Sýnir færslur með efnisorðinu fD. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu fD. Sýna allar færslur

19 nóvember, 2018

Fagnaðartilfinning

fD í fagnaðarbing
Þetta byrjaði svo sem allt eins og venja er til. Þarna sátum við í makindum og fylgdumst með seinni fréttatíma kvöldsins, þar sem endurteknar voru fréttir fyrri fréttatímans. Aldrei skyldum við komast í þá aðstöðu að vita ekki hvað væri að gerast utan landamæra Kvistholts.

Í lok fréttatímans var síðan greint frá helstu íþróttaviðburðum dagsins, en sú venja er viðhöfð, að þegar kemur að íþróttafréttum eftir fyrri fréttatímann, er skipt um rás, enda ekki talin ástæða til að horfa á sömu íþróttafréttir tvisvar.

Þar kom, að fjallað var um knattspyrnuleik sem fram fór fyrr um daginn milli Englendinga og Króata þar sem þeir fyrrnefndu höfðu borið sigur úr býtum eða farið með sigur af hólmi, borið sigurorð af þeim síðarnefndu, nú eða bara eins og nútíminn vill hafa það "höfðu sigrað leikinn" á heimavelli sínum.

Í þann mund er Englendingar fögnuðu síðara marki sínu, sigurmarkinu, heyrði ég skyndilega óvenjulegan andardrátt í sófanum við hliðina á mér og í kjölfarið kom annað óvenjulegt látbragð. Það var engu líkara en fD væri að berjast við að ná andanum. Þetta varð til þess, að ég leit í átt til hennar, og sá hana starandi á fagnaðarlæti Englendinga, þar sem Harry Kane lá neðstur í haugi samherja sinna.

"Ég myndi kafna ef ég lægi þarna", varð fD á orði þegar henni hafði tekist að ná andanum aftur.  Ekki hvarflaði að mér að draga þessa yfirlýsingu í efa en komst hinsvegar ekki hjá því að velta fyrir mér, hvernig svona haugur, þar sem fD lægi neðst eftir að hafa skorað stórkostlegt sigurmark, liti út.  Viðbrögð mín við andarteppunni voru eitthvað á þá leið, að líklegast væri það ekki ofarlega í huga þess sem þarna lá, hvort hann gæti andað.

Þessi uppákoma er enn ein staðfesting þess að í fD leynist knattspyrnuáhugamaður (-kona, - eintak) sem mikil orka fer í að leyna, alla jafna, en brýst síðan fram þegar minnst varir.

14 nóvember, 2016

Dyngjan og athvarfið

Drungavaldandi regn undanfarinna vikna hefur engan veginn náð að slá Kvisthyltinga út af laginu. Listin er að verða búin að grípa stóran hluta þessarar Laugarásfjölskyldu heljartökum, þannig að daglegt líf snýst um að kanna þau mörk sem hún setur þessum ofurprúða hópi.
Eftir að fD tók sig til og sýndi afurðir sínar á þessu sviði fyrir nokkru, hefur hún æ meir horfið inn í dyngju sína, þar sem leirfígúrur eru hannaðar, mótaðar og málaðar. Við og við kíkir hún fram að talar um að fara út að ganga eða skjótast á Selfoss til að setja vetrardekkin undir. 
Þessi hendir burt andleysinu og hnoðar sama texta fyrir innansveitarblaðið, kemur því síðan frá sér upp á drævið. Hann tekur svo óvæntar syrpur á EOS-inn, smellir og smellir og gerir síðan tilraunir með útkomuna með dularfullum tölvuforritum, sem oftar en ekki hlýða ekk því sem þeim er ætlað að gera. 

Í aðdraganda aðventu sameinast þessi tvö í því að raða nótum í möppur, vita ekkert hvenær næsta æfing er, eða með hverjum, sem vissulega skapar gundvöll til hástemmdra umræðna um tilgang þessa alls. Þau líta svo að á tvo viðburðir á tónlistarsviðinu á næstunni beri hæst og séu mikilvægastir: útgáfutónleikar í Salnum í Kópavogi þann 26. nóvember þar sem frumburðurinn fylgir glænýjum hljómdiski sínum, sem kallast 'Leiðsla', úr hlaði og síðan árlegir aðventu- eða jólatónleikar í Skálholti þann 9. desember, þar sem ofangreindur frumburður og sunnlenskur eðalsópran leiða gesti inn í jólaskapið með aðstoð okkar sem erum búin að vera að flokka nótur og ruglast á æfingum, sem eru einhverntíma, einhversstaðar með einhverjum.

Við ætlum fyrir utan þessa tvo viðburði, að vera virkir þátttakendur í tónleikum á Laugalandi í Rangárþingi ytra þann fyrsta desember og Skálholti þann 3. desember, með rangæskum ágætis kór. 

Þessi hefur haft það á orði, að það sé eins gott að hann er farinn að minnka við sig. 

Málaralist, ljósmyndlist, ritlist og sönglist veita öllum litum regnbogans inn í drunga regnvotra vikna. 


07 nóvember, 2016

Með hálfum huga

'Furðufuglar" með nýju merkingunni.
Hver er mögulegur tilgangur minn með því að auglýsa sjálfan mig?
Þykist ég hafa eitthvað fram að færa umfram aðra?
Er ég með þessu að sýna af mér samskonaar innræti og faríseinn í Biblíunni?
Þetta eru mikilvægar spurningar þegar maður spyr sjálfan sig þeirra þar sem maður stendur frammi fyrir því að ákveða hvort maður opinberar verk sín fyrir öðru fólki.

Fyrir nokkru hélt fD sýningu á myndverkum sem hún hefur unnið að undanfarin ár. Þetta gerði hún eftir mikla umhugsun og vangaveltur af því tagi sem nefndar eru hér fyrir ofan. Lét vaða og það sem meira er, henni tókst að draga mig inni í málið einnig.

Sýningin gekk glimrandi vel og nú er frúin nánast horfin inn í dyngju sína til að freista þess að vinna upp lagerinn sem tæmdist.  Tenórsöngurinn sem oftast hefur verið í bakgrunni er hljóðnaður um stund.

"Verð ég ekki að setja upp einhverja síðu?" var óhjákvæmileg spurning í kjölfar sýningarinnar. Svarið var einnig óhjákvæmilegt. Og framkvæmd verksins einnig.
Nú er hafin uppestning á galleríi í kjallaranum í Kvistholti.
Auðvitað mun það heita 'Gallerí Kvistur'
Sem fyrr þegar ég fæ spurningar, tæknilegs eðlis frá fD, kemur svar mitt: "Ég veit ekkert hvernig það er gert". Spurningin hljóðnaði samt ekki og ég fór að prófa mig áfram og komst fljótt að því, að enginn þeirra möguleika sem boðið var upp á passar við það sem um var að ræða.  Valdi þar með bara einhvern sem gat ekki verið langt frá því rétta.

Það var ekki um að ræða að mynd af fD yrði gerð að prófíl mynd síðunnar, en hún reyndist ekki í vandræðum með að finna lausn á því máli: "Getum við ekki bæði notað þessa síður og merkið sem þú bjóst til?"  og þar með var ég orðinn virkur þátttakandi í innihaldi þessarar kynningarsíðu. Þarna skyldu sem sagt vera myndverk okkar beggja, sitt á hvað undir vörumerki Kvisthyltinga, en það hannaði ég fyrir rúmum þrjátíu árum og gerði grein fyrir tilurð þess hér.  Merkið hef ég síðan notað til að merkja ljósmyndir sem ég hef dundað mér við að taka og vinna úr síðan. Nú fékk þetta merki nýtt og mikilvægt hlutverk: að fylgja öllum myndverkum fD héðan í frá.

Það þarf ekki að orðlengja það, en í morgun var síðunni https://www.facebook.com/kvisturart/ varpað út í alheiminn með ófyrirsjáanlegum afleiðingum. Ég neita því ekki að það bærðust með mér ýmsar hugsanir þar sem ég sat frammi fyrir því að hefja útgáfuna, en lausnarorðin voru, á nútímamáli, en aðeins í huganum: "Fokkitt" og þar með smellti ég á fyrsta mögulega gestinn á síðunni.

Úr því ég er blandaður í málið hlýt ég að birta hér mynd
af minni mynd. Hún ber nafnið 'Verkfallsórar' máluð í
síðasta verkfalli ævi minnar í mars 2014.
Ég hef látið þess getið að mynd þessi sé föl fyrir
ISK350000. Þetta er akrýlmynd 140x130 cm.

05 september, 2016

Skeinipappír í jurtalitum

Ég byrja á því að afsaka notkun mína á þessu óheflaða orði í titlinum, en það var valið vegna þess að það taldist kalla á meiri athygli en önnur orð yfir sama fyrirbæri. En hvað um það, reynslan af því að upplifa útisalerni túrista (væntanlega) í þjóðgarðinum á Þingvöllum í gær, gerði manneskju, mér nákomna, talsvert hugsi. Síðan gerðist það skyndilega í dag að eftirfarandi spurningu var varpað fram í engu samhengi við annað sem var í gangi:
"Er það ekki góð viðskiptahugmynd að lita klósettpappír í felulitum og skylda alla túrista sem kom til landsins til að kaupa hann?"
Í framhaldinu átti sér stað nokkur umræða um framkvæmanleika þessarar hugmyndar og auðvitað varð niðurstaðan engin, enda hugmyndin bara hugmynd á þessu stigi.

Ég birti hér mynd af salernisaðstöðu túrista, sem er innan um berjalyng á Þingvöllum. Á vinstri helmingi myndarinnar má sjá aðstöðuna eins og hún birtist okkur. Hægri hluti myndarinnar sýnir síðan sama svæði eftir að pappírinn, sem er óhjákvæmilegur þáttur í athöfn af því tagi sem þarna er um að ræða, hefur verið litaður með jurtalitum. Það er engum blöðum um það að fletta, að jurtalitaður pappír myndi falla einstaklega vel að umhverfinu.

 Það má halda áfram að velta þessari hugmynd fyrir sér og hún verður ekkert nema betri, Grundvöllur hennar er auðvitað fyrst og fremst sá, að stór hópur þeirra ferðamanna sem hingað koma, telja þetta vera land sem er mikið til ósnortið af siðmenningunni, eins og þeir þekkja hana. Þeir telja að hér séu þeir frjálsir til að hleypa lausu dýrinu í sér, frummanninum sjálfum.   Þetta þurfa Íslendingar með snefil af viðskiptaviti auðvitað að nýta sér og hér hafa verið lögð fram frumdrög að lausn á þeirri sjónmemengun sem skjannahvítur (ja, smá  brúnn líka eftir notkun) pappírinn hefur óhjákvæmilega í för með sér.
Það má sjá fyrir sér atvinnu við að tína jurtir og vinna úr þeim lit sem síðan myndi nýtast við litun á þessum pappír; örugglega miklu umhverfisvænni aðferð en bleiking. Úrgangsefnin sem útiskitufólkið skilur eftir skolast bara ofan í jarðveginn í næstu rigningu og af honum spretta grösin græn og blómin blíð.  
Ekkert nema pottþétt plan.

02 september, 2016

Úrið

Þó frá og með nýliðnum mánaðamótum beri ég hinn virðulega titil  "ráðgjafi" þýðir það ekki að ég sé fær um að gefa ráð varðandi hvað sem er. Ráð mín varðandi nýja námskrá fyrir framhaldsskóla geta orðið óteljandi og viturleg að stærstum hluta, en þau munu sennilega ekki alltaf falla í kramið, þar sem þau litast óhjákvæmilega á skoðun minni á því fyrirbæri.
Ég hef skoðun á flestu og um margt get ég veitt fólki ráð kjósi ég svo. Þó eru til þau svið þar sem ráð mín, ef ég á annað borð er tilbúinn að gefa þau, munu verða gagnslaus og byggð á mikilli vanþekkingu og áhugaleysi. Þetta á t.d. við um nýja úrið sem fD fékk að gjöf frá afkomendum í tilefni stórafmælis fyrir nokkru.
"Hvernig virkar þetta?"
"Afhverju kemur þetta?
"Hvað á ég að gera núna?"
"Hvernig losna ég við þetta "auto"?"
"Hvað gerist svo þegar ég kem heim?"
"Á svo bara að smella hér?"
"Hvernig stillir maður þetta?"
Þessar spurningar eiga það sameiginlegt, að við þeim hef ég ekki haft nein svör og get þar af leiðandi ekki gefið nein ráð, utan hið eina sem ég gef ávallt þegar þær spretta fram: "Þú verður bara að spyrja..." svo nefni ég tiltekinn höfuðborgarbúa, sem er nær því að tilheyra græjukynslóð en við.
Að öðru leyti hljóma svör mín t.d. svona:
"ÉG veit það ekki."
"Ég hef ekki hugmynd um það."
"Hvernig á ég að vita það?"
"Þú bara syncar það við símann."
"Hef ekki grun um það."

Það er alveg sama þótt ráð mín varðandi úrið séu algerlega gagnslaus, spurningarnar spretta fram, þó vissulega fari þeim fækkandi og nú er orðið hægt að merkja meiri sjálbærni í samskiptum fD og úrsins.

Til nánari útskýringar á úrinu má geta þess, að um er að ræða svolkallað GPS-úr sem maður getur látið mæla nánast alla hreyfingar sem eiga sér stað í líkamanum, með mikilli nákvæmni, jafnt í vöku og svefni. Síðan er hægt að láta það senda upplýsingar í viðeigandi APP í símanum, þar sem síðan er hægt að njósna um líkamsstafsemi sína niður í smæstu einingar.  Svona græja hentar ekki síst fólki sem stundar líkamsrækt af einhverju tagi, til að mæla vegalengdir, skrefafjölda, hjartslátt og kalóríubrennslu, svo eitthvað sé nefnt.
Nú skellir fD úrinu á sig fyrir hverja gönguferð og tekst á endanum að láta það synca við símann að gönguferð lokinni. Fagnar glæstum kalóríubruna og spyr síðan hvernig hægt er að skoða þetta eða hitt, annað.
Það nýjasta snýst um þetta "AUTO", en þannig er á í gönguferðir fer hún með bæði úrið á úlnliðnum og símann í vasanum, hvorttveggja stillt il að mæla vegalengdir og kalóríubrennslu. Þegar hver ganga stendur síðan sem hæst byrjar úrið að láta ófriðlega á úlnliðnum, sýnir "auto" á skjánum og í sama mund hefst tónlistarflutningur í símanum. Það fór nánast heil ganga hjá henni fyrir nokkru í að finna út úr hvernig ætti á fá þessa "ömurlegu" tónlist til að hætta.  Það tókst hjá henni að lokum, en eftir stóð spurningin um tilganginn með látunum í úrinu og tónlistinni í símanum. Þessa spurningu fékk ég, ráðgjafinn. Þar sem ég, eðlilega, hef ekki hugmynd um þetta, svaraði svaraðí ég í þá veru.
"Ég fer þá með símann með mér í bæinn í dag."

Ég set spurningamerki við þetta úr, ekki síst þar sem talsvert oft hittist svo á, að ég slæst í för á gönguferðunum um Þorpið í skóginum og nágrenni. Það er nefnilega þannig, að með tilkomu úrsins hefur sprottið fram ófyrirsjáanleg samkeppni fD við sjálfa sig, með þeim afleiðingum að göngurnar verða æ lengri. Með sama áframhaldi verður spurning um hvort hún nær háttum (kvöldfréttum, á nútímamáli).


14 ágúst, 2016

Ég hef varann á mér

Dröfn Þorvaldsdóttir: Drög að leirtauslínu
Það fer ekki mikið fyrir henni í dyngjunni, svona alla jafna. Endrum og eins berast tenóraríur úr hljómtækjunum þarna inni, sem merki um að litir snerta flöt í erg og gríð.
Innan dyra í dyngjunni safnast fyrir myndverk af ýmsu tagi: hefðbundin akrýlverk á striga, hrosshársstungin akrýlverk, leirfígúrur og lampaskermar. Það er oftast þegar lítið er orðið um striga að hún leitar á önnur mið og úrval þeirra flata sem verða fyrir valinu eykst stöðugt. Nú síðast er það leirtau, eins og það sem sjá má á meðfylgjandi mynd. Harla fínt, auðvitað.

Ég dunda mér í minni skonsu, eins og gengur, alveg með það á hreinu, að ef hún finnur ekki hefðbundinn flöt til að mála á, þá fái hún ekki að mála á mig.

28 júní, 2016

Sumarið kemur í haust - vonandi

"Svo ólík, en samt eins" - Dröfn Þorvaldsdóttir (2016)
Það skall á vetur í október 2008. Hann hefur staðið síðan. Vetur í íslensku þjóðlífi. Því er ekki að neita, að það hefur komið hláka við og við og þá aðallega vegna utanaðkomandi áhrifa. Það hafa einnig komið slæmir frostakaflar, sérstaklega vorið 2013. Þá lá við alkuli, en síðan minnkaði frostið aðeins næstu árin vegna flugvélafarma frá suðlægari slóðum og ekki síst í mars 2016, þegar öflug lægð með uppruna lengst suður í Atlantshafi út af ströndum Suður-Ameríku, reið yfir þjóðina. Það hlýnaði verulega og sólin yljaði rækilega í kjölfarið. 
Því er hinsvegar ekki að neita að sumum hlýnaði meira en öðrum. Það má segja að vorkomunni væri misskipt á landslýð.

Það má halda því fram, að þann 25. júní og dagana þar í kring, hafi orðið þáttaskil þegar þjóðin kvaddi veturinn endanlega.  Þann 27. reið sannkölluð hitabylgja yfir þjóðina; hitabylgja sem allir fengu að njóta. Ekki gera spár ráð fyrir öðru en veður haldist með ágætum í einhverja mánuði. Helst er gert ráð fyrir að það geti brugðið til beggja vona í október. Þá verða enn veðraskil, ef að líkum lætur. Vonir standa þó til að þá muni sumarið loksins festa sig í sessi og ein þjóð í landinu geti gengið saman um ókomna tíð, með sól á himni, blóm í haga, ást í hjarta; sameinuð til móts við nýjar áskoranir á öllum sviðum. 
-------------------
Skelfing er það undarlegt hvað forsetakjörið síðastliðinn laugardag og ítrekuð stórafrek knattspyrnulandsliðsins geta nú lyft manni í hæðir.  Jú, ég gaf frá mér hljóð nokkrum sinnum í gærkvöld þegar hápunktarnir áttu sér stað. Það varð ítrekað rof milli mín og sófans. 
fD hrópaði ekki.
Jú það væri gaman að skjótast til Parísar, en ætli mig skorti ekki nennu til.  
Lélegt. 

31 janúar, 2016

Ylur minninga á þorra

Hvað er betra þegar maður er búinn að leyfa hrímköldum þorra að leika um lungun, búinn að njóta þess, með frostbitið nefið, að skella sér í kraftgöngu um Laugarási í þrítugum kraftgallanum, en að ylja sér við minningar í myndasafninu, sem vex með hverju ári.
Í samræmi við ofangreint rakst ég á stutt myndskeið frá 2010.
Við fD skelltum okkur til Þýskalands til að fara á útitónleika þar sem tenórinn okkar tróð upp ásamt ítölsku sóprandívunni Luciu Aliberti. Upplifun okkar þarna gerði ég auðvitað skil hérhér og hér.
Þarna varð minna úr upptökum en til stóð þar sem allt slíkt var harðbannað og ég auðvitað, sem ávallt, fór að þeim, reglum sem giltu, að langmestu leyti.  Þó lét ég mig hafa það að taka skot og skot.
Hér er stutt myndskeið þar sem tenórinn er að flytja O, sole mio á umræddum útitónleikum. Það má glöggt sjá á þessu myndskeiði hver áhrif flutningurinn hafði á föðurinn, sem auðvitað gleymdi alveg að fylgjast með hvort myndefnið væri í rammanum.




05 október, 2015

Af ljósinu á pallinum

Nú er liðinn sá tími að sólarljósið dugi til að lýsa upp sólpallinn. Í staðinn er nú notast við rafljós til að varpa birtu yfir svæðið.
Fyrir nokkru gerðist þetta:

"Það þarf að kaupa nýja peru í ljósið"

Við athugun varð mér ljóst að þetta var rétt. Langlíf peran sem gegnt hafði hlutverki sínu vel og lengi, gerði það ei meir.

"Er ekki til ný pera inni í búri? Við keyptum einhvern slatta til að hafa til vara".

Það leið ekki á löngu áður en pera sem reyndist vera til, var komin að dyrunum út á pallinn og þar með var kominn þrýstingur sem ekki var hægt að misskilja, á að það þyrfti að skipta um peru.  Ástæðuna fyrir þessum áhuga á peruskiptum má rekja til tiltekins viðhorfs fD til tiltekinnar smávaxinnar nagdýrategundar.
Sem oft áður þá hljóp ég ekki til og það var ekki fyrr en ég heyrði hurðinni út á pall lokað hratt nú rétt fyrir helgina og með fylgdu athugasemdir um að sést hefði til músar á pallinum.  Með þessari þróun mála óx þrýstingur á aðgerðir meira en svo að ég stæðist. og því var það að um helgina skipti ég um peru, setti nýja langlífis orkusparandi peru í ljósastæðið, með tilheyrandi átökum og veseni.

Og það varð ljós á ný.

Það næsta sem gerðist var þetta:
"Ferlega er óþægilegt þetta blikk á ljósinu."

Blikk, já. Hvað skyldi nú vera til í því? Ég athugaði málið og viti menn, ljósið blikkar lítillega. Ég hugsaði hratt, hafandi í huga að líkur hefðu vaxið á að aftur þyrfti að skipta um peru.
"Já, já. Þetta er sérstök tegund að perum sem blikka örlítið, en það dugir til að fæla burt mýs".

"Fæla burt mýs?"

"Já, það er vel þekkt, að þegar mýs lenda í svona ljósi fá þær oftar en ekki flogakast".

Við þessu öfluga svari gerðist ekki annað en fD ákvað að snúa sér að öðru og ég keypti mér smá frest.

Já, svona' er það við sjóinn víða,
sama gerist upp til hlíða,
sveinn og meyja saman skríða,
segjast elskast jafnt og þétt,
hvað er auðvitað alveg rétt.
Í hjónabandi að lifa og líða 
uns lausakaupamet er sett.

16 september, 2015

Tenór á ný

Ítalía 2007: Með Bubbu (Rannveigu Pálsdóttur) og
Kristni (Kristmundssyni) á Caprí.
Ég vildi gjarnan geta sagt að ástæða þess að ég ákvað að endurnýja samband mitt við Skálholtskórinn eftir nokkurra ára hlé, væri sú að ég teldi ótækt lengur að í kórinn vantaði sárlega þann fagra tenórhljóm sem lifnar í raddböndum mínum.
Ég get svo sem alveg sagt það og ég get vissulega trúað því, svona eins og sannir tenórar eiga að gera, en ég kýs að gera það ekki á þessum vettvangi. Það getur vel verið að ég velti mér upp úr aðdáun minni á silfurtærri fegurð raddar minnar í einrúmi heima og hver veit svo sem nema ég deili aðdáun minni á þeirri guðsgjöf sem ég bý yfir með fD? En það verður ósagt hér, enda lítillæti mitt of mikið til að fjölyrða um þessi mál.

Ef til vill er ástæðan fyrir skyndilegri endurkomu minni eitthvað tengd hækkandi aldri. Það kann að vera að mér hafi fundist að það væri nú farið að styttast í þeim tíma sem mér er gefinn á þessari jörð sem tenór og því siðferðisleg skylda mína að leyfa öðrum kórfélögum og tónleikagestum að njóta meðan notið verður. Það gæti mögulega verið að mér hafi fundist að þau gersemi sem raddbönd mín eru, yrðu að fá að njóta sín í eðlilegri tónhæð, annars væri það bara bassinn.
Mér líður seint úr minn þegar ónefndur (nú þarf ég að passa mig), eigum við að segja, aðili, sagði við ónefndan tenór, að rödd hans væri farin að dýpka eða dökkna og líklega réttast að hann færði sig í bassann. Eins og nærri má geta féllu þau orð í grýttan jarðveg og höfðu áralangar afleiðingar.  Ég skil viðbrögð tenórsins vel.

Berlín 2008: Einbeittir tenórar takast á við
Gunnar Þórðarson og Arvo Part
Það kann að vera, eftir allt sem á undan er gengið í aðkomu minni að kórmálum í fleiri áratugi en ég kæri mig um að fjalla um, reynist mér erfitt að slíta tengslin við það undursamlega samfélag sem kór er, ekki síst ef það reynir dálítið á, maður sér árangur og nýtur uppskerunnar þegar vel gengur. Á þessum vettvangi hef ég nokkuð oft fjallað um kórmál og ekki alltaf leiftrandi af jákvæðni, enda í þeim tilvikum, ástæða til, að mínu mati. Það breytir því ekki, að þegar kór er samstiga í því að gera vel, þá er gaman að þessu.

Ég hef upplifað margt á kórævi minni og þar standa upp úr ótrúlega skemmtilegar ferðir á erlenda grund.  Líklega voru þær alltaf  gulrótin sem hélt öllu saman - sameiginlegt markmið sem glæddi áhuga umfram þann sem verður til af söngnum einum saman.

Berlín 2008: Á tónleikastað.

Ég kom á fyrstu kóræfingu í gærkvöld. Við fD mættum reyndar bæði og hún hyggst takast á við allra hæstu sóprantóna að fítonskrafti.
Í tenórstólana voru mættir tveir tenórar á besta aldri. Meðalaldur tenóra við upphaf þessa söngárs er 64,6 ár. Þar eru menn vel hærðir með grásprengt upp í hvítt hár.  Það var rætt um að mögulega bætist einn tenór í hópinn, sem lílega verður til þess að meðalaldurinn nær 65+. Allt hið besta mál og allar kenningar um að með aldrinum lækki rödd tenóra þannig að þeir verði að leita í bassann, eru húmbúkk eitt. Þarna virtist einmitt hið gagnstæða vera raunin og vel gæti verið að kliðmjúkur altinn fái frekar notið fyrrum tenóra þegar tímar líða.

Megi þetta allt fara vel.

26 apríl, 2015

Tveggja kerru barnahús (síðari hluti)

Hér er um að ræða framhald þessa.
Viðskiptavinum verslunarinnar fór fjölgandi og það var brýnt að losa bílastæðin sem allra fyrst. Það eitt var ljóst í mínum huga, að þarna gæti ég ekki bara aftengt kerruna og ekið á braut. Aðrir möguleikar í stöðunni voru:
     - að fara aftur í verslunina þar sem ég hafði keypt húsið og fá að geyma það þar, þar til lausn fyndist. Sú lausn myndi ekki koma húsinu uppeftir fyrr en eftir dúk og disk (í lok máltíðar, sem sagt), fyrir utan auðvitað þá staðreynd að verslunin tilheyrði vandalausum og þar myndi líklega ekki ríkja mikill skilningur á stöðunni.
     - að finna autt svæði í höfustaðnum þar sem ég gæti lagt kerrunni þar til framhaldið fyndist, sem var augljóslega ekki vænlegur kostur þar sem um væri að ræða óþarflega mikla freistingu fyrir óvandaða.
     - að taka áhættuna af því að renna uppeftir í þeirri von að hjólið héngi á. Þessi hugmynd var afleit og kallaði fram ótal grafalvarlegar* sviðsmyndir*.
     - að fá að geyma kerruna á Birkivöllum þar til annað yrði ákveðið, var hugmynd sem fljótt kom upp í hugann. Birkivellir voru skammt frá áðurnefndu bílastæði og því lítil áhætta tekin með því að draga kerruna þangað. Og ég hringdi í Birkivelli, en þar býr fólk sem hefur áður komið við sögu í þessum pistlum, til dæmis hér og hafa reynst haukar í horni, enda nátengdir okkur Kvisthyltingum.
Það svaraði ekki á Birkivöllum.
Það verð ég að segja, að fD hafði farið mjúkum munni um stöðuna og á þeim bænum var ekki um að ræða neinar meiningar um að hið skakka hjól væri mögulega skakkt vegna einhvers sem ég hefði getað gert betur eða með öðrum hætti. Hún tók hinsvegar fullan þátt í að leita lausna og þar sem enginn svaraði:
"Þau eru auðvitað í vinnunni. Hringdu í 482 XXXX".
"Hvernig getur þú munað símanúmerið þar?"
"Nú, ég þarf ekki svo sjaldan að hringja þangað".
"Hvert er númerið aftur?" (ég man aldrei svona símanúmer)
"482XXXX!!" (auðvitað fer ég ekkert að auglýsa umrætt númer hér, enda er það ekki hluti frásagnarinnar út af fyrir sig, þó svo það sé vissulega hluti af lausninni á kerrumálinu).
Ég hringdi og fS svarði:
"T....stofan, fS"
Ég kynnti mig og gerði grein fyrir stöðu mála og lagði fram ósk um að fá að leggja kerrunni á Birkivöllum þar til lausn fyndist.
"Við eigum kerru, geturðu bara ekki notað hana? Ég veit ekki til að við þurfum að nota hana um helgina."
Í sem skemmstu mál dró ský frá sólu og það kviknaði von um að málið gæti fengið farsælan endi. Þetta var auðvitað sólríkur dagur með norðaustan garra, hæð yfir Grænlandi, hita við frostmark og allt það. Það voru, að sjálfsögðu,  óveðursskýin sem fylltu hugann sem gufuðu upp við svo afdráttarlaust tilboð um kerrulán, en ég hafði ekki haft vitneskju um að á Birkivöllum væri yfirleitt til kerra.
Nú virtist ekkert í veginum, utan áhættuakstur frá áðurnefndu bílastæði inn á Birkivelli. Leiðin var ekin í 1. gír og í hliðarspegli gat ég fylgst með hjólinu, sem var augljóslega ekki í því formi sem maður vill að kerruhjól séu. Á Birkivelli komumst við og viti menn: við húsið stóð forláta kerra, jafnvel stærri og veigameiri en sú sem ég bakkaði þarna inn á bílastæðið.

Það sem fylgdi fól ekki sér sér nein álitamál eða vandamál. Við fD fjarlægðum umbúðirnar af væntanlegu barnahúsi og fluttum síðan  innihaldið yfir í Birkivallakerruna, sem við tengdum síðan við Qashqai og ókum heimleiðis.

"Aumingja maðurinn!", varð mér á orði þar sem við sáum framundan, fljótlega eftir að við vorum komin austur fyrir höfuðstaðinn, spýtnabrak í vegkantinum og kerru á hvolfi fyrir aftan jeppling. Annað hjólið var horfið út í móa. Þar stóð umkomulaus maður og virti fyrir sér eyðilegginguna um leið og hann var að hringja eftir hjálp af einhverju tagi. Var þetta kannski afi sem hafði verið að kaupa barnahús? Það var ekki laust við að hrollur færi um mig við þá sviðsmynd* sem þarna var uppi og lýsti því svo vel hvernig staða mín hefði getað verið.

Segir síðan ekki af ferð okkar fyrr en í Kvistholt var komi. Barnahúsefnið borið upp fyrir hús og komi fyrir á pallinum eina, þar sem það bíður dásemda sumarsins þegar þeg tek mig til að fera að setja að saman.  Hvort mér tekst það nokkurntíma verður tíminn að leiða í ljós, en við snögga skoðun á leiðbeiningunum sem fylgja timbrinu, sýnist mér að til þess að haugurinn verði einhverntíma að húsi þurfi ég að hugsa lengi. Finna staðsetningu, ákveða hvernig grundvöllurinn verður lagður, og reyna síðan að raða saman efninu svo úr verði hús.  Það eru spennandi tímar framundan.

Tvennt hef ég lært eða kannski frekar fengið staðfestingu á eftir þetta:
1. Þegar maður á kerru notar maður hana ekki. Þegar maður á ekki kerru þarf maður oft á kerru að halda.
2. Það fylgja því átök að vera afi og mikil ábyrgð.
----------------------------------

* orðin sviðsmynd og grafalvarlegur eru ekki notuð hér nema vegna þess að þau eru dæmi um tískuorð eða tískuhugtök sem hafa verið áberandi í íslenskri umræðu, það fyrrnefnda í kringum eldgos í Holuhrauni og hið síðarnefnda í tengslum við átök á vinnumarkaði þessar vikurnar.  Bæði þessi orð finnst mér dæmi um þá þá eftiröpun sem á sér stað sem hluti af umræðuaðferð landans. Afleiðingar eftiröpunarinnar verða síðan útþynning og merkingarleysi.  Tvö dæmi önnur sem koma upp í hugann í fljótu bragði eru ómöguleiki og heimilin í landinu.

25 apríl, 2015

Tveggja kerru barnahús (fyrri hluti)

Ég átti einusinni kerru. Hún var reyndar ekki til stórræða og reyndist ekki mikið notuð þegar til kom. Þá átti ég Land Rover Discovery og það var ekki hægt að segja að ég liti mjög vel út þar sem ég dró þessa kerru aftan í honum. Hún einhvernveginn lafði í honum þannig að aftasti hluti hennar nam nánast við jörðu. Svo eignaðist ég bíl sem var ekki með dráttarkúlu og kerran stóð bara algerlega ónotuð. Svo gerðist það dag einn um vetur að ég fékk snjóruðningstæki til að létta á heimreiðinni og hlaðinu, að kerran lenti fyrir tönninni og kengbeyglaðist og skekktist. Þar með lauk sögu hennar, utan þess  að nágranni sem hefur áhuga á að gera við dót, falaðist eftir henni þar sem hún stóð skökk og skæld úti í kanti einhverjum árum seinna.

Síðan hef ég ekki átt kerru.

Ég ég á núna bíl með dráttarkúlu.

Nágrannar mínir eiga ágætis kerru.

Ég, og reyndar fD einnig, eigum barnabörn og skógi vaxið og skjólgott land, með alla möguleika á að geta orðið prýðis leiksvæði fyrir ungt fólk.
Sem afi hef ég tilteknar skyldur, sem felast líklega einna helst í því að skapa jákvæða ímynd Kvistholts  í hugum unganna. Jákvæð ímynd verður til vegna þess að eitthvað er skemmtilegt eða áhugavert.

Jæja, hvað um það, það kom bæklingur í póstkassann. Þar var að finna mynd af barnahúsi. Ákvörðun var tekin. Húsið pantað. Nokkru síðar kom tilkynning um að húsið væri komið í verslun í höfuðstað Suðurlands. Það þurfti að ákveða hvernig það yrði sótt.
Það var hringt í nágranna sem á kerru.
Kerrulán reyndist auðsótt mál.
Upp rann dagurinn sem húsið yrði sótt.
Ég fór á Qashqai til að ná í kerruna, í íslensku vorveðri. Það hafði verið frost um nóttina og hitinn var rétt að skríða yfir frostmarkið.
Það var þarna sem hið raunverulega tilefni þessara skrifa gerði vart við sig.
Það reyndist fremur þungt að draga kerruna að dráttarkúlunni. Það var eins og annað kerruhjólið væri stíft. Öll fór þó tengingin eins og til stóð, beislið small á kúluna að rafmagn í sting og þar með ók ég af stað í Kvistholt til að nálgast fD, áður en lagt yrði í hann. Það heyrðist eitthvert undalegt hljóð frá kerrunni, en ég skrifaði það á frostið, og mögulega að eigandanum hefði lásðst að smyrja legur, eða eitthvað slíkt. Skömmu eftir að lagt var af stað hætti þetta hljóð að heyrast og ferðin niðrúr gekk svo sem til stóð.
Í versluninni var gengið frá kaupunum og eftir allanga bið, sem hentar mér afar vel, svo þolinmóður sem ég er, tók afgreiðslumaður á lagernum við afgreiðsluseðli mínum og hóf síðan leitina að húsinu, fann það, innpakkað á palli og náði í framhaldi af því í stórna lyftara, sem hann síðan notaði til að lyfta húsinu (þegar ég segi húsinu á ég auðvitað við niðursniðnu timbrinu sem fer í húsið, þegar og ef mér tekst einhverntíma að setja það saman) upp á kerruna, sem reyndist ekki alveg nógu stór til að húsið kæmist ofan í hana. Úr varð að afgreiðslumaðurinn fann tvær spýtur sem hann lagði þvert á kerruna og tyllti síðan húsinu ofan á. Húsið var ekki fest með öðrum hætti og fD hafði á því orð að það væri miður viturlegt að keyra með þetta svona í Kvistholt. Það taldi hún ekki verða ferð sem endaði vel (ég nota hér ekki beinlínis þau orð sem fD notaði, en þeir sem til þekkja verða bara að gera sér í hugarlund hver þau voru).
Allt klárt og ekið af stað í síðustu búðina áður en haldið yrði uppeftir.
Ég steig út úr Qashqai við búðina og þá fannst mér ég taka eftir að annað kerruhjólið hallaði lítillega inn á við að ofan (eða út að neðan). Þetta skrifaði ég í fyrstu á fjaðrabúnað kerrunnar og sinnti þar með erindum mínum í áðurnefndri verslun. Þegar ég kom síðan að kerrunni aftur sá ég að hitt kerruhjólið var fullkomlega eins og maður býst við að kerruhjól séu. Þegar ég bar hjólin tvö saman sá ég greinilegan mun á hjólunum.  Sannarlega langaði mig ekki til þess (see no evil....) en ég ákvað samt að leggjast á hnén til að athuga hvort eitthvað væri að sjá við hjólið innanvert.  Þar sem mér hafði tekist að koma mér á hnén og kíkja undir kerruna sá ég það sem ég vildi síst af öllu sjá: skekktan hring þar sem öxullinn gekk inn í hjólið og mér varð ljóst á þeirri stundu að þessi kerra myndi ekki flytja húsið í Kvistholt. Mér var jafn ljóst að ég gæti ekki skilið hana eftir með húsinu á, á þeim 4 bílastæðum sem ég hafði lagt í.
Þær aðstæður sem þarna voru uppi buðu upp á grafalvarlega (tískuorð í íslensku þessar vikurnar) sviðsmynd (tískuorð í íslensku frá tímum gossins í Holuhrauni).

Frá framhaldinu verður greint í síðari hluta.

08 febrúar, 2015

Betra seint


Ég hef ekki haft mörg orð um dugnað minn til verklegra framkvæmda, en nú get ég ekki orða bundist. Ég er búinn að koma sjálfum mér ítrekað á óvart undanfarnar vikur, svo oft reyndar, að dugnaður minn er hættur að koma á óvart.  Það hefur komið í ljós að verklegar framkvæmdir henta mér að mörgu leyti mjög vel. Mig hefur reyndar alltaf grunað að í mér leyndist dugnaðarforkur, en ég hef passað mjög vel að gefa honum ekki lausan tauminn. Undanfarnar vikur hef ég létt af honum öllum hömlum og það er ekki að sökum að spyrja. Það stefnir í að það verði til íbúð í kjallaranum ef áfram heldur sem horfir. Hver veit nema innan skamms verð fD komin á kaf í ferðaþjónustu með útleigu á 50 fermetra túristaíbúð. Ég veit um að minnsta kosti tvær slíkar nú þegar í Laugarási.


Hvað um það. Kjallarinn í Kvistholti hefur verið nánast óhreyfður í 30 ár, svo það var í raun tími til kominn að huga að framtíðarnýtingu hans. Svo varð ákveðin opnun, með látlausum flutningi  vinnustofu fD upp á efri hæðina, sem áður hefur verið fjallað um hér og hér. Með þeirri aðgerð varð bara ekki aftur snúið, og undanfarnar helgar hafa verið undirlagðar. Nú er komið öndvegis gólfefni á tvö herbergi og innan skamms verða komnar hurðir fyrir öll dyraop.  Svo hefur verið ýjað að því að taka snyrtinguna í gegn og þá er ekkert eftir nema eldhúsið.
Kva, það verður nú lítið mál fyrir Pál, sem nú þegar hefur komið sjálfum sér á óvart með parketlagningu sem hefði verið hverjum húsasmíðameistara til sóma. Enn augljósari varð snilldin þegar hurðakarmar voru settir í. Eitt baðherbergi og eldhús verða sennilega tertusneið í ljósi þess sem lokið er. Reyndar á eftir að setja hurðirnar í rammana og enn liggur ekki fyrir hvort þær passa, en til þess standa þó vonir.

13 janúar, 2015

Hikstandi nútímalíf

"Þarf þessi snúra að liggja þarna með loftinu og svo niður á gólf?"
Það getur hver og einn giskað hver átti þessa spurningu (sjá hér). Umrædd snúra var í, nýfyrrverandi vinnuaðstöðu fD í kjallaranum. Ég hafði við upphaf internetstenginga fengið símamann til að koma hér og sjá til þess að ég hefði slíkt samband í þá verðandi vinnuaðstöðu minni sem er nú nýfyrrverandi vinnuaðstaða fD.  Vð síðustu hrókeringar innanhúss, sem áður hefur verið greint frá, var þessi snúra allt í einu orðin óþörf, enda wi-fi um allt hús.

"Nei, það er engin þörf fyrir hana lengur", svaraði og sagði svo ekki fleira um það mál, heldur hófst, innan ekki of langs tíma (ég er farinn að átta mig á í stórum dráttum hvenær tími er orðinn of langur) handa við að taka snúruna niður. Það gekk ágætlega að losa hana frá veggnum og þar kom, að ég stóð með dósins fyrir tölvutenginguna í höndunum, opnaði hana og sá fjóra fíngerða víra sem lágu inn í dósina og voru þar festir með einhverjum hætti tveir og tveir. Til þess að ná snúrunni var ekki um annað að ræða en losa hana af vírunum, sem ég gerði, átakalaust með naglbítnum á heimilinu. Nú var snúran laus, utan sá endinn sem hvarf inn í vegg þar sem síma og rafmagnslagnir liggja inn í húsið. Á einu augabragði beitt ég naglbítnum aftur og gat þar með gangið frá snúrunni. Sá endinn sem gekk inn í vegginn hvarf snyrtilega inn í holu sína.
Að þessu þarfaverki loknu hélt ég aftur á efri hæðina og lét fD eftir að halda áfram að bardúsa í nýfyrrverandi vinnuaðstöðu sinni. Þar stendur mikið til, svo ekki sé meira sagt.

Þar sem ég var kominn upp lá leið mín í nýuppgerða dyngju mína til að senda pósta og vinna í vinkonu minni henni Innu. Sú vinna helgast af því, að í dag stundaði heimavinnu, eða fjarvinnu þar sem ekki þótti mögulegt að stunda staðvinnu. Á bak við þessa yfirlýsingu er löng og flókin saga sem ekki verður rakin hér.
"Not connected to the internet" var það fyrsta sem blasti við mér þar sem ég freistaði þess að senda póst, sem ég hafði lokið við að skrifa, þegar aðgerðin sem lýst er hér fyrir ofan hófst. Ég reyndi aftur, og aftur og enn aftur, en það breytti engu. Ég endurræsti allt saman, eins og manni er stundum sagt að gera þegar tölvudót virkar ekki. Ég fór meira að segja inn í "advanced settings" til að leita upp mögulega bilun. Gerði reyndar ekkert þar, þar sem það gæti orðið til þess að ég framkvæmdi eitthvað óafturkræft.
Nú lá fyrir að gera frekari rannsóknir á ástæðum þess að samband náðist ekki við netið eina. Það fólst í að fara í fartölvu á svæðinu og athuga hvort þannig gengi betur. Það reyndist ekki vera.
Ég endurræsti beininn (routerinn) án árangurs. Ég prófaði að hringja í heimasímann, sem einnig var árangurslaust.
Þarna kom það mér í fyrsta skipti í hug að sambandsleysið gæti tengst með einhverjum hætti snúrunni í nýfyrrverandi vinnuaðstöðu fD.
Það fór um mig hrollur og ég fann fyrir ýmisskonar ónotum, aðallega taugatengdum.
"Var ég búinn að klippa í sundur samband heimilisins við umheiminn? Ef svo væri, hvernig átti ég að fara að því að koma því í lag? Væri þá búið með að ég gæti hunsað leikjabeiðnir á Fb í allan dag? Myndi ég ekki geta fylgst með hvað vinir mínir eiga falleg börn? Myndi umræðan um ófarna Parísarför alveg fara framhjá mér? Gæti ég ekki einusinni horft á fréttirnar í sjónvarpinu í kvöld? Hvernig færi þessi dagur eiginlega?"

Með allar spurningnarar í höfðinu fór ég niður í kjallara þar sem fD stóð í stórræðum við að undirbúa nýfyrrverandi aðstöðuna sína fyrir allskyns fínheit, sem verða umfangsmeiri eftir því sem hún dvelur lengur þarna niðri.

Þarna lá fyrir að skrúfa niður plötu, á bakvið hverja er rafmagnsinntakið og símainntakið, en um það snérist málið.  Af ótrúlegri yfirvegun og ævintýralegu innsæi, með flækju af allskyns vírum í höndunum, tókst mér að lifa mig inn í hlutverk símamannsins, rekja vírana sem komu að utan, saman og vírana sem komu að innan einnig. Eftir nokkrar tilraunir tókst mér að festa endana í dósina sem hafði hýst fyrrum tölvutenginu í fyrrverandi aðstöðu minni og nýfyrrverandi aðstöðu fD. Einhver sem býr hér í nágrenni við mig myndi kalla þetta "skítamix" en ég er ekki frá því að allar tengngar um þessar lagnir séu miklu hraðari eftir en áður.
Tölvan tilkynnti eftirfarandi:"CONNECTED TO THE INTERNET", póstarnir voru afgreiddir og Innumálin, fyrstu barnamyndirnar voru skoðaðar, nokkrir leikir hunsaðir og nýjustu tilvitnanir vegna ófarinnar Parísarfarar lesnar. Svo eru það fréttirnar í kvöld.

Mér kom það oft í hug í dag að nútímamaðurinn er kominn út á ansi hálar brautir. Var lífið ekki talsvert miklu öruggara þegar maður sneri tvær stuttar og ein löng, þegar dagblaðið kom í bunkum einusinni eða tvisvar í viku, þegar það var greiða uppi á þaki til að ná útsendingu sjónvarps?
Það eru tveir örmjóir vírar sem tengja þetta heimili við allt annað en beinlínis viðveru í eigin persónu. Mér finnst að það þurfi að vera til varaleið, en ætli það breyti miklu? 

11 janúar, 2015

Dyngjupúl

Tannstönglavasi
Ég áttaði mig ekki strax á því hvað fD fara að fara þegar hún, upp úr þurru, á laugardagsmorgni, hóf umræðu um að flytja svefnsófann úr dyngju minni niður í kjallara. Þar hlaut að búa annað undir en beinlínis það hún teldi of þröngt hjá mér og þar með skert vinnuumhverfi og síðri aðstaða til að sitja og blogga eða stunda aðra tómstundaiðju.
Það bjó sannarlega annað undir.
Upphafleg hugmynd hennar snérist um það, að í stað sófans, sem færi niður, myndi hún flytjast úr vinnustofunni sinni í kjallaranum og setjast að í minni dyngju og myndi þar með gera hana að sinni.
Ég neita því ekki, að þessari hugmynd tók ég fremur fálega, eins og reyndar hugmyndinni um að flytja sófann yfirleitt. Ég er nefnilega ekki mikið fyrir það að vera sífellt að breyta umhverfi mínu; finnst það virka bara ágætlega. Þar fyrir utan kalla breytingar yfirleitt á aðkomu mína með einhverju tilteknu vinnuframlagi á sviðum sem ég vil sem minnst koma nálægt, einfaldlega vegna þess að það felur í sér erfiðleikastig sem mér hugnast ekki eða er, að mínum mati afar óskemmtilegt og tilgangslaust.

Ég vissi hinsvegar strax og umræðan hófst, hverjar lyktirnar yrðu. Ég hafði þó mitt fram að því leyti, að fD myndi ekki leggja mína aðstöðu undir sig, heldur tæki hún yfir annað herbergi á efri hæðinni, sem hefur haft takmarkað hlutverk siðustu allmörg árin.

Niðurstaðan lá fyrir, og ég var, áður en ég vissi af kominn í hlutverk sem ég hafði ekki séð fyrir þegar ég vaknaði á laugardagsmorgni og sá fyrir mér rólegheita dag. Það þurfti að rífa í sundur sófa og burðast með hann í frumeindum niður í kjallara, þar sem hann mun fá, þegar loksins gefst færi á að reyna að koma honum saman aftur, hlutverk í nýrri svefnaðstöðu fyrir börn og barnabörn í heimsókn, í verðandi, fyrrverandi vinnuaðstöðu fD.

Úr verðandi, fyrrverandi vinnuaðstöðu fD kom ég síðan að flutningi vinnuborðs upp á efri hæð inn í verðandi vinnuaðstöðu hennar og flutningi annars vinnuborðs, sem ég hafði sett upp í verðandi fyrrverandi vinnuaðstöðu fD, þegar ég útbjó mér vinnuaðstöðu þar fyrir ævalöngu. Það vinnuborð (níðþungt) þurfti að skrúfa niður, enda veggfast, og burðast með upp í núverandi vinnuaðstöðu mína, þar sem niður þurfti að taka verðandi fyrrverandi vinnuborð mitt, sem eftir þá aðgerð varð borð án hlutverks (þó eg eigi ekki von á að svo verði lengi). Borðið þunga þurfti ég síðan að setja upp í vinnuaðstöðu minni í stað þess sem tekið hafði verið niður, eftir að ég hafði þurft að aftengja allan tölvubúnað, án þess að vita hvernig ég færi að því að tengja hann allan aftur, sem tókst á endanum undir Spykids II á RUV.

Nú situr fD í nýju vinnuherbergi, sem enn ber keim að fyrrverandi íbúa, sem er löngu fluttur að heiman (glitstjörnur límdar á veggi og loft). Þangað er hún komin með hljómtæki og spilar aríur og dúetta, mundar pensla og heldur því fram að hún þurfi betri lýsingu.

Ég er, þegar upp er staðið ekki ósáttur með að vera kominn með öflugt borð og ágætt pláss, en sannarlega hefði ég viljað vera án allrar þeirrar fyrirhafna sem breytingarnar kölluðu á.

Ég samgleðst auðvitað fD með að þurfa ekki lengur að brölta niður snarbrattan stigann í hvert sinn sem hún fær góða hugmynd.  Nú erum við að komast á þann aldur að við göngum helst ekki niður hann nema kveikja stigaljósið og styðja okkur við handriðið ;).


30 desember, 2014

Af sprengiþroska

Traustu og öflugu kaupin
Á síðustu árum hef ég komist að þeirri niðurstöðu að mér hafi mistekist að ala upp í börnum mínum áhuga á áramótasprengingum. Fyrir hver áramót hef ég "þurft" að standa í því að velja og kaupa "fíriverk" til að nota til hátíðarbrigða á gamlárskvöld og eitthvað inn í nýársnótt. Aðrir Kvisthyltingar hafa yfirleitt látið sér fátt um finnast:
  • jú-það-er-svo-sem-allt-í-lagi-að-kaupa-eitthvað, 
  • mér-er-alveg-sama, 
  • ég-get-svo-sem-kveikt-í-þessu, 
  • ætli-maður-verði-ekki-að-fara-út-í-dyr-til-að-kíkja-á-þetta-úr-því-búið-er-að-kaupa-það 
Ég átti ekkert von á að á þessu yrði breyting nú og í nauðsynlegri áramótaferð í höfuðborg Suðurlands í dag þurfti ég, eins og venjulega, að minna á að "fíriverkið" væri ókeypt. Þá þegar var fD búin að sjá til þess að komið væri við í sérstakri búð til að kaupa leir.
Þar sem ég stöðvaði Qashqai fyrir utan Björgunarmiðsöðina spurði ég, sem oft áður, hvort farþegarnir ætluðu að bíða í bílnum. Mér til nokkurrar undrunar, þó svo ég léti á engu bera, voru þrennar aðrar dyr opnaðar og allir áramótaheimaverandi Kvisthyltingarnir stigu frá borði og fylgdu mér inn í spengihöllina.

Ég hef það fyrir sið við þessar aðstæður að taka mér stöðu nokkuð frá afgreiðsluborðinu og velta fyrir mér því sem fyrir augu ber og reyna þannig að komast að niðurstöðu um hvað gæti verið við hæfi. Markmið mín, sem ég lét auðvitað ekki uppi við nokkurn mann, voru að trappa mig niður í "fíriverkskaupum" þetta árið, en vanda frekar valið.

Sem fyrr breytti það engu þó ég stæði úti á gólfi og horfði á hillurnar og þar  með nálgaðist ég afgreiðsluborðið í fullvissu um að þar myndu mér verða gefin góð ráð. Á þessu varð engin breyting nú. Ég veit af fyrri reynslu að skoðanir fæ ég ekki upp á yfirborðið frá þeim sem eru með í för. Á því varð ekki breyting nú.

Það varð hinsvegar bylting.

fD-kaupin
Hægra megin við mig, þar sem mæðgurnar stóðu í hnapp heyrði ég eitthvert hvísl og síðan gerðist það, að afgreiðslumaður seildist upp á vegg eftir flugeldapakka. Því næst heyrði ég fD gefa eftirfarandi yfirlýsingu: "Það er svo fallegt nafn á þessari. Ég ætla að fá hana". Þar með náði afgreiðslumaðurinn í Melkorku Mýrkjartansdóttur upp í hillu. "Eigum við ekki líka að kaupa svona löng stjörnuljós?" sagði hún þessu næst, en ekki við mig.  
Þarna var um að ræða einhver ótrúlegustu umskipti sem ég hef reynt í fari fD. Nú sé ég fram á að þurfa ekki framar að hafa áhyggjur að neyða neinn óviljugan til "fíriverkskaupa". 

Sannarlega hafði kaupæði fD ekki áhrif á skýr markmið mín og að ráði afgreiðslumanns festi ég kaup á afar traustum og öflugum sprengjum.

Ég hafði verið búinn að sjá fyrir mér að þetta yrðu áramótin sem Kirkjuhyltingar myndu bera sigur úr býtum, en með leikfléttu fD varð ljóst, að enn eitt árið munu þeir þurfa að hneigja sig í lotningu á brekkubrúninni.
---------------------------------------------

Styrkjum björgunarsveitirnar með því að kaupa "fíriverk" af þeim, en ekki öðrum.

01 febrúar, 2014

"Er langt síðan þú varðst 67?"

Þarna sat ég í stólnum á sömu rakarastofunni og venjulega. Fannst kominn tími til að létta á hárlubbanum, sem er þó mis lubbalegur eftir því hvar er á höfðinu. Höfuðhárin eru farin að lýsast talsvert, svona eins og verða vill þegar bætist við árafjöldann. Ég þurfti ekki einu sinni að taka ákvörðun um það þegar hvít hár fóru að blandast þeim dökku fyrir um 30 árum, hvort rétt væri að freista þess að halda uppruinalegum háralit. Grásprengt hár er merki um reynslu og virðuleik í mínum huga og því hef ég nánast fagnað hverju hári sem hefur tekið á sig þannig litleysi.

Hvað um það, þarna þurfti ég klippingu fyrir þorrablót eldri borgara sem famundan var. Við hárskerinn ræddum þorrablót eldri borgara fram og til baka. Þar sem hann er kominn á áttræðisaldur hafði hann mikla reynslu af slíkum samkomum og sagði mér frá hvernig þær gengu fyrir sig í hans heimabyggð. Þessi umræða er svo sem ekki í frásögur færandi. Þar kom hinsvegar, að hárskerinn spurði spurningarinnar í titli þessa pistils.  Ég neita því ekki að spurningin kom á mig og viðbrögð mín voru nánast ósjálfráð: "Ertu galinn?"
Sem betur fer hef ég allmikla reynslu af setu í stól hjá þessum hárskera og hann brást því ágætlega við þessari ágengu spurningu minni. Ég þurfti í framhaldinu að útskýra fyrir honum, að þegar Tungnamenn verða sextugir opnist fyrir þeim tækifæri til að fara á þorrablót eldri borgara.

Ekki meira um það.

Í sömu ferð skellti fD sér í svona salon í hársnyrtingu sem á að taka svona 10-15 mín., en hver maður getur ímyndað sér að sú tímasetning stóðst ekki og þar með skellti ég mér í þolinmæðisgírinn, þann sama og ég nota þegar ég er að aka á eftir bíl á óskiljanlegum lúsarhraða, án möguleika á að komast framúr.

Þegar heim var komið eftir klippingaferðina hélt fD áfram að sinna hári sínu á þann veg sém ég geri ekki; lít reyndar á það sem hálfgerðan vítahring.

Þorrablót eldri borgara var hið ágætasta og öfugt við það sem venjulega er þegar ég fer á samkomur, þá held ég að ég hafi þekkt upp undir 90% þorrablótsgesta. Ég varð hugsi við þá staðreynd.

Eftir matinn, sem var á hlaðborði, og eftir að ég hafði eina ferðina enn freistað þess að smakka hákarl, með sama árangri og venjulega og látið vera að smakka sama mat og venjulega, voru gestum flutt ágæt skemmtiatriði Torfastaðasóknar. Mér fannst það þakkarvert að flytjendurnir skyldu koma þarna og flytja sömu dagskrá og á aðalþorrablótinu um síðustu helgi.

Svo kom að heimferð, ekki undir morgun, eins og venja var í þá tíð, heldur um kl. 23. Fínn tími og möguleiki á góðum nætursvefni.

26 janúar, 2014

Ég, gikkurinn

fD finnst kæstur hákarl góður........tvisvar ár ári - á Þorláksmessu á vetri og á Þorra. Henni finnst kæst skata góð........einu sinni á ári - á Þorláksmessu á vetri. Mér finnst hinsvegar lítið til þessa meinta góðgætis koma.........aldrei - ekki einusinni í þau skipti sem ég hef látið mig hafa það að prófa eftir að hafa deyft bargðkirtlana á tiltekinn hátt. Það er hreint ekki svo að ég fyllist viðbjóði við að leyfa þessum matvælategundum að velta í munninum, mér finnst þetta bara hreinlega ekki gott og það tel ég vera fullnægjandi rök gegn því að sameinast fD í þeim helgiathöfnum sem neyslu þessarra fæðutegunda fylgja. 
Nú er sem sagt Þorrinn og ég hef séð hverja myndina á fætur annarri á fb og víðar þar sem fólk finnur sig knúið til að sýna dásemdarhákarlinn sinn ásamt upplýsingum um hvaðan hann er kominn. Það er nefnilega ekki sama hvar hákarlinn er verkaður. Ef ég tæki mig nú til og verkaði hákarl hér í Laugarási þyrfti ég talsvert mörg ár til að sannfæra Tungnamenn um að þar væri á ferð vara sem viturlegt væri að flagga mikið á samfélagamiðlum.
En að hafa náð í vænt stykki af hákarli frá Bjarnarhöfn, svo maður tali nú ekki um ef hann skyldi vera kominn alla leið frá einhverjum kæsingarsnillingnum á Vestfjörðum eða Austfjörðum. Maður getur kinnroðalaust birt myndir af slíkum hákarli á fb. Ef maður fer hinsvegar í einhverja lágvöruverðsverslunina í höfuðstað Suðurlands og kaupir þar niðurskorinn hákarl í lofttæmdum plastpoka, án upprunamerkingar, þá birtir maður ekki mynd af honum neinsstaðar.
Maður hefur ekki hátt um hvaðan slíkur hákarl er kominn. Neysla hans er meira svona inn á við. Það má kannski líkja þessu við það þegar tvær konur kaupa sér kjóla. Önnur kaupir kjól frá Dior eða í búð með útlensku nafni, en hin kaupir á verksmiðjuútsölu í Allabúð. Hvor er líklegri til að auglýsa kaupin? Já, það er sama hver kaupin eru - ef maður telur sitt vera betra en náungans, finnst manni mikilvægt að láta náungann vita af því. Það er svona  minns-er-flottari-en-þinns.

Ég ætlaði nú ekki að eyða miklu púðri í hákarlinn þegar ég byrjaði á þessari tjáningu minni.  Ég ætlaði að skrá hugrenningar mínar í tilefni af því að nú er hafinn Þorri.
Við fD fórum ekki á þorrablót í Aratungu á bóndadag. Það, út af fyrir sig, getur talist fremur lélegt. Þetta þorrablót var áður fyrr einhver stærsta skemmtun ársins á þessum bæ, eins og víðar, en eftir því sem dregið hefur úr sambandi okkar við það sem gerist í þessum hluta Bláskógabyggðar, hefur dregið úr áfergjunni í að taka þarna þátt. Oftar en ekki fór rútufarmur úr Laugarási á þorrablót í Aratungu. Síðan, oftar en ekki, kom maður heim undir morgun því sumir farþeganna vildu njóta þorrablóts lengur en aðrir, við ættjarðarsöngva og aðra tjáningu sem þeir létu vera svona dags daglega.

Ég neita því ekki að mig langar heilmikið að fá að njóta þess græskulausa gamans sem sveitungarnir setja saman um hver annan og flytja á þorrablóti og þætti ekki verra að fá að njóta þess án þess að til þurfi að koma allt tilstandið sem því fylgir.

Það er þetta með þorramatinn; þessar kræsingar, sem sumir kalla svo. Þessa þrá eftir að nálgast frummanninn í sjálfum sér - rífa í sig kjammann, skella í sig brennivíninu, hlæja stórkarlalega að gríninu, sleppa fram af sér beisli hvunndagsins. Allt er þetta gott og blessað, og ég hef sannarlega tekið þátt í því og notið, meira að segja í meiri mæli en góðu hófi hefur gegnt.

Til þess að fara á þorrablót í Tungnamanna í Aratungu þarf heilmikinn undirbúning. Á þetta þorrablót kemur hver með sinn þorrabakka með úrvali af þorramat að eigin vali. Það er ekki síst þorrabakkinn sjálfur sem er mikilvægur þegar haldið er til blóts. Góður þorrabakki er völundarsmíð og sannarlega ekki framleiddur af börnum í Kína. Þorrabakkar er pantaðir hjá valinkunnum völundarsmiðum og verða jafnvel ættargripir. Ingólfur á Iðu smíðaði þorrabakka Hveratúnsmanna.
Þegar haldið er á blótið er bundinn ferningslagaður dúkur utan um trogið með tveim hnútum.
Það er síðan helgiathöfn þegar dúknum er svipt af borðhaldið hefst. Þá blasa kræsingarnar við þeim sem bakkinn tilheyrir og fólkið tekur að stynja og rymja af tilhlökkun, góðgætið hverfur síðan í magana og vellíðunarstunurnar hækka með hverjum bitanum og snafsinum. Í Aratungu eru að jafnaði hátt á þriðja hundrað þorrablótsgestir og þegar borðahaldið stendur sem hæst hættir maður að heyra í sjálfum sér og hverfur inn í einhvern undarlegan þorrablóts heim, þar sem allir verða eitt, en þó hver í sínu.
Ég neita því ekki, að mér hugnast þessi aðferð við þorrablótsfagnað betur en sú sem algengust er orðin - hlaðborðin.

Þorrablót Tungnamanna í þessari mynd hafur lifað af heiftarlegar árásir gegnum árin. Það gekk svo langt, að í mótmælaskyni komu andstæðingar trogablóta eitt sinn til blóst með plastbox í stað trogs og steiktan kjúkling, franskar og kokteilsósu í stað þorramatarins. Sannarlega var tiltækið umtalað og Tungnamenn skiptust í fylkingar þeirra sem voru með og á móti trogablóti. Þeir fyrrnefndu stóðu árasirnar af sér.

Nú virðist mér þessi tegund þorrablóts vera fastari í sessi hér en nokkurntíma, ekki síst vegna þess að það víkur frá því sem algengt er nú til dags. Tungnamenn eru ekki fólk sem stekkur á nýjungar.

Leiðbeiningarstöð heimilanna (áður húsmæðra ;)) telur upp matvæli og drykki sem eru við hæfi þegar þorravevisla er annarsvegar: (Það sem ég hef merkt með rauðu er það sem ég myndi geta sett í mig í svona veislu)

Það sem hæfir slíku borði er:Blóðmör og lifrarpylsa, bæði súr og nýsviðasulta súrsuð og  sviðalappir (þurfa góða suðu)svínasulta, súrsuð og nýsúrsaðir hrútspungar, lundabaggar, bringukollar og hvalsrengi.HangikjötReyktur magáll Saltkjöt (helst heitt) fyrir þá sem ekki eru mikið fyrir súrmatSoðnir sviðakjammar Síldarréttir hvers konar  t.d. kryddsíld eða maríneruð síld og síldarsalötHarðfiskurKæstur hákarl 
Soðnar gulrófur, gulrófustappa, soðnar kartöflur, kartöflumúsLjóst og dökkt rúgbrauð, flatkökur og smjörHvítur jafningur (uppstúf) með hangikjötinu
Drykkjarföng með þorramat fara að sjálfsögðu eftir smekk t.d. öl eða gos og mörgum finnst gaman að fá staup af brennivíni með. 

Varast skal að láta þorramat standa lengi við stofuhita eftir að borðhaldi lýkur. Nauðsynlegt er að kæla afganga eins fljótt og við verður komið.  
Á eftir þorramat þarf ekki nauðsynlega eftirrétt en sumum finnst tilheyra að fá pönnukökur, upprúllaðar eða með sultu og rjóma ásamt góðu kaffi.Smákökur, konfektmoli og gott kaffi eða te er einnig tilvalið.
Hér má bæta við ýmsu og þá kemur í hugann það sem nýjast er á boðstólnum: súrsaður lambatittlingar og væri akkur í að fá upplýsingar fyrir áhugasama um hvernig þeir fara um bragðlauka neytenda.

Já, gikkur er ég.

02 júní, 2013

Slysin gera ekki boð á undan sér.

"Hvort ætlar þú að taka belginn eða grindina?" Það var fD sem varpaði fram þessari spurningu í hávaða vorverkanna á þessum sunnudegi. Sannarlega hafði ég ekki hugmynd um, um hvað málið snérist. Ég leit um pallinn, nýgræjuð blómakerin, sandborna og áburðarborna grasflötina og meira að segja inn í skógarþykknið í von um að koma auga á belg og grind, en án árangurs. Enginn belgur, engin grind.
"Belginn?"
"Já, eða kútinn. Veistu virkilega ekki hvað ég er að tala um?"
"Neibb."
Það leið enn nokkur stund, sem lyktaði með því fD gekk að útiarninum, sem er svona leirbelgur með strompi og hvílir á járngrind. Með því skýrðist hvað spurningin hafði snúist um. Þarna tók frúin í belginn og hugðist vippa honum af grindinni, en hrökk frá þegar hún uppgötvaði að svört aska frá haustinu 2012 klístraðist á leikskólakennarahendurnar. Þar með var ljóst hver tæki belginn.

Ég gekk að honum ákveðnum og þó nokkuð öruggum skrefum, skeytti engu um öskuna og hóf hann upp úr grindinni, án nokkurra vandkvæða. fD tók upp fislétta grindina og kom henni fyrir þar sem hún vildi hafa arininn þessu sinni. Hann hafði verið færður, að hennar ósk, síðastliðið haust, þegar reykinn frá honum lagði inn í hús. Ástæða þeirrar færslu var algerlega gleymd henni, en auðvitað ekki mér. Nú var hinsvegar uppi sú staða, að arinninn skyggði á blómaskeytingarnar og því þurfti hann að fara aftur á þann stað sem hann var, áður en hann var fluttur til vegna reykmengunar. Hvað sem því líður, þarna gekk ég léttilega, eða kannski rogaðist ég með leirbelginn þar til ég kom að þar sem fD hafði komið grindinni fyrir á hinum nýja, en samt gamla, stað. Staðurinn sá er alveg úti á brún á pallinum og svo hagar til, að af pallinum, á þessum stað eru einir 40 cm niður á jörð. Þar sem ég kom að grindinni, með arininn, sá ég að hann snéri ekki rétt, með því gatið vísaði út af pallinum. Ég hugðist því vippa mér hinumegin við grindina og koma þannig að henni, með belginn, frá hinni hliðinni. Í þessu skyni tók ég þá fínu ákvörðun að fara brúnarmegin við grindina, en fD hafði komið henni fyrir 15 cm inni á pallinum Til að byrja með leit þetta nokkuð vel út. Ég hélt belgnum yfir grindinni meðan ég freistaði þess að smeygja mér framhjá henni.

Það var í þessari, fyrirhuguðu færslu sem ég uppgötvaði, að þó svo ég telji mig bara nokkuð sprækan miðað við aldur, þá þurfi ég að læra að taka mið af því að lipurleikinn er ekki sá sami og var. Ég steig það utarlega á pallbrúnina að stærstur hluti hægri fótar stóð út af. Þarna gaf framhluti fótarins sig. Ég sá hvað verða vildi og af ótrúlegu snarræði lét ég belginn falla á grindina, án þess að velta fyrir mér hvernig hann snéri, enda skipti það ekki máli í þeirri stöðu sem nú var upp komin. Aðdráttarafl jarðar varð síðan til þess að ég, í léttleika mínum, hlunkaðist fram af pallinum án þess að fá rönd við reist. Ég veit ekkert hvernig það gerðist, að ég lenti á bakinu og hnakkinn skall í jörðina. Það var mosaræktin sem varð til þess að höggið hafði ekki meiri afleiðingar en, að mér fannst eins og heilinn losnaði í höfðinu.
"Þú færð kúlu á ennið" sagði fD, sem stóð uppi á pallinum, í ótrúlegum makindum, ef tekið er mið af því að eiginmaðurinn hafði þarna orðið fyrir talsverðu slysi (óhappi, í það minnsta). Þarna gat allt hafa gerst.
"Ég hef örugglega fengið heilahristing," sagði ég yfirvegun, þar sem ég lá og horfði á skýin. Ég lá þarna bara nokkuð lengi, en þar kom að ég ákvað að láta reyna á hvort ég hefði slasast alvarlega. Ég hef nefnilega heyrt að líkaminn komi í veg fyrir sársauka þegar slys verða óvænt. Ég fékk fljótlega ekki  betur séð en felst virkaði eins og áður og það var mér léttir. Mér var og er fyrirmunað að skilja hvernig ég gat marist á enninu við að detta á bakið. fD, sem var vitni að slysinu, hefur ekki getað gefið viðhlítandi skýringar og mér finnst algerlega óhugsandi, að ég geti hafa dottið fram fyrir mig fyrst, en síðan beint á hnakkann. Við erum ekki með eftirlitsmyndavélar á pallinum svo nákvæm atvik verða væntanlega aldrei upplýst svo fullnægjandi sé.

Ég kenni mér ekki meins eftir hrösunina utan mars á enni og heldur óþægilegra hláturroka fD. Í því sambandi minnist ég atviks/óhapps þegar vetrarstormur fyrir allmörgum árum, varð til þess að hurð sem fD átti að halda, feykti henni til svo hún lá spriklandi eftir. Ég kími enn með sjálfum mér við að rifja það atvik upp: 1:1
------------------
Ef textinn sem hér hefur verið ritaður ber þess merki að skrifarinn sé ekki með sjálfum sér, er það bara sönnun þess, að þarna hafi orðið slys, fremur en óhapp.

02 apríl, 2013

See no evil.......


Í gærmorgun setti ég eftirfarandi yfirlýsingu á Fb:
Á þessum bæ þykir sumum fátt ógnvænlegra en þetta agnarsmáa spendýr, sem er í rauninni bara að reyna að lifa af eins og við öll. Hér er um að ræða fjölskyldu sem tók sér bólfestu undir einu blómakerinu fyrir í það minnsta ári síðan. Krílin virðast fá næga fæðu sér til framfærslu og það er ekki síst vegna þess að af borði auðnutittlinganna, sem fD elur í Sigrúnarlundi á fitu og fræjum, falla molar sem nýtast vel til að fita ungviðið undir blómakerinu. Jú, ég tók myndir, en hvað svo?
Í dag datt mér svo þetta í hug:
.........Art thou afeard
To be the same in thine own act and valour
As thou art in desire?
og þetta:
When you durst do it, then you were a man;
And, to be more than what you were, you would
Be so much more the man. Nor time nor place
Did then adhere, and yet you would make both:
They have made themselves, and that their fitness now
Does unmake you.
 
 Ekki svo að það breyti neinu í samhengi við það sem hér fer á eftir, en hér fyrir ofan er Lady Macbeth að brýna eiginmanninn til að myrða Duncan konung, og beitir þar því vopninu sem oft bítur best: "Þú ert aumingi ef þú andskotast ekki til að gera þetta". Það var ekki sú aðferðin sem fD notaði, enda ekki um það að ræða að ég hafi þráð að verða konungur í músaríkinu undir blómakerinu. Hún beitti öðrum aðferðum, sem fólust að mestu í því ýja beinum orðum að því að þarna væri um að ræða að bjarga sálarheill hennar. Ég var nú samt ekkert að flýta mér að hugsa upp aðferðir við að koma ræflunum fyrir kattarnef, enda hafði ég fulla trúa á að sálarheillin væri bara í nokkuð góðu standi; þetta væri mest í nösunum á frúnni - en auk þess verð ég að viðurkenna að tilhugsunin um að taka líf, hversu smátt eða lítilmótlegt sem það kann að vera, er mér síður en svo að skapi (hér undanskil ég flugur og annað svipað).

Skömmu eftir að ég hafði lokið við að mynda fjörug hlaup músarinnar, eða músanna þvers og kruss um og við pallinn, heyrði ég að fD var komin niður í kjallara og farin að rótast eitthvað. Ekki gat verið um að ræða að það tengdist listgjörningi og því lagði ég leið mína niður til að vita hvað væri í gangi.
"Ég er viss um að ég sá hana hérna einhvers staður um daginn."
"Hverja?"
"Nú, músagildruna".
"Músagildruna?"
"Já. Það verður að d...a þessi kvikindi. Ekki ætla ég í sólbað úti á palli fyrri en ég er viss um að öll fjölsyldan er d...ð!"
"Jæja......... Ég hef ekki séð gildruna frá því ég var að veiða mýsnar í Xtrail um árið."

Þar með fór ég aftur upp, og hugðist fara að sinna vorverkum í garðinum í blíðviðrinu.
Það leið ekki á löngu áður en fD birtist í palldyrunum og hélt í hornið músagildru með þumalfingri  og vísifingri, lét hana falla á pallborðið um leið og hún sagði:
"Hér er gildran!"
Það fór ekki á milli mála hvert hlutverk hún ætlaði mér.

Sálarheill tel ég vera miklvægt fyrirbæri, jafnvel mikilvægara en músalíf. Því var það, eftir að ég hafði sinnt vorverkum eins og ekkert væri yfirvofandi; eins og enginn þrýstingur væri fyrir hendi, í svona klukkutíma, að ég græjaði músagildruna, sem kallast því innblásna nafni: "VICTORY". Ætli það sé ekki til þess ætlað að láta músaveiðimönnum líða betur þegar að því kemur að þeir þurfa að takast á við að losa músahræin úr gildrunni og horfa í brostin augu, sem áður voru full af lífi?. Samkvæmt teiknimyndum á maður að setja ost í músagildrur þar sem músum finnst ostur undurgóður - síðasta máltíðin. Af þessum sökum fann ég til ostbita, spennti gildruna og kom henni fyrir þar sem ég hafði, fyrr um daginn, staðið í rúmlega metra fjarlægð frá konunginum í músaríkinu, án þess að hann yrði mín var.
Svo hélt ég áfram að sinna vorverkunum.

"Nei" sagði ég þar sem við fD stóðum við dyrnar út á pall í morgun.
"Ertu búinn að fara að gá?"
Þarna hafði ég, eins og svo oft áður, séð spurninguna fyrir og svarað áður en hún var borin upp. Ég gáði ekki í morgun.

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...