Sýnir færslur með efnisorðinu sálfræði. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu sálfræði. Sýna allar færslur

15 október, 2017

Öfug sálfræði #kosningar 2017

Ef maður vill vinna málstað fylgis á þessum tímum, er vísast leiðin að beita öfugri sálfræði.
Ég get hamast þangað til ég fæ blóðbragð í munninn, og ælu upp í háls, við að leiða fram rök fyrir því að það sé hin argasta fásinna, að styðja tiltekinn stjórnmálaflokk, eða flokka, eða einstaka stjórnmálamenn.
Ég væri í rauninni aðeins að fullnægja tjáningarþörf minni: "Mikið djö.. er þetta gott hjá mér!"
"Þarna kýldi ég hann/hana kalda(n)!"
Það er nefnilega þannig, að mínu mati, með stjórnmálaskoðanir, að þær herðast eftir því sem fleiri rök eru leidd fram gegn þeim. Það gengur meira að segja svo langt, að skjöl sem tengjast suðrænum eyjum breytast í eitthvert jákvætt fyrirbæri í höfðum þeirra sem hafa stillt sér upp við hlið frambjóðanda sem tengist slíkum skjölum. Fólk herðist í trúnni, sérstaklega það fólk sem ekki býr yfir neinni sérstakri sannfæringu, eða lífsskoðun, sem er yfir hið persónulega hafin.

Fólk forherðist og þegar upp er staðið verður engin breyting. Hvenær ætlar okkur að skiljast þetta?

Að taka á einhverjum tímapunkti í lífinu ákvörðun um að kjósa tiltekið stjórnmálaafl felur í sér ákveðna skuldbindingu gagnvart sjálfum sér. Flökti maður síðan í trúnni og telji eitthvað annað mögulega betra, kostar það talsverða sálarangist, því með því að viðurkenna að maður hafi valið rangt, er maður jafnfram að tapa ákveðinni sjálfsvirðingu. Viðurkenna að maður hafi verið vitlaus síðast þegar kosið var. 

Að viðurkenna slíkt fyrir sjálfum sér, er í eðli sínu niðurbrjótandi atferli. Maður bíður hnekki gagnvart sjálfum sér. Maður er helv.... aumingi og vitleysingur. Nei, maður verður að standa keikur með sínum flokki. Annað er ekki boðlegt eða til umræðu.

Til þess að komast hjá því að upplifa sjálfan sig sem vitlausan aumngja, sem hefur enga lífsskoðun, eða hugsjón, hlýtur niðurstaðan að verða sú, að maður kýs áfram það sama og síðast, hvað sem eyjum í suðurhöfum líður.

Ég held að væri frekar reynandi, að fara hina leiðina, leggja áherslu á hið jákvæða og uppbyggilega, en það er víst ekki valkostur, og því hef ég tekið þá stefnu með sjálfum mér, að benda ekki sveitungum mínum, til dæmis, sem ég kýs að nefna ekki á nafn, frekar en ég hef þegar gert, á villuna sem þeir hafa ratað í með afstöðu sinni - það forarsvað sem þeir eru komnir út á.

Nei, ég ætla bara að þegja og leyfa þeim að vaða áfram í villu og svíma; taka með sínum hætti þátt í því að gera endanlega út af við þessa þjóð, og allt það.  Það er bara hreint ekkert sem ég get gert við því.

Vissulega viðurkenni ég, að það eru til hópar sem hægt er að hafa áhrif á, en þeir eru þessir helstir:

1. Ungt fólk, sem er svo heppið að fá tækifæri til að móta eigin lífsskoðun og hugsjónir, en taka það ekki með sér úr foreldrahúsum. Við þeim blasir hinsvegar sá vandi, að íslensk stjórnmálaumræða snýst frekar um hagsmuni en hugsjónir.

2. Fólk sem er laust við að burðast með sómakennd af einhverju tagi.

3. Fólk sem hagar seglum eftir vindi, og þá þeim vindi sem líklegastur er til að blása því, og aðeins því, áfram til betra lífs. Þá oft betra lífs sem byggir á peningalegum hagnaði af einhverju tagi.

Fólk með sjálfsvirðingu, breytir ekki pólitískri afstöðu sinni svo glatt og er tilbúið að ganga lengra en góðu hófi gegnir, til að verja eitthvað, sem allt eins líklega kemur því frekar illa  en vel.

Þetta var pólitískur pistill dagsins.

Það var fallegt við Hvítá í dag.



Litlir kallar og litlar kellingar

Heilsugæslustöðin í Laugarási á vígsludegi 1997 (mynd: Jónas Yngvi Ásgrímsson) Ég hefði óskað þess, að fyrstu dagar nýs árs yrðu ánægjulegri...