Sýnir færslur með efnisorðinu Ölfusárbrú. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu Ölfusárbrú. Sýna allar færslur

01 apríl, 2023

Heilmynd (hologram) af nýju Ölfusárbrúnni.

Heilmynd tekin 31. mars.
Uppfært, 2. apríl: 
Í tilefni 1. dags aprílmánaðar, anno 2023 var eftirfarandi skráð:

Maðurinn sem fann upp svokallað "hologram" eða heilmynd, var ungverski vísindamaðurinn Dennis Gabor, árið 1948. Hann fékk seinna Nóbelsverðlaunin fyrir vísindastörf sín. 

Þróun í gerð heilmynda hefur verið stöðugt í gangi síðan þá, og ég get montað mig af því, að hafa starfað  hjá sprotafyrirtæki, sem heitir Gaboria inc. (til heiðurs Gabor) á seinni hluta áttunda áratugarins, en það var megin markmið fyrirtækisins, að þróa þessa tækni áfram. Það voru ung hjón, Ila og Vihaan Began, hámenntaðir eðlisfræðingar, sem stofnuðu þetta fyrirtæki. Þau eru bæði indversk að uppruna, en fluttu með foreldrum sínum til Englands á sjöunda áratugnum. Þau hafa stjórnað fyrirtækinu alla tíð síðan, en eru nú reyndar komin á eftirlaun, þó enn láti þau til sín taka og láta ekkert sem þessari tækni viðvíkur, framhjá sér fara. 

Ila og Vihaan í Skálholti.

Þetta var nú skrítinn formáli, en nauðsynlegur til skýringar á því sem á nú að vera megin efni þessa pistils. Ég  hef, gegnum tíðna verið í sambandi við þessi ágætu hjón og reynt að fylgjast með hvernig þessu heilmyndatækni hefur þróast hjá Gaboria, en fyrirtækinu hefur sannarlega vaxið fiskur um hrygg. Þetta fyrirbæri "hologram", eða heilmynd, er nú farið að nálgast það að verða svo fullkomið, að vart verður greint á milli heilmyndar og raunverulegs fyrirbæris. Þannig eru til margar sögur af því þegar heilmynd af t.d. kúm hefur verið skotið inn í nautgripahjarðir, nautunum til mikillar furðu og þau hafa þá starað á nýju kúna eins og naut á nývirki.  
Fram til þessa hefur reynst nokkuð flókið að finna leiðir til að búa til heilmyndir af stærri fyrirbærum, eins og húsum, nú eða brúm. Þarna hefur þá helst staðið á nægilega öflugum tækja-, eða tæknibúnaði. Á síðustu  árum hefur hinsvegar orðið mikil framþróun og tilraunir víða um Evrópu hafa gefið góðar vonir um að á næstu árum verði heilmyndir hluti af daglegu umhverfi okkar. Gaboria hefur verið og er eitt framsæknasta fyrirtækið á þessu sviði.


Heilmynd af nýju Ölfusárbrúnni.
Snemma á síðasta ári, undir lok Covid bylgjunnar, fékk ég tölvupóst frá Vihaan, þar sem hann velti fyrir sér, hvort ekki væri upplagt að gera tilraun til að skapa mjög stóra heilmynd, einmitt á Íslandi, bæði vegna þess, að hér er loftið tærara og orkan aðgengilegri en víðast hvar, en hvort tveggja skiptir miklu máli í verkefnum af þessu tagi. Í stuttu máli héldu samskipti okkar áfram, mér datt strax í hug nýja Ölfusárbrúin og hafði samband við helstu stofnanir og stjórnir sem um mál af þessu tagi fjalla hér á landi. Verkefnið hlaut góðar undirtektir og fyrir þrem vikum komu hjónin til landsins, ásamt 32 aðstoðarmönnum og hafa síðan unnið að uppsetningu og tengingu tækjanna sem notast þarf við. en þeim hefur verið kpmið fyrir þar sem rauðu punktarnir eru, á myndinni hér fyrir neðan.

Hér má sjá staðsetningu tækabúnaðarins.
Þar sem  Gaboriufólkinu var og er mikið í mun að halda þessum fyrirætlunum leyndum fyrir almenningi, hefur ekkert af þessu frést fyrr en nú, þegar ljóst er orðið, að tilraunir við að búa til heilmynd af nýju Ölfusárbrúnni, nákvæmlega þar sem hún mun rísa, hafa gengið með ágætum. Í gær, í suddaveðrinu sem var fyrir hádegið, þegar öllum búnaði hafði verið komið fyrir á réttum stöðum, tókst að kalla fram mynd af brúnni í allri sinni dýrð og hvílíkt mannvirki!  Tilraunin stóð yfir í rúmar 30 sekúndur, og ég fékk að taka mynd af heila klabbinu og hana má einmitt sjá hér efst.  Ég ætlaði varla að trúa því sem við mér blasti og myndin ber þess kannski merki.


Þetta verk er stórt skref fram á við í heilmyndatækni og í tilefni af því, hyggjast hjónin og þeirra fólk, bjóða Selfyssingum og nágrönnum að líta þetta undur í dag, en brúin mun birtast þrisvar sinnum nú eftir hádegið, kl 13.00-13.03, kl. 14.30-14.33 og loks kl. 16.00 - 16.03. Auðvitað getur ýmislegt í umhverfinu haft áhrif á hvernig til tekst, en það er einmitt það sem hópurinn frá Gaboria ætlar að rannsaka samhliða þessum "sýningum". 

Sýningatímarnir eru, sem sagt:
kl 13.00-13.03, 
kl. 14.30-14.33 
og loks 
kl. 16.00 - 16.03.
í dag, 1. apríl.

Til þess að tryggja það að umferð geti gengið vel fyrir sig, mun lögreglan sinna umferðarstjórn í klukkutíma í kringum hvert skipti sem heilmyndin verður sett upp.



02 ágúst, 2018

Ef ég þarf að fara á Selfoss.....

Myndin er ekki af Suðurlandsvegi við Selfoss. Þar sem ég
var akandi gat ég ekki tekið myndi til að birta hér,
en hefði gjarnan viljað. "Maybe I should have"
...þá auðvitað fer ég á Selfoss. Þar er margt að sjá og margt að gera.. Ég þarf kannski að fara í klippingu og ekki þarf ég að kvíða því að fá hana ekki. Ég þarf til tannlæknis og þeir eru þarna á hverju strái. Ég þarf að komast í búð og það veit sá sem allt veit, að maður getur varla snúið sér við fyrir búðum. Svona gæti ég lengi talið.

Stundum bara ætla ég ekki á Selfoss. 

Ég þarf að fara annað.
Ef ég vil ekki hætta lífi mínu á veginum um Grímsnesið, þá verð ég að gera svo vel að þræða þröngar og ofhlaðnar götur Selfoss, hvað sem tautar og raular.
Hversvegna skyldi þetta nú vera?

Þetta minnir ig reyndar á tíma þegar það voru til vísitölubrauð. Voru það ekki franskbrauð, heilhveitibrauð og normalbrauð? Þessi brauð lutu ákveðnum reglum og voru þessvegna ódýrari en önnur brauð. Neyslunni var beint að þessum tegundum brauðs.

Þegar umræða um nýja brú á Ölfusá var talsverð í upphafi aldarinnar, kom fljótt í ljós að ekki voru allir á eitt sáttir. Ekki nenni ég að rekja þá sögu, enda aðrir betur færir um það. Helst var að skilja að þjónustuaðilar á Selfossi væru uggandi um sinn hag. Mig grunar að sá uggur sé ein megin ástæðan fyrir því ástandi sem er í dag og þá kem ég að tilefni pistilsins - pistils sem ég hef oft hugsað mér að láta frá mér.

Ástandið í umferðarmálum í kringum Selfoss er ótækt.
Hvernig getur það verið að Selfyssingar virðast sætta sig við það umferðarkraðak sem er á Austurveginum nánast hvern dag?
Hver getur fólk sætt sig við það, nánast hljóðalaust að það skuli vera biðraðir inn á Tryggvatorg (heitir það það ekki?) alla daga?

Þetta lendir sjálfsagt minna á mér en mörgum öðrum, þar sem ég get yfirleitt bjargað mér með því að fara Grímsnesið, nema þegar ég þarf á Selfoss, því þá er hægara sagt en gert að taka vinstri beygjuna af Biskupstungnabraut.

Á þessum Drottins degi, fimmtudegi fyrir verlunarmannahelgi þurfti ég að sinna erindum á Selfossi, svona eins og gengur og gerist. Síðan lá leiðin í höfuðborgina, en þá var bílalest frá torginu við brúarendann og að torginu við Toyota.  Ég sagði auðvitað bara "VÁ", svona eins og maður segir, ekki síst þegar svona er. Þetta var um hádegisbil.
Þessi umfjöllun er frá 2008.
Síðan eru 10 ár, eins og hver maður getur éð.
Erindum lauk ég í borginni við sundin og hélt heim á leið.
Þegar mér, um fjögurleytið, tókst loksins að beygja inn á Biskupstungnabraut, eftir að hafa ekið í fyrsta gír eða minna  langleiðina frá Kögunarhól, varð mér litið í vesturátt og svo langt sem ég þá sá, að Kögunarhól, sem sagt, sniglaðist bílalestin milli þess sem hún stóð kyrr.

Ég telst líkast til óskaplega ósanngjarn og tilætlunarsamur, en svona aðstaða á þjóðvegi eitt, er bara hreint ekki boðleg, og ætti að vera búið að kippa í liðinn fyrir löngu.
Ég geri mér fulla grein fyrir því, að umferðin er ekki svona alla daga ársins hring. Það breytir engu um þá skoðun mína, að ekki verður búið við þetta lengur

Ástæður fyrir því að svo er ekki, er ekki síst að finna á Selfossi, þar sem hagsmunaaðilar hafa, að mínu mati, haft þau áhrif á þetta brúarmál að það hefur frestast úr hófi.
Það er þekkt í öðrum landshlutum að þingmenn hafa barið í gegn nauðsynlegar umbætur  á samgöngum.
Hvar eru sunnlenskir þingmenn, nú þegar hljóðnaður er söngurinn um að brú verði að vera þannig á Ölfusá sett, að hún beini allri umferð á þjóðvegi eitt í gegnum Selfoss?

Kannski erum við Sunnlendingar bara svona lítilþægir.

Hvur veit?


Þetta er umfjöllun frá 2005, síðan eru 13 ár. Hvað dvelur orminn langa?

Vísir september 2017. NÍU ÁRA BIÐ FRAMUNDAN!



Sæludagar í sandkassanum (12 - LOK)

Framhald af þessu Þannig er það víst alltaf, að það sem byrjar á annað borð, því lýkur á endanum. Þannig var það einnig með þessa ferð til D...