Sýnir færslur með efnisorðinu leiksýning. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu leiksýning. Sýna allar færslur

18 október, 2025

Leikdeild Umf. Biskupstungna: 39 og ½ vika

Þegar kynslóðirnar mætast í sameiginlegu verkefni, verður til einhver galdur. Maður eflist í þeirri trú, að  framtíðin feli ekki bara í sér dauða og djöful, heldur heim, þar sem mannfólkið sinnir uppbyggilegri verkefnum en þeim sem efst eru á baugi í veröldinni þessi árin.  Það kallar fram einhverja sannfæringu um að það hljóti að vera bjart framundan, að setjast niður fyrir framan leiksviðið í Aratungu eina kvöldstund og njóta samþættingar kynslóðanna, ekki síst þegar umfjöllunarefnið er tilurð lífsins, allt frá sameiningu tveggja frumna, til lífsdansins sem fylgir þeirri sameiningu.
  
Jæja, þetta var nú kannski heldur háfleyg byrjun, en þá er bara að taka því. 

Ég var viðstaddur frumsýningu Leikdeildar Ungmennafélags Biskupstungna í Aratungu, á leikritinu/gamanleiknum/farsanum 39 og ½ vika, eftir Hrefnu Friðriksdóttur, sem þarna var viðstödd. Sýningin fjallar um aðdraganda barneigna og ýmis vandamál og misskilning sem því ferli tengjast. Þetta fer allt fram í farsakenndum stíl þar sem tilurð, meðganga og úrvinnsla nokkurra barna er umfjöllunarefnið. Sviðið er annars vegar skrifstofa félagsráðgjafa, þar sem félgsráðgjafinn er mikið til í fríi, en námsmaður í Landbúnaðarháskólanum leysir hann af stærstan hluta verksins.  Á hinum helmingi sviðsins er svo biðstofa  og inngangur í fæðingastofu. Að öðru leyti er efnið þess eðlis, að fólk verður bara að skella sér í leikhús til að fá botn í þær flækjur allar. Ég er enn að reyna að fá í þetta endanlegan botn og sé ekki betur en þetta gangi allt upp, með einhverjum hætti.

Vissulega er það bara eitt skrifborð sem bjargar því, að ekki þurfti að taka fyrir augun á saklausum börnum og sannarlega er orðfærið ekki alltaf við hæfi viðkvæmra einstaklinga, en samhengið gerir þetta allt svo sjálfsagt. Ég neita því ekki, að stundum varð mér hugsað til þess hvernig t.d. frú Anna hefði brugðist við, en gerði mér jafnframt grein fyrir því, að nú eru aðrir tímar.

Það gildir auðvitað það sama um Leikdeild Umf. Bisk. og aðra leikhópa áhugafólks, að hún á alla mína aðdáun fyrir að halda úti, ár eftir ár metnaðarfullum leiksýningum, sem sannarlega geta tekið á alla aðstandendur sýningarinnar á undirbúningstímanum (svo ekki sé minnst á aðstandendur aðstandendanna).  Það sem kemur á móti, er hinsvegar ómetanlegt, fyrir þátttakendurna, sveitungana og aðra sem njóta þess að eyða kvöldstund í leikhúsi.  Ég finn til ákveðinnar skyldu að sækja sýningar af þessu tagi, ekki síst hreinlega til að samgleðjast aðstandendum sýningarinnar, sem eru komnir í mark, eftir mikla vinnulotu og fórnir. Ég má þó alveg vera duglegri við þetta, svo því sé haldið til haga.

Þessi sýning rennur vel og hiklaust og lausnir leikstjórans trúverðugar. Það er helst, einstaka sinnum, heldur mikið kraðak á biðstofunni, eða biðstofan heldur lítil, þegar allt er á fullu, en það kemur ekkert að sök.

Auðvitað er það svo, að leikararnir eru áhugafólk og maður gerir þá ekkert endilega ráð fyrir að allt sé upp á punkt og prik. 
Það hvílir mikið á Þorsteini Pétri Manfreðssyni Lemke í hlutverki afleysingamannsins, en hann leysir hlutverk sitt vel af hendi; skapar trúverðuga mynd af vandræðagangi námsmannsins, sem berst við að reyna að komast að hvað gerðist eða gerðist ekki á sveitahátíðinni.
Sigurjón Sæland er gamalreyndur í leikstarfi í Tungunum og nýtur sín vel í hlutverki harðsoðna kvennabósans, sem reynist svo uppgötva aðra hlið hlið á sjálfum sér.
Runólfur Einarsson fer vel með hlutverk húsvarðarins, sem á sér leyndarmál. Vissulega dansar hann einstaka sinnum á línunni, en þannig á hann bara örugglega að vera. 

Ég get ekki látið hjá líða, að nefna unga fólkið sem mætir til leiks í sýningunni. 
Róbert Þór Bjarndal Ívarsson er einkar sannfærandi sem verðandi faðir í fyrsta sinn, með geislandi látbragði í túlkun á gleði og sorg. Róbert deilir hlutverkinu með Bergi Tjörva Bjarnasyni, sem leysir það örugglega líka vel af hendi á sýningunum sem framundan eru.
Adda Sóley Sæland fer ansi vel með hlutverk verðandi móður, sem hefur meiri áhuga á öðru en barnastandi. Hún deilir hlutverkinu með Vigdísi Fjólu Þórarinsdóttur, sem mun vísast standa sig vel þegar hennar tími kemur.

Aðrir leikarar í sýningunni stóðu vel fyrir sínu. Hinar verðandi mæðurnar, eru í höndum þeirra Kristínar Ísabellu Karlsdóttur og Unnar Malínar Sigurðardóttur. Þær túlka ástandið hreint ágætlega.  
Íris Blandon, verðandi langamman í verkinu, með kristalkúluna sína, hefur marga fjöruna sopið í leiklistinni og bregst ekki frekar en fyrri daginn.

Verðandi amma og afi eru í höndum þeirra Eyrúnar Óskar Egilsdóttur og Skúla Sæland. Það ganga dálítið skotin  á milli þeirra, vegna ákveðinnar hjónabandsþreytu, sem ekki fer framhjá neinum. Hlutverkum sínum skila þau af sóma.
Aðalheiður Helgadóttir, margreynd á sviðinu, leikur hlutverk félagsráðgjafans af öryggi og innlifun, en ráðgjafinn sá er í fríi stærstan hluta sýningarinnar, meðan landbúnaðarskólaneminn leysir hann af.
Lilja Össurardóttir, fer snyrtilega með lítið, en afgerandi hlutverk.





















Leikstjóri þessarar sýningar er Ólöf Sverrisdóttir. Hún er borin og barnfædd í Hrosshaga, og var því á heimavelli, þannig séð. Að langstærstu leyti virðist mér hún hafa leyst það flækjustand sem verkið felur í sér, vel af hendi og það rann hnökralaust í gegn.

Fjölmargir leikhúsgestir skemmtu sér hreint ágætlega, enda var við öðru að búast. 
Takk fyrir skemmtilega kvöldstund. Þessi sýning á skilið að fólk fjölmenni framundir jól 😎


Ég tók nokkrar myndir, sem hér fylgja, en aðstæður til myndatöku hefðu nú getað verið betri og  afraksturinn er í samræmi við það.

16 febrúar, 2018

Rautt af stút fyrir augliti djöfulsins

Það er upplífgandi þegar maður loksins togar sjálfan sig upp úr sófanum eftir kvöldmat og skellir sér á leiksýningu.  Togið sjálft tók auðvitað á, enda finnst mér aldeilis ágætt að vera ekkert mikið að taka þátt í einhverju útstáelsi svona þegar líður á dag og jafnvel farið að nálgast háttatíma.
Þar sem engin regla er án undantekninga og tilefnið ærið létum við fD verða af því að leggja í ökuferð upp í Aratungu í gærkvöld til að upplifa leikverkið:
Sálir Jónanna ganga aftur 
sem leikdeild Ungmennafélags Biskupstungna sýnir þessar vikurnar á milli þess sem lægðir skella á ströndinni suðaustanverðri og ná jafnvel að valda ófærð á þessu annars veðurfarslega rólega svæði.
Leikstjóri er Gunnar Björn Guðmundsson og má líklega halda því fram að hann hafi verið og sé fastráðinn hjá leikdeildinni árum saman.
Talning mín í leikskránni leiðir í ljós að hér er á ferðinni þrítugasta uppfærsla á vegum ungmennafélagsins frá því Aratunga tók við sem félagsheimili Tungnamanna árið 1961. Af þessum 30 sýningum hef ég tekið að mér hlutverk í einni, Tobacco Road sem byggir á skáldsögu eftir Erskine Caldwell. Ég hef ávallt verið jafnundrandi á því að ekki skuli hafa verið leitað til mín með þátttöku í leiksýningum síðan. Hversvegna skyldi það nú vera?

Jæja, jamm og já.

Þarna komum við í leikhúsið Aratungu, fengum þessa fínu, grænu miða og leikskrá, að lokinni hóflegri greiðslu. Við höfðum lagt af stað snemma þar sem sálfræðilegt innsæi okkar gaf skýrt til kynna að húsið yrði sneisafullt þar sem sveitungarnir væru orðnir aðframkomnir af innilokunarkennd eftir óveðurskafla og tvö sýningarföll. 15 mínútum fyrir sýningu vorum við komin með miða í hendur  frá þeim Bajrna á Brautahóli og Skúla Sæland. Þá birtist Oddný á Brautarhóli okkur í sjoppulúgunni. Hún reyndist hafa ýmislegt til sölu, svo sem rauðvín og hvítvín og bjór, svo eitthvað sé nefnt. Við létum slag standa og skelltum okkur á rauðvín, sem afgreitt var í svona litlum flöskum. Þetta gerðum við ekki síst til að það myndi losna lítillega um hláturtaugarnar undir sýningunni, því ekki var nú hægt að halda því fram að fólkið streymdi að og því nauðsynlegar að þeir sýningargestir sem til staðar voru myndu hlæja með óheftari hætti á viðeigandi stöðum og þannig teljast "góður salur".
Það fylgdi ekki glas flöskunni, og ekki heldur brúnn bréfpoki. Þetta var auðvitað til fyrirmyndar og í góðu samræmi við hið umhverfisvæna samfélag sem Bláskógabyggð er. Hvaða vit er líka í því að hella úr glerflösku í plastglas til þess, síðan, að henda plastglasinu að notkun lokinni, ásamt flöskunni.  Sannarlega viðurkenni ég, að sú aðgerð að drekka áfenga drykki af stút, lítur ekki vel út svona til að byrja með og ég viðurkenni að ég var nokkuð feiminn við það, en þessi tilfinning hvarf fljótt, þar sem ég skýldi flöskunni með leikskránni og lét sem ég þyrfti að geispa í hvert skipti sem ég fékk mér sopa. Þetta var bara hið besta mál og mér leið betur á eftir, ekki síst við þá tilhugsun að ég hafði engu bætt við ruslahauga heimsins.

Þá er best að snúa sér að leikverkinu, sem Hugleikur frumsýndi fyrir tuttugu árum: Sálir Jónanna ganga aftur.
Ég er enginn leikhúsfræðingur eða bókmennta og freista þess því ekki að dæma eitt eða neitt eða einn eða neinn.
Verkið fjallar um áhyggjur Satans sjálfs (Hjalta Gunnarssonar) af lélegri aðsókn í neðra. Hann nýtur dyggs, en vanþakkláts stuðnings Móra (Írisar Blandon) við að reyna að bæta úr þessu.  Ekki verða tilraunir þeirra hjúanna til að veiða sálir taldar mjög árangursríkar og það gengur á ýmsu, sem ég ætla auðvitað ekki að ljóstra upp um hér. Fólk verður bara að fara á stjá og sjá með eigin augum hvernig sálir Jónanna (sem eðli máls samkvæmt) láta lífið hver með sínum afar trúverðuga hætti og eru síðan háðir því hvernig maki þeirra eða nánasti vinur freistar þess að koma þeim í hið efra með mis markvissum og vel meintum hætti, undir stöðugum tilraunum Satans og Móra til að koma í veg fyrir að svo geti orðið.
Allt fer þetta einhvernveginn að lokum.

Það veit maður, áður en maður fer á svona sýningu, að hún er ekkert að reyna að keppa við Ibsen eða Albee. Hún er ekki að þykjast vera neitt annað en hún er: hreint ágæt kvöldskemmtun.

Ég heyrði sagt fyrir aftan mig (í öftustu röðinni af þeim þrem sem setnar voru): "Mér finnst miklu skemmtilegra að fara á svona áhugamannasýningu heldur en á leikrit með atvinnuleikurum".  Ég get eiginlega alveg tekið undir þessa skoðun. Maður veit að fólkið sem þarna kemur fram hefur lagt á sig feikilega mikla vinnu ofan á fullan vinnudag,  vikum saman , oftar en ekki með heilu fjölskyldurnar á bak við sig, sem verða þannig óbeint þátttakendur í uppsetningunni með því að leikarinn eða ljósamaðurinn, eða búningahönuðurinn er meira eða minna að heiman á kvöldin og um helgar allan afingatímann.  Þetta gera aðstandendur svona sýninga einvörðungu vegna þess að þeir fá út úr því ómælda ánægju.
Ég tala af reynslu, maðurinn sem einu sinn varð nánast leiklistarbakteríunni að bráð.

Við hin, sem ekki tökum þátt, skuldum þessu fólki viðveru okkar á eins og eina sýningu hvert og það sem meira er: við skuldum sjálfum okkur að rífa okkur upp af r.......nu og hafa gaman eina kvöldstund.

Myndirnar sem ég birti hér tók ég ófrjálsri hendi af Facebooksíðu Leikdeildar Ungmennafélags Biskupstungna. 
Á þessari síðu má fylgjast með næstu sýningum.

26 mars, 2017

"Við vorum ekkert hræddar"

Við skelltum okkur á leiksýningu nemenda Menntaskólans að Laugarvatni í Aratungu í gærkvöld, ég og tvær sonardætur: Júlía Freydís (8) og Emilía Ísold (5).  Þær fengu að sitja á fremsta bekk, en ég kom mér fyrir aftast, með EOS-inn í næsta nágrenni við fólkið sem stýrði ljósum, hljóði og tónlist.
Þá er ég búinn að setja upp aðstæðurnar.

Ég hef nú ekki lagt það í vana minn að setja mig á einhvern hest, sem leiklistargagnrýnanda og geri það ekki heldur hér, en auðvitað tek ég mér það bessaleyfi, að hafa skoðun samt.
Ég fékk fljótlega á tilfinninguna, að leikstjórnini væri mjög fagmannleg, enda vanur maður, Guðjón Sigvaldason, sem sá um þann mikilvæga þátt. Sviðssetningin var öll hin ágætasta.

Það þekkja nú flestir söguna um Konung ljónanna, hann Simba, foreldra hans, vini og þann hættulega heim sem hann fæddist inn í og því fjalla ég ekkert um söguþráðinn.

Hvernig komu ML-ingarnir þessu svo frá sér?
Sonardæturnar og önnur börn sem þarna voru, en þau hafa verið 20-30, voru greinilega þeirrar skoðunar, að  vel væri gert. Hópurinn sat kyrr í sætum sínum allan tímann og lifði sig inn í verkið. Gerði stundum athugasemdir, hló og klappaði.  "Mér fannst Skari, skemmtilegastur og svo var hann líka góður leikari með góða rödd", sagði önnur sonardóttirin í leikdómi sínum. "Stelpuhýenan er góður leikari, hún er svo falleg", sagði hin.  Þær eru búnar rifja upp atriði úr verkinu, hafa jafnvel brostið í sönginn "Hakuna Matata". við og við.

Aparnir voru einstaklega apalegir og hýenurnar fáránlega hýenulegar, gnýirnir gný(s)legir. Jamm, dýrin sem birtust á sviðinu voru bara sérlega dýrsleg.

Það sem ég tók eftir, standandi aftast í salnum, var hver framsögnin var skýr. Það er ekki sjálfgefið á þessum tímum, þegar maður heyrir ungt fólk oft tala álíka skýrt og Gettu betur keppndur í hraðaspurningum.  Svei mér ef ég heyrði ekki hvert orð sem barst frá sviðinu.
Framsögnin var líka afar eðlileg, lifandi og tjáningarrík við hæfi.

Ég gæti alveg farið að fjalla um frammistöðu einstakra leikenda. Ég sé engan tilgang með að fara að reyna að gera þar upp á milli, Langflestir stóðu sig með afbrigðum vel og skólanum er sómi að því að sýna myndina sem þarna birtist af hæfileikaríkum nemendum hans.





Nú skuluð þið, lesendur góðir, drífa ykkur á sýningu í nágrenni við ykkur, en Konungur ljónanna verður sýndur sem hér segir:
Sun. 26 mars kl. 14:00 í Aratungu, Reykholti
Þri. 28. mars kl. 20:00 í Þingborg
Mið. 29. mars kl. 20:00 í Félagsheimili Seltjarnarness
Fös. 31. mars kl. 20:00 í Hvoli, Hvolsvelli
Lau. 1. apríl kl. 16:00 í Hvoli, Hvolsvelli 
Sun. 2. apríl kl. 19:00 í Leikskálum, Vík

Sonardæturnar vilja fara aftur og hyggjast reyna að fá foreldra sína með.



FLEIRI MYNDIR - ef vill

03 mars, 2017

Svefnlaus brúðgumi á Borg

Fulltrúi Skálholtskórsins í sýningunni,
Jóhann Pétur Jóhannsson fer með burðarhlutverk.
(einkamynd að sýningu lokinni, þar sem hann var beðinn
að skella sér í karakter eitt augnablik)
Ekki ætla ég að fullyrða neitt um það hvort það getur talist trúverðugt, að brúðhjón eyði brúðkaupsnótt sinni á Hótel Örk í Hveragerði áður en þau halda í fjögurra vikna brúðkaupsferð  á Selfoss og til Vestmannaeyja. Ég neita því ekki að ég velti fyrir mér eitt sekúndubrot, hvað þau myndu mögulega geta tekið sér fyrir hendur á þessum tíma á nefndum stöðum. Auðvitað var flest sem viðkemur efni leikverksins "Svefnlausi brúðguminn" afskaplega ótrúverðugt og átti bara að vera þannig. Það breytti því ekki að ég skemmti mér hreint ágætlega.

Þarna birtist áhorfendum flest sem farsa prýðir, misskilningur, dómharka, léttúð, daður, svínarækt, fiskimjöl í gámavís, persónur í óleysanlegri kreppu sem leysist upp í alsælu, hraðar skiptingar og meira að segja nekt.

Þetta er ekki neinn leikdómur, enda þykist ég ekki kunna slíkt, hitt er annað mál, að þarna var kvöldstund afar vel varið.
Ég þekki það frá gamalli tíð (jæja, byrjar hann nú á þessu) að það eru ekki síst leikarar í svona sýningu sem skemmta sér, enda fór það ekki framhjá manni leikarar Leikfélagsins Borgar skemmtu sér hreint ágætlega, og það eitt smitar leikhúsgestina.

Það er afar mikilvægt, þegar lítil áhugamannaleikfélög setja upp sýningar til að lyfta sveitungum upp í skammdeginu. að þangað leggi fólk leið sína, ekki bara vegna þess að það er afskaplega gaman, heldur ekki síður til að styðja við svona starf, en þarna er fólk búið að leggja mikið á sig  við æfingar um langan tíma.
Svona lagað skiptir heldur betur máli.

14 febrúar, 2016

Á leikskólahraða í Brúðkaup

Íris Blandon í hlutverki sínu
Það verður seint ofmetið að þegar fólk í fullu starfi leggur á sig óhemju viðbótarvinnu til að gleðja samborgara sína. Vissulega er þessi vinna skemmtileg og gefandi, en hún gefur ekkert af sér í aðra hönd. Launin eru bara ánægjan af því að taka þátt, að reyna sig og taka loks við klappinu í lokin. Það eru líka ágætis laun.
Ég var einusinni í þessum sporum og fæ enn smá fiðring þegar farið er að æfa næsta verk, ekki nægilegan samt til að vera með.

Á föstudagskvöld lögðum við fD ásamt hópi þeim sem hefur gefið sjálfum sér nafnið "Gullaldargellurnar"*  leið okkar í Aratungu til að sjá leikverkið Brúðkaup eftir  Guðmundar Ólafssonar, í leikstjórn Gunnars Björns Guðmundssonar, sem leikdeild Ungmennafélags Biskupstungna sýnir þessar vikurnar og það var gaman.
Hér er ekki um að ræða leikdóm, enda þykist ég þess ekki umkominn að leggja mat á frammistöðu leikaranna, leikstjórans eða annarra. Að mínu mati stóðu leikararnir vel fyrir sínu og náðu að kalla fram hláturrokur okkar sýningargesta. Ég þakka fyrir mig.

Þessar leiksýningaferðir Gullaldargellanna eru orðinn fastur liður í tilveru okkar sem alveg má kalla "betri helminga" þeirra.  Þeim fylgir, að á undan  leiksýningunum er snæddur leikhúskvöldverður í veitingahúsi. Það stóð til einnig nú.   Þar var á borið fram einhver besta "ribeye" steik sem ég hef fengið, þegar hún var borin fram, 10 mínútum áður en tjaldið var dregið frá. Ég neita því ekki, að ég sakna þess að hafa ekki getað klárað steikina mína og notið "tira misu" í eftirrétt. Það var haft orð á því í hópnum að við yrðum bara að borða jafnhratt og vaninn var í leikskólanum á gullaldartímanum. Ekki fleiri orð um það.


*Gullaldargellurnar er lítill hópur kvenna sem starfaði saman í leikskólanum Álfaborg fyrir æ fleiri árum og telur að sá tími hafi markað gullöld þess leikskóla og þá aðallega vegna þeirra starfa þar, að sjálfsögðu.  Þetta er svipað því og þegar talað er um gullaldarlið Tungnamanna í körfubolta, sem ég tilheyrði að sjálfsögðu. Það góða lið gerði garðinn frægan um og upp úr 1980 og annað eins höfum við ekki átt í Tungunum síðan, þrátt fyrir að það hafi verið byggt heilt íþróttahús til að freista þess að ná svipuðum árangri í körfuknattleik aftur.

Leikdeild Umf. Biskupstungna: 39 og ½ vika

Þegar kynslóðirnar mætast í sameiginlegu verkefni, verður til einhver galdur. Maður eflist í þeirri trú, að  framtíðin feli ekki bara í sér ...