Sýnir færslur með efnisorðinu Guðmundur Indriðason. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu Guðmundur Indriðason. Sýna allar færslur

30 desember, 2016

Að lifa vel og deyja vel

Þann 15. desember lést Guðmundur Indriðason á Lindarbrekku á Dvalar- og hjúkrunarheimilinu Lundi á Hellu, á 102. aldursári.  Engum kom á óvart að hann skyldi ekki láta Jónu, bíða lengi eftir sér, en hún lést þann 13. ágúst  síðastliðinn.
Útför hans er gerð frá Skálholtskirkju í dag.

Guðmundur fæddist  í Hrunamannahreppi 15. maí, 1915, áttundi í röð tíu systkina sem komust á legg.
Guðmundur fjallar allítarlega um lífshlaup sitt í viðtali við hann og Jónu í Litla-Bergþór, 2. tbl. 2010, þá 95 ára, svo ég fer ekkert að orðlengja um það hér.

Á Laugarvatni hófst saga Guðmundar og Jónu, sem nú hefur verið settur endapunkturinn við, eftir hartnær 7 áratuga, farsæla sambúð.
Að mörgu leyti get ég sagt það sama um Guðmund og ég sagði um Jónu hér. Líf þeirra og fjölskyldu minnar í Hveratúni og síðar í Kvistholti hefur legið saman og þar hefur aldrei borið skugga á. Hvernig mætti líka annað vera? Fyrir nágranna af þessu tagi ber að þakka.

Þó svo okkur sé það ljóst að dauðinn er hluti af lífinu og við sættum okkur æ betur við tilhugsunina um hann eftir því sem við verðum eldri, þá kallar hann fram í huga okkar söknuð og ótal minningar um lífið sem hann tekur við af. Í dauðanum felst endanleiki; eitthvað sem ekki verður breytt eða tekið til baka.
Við lífslok erum við frekar mæld á grundvelli þess sem í okkur bjó, mannkostum okkar, fremur en veraldlegum auð. Það er nefnilega eitt mikilverðasta hlutverk okkar á lífsgöngunni að marka spor sem leiða gott af sér fremur en illt.
Sporin sem Guðmundur og Jóna skilja eftir sig bera vitni um að þar fór gott fólk og það er mikilverðast.

Guðmundur naut þess að eldast afskaplega vel og fram á tíræðisaldur tók hann sér fyrir hendur ýmislegt sem fólk hættir venjulega að gera upp úr sextugu. Mér er sérstaklega minnisstætt þegar Jóna lýsti áhyggjum sínum af því fyrir nokkrum árum (svona 10, kannski) að hann hafi prílað upp á þak á íbúðarhúsinu til að sinna einhverju viðhaldi.

Ég kíkti einusinni í heimsókn til þeirra í þjónustuíbúðina sem þau dvöldu í á Flúðum, áður en þau fluttu á Lund á Hellu. Vissulega var sá gamli farinn að bera þess merki að elli kerling sótti á. Til að byrja með kannaðist hann ekki alveg við mig, en með réttum tengingum small allt saman og það runnu upp úr honum sögurnar frá fyrstu árunum í Laugarási og ég fékk að kíkja í myndaalbúm meðan gnótt bakgrunnsupplýsinga fylgdi.  Þetta var ánægjuleg heimsókn og síðan hef ég oft leitt hugann að því hve gaman hefði nú verið að geta gefið sér meiri tíma til að ausa úr þeim viskubrunni sem Guðmundur var, en af því varð ekki og þannig er það bara. Það væri nú samt gaman að komast aftur í myndaalbúmin og ná þaðan myndum í safnið.

"Ég er nú enginn fýlupúki" sagði Guðmundur þegar mér varð á að nefna það hve létt var yfir honum á aldarafmælinu.
Mér var sagt að eftir afmælið hafi hann verið kallaður "Hundraðkallinn", á Lundi. Nafngift  sem hæfir vel lundarfari mannsins. Það er sama hvernig ég reyni, þær myndir af Guðmundi sem koma í hugann eru ávallt af broshýru andliti með gamanmál af einhverju tagi á takteinum. Aldrei sút.

Árið 2016 er árið þegar Lindarbrekkuhjónin kvöddu og þau skilja eftir ágætan minningasjóð.

Börn Guðmundar og Jónu, f.v. Grímur, Katrín Gróa, Jón Pétur og Indriði.
°°°°°°°°°°°°°°°°°°°°°°°°°°°°

Lítið eitt um Lindarbrekku

Lindarbrekka í desember 2016

Útidyrnar á gamla húsinu.

Saga lóðarinnar sem síðar varð Lindarbrekka, hófst 1942 með því Jóhann Sæmundsson yfirlæknir og félagsmálaráðherra um nokkurra mánaða skeið, fékk hálfan hektara lands og byggði sér 29m² sumarhús á brekkubrúninni. Ein megin ástæða þessa mun hafa verið sú að hann vildi hafa möguleika á að hafa öruggt skjól í mögulegum loftárásum á landið.
Eiginkona hans var Sigríður Sæmundsson, fædd Thorsteinson.

Sigurður Jónasson  keypti húsið 1948. Sigurður var alllengi forstjóri Tóbakseinkasölu ríkisins, og var svokallaður athafnamaður.

Föst búseta á Lindarbrekku hófst 1951 þegar Guðmundur og Jóna keyptu þetta 29 fermetra sumarhús og fluttu inn.

Árið 1958 var nafn býlisins staðfest og um leið var landið sem það stendur á stækkað um helming. Guðmundur og Jóna stækkuðu íbúðarhúsið 1961. Árið 1976 byggðu þau gróðurhús og notuðu til þess efni úr gróðurhúsi sem hafði staðið á Sigurðarstöðum. Árið eftir byggðu þau pökkunarhús eða vélageymslu og loks íbúðarhús 1980.
Gamla húsið stendur enn í rólegheitum á brekkubrúninni, að niðurlotum komið eftir góða þjónustu og í því hefur enginn búið frá 1988.

Laugarás

Að Guðmundi gengnum eru tímamót í ekki svo langri sögu Laugaráss sem þorps, en með honum hverfur á braut síðasti frumbýlingurinn í þorpinu. Þá á ég við þá íbúa sem hér hófu búsetu á fimmta áratug síðustu aldar. Þau sem hér eru nefnd fylla þennan hóp:
Laugarás 2 (Gamla læknishúsið): Ólafur Einarsson og Sigurlaug Einarsdóttir, Knútur Kristinsson og Hulda Þórhallsdóttir. Ólafur og Knútur störfuðu hér sem læknar.
Hveratún: Skúli Magnússon og Guðný Pálsdóttir.
Sólveigarstaðir: Jón Vídalín Guðmundsson og Jóna Sólveig Magnúsdóttir.
Laugarás 1 (Helgahús): Helgi Indriðason, bróðir Guðmundar og Guðný Aðalbjörg Guðmundsdóttir, systir Jóns Vídalín. Rétt er að geta þess að Helgi og Guðný (Gauja) hófu búskap sinn í Laugarási 1946, en þá bjuggu þau í kjallaranum í læknishúsinu, en fluttu síðan í eigið hús 1949.
Ef taldir eru með þeir sem fluttu í Laugarás milli 1950 og 1960, eru þær nú einar eftir, að ég tel, þær Fríður Pétursdóttir í Laugargerði, sem er nýflutt á Selfoss og Sigríður Pétursdóttir í Sigmarshúsi.


100 ára, á léttu nótunum 

16 maí, 2015

Lék við hvurn sinn fingur

"Ég er nú enginn fýlupúki!" sagði afmælisbarnið þegar ég hafði orð á því hve hress og kátur hann var á 100 ára afmælinu sínu og á heimleiðinni valt upp úr mér að vera kynni að fæðingardagurinn gæti hafa misreiknast um 10 ár.
Guðmundur Indriðason bauð sem sagt til veislu á afmælisdaginn, ásamt fjölskyldu sinni í Dvalar- og hjúkrunarheimilinu Lundi á Hellu. Þar hafa þau Jóna nú alið manninn að undanförnu og ekki annað að sjá en vel fari um þau.
Afkomendurnir sungu.
Fyrir utan börnin fjögur, maka og afkomendur var þarna margt fólk sem Laugarás og nágrenni gisti á uppvaxtarárum mínum og gistir enn, sumir auðvitað orðnir talsvert þroskaðri, en báru samt með sér að hafa andað að sér heilnæmu og langlífishvetjandi loftinu í Laugarási.
Það er nú ekki stirt
á milli hjónakornanna
Það var vel veitt og glatt á hjalla á Lundi í gær, kveðskapur fluttur og kveðjur, söngvar sungnir og leikið á hljóðfæri meðan veisluföng voru innbyrt og skálað fyrir afmæliskarlinum.

Börn Jónu og Guðmundar eru:
Grímur, Katrín Gróa, Jón Pétur og Indriði.
Hér í aldursröð frá hægri. 

Fleiri myndir frá afmælishófinu.





Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...