Sýnir færslur með efnisorðinu bankaleynd. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu bankaleynd. Sýna allar færslur

24 október, 2017

...sem fyllir mælinn?

Þessa mynd tók ég ófrjálsri hendi hér, en átti síðan aðeins við hana.
Sennilega myndi þetta teljast siðferðilega rangt - sem það eflaust er,
eins og svo margt í þeim veruleika sem við búum við.
Í gær fjallaði ég um þjóðkirkjuna, bankaleyndina, traust og siðferði. Engin smá viðfangsefni í nokkrum línum.
Það kann einhver að spyrja til hvers ég var nú að því og mér er ljúft að svara.
Ég er afskaplega þreyttur á því að geta ekki treyst sjórnvöldum eða stjórnmálaleiðtogum í þessu landi. Ekki fæ ég betur séð að en sama sé uppi á tenginum meðal margra samlanda minna og einnig meðal annarra þjóða.

Til þess að njóta trausts verður fólk sem tekur þátt í stjórnmálum að koma hreint fram, vera það sem það er, sannfæra kjósendur um að það sé ekki með óhreint mjöl í pokahorninu.
Ég geri mér auðvitað grein fyrir því, að til þess að komast áfram í stjórnmálum virðist þurfa að beita ýmsum meðulum sem ekki þola alltaf dagsljósið. Svona hefur þetta verið frá alda öðli, sjálfsagt.

Stjórnmálamennirnir eru eitt, en síðan eru það kjósendurnir. Þar er nú margur sauðurinn og þar á meðal þessir:
1. Kjósandinn sem  hefur afar skýra heildarsýn á það hvernig honum finnst að þjóðfélagið eigi að vera. Hann er tilbúinn að kjósa mismunandi stjórnmálaflokka eftir því hvernig honum finnst þeir uppfylla þessa sýn. Hann fylgist afar vel með öllum hliðum og leggur til hliðar fordóma sína gagnvart einstökum persónum eða málum, en lætur heildarsýnina á það hvernig honum finnst gott samfélag eigi að vera, ráða för og vali sínu á kjördegi. Þetta er nánast hinn fullkomni kjósandi.

2. Kjósandinn sem með einhverjum hætti, hvort sem það gerðist í foreldrahúsum, í gegnum nám sitt (nám sín (nýslenska)), tengslanet sitt, vonir sínar eða þrár, kýs ávallt það sama, óháð öllu öðru sem kann að gerast.
Þessi kjósandi les aðeins "réttu" miðlana, finnur sér ávallt einhverja kima til að styrkja skoðanir sínar, er tilbúinn að dreifa óhróðri um þá sem hafa aðrar skoðanir, og gerir leiðtoga síns flokks nánast að leiðtoga lífs síns, óháð því hvað sá hefur að geyma í raun.
Það skiptir þennan kjósanda engu máli, þó flokkurinn hans vinni beinlínis gegn því sem myndi henta manneskju í hans stöðu best.  Þetta er yfirleitt kjósandinn sem segist ekki vera pólitískur, vegna þess að hann hefur í rauninni ekki nein baráttumál utan að verja flokkinn sinn.

3. Kjósandinn sem lætur stundarhagsmuni ráða hvaða bókstaf hann merkir við í kjörklefanum. Hann stekkur á einhver afmörkuð mál sem einhver flokkur lofar í kosningabaráttu; lætur þau skipta öllu. Þetta geta jafnvel verið lítil og ómerkileg mál, en mál sem skipta þennan kjósanda miklu þá stundina. Þetta er kjósandinn sem veldur sveiflum í skoðanakönnunum. Þetta er kjósandinn sem stjórnmálamennirnir hamast við að reyna að sannfæra. Þetta er kjósandinn sem lætur glepjast af yfirboðum í aðdraganda kosninga.

4. Kjósandinn sem hefur engar ákveðnar lífsskoðanir, er bara nánast sama um þetta "helvítis kjaftæði". Þetta er kjósandinn sem lítur þannig á að atkvæði hans skipti engu máli, eða að það sé sama rassgatið undir öllum þessum póitísku drullukökusmiðum. Þetta er kjósandinn sem, annaðhvort mætir ekki á kjörstað, eða kýs þann flokk sem tókst að rétta honum einhverja dúsu, t.d. veitti nóg af bjór á kynningarfundinum, gaf honum bol, eða barmmerki.

Ég held að það sé strengur úr öllum þessum kjósendategundum í mér - misáberandi þó.

Ég ætlaði hinsvegar ekki að fjalla um tegundir kjósenda hér og nú, heldur áfram um spurninguna um traust.

TRAUST
Bankaleynd er sennilega stærsta uppspretta þess vantrausts sem nú ríkir í þessu samfélagi og þannig hefur það verið, líklega síðustu 15 ár. Þetta er óhemju eyðileggjandi fyrirbæri.  Í svo fámennu samfélagi sem við búum í er kjörlendi fyrir spillingu. Ættir og viðskiptafélagar birtast einhvernveginn allsstaðar þar sem góðir dílar eru gerðir, þar sem ríkiseignir eru seldar, þar sem einkahagsmunir koma við sögu.
Auðvitað er svona andrúmsloft líka gróðrarstía fyrir samsæriskenningar, en þær spretta fram þar sem vantraust er fyrir hendi.

Í mínum huga er veruleiki okkar í þessu landi lagskiptur:
- það er sá veruleiki sem blasir við okkur og sem öllum má ljóst vera að er fyrir hendi.
- það er sá veruleiki sem venjulegt fólk/almenningur sér ekki. Það sem gerist á lokuðum fundum, óformlegum fundum, í Öskjuhlíðinni, á einhverri paradísareyju í suðurhöfum, í skíðaskála í suður Evrópu, á krá í Amsterdam, í ræktinn.  Á þessum veruleika ættum við að byggja val okkar á stjórnmálaleiðtogum, en það mun vera siðferðilega rangt að veita okkur upplýsingar um hann. Hann er á þeim stað sem lögin banna okkur að fara. Lögin sem voru sett í þágu..........

Svo er það spurningin um sannleikann. Hver er hann þessi sannleikur? Er hann gamall eða nýr?
Sannleikur er það sem satt er og rétt. Raunveruleiki.  Það sem er ekki raunverulegt er þá væntanlega ekki sannleikanum samkvæmt.  Þá þarf að velta fyrir sér hver raunveruleikinn er. Er hann það sem blasir við okkur dags daglega, eða er hann ef til vill eitthvað það sem lúrir undir yfirborðinu og okkur á að vera siðferðilega ómögulegt að nálgast? Lifum við þá í einhverjum gerviheimi?

---------

Af heilum hug get ég lýst því yfir hér, að ég verð ekki tengdur einhverjum tilteknum stjórnmálaflokki, þó vissulega falli skoðanir mínar að langstærstum hluta að stefnumálum þeirra stjórnmálaflokka sem vinstra megin eru við miðjuna.  Sannarlega skammast ég mín ekki fyrir það, er stoltur, ef eitthvað er.  
Ég hef heldur ekki farið sérstaklega dult með það, að ég hef nokkra óbeit á þeim öflum í stjórnmálum sem teljast standa hægra megin í þessu litrófi. Þá hef ég megna óbeit á persónudýrkun þegar stjórnmál eru annars vegar. 
Svona er ég og ég tel að mikið þurfi að ganga á, áður en einhverjum tekst að breyta mér að þessu leyti. Hlekkir á síður sem eiga að sannfæra mig um að ég fari villur vega, þar með talið á umfjöllun um I C E S A V E,  skipta nákvæmlega engu að þessu leyti.

🔆🔆🔆🔆🔆🔆🔆🔆🔆🔆🔆🔆🔆🔆🔆

Þar hafið þið það, þessi fáu sem höfðu þrek til að lesa alla leið, ekki síst ef þið hafið haft nægilega opinn huga til að skilja hvað ég er að fara.

Markmið mín með þessum skrifum eru ekki að reyna að sannfæra einhvern um að hann ætti ef til vill að endurskoða pólitiska hugsun sína eða skoðanir.  Ég veit að það mun ekki gerast.  Þau snúast, tel ég, aðallega um að skýra þessi mál með sjálfum mér og halda því til haga fyrir síðari tíma, hve rétt ég reyndist nú hafa haft fyrir mér alla tíð.
😎




Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...