Svæðið sem um er fjallað. |
Ég væri nú að kríta liðugt, ef ég neitaði því að ég saknaði kyrrðarinnar, umhverfisins, fólksins og fuglanna. Sannarlega er það sem betur fer, of svo, að breytingar kalla fram söknuð. Ef maður saknaði einskis frá liðnum tíma, hefði sá tími nú verið lítils virði.
Ég hef einsett mér að hverfa í rólegheitum í fjöldann og sinna mínu; leyfa öðrum að lifa sínu lífi í friði og bæjarstjórninni að þurfa ekki að þola gagnrýni af minni hálfu. Ég ætla bara að reyna að vera góði, ljúfi karlinn, af fremsta megni. Ég á þó ekki von á öðru en að ég sjái ástæðu til að minnast á hitt og þetta, bæði það sem mér finnst jákvætt og það sem mér finnst að betur megi fara, svona eins og gengur.
Málefnið sem ég tek fyrir núna, er mögulega eitthvað sem ekkert verður gert við úr því sem komið er, allavega eru ekki nein teikn á lofti um að það fái úrlausn sem allir geta sætt sig við.
Hér er um að ræða:
Aðgengi fyrir akandi umferð að Pálmatrésblokkunum hér á Selfossi.
Ég tók mig til og teiknaði þetta svæði upp og myndina þá má sjá hér efst. Þarna hef ég reynt að setja inn umferðarmerkingar eins og þær eru nú og glöggt auga sér fljótt, að þar er að ýmsu að hyggja. Hinumegin við Austurveginn (sunnan megin) er slatti af þjónustufyrirtækum sem kalla á að aðgengi sé tryggt. Þess bera götumerkingar glögg merki. Þetta þýðir, að samsvarandi aðgengi að húsunum hinumegin (norðan megin) við Austurveginn, getur ekki orðið með sama hætti.
Til þess að koma akandi inn á áhrifasvæði húsanna þriggja sem þarna eru, þarf að koma akandi austan að, eða til dæmis frá Laugarási um Skeiðaveg. Sé maður að koma hinumegin frá, til dæmis frá Stokkseyri, er um tvennt að ræða, ef maður ætlar að fylgja umferðarlögum: 1. Aka alla leið að hringtorginu sem austast er og síðan til baka til vesturs. 2. Aka inn á athafnasvæði fyrirtækjanna sunnan götunnar og svo þaðan út á Austurveginn hjá N1num til vinstri. Sætti maður sig við að brjóta lög og taka áhættuna af því að sleppa frá tiltækinu, beygir maður inn, yfir óbrotna línu og brotalínu. Ég viðurkenni, að þessa áhættu tek ég ítrekað.
Til þess að aka löglega frá þessum húsum, þarf maður að vera að vesturleið, t.d. eiga erindi í Hveragerði, eða taka Grímsnesið upp í Laugarás. Ætli maður upp Skeiðin þarf að beygja til vesturs og aka síðan um hringtorgið við Ölfusárbrú, áður en stefnan er aftur tekin til austurs.
Grænu örvarnar sýna það sem má þegar ekið er frá húsunum eða að þeim.
Ég er ekki í nokkrum vafa um, að þegar gefið var leyfi fyrir byggingu þessara húsa, hafi verið unnið deiliskipulag eins og lög gera ráð fyrir. Ég hef reyndar ekki séð það skipuleg. Það er ekki augljóst hvernig þessi umferðarmál verða leyst svo öllum líki, hérna í kringum okkur..
Engin ummæli:
Skrifa ummæli