég að fjölyrða um þessar vikur sem ég ók sendibíl á Sendibílastöðinni Þresti. Þetta var afar sérkennileg lífsreynsla. Keyrandi með áfengi í veitingahús og kvikmyndaspólur þvers og kruss og þess á milli að bíða eftir túr. Ég er í rauninni alveg hissa á að ég skyldi hafa komist tjónlaust í gegnum þennan tíma, en ekki heyrði ég þann gamla kvarta yfir að ég hefði laskað einhver viðskiptasambönd.

Meðal þess sem hann sagði frá, þegar gegndarlaus spillingin í landinu kom til umræðu, var það þegar forseti Íslands fór af landi brott í opinberum erindagjörðum og við tóku handhafar forsetavalds: forsætisráðherra, forseti Alþingis, forseti hæstaréttar. Þá brást það ekki að handhafarnir fylltu á bílskúrana hjá sér og kjallarann, enda gátu þeir keypt áfengi á kostnaðarverði þann tíma sem þeir sinntu embættisskyldum forsetans. Flugvél forsetans var varla komin í loftið þegar pantanir um sendibílsfarma tóku að berast. Sérstaklega nefndi hann einn handhafann í þessu sambandi og sá lenti síðar í vondum málum vegna "söfnunaráráttu" sinnar á áfengi. Þetta blöskraði þeim gamla mjög.

Árið 2000 þegar Bubba varð áttræð.
Dæturnar f.v. Palla, Auður, Dröfn og Sóley
Það var svo sem ýmislegt sem honum blöskraði, ekki síst spilling sem tengdist embættismönnum ríkis og sveitarfélaga (sem sagt Kópavogs).

Ég held ég að segja megi, að saman hafi farið orð og athafnir hjá Þorvaldi Runólfssyni. Allt prjál eða flottræfilsháttur, var eitur í hans beinum. Hann klæddi sig eins og honum þótti þægilegast og lét sig ekki hafa það að fara í jakkann sinn nema við hátíðlegustu tækifæri, utan heimilis. Mannfagnaðir voru honum fremur lítt að skapi og var varla kominn á staðinn þegar hann fór að hafa orð á því að þetta væri nú orðið gott og bjóst til heimferðar. Í hans huga var allur "óþarfi" óþarfur. Hann myndi örugglega teljast öfgaminimalisti nú til dags. Nytsemishyggja virtist honum í blóð borin.

Ég hef lengi velt fyrir mér hvort það eru uppeldisaðstæðurnar eða hreinlega erfðir, sem birta mér enn þann dag í dag ýmislegt úr fari tengdaföður míns, í dætrum hans. Ég sé honum allavega nokkuð reglulega bregða fyrir.

Mér reyndist sá gamli alltaf vel hvað sem öðru líður, þó sannarlega hafi henn ekki verið allra. Í honum bjó talsverður sérvitringur og hann fór sínu fram eftir því sem fært var.

Valdi lést þann 15. mars, 2007 og útför hans var gerð í kyrrþey frá Kópavogskirkju.

Ég læt hér fylgja í lokin minningargrein sem ég skrifaði á sínum tíma.

Hann lifði Bubbu sína í eitt og hálft ár, hann tengdafaðir minn. Síðustu mánuðirnir hjá honum voru í erfiðari kantinum. Veikindi hans á haustmánuðum gengu nærri honum og á þeim tíma var nokkrum sinnum svo komið að læknar töldu að vegferð hans yrði ekki lengri. Daginn eftir eitt slíkt tilvik sat sá gamli hinn rólegasti í rúminu sínu og gæddi sér á slátri. Það má segja að þetta lýsi lífshlaupi hans nokkuð. Hann hafði á yngri árum tekist á við lífshættuleg veikindi oftar en einu sinni, en hafði þá ávallt sigur, þótt afleiðingarnar settu mark sitt á lífsgæði hans að ýmsu leyti til æviloka.
Þessi öldungur sem nú er genginn var nú dálítið sérstakur; fór sínar eigin leiðir og hafði ákveðnar skoðanir á flestum málum. Hann var ekkert sérstaklega mannblendinn og var gjarnan fyrstur til að kveðja þegar mannfagnaðir af einhverju tagi voru annars vegar. Honum var hins vegar mikið í mun að hafa samband við og heyra fréttir af dætrum sínum og fjölskyldum þeirra. Það var okkur fjölskyldunni mikið gleðiefni að hann skyldi treysta sér til að koma austur í sveitir á afmælistónleika Egils Árna í febrúar síðastliðnum. Þar lék hann við hvern sinn fingur í helgarleyfi af spítalanum.
Valdi var stefnufastur maður og honum var mjög annt um sjálfstæði sitt gagnvart öllu og öllum. Sjálfsagt á það að einhverju leyti skýringar í því að hann missti föður sinn 15 ára og þurfti að standa á eigin fótum að miklu leyti upp frá því.
Það kom þó að því að hann gerði sér grein fyrir að hann þurfti að reiða sig á aðstoð annarra. Þá var hann óþreytandi að láta vita af því að hann væri hættur að hafa skoðanir á hlutum og segði bara já við öllu. Þetta held ég að hafi aðallega verið á yfirborðinu; hann hélt áfram að hafa sínar skoðanir þó svo hann þyrfti að lúta því sem aðrir sögðu í meira mæli. Að mörgu leyti held ég líka að honum hafi þótt það gott að geta treyst á aðra til að sjá um daglegt amstur.
Það er meðal fyrstu minninga minna af Valda þegar hann lýsti því yfir við mig hvað hann hlakkaði til að hætta að vinna og geta farið að gera ekki neitt. Formlega stóð hann sig vel í því þegar þar að kom. Formlega já, en hann fann sér þó alltaf eitthvað til dundurs svo lengi sem honum entist til þess þróttur. Hann þurfti að dytta að ýmsu heima fyrir og hann naut þess í botn að geta flatmagað í sólskýlinu sínu fyrir utan hús þegar vel viðraði. Sólin var þeim hjónum báðum kær og á efri árum, svo lengi sem þeim entist heilsa til, skelltu þau sér í sólarlandaferðir í skammdeginu.
Nú eru þau bæði horfin af sjónarsviðinu, Valdi og Bubba. Arfur þeirra til framtíðarinnar eru afkomendurnir og skarinn sá sér til þess að um ókomin ár muni sporin sem þau mörkuðu á strönd eilífðarinnar varðveitast.
----------

Ég ákvað að skrifa það sem ég hef skrifað hér, algerlega án utanaðkomandi áhrifa. Reikna með að mögulegt sé að hér sé fjallað um Þorvald Runólfsson með öðrum  hætti en það fólk sem betur þekkti hann, telur rétt vera og satt. Ég er sannfærður um að ég mun fá orð í eyra ef ég hef, í einhverju, farið hér með staðlausa stafi. Reynist svo vera, mun ég lagfæra jafnharðan eða jafnvel bæta við einhverju sem mér hefur láðst að nefna. Ég geng meira að segja svo langt að hvetja afkomendur Valda til að bæta við einhverjum atvikum eða sögum sem væri gaman að láta fljóta hér með.






Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...