Sýnir færslur með efnisorðinu umferð. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu umferð. Sýna allar færslur

30 ágúst, 2020

Umferðarskipulag og lögbrot því tengd.

Svæðið sem um er fjallað.
Já, ég viðurkenni það alveg: ég á það til að nota þennan vettvang til að tjá mig um það sem gæti verið betra og það ætla ég að gera núna líka. Ég er nú tiltölulega nýfluttur hingað á Selfoss, í Sveitarfélagið Árborg. Ég er nú bara harla ánægður með lífið og tilveruna og fagna því að kynnast nýju umhverfi, nýju fólki og nýjum áskorunum. Við erum flutt hér í afar skemmtilega íbúð og erum nánast hætt að þurfa að nota bíl, svo Qashqai stendur að mestu ónotaður úti á hlaði.  Fólkið sem býr hérna í kringum okkur hefur, til þessa, reynst vera vel innréttað og hefur vísast marga fjöruna sopið og fátt sem það hefur ekki reynt á langri ævi.

Ég væri nú að kríta liðugt, ef ég neitaði því að ég saknaði kyrrðarinnar, umhverfisins, fólksins og fuglanna. Sannarlega er það sem betur fer, of svo, að breytingar kalla fram söknuð. Ef maður saknaði einskis frá liðnum tíma, hefði sá tími nú verið lítils virði.

Ég hef einsett mér að hverfa í rólegheitum í fjöldann og sinna mínu; leyfa öðrum að lifa sínu lífi í friði og bæjarstjórninni að þurfa ekki að þola gagnrýni af minni hálfu.  Ég ætla bara að reyna að vera góði, ljúfi karlinn, af fremsta megni. Ég á þó ekki von á öðru en að ég sjái ástæðu til að minnast á hitt og þetta, bæði það sem mér finnst jákvætt og það sem mér finnst að betur megi fara, svona eins og gengur.

Málefnið sem ég tek fyrir núna, er mögulega eitthvað sem ekkert verður gert við úr því sem komið er, allavega eru ekki nein teikn á lofti um að það fái úrlausn sem allir geta sætt sig við.  
Hér er um að ræða:

Aðgengi fyrir akandi umferð að Pálmatrésblokkunum hér á Selfossi.

Ég tók mig til og teiknaði þetta svæði upp og myndina þá má sjá hér efst. Þarna hef ég reynt að setja inn umferðarmerkingar eins og þær eru nú og glöggt auga sér fljótt, að þar er að ýmsu að hyggja.  Hinumegin við Austurveginn (sunnan megin) er slatti af þjónustufyrirtækum sem kalla á að aðgengi sé tryggt. Þess bera götumerkingar glögg merki. Þetta þýðir, að samsvarandi aðgengi að húsunum hinumegin (norðan megin) við Austurveginn, getur ekki orðið með sama hætti.
Til þess að koma akandi inn á áhrifasvæði húsanna þriggja sem þarna eru, þarf að koma akandi austan að, eða til dæmis frá Laugarási um Skeiðaveg. Sé maður að koma hinumegin frá, til dæmis frá Stokkseyri, er um tvennt að ræða, ef maður ætlar að fylgja umferðarlögum: 1. Aka alla leið að hringtorginu sem austast er og síðan til baka til vesturs. 2. Aka inn á athafnasvæði fyrirtækjanna sunnan götunnar og svo þaðan út á Austurveginn hjá N1num til vinstri. Sætti maður sig við að brjóta lög og taka áhættuna af því að sleppa frá tiltækinu, beygir maður inn, yfir óbrotna línu og brotalínu. Ég viðurkenni, að þessa áhættu tek ég ítrekað.

Rauðu örvarnar sýna það sem ekki má og það sama má segja um rauða krossinn.

Til þess að aka löglega frá þessum húsum, þarf maður að vera að vesturleið, t.d. eiga erindi í Hveragerði, eða taka Grímsnesið upp í Laugarás. Ætli maður upp Skeiðin þarf að beygja til vesturs og aka síðan um hringtorgið við Ölfusárbrú, áður en stefnan er aftur tekin til austurs. 

Grænu örvarnar sýna það sem má þegar ekið er frá húsunum eða að þeim.

Ég er ekki í nokkrum vafa um, að þegar gefið var leyfi fyrir byggingu þessara húsa, hafi verið unnið deiliskipulag eins og lög gera ráð fyrir. Ég hef reyndar ekki séð það skipuleg. Það er ekki augljóst hvernig þessi umferðarmál verða leyst svo öllum líki, hérna í kringum okkur..




02 ágúst, 2018

Ef ég þarf að fara á Selfoss.....

Myndin er ekki af Suðurlandsvegi við Selfoss. Þar sem ég
var akandi gat ég ekki tekið myndi til að birta hér,
en hefði gjarnan viljað. "Maybe I should have"
...þá auðvitað fer ég á Selfoss. Þar er margt að sjá og margt að gera.. Ég þarf kannski að fara í klippingu og ekki þarf ég að kvíða því að fá hana ekki. Ég þarf til tannlæknis og þeir eru þarna á hverju strái. Ég þarf að komast í búð og það veit sá sem allt veit, að maður getur varla snúið sér við fyrir búðum. Svona gæti ég lengi talið.

Stundum bara ætla ég ekki á Selfoss. 

Ég þarf að fara annað.
Ef ég vil ekki hætta lífi mínu á veginum um Grímsnesið, þá verð ég að gera svo vel að þræða þröngar og ofhlaðnar götur Selfoss, hvað sem tautar og raular.
Hversvegna skyldi þetta nú vera?

Þetta minnir ig reyndar á tíma þegar það voru til vísitölubrauð. Voru það ekki franskbrauð, heilhveitibrauð og normalbrauð? Þessi brauð lutu ákveðnum reglum og voru þessvegna ódýrari en önnur brauð. Neyslunni var beint að þessum tegundum brauðs.

Þegar umræða um nýja brú á Ölfusá var talsverð í upphafi aldarinnar, kom fljótt í ljós að ekki voru allir á eitt sáttir. Ekki nenni ég að rekja þá sögu, enda aðrir betur færir um það. Helst var að skilja að þjónustuaðilar á Selfossi væru uggandi um sinn hag. Mig grunar að sá uggur sé ein megin ástæðan fyrir því ástandi sem er í dag og þá kem ég að tilefni pistilsins - pistils sem ég hef oft hugsað mér að láta frá mér.

Ástandið í umferðarmálum í kringum Selfoss er ótækt.
Hvernig getur það verið að Selfyssingar virðast sætta sig við það umferðarkraðak sem er á Austurveginum nánast hvern dag?
Hver getur fólk sætt sig við það, nánast hljóðalaust að það skuli vera biðraðir inn á Tryggvatorg (heitir það það ekki?) alla daga?

Þetta lendir sjálfsagt minna á mér en mörgum öðrum, þar sem ég get yfirleitt bjargað mér með því að fara Grímsnesið, nema þegar ég þarf á Selfoss, því þá er hægara sagt en gert að taka vinstri beygjuna af Biskupstungnabraut.

Á þessum Drottins degi, fimmtudegi fyrir verlunarmannahelgi þurfti ég að sinna erindum á Selfossi, svona eins og gengur og gerist. Síðan lá leiðin í höfuðborgina, en þá var bílalest frá torginu við brúarendann og að torginu við Toyota.  Ég sagði auðvitað bara "VÁ", svona eins og maður segir, ekki síst þegar svona er. Þetta var um hádegisbil.
Þessi umfjöllun er frá 2008.
Síðan eru 10 ár, eins og hver maður getur éð.
Erindum lauk ég í borginni við sundin og hélt heim á leið.
Þegar mér, um fjögurleytið, tókst loksins að beygja inn á Biskupstungnabraut, eftir að hafa ekið í fyrsta gír eða minna  langleiðina frá Kögunarhól, varð mér litið í vesturátt og svo langt sem ég þá sá, að Kögunarhól, sem sagt, sniglaðist bílalestin milli þess sem hún stóð kyrr.

Ég telst líkast til óskaplega ósanngjarn og tilætlunarsamur, en svona aðstaða á þjóðvegi eitt, er bara hreint ekki boðleg, og ætti að vera búið að kippa í liðinn fyrir löngu.
Ég geri mér fulla grein fyrir því, að umferðin er ekki svona alla daga ársins hring. Það breytir engu um þá skoðun mína, að ekki verður búið við þetta lengur

Ástæður fyrir því að svo er ekki, er ekki síst að finna á Selfossi, þar sem hagsmunaaðilar hafa, að mínu mati, haft þau áhrif á þetta brúarmál að það hefur frestast úr hófi.
Það er þekkt í öðrum landshlutum að þingmenn hafa barið í gegn nauðsynlegar umbætur  á samgöngum.
Hvar eru sunnlenskir þingmenn, nú þegar hljóðnaður er söngurinn um að brú verði að vera þannig á Ölfusá sett, að hún beini allri umferð á þjóðvegi eitt í gegnum Selfoss?

Kannski erum við Sunnlendingar bara svona lítilþægir.

Hvur veit?


Þetta er umfjöllun frá 2005, síðan eru 13 ár. Hvað dvelur orminn langa?

Vísir september 2017. NÍU ÁRA BIÐ FRAMUNDAN!



Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...