fD í fagnaðarbing |
Í lok fréttatímans var síðan greint frá helstu íþróttaviðburðum dagsins, en sú venja er viðhöfð, að þegar kemur að íþróttafréttum eftir fyrri fréttatímann, er skipt um rás, enda ekki talin ástæða til að horfa á sömu íþróttafréttir tvisvar.
Þar kom, að fjallað var um knattspyrnuleik sem fram fór fyrr um daginn milli Englendinga og Króata þar sem þeir fyrrnefndu höfðu borið sigur úr býtum eða farið með sigur af hólmi, borið sigurorð af þeim síðarnefndu, nú eða bara eins og nútíminn vill hafa það "höfðu sigrað leikinn" á heimavelli sínum.
Í þann mund er Englendingar fögnuðu síðara marki sínu, sigurmarkinu, heyrði ég skyndilega óvenjulegan andardrátt í sófanum við hliðina á mér og í kjölfarið kom annað óvenjulegt látbragð. Það var engu líkara en fD væri að berjast við að ná andanum. Þetta varð til þess, að ég leit í átt til hennar, og sá hana starandi á fagnaðarlæti Englendinga, þar sem Harry Kane lá neðstur í haugi samherja sinna.
"Ég myndi kafna ef ég lægi þarna", varð fD á orði þegar henni hafði tekist að ná andanum aftur. Ekki hvarflaði að mér að draga þessa yfirlýsingu í efa en komst hinsvegar ekki hjá því að velta fyrir mér, hvernig svona haugur, þar sem fD lægi neðst eftir að hafa skorað stórkostlegt sigurmark, liti út. Viðbrögð mín við andarteppunni voru eitthvað á þá leið, að líklegast væri það ekki ofarlega í huga þess sem þarna lá, hvort hann gæti andað.
Þessi uppákoma er enn ein staðfesting þess að í fD leynist knattspyrnuáhugamaður (-kona, - eintak) sem mikil orka fer í að leyna, alla jafna, en brýst síðan fram þegar minnst varir.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli