Þar sem engin regla er án undantekninga og tilefnið ærið létum við fD verða af því að leggja í ökuferð upp í Aratungu í gærkvöld til að upplifa leikverkið:
Sálir Jónanna ganga aftur
sem leikdeild Ungmennafélags Biskupstungna sýnir þessar vikurnar á milli þess sem lægðir skella á ströndinni suðaustanverðri og ná jafnvel að valda ófærð á þessu annars veðurfarslega rólega svæði.Leikstjóri er Gunnar Björn Guðmundsson og má líklega halda því fram að hann hafi verið og sé fastráðinn hjá leikdeildinni árum saman.
Talning mín í leikskránni leiðir í ljós að hér er á ferðinni þrítugasta uppfærsla á vegum ungmennafélagsins frá því Aratunga tók við sem félagsheimili Tungnamanna árið 1961. Af þessum 30 sýningum hef ég tekið að mér hlutverk í einni, Tobacco Road sem byggir á skáldsögu eftir Erskine Caldwell. Ég hef ávallt verið jafnundrandi á því að ekki skuli hafa verið leitað til mín með þátttöku í leiksýningum síðan. Hversvegna skyldi það nú vera?
Jæja, jamm og já.
Þarna komum við í leikhúsið Aratungu, fengum þessa fínu, grænu miða og leikskrá, að lokinni hóflegri greiðslu. Við höfðum lagt af stað snemma þar sem sálfræðilegt innsæi okkar gaf skýrt til kynna að húsið yrði sneisafullt þar sem sveitungarnir væru orðnir aðframkomnir af innilokunarkennd eftir óveðurskafla og tvö sýningarföll. 15 mínútum fyrir sýningu vorum við komin með miða í hendur frá þeim Bajrna á Brautahóli og Skúla Sæland. Þá birtist Oddný á Brautarhóli okkur í sjoppulúgunni. Hún reyndist hafa ýmislegt til sölu, svo sem rauðvín og hvítvín og bjór, svo eitthvað sé nefnt. Við létum slag standa og skelltum okkur á rauðvín, sem afgreitt var í svona litlum flöskum. Þetta gerðum við ekki síst til að það myndi losna lítillega um hláturtaugarnar undir sýningunni, því ekki var nú hægt að halda því fram að fólkið streymdi að og því nauðsynlegar að þeir sýningargestir sem til staðar voru myndu hlæja með óheftari hætti á viðeigandi stöðum og þannig teljast "góður salur".
Það fylgdi ekki glas flöskunni, og ekki heldur brúnn bréfpoki. Þetta var auðvitað til fyrirmyndar og í góðu samræmi við hið umhverfisvæna samfélag sem Bláskógabyggð er. Hvaða vit er líka í því að hella úr glerflösku í plastglas til þess, síðan, að henda plastglasinu að notkun lokinni, ásamt flöskunni. Sannarlega viðurkenni ég, að sú aðgerð að drekka áfenga drykki af stút, lítur ekki vel út svona til að byrja með og ég viðurkenni að ég var nokkuð feiminn við það, en þessi tilfinning hvarf fljótt, þar sem ég skýldi flöskunni með leikskránni og lét sem ég þyrfti að geispa í hvert skipti sem ég fékk mér sopa. Þetta var bara hið besta mál og mér leið betur á eftir, ekki síst við þá tilhugsun að ég hafði engu bætt við ruslahauga heimsins.
Þá er best að snúa sér að leikverkinu, sem Hugleikur frumsýndi fyrir tuttugu árum: Sálir Jónanna ganga aftur.
Ég er enginn leikhúsfræðingur eða bókmennta og freista þess því ekki að dæma eitt eða neitt eða einn eða neinn.
Verkið fjallar um áhyggjur Satans sjálfs (Hjalta Gunnarssonar) af lélegri aðsókn í neðra. Hann nýtur dyggs, en vanþakkláts stuðnings Móra (Írisar Blandon) við að reyna að bæta úr þessu. Ekki verða tilraunir þeirra hjúanna til að veiða sálir taldar mjög árangursríkar og það gengur á ýmsu, sem ég ætla auðvitað ekki að ljóstra upp um hér. Fólk verður bara að fara á stjá og sjá með eigin augum hvernig sálir Jónanna (sem eðli máls samkvæmt) láta lífið hver með sínum afar trúverðuga hætti og eru síðan háðir því hvernig maki þeirra eða nánasti vinur freistar þess að koma þeim í hið efra með mis markvissum og vel meintum hætti, undir stöðugum tilraunum Satans og Móra til að koma í veg fyrir að svo geti orðið.
Allt fer þetta einhvernveginn að lokum.
Það veit maður, áður en maður fer á svona sýningu, að hún er ekkert að reyna að keppa við Ibsen eða Albee. Hún er ekki að þykjast vera neitt annað en hún er: hreint ágæt kvöldskemmtun.
Ég heyrði sagt fyrir aftan mig (í öftustu röðinni af þeim þrem sem setnar voru): "Mér finnst miklu skemmtilegra að fara á svona áhugamannasýningu heldur en á leikrit með atvinnuleikurum". Ég get eiginlega alveg tekið undir þessa skoðun. Maður veit að fólkið sem þarna kemur fram hefur lagt á sig feikilega mikla vinnu ofan á fullan vinnudag, vikum saman , oftar en ekki með heilu fjölskyldurnar á bak við sig, sem verða þannig óbeint þátttakendur í uppsetningunni með því að leikarinn eða ljósamaðurinn, eða búningahönuðurinn er meira eða minna að heiman á kvöldin og um helgar allan afingatímann. Þetta gera aðstandendur svona sýninga einvörðungu vegna þess að þeir fá út úr því ómælda ánægju.
Ég tala af reynslu, maðurinn sem einu sinn varð nánast leiklistarbakteríunni að bráð.
Við hin, sem ekki tökum þátt, skuldum þessu fólki viðveru okkar á eins og eina sýningu hvert og það sem meira er: við skuldum sjálfum okkur að rífa okkur upp af r.......nu og hafa gaman eina kvöldstund.
Myndirnar sem ég birti hér tók ég ófrjálsri hendi af Facebooksíðu Leikdeildar Ungmennafélags Biskupstungna.
Á þessari síðu má fylgjast með næstu sýningum.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli