Sýnir færslur með efnisorðinu Litli Bergþór. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu Litli Bergþór. Sýna allar færslur

06 nóvember, 2022

Um hann herra Litla Bergþór

Hvernig dettur fólki í hug, að það sé raunhæft að gefa út efnismikið tímarit, tvisvar á ári, sem fjallar bara, eða nánast alfarið um Biskupstungur?  
Ja, þegar stórt er spurt verður oft fátt um svör. Það þýðir samt ekki að svörin séu ekki til.
Nú eru ríflega fjórir áratugir síðan Litli Bergþór - blað ungmennafélags Biskupstungna, hóf göngu sína. Ég ætla mér ekki að segja þá sögu hér, en nefni þetta bara til að að benda á að það er nokkuð merkilegt að frá 1980 hefur þetta blað komið út tvisvar til þrisvar á ári og enn ber ekki á skorti á umfjöllunarefni.

Þó svo ég sé eflaust að hætta mér út á braut, sem ég er ekki búinn að skoða alveg niður í kjölinn, með því að reyna að svara spurningunni um þetta langa líf blaðsins, ætla ég að gera smá tilraun.

Þetta er það sem ég tel að eigi stóran þátt í langlífi karlsins og jafnframt það sem mér finnst að huga þurfi að:

1. Blaðið er alfarið unnið í sjálfboðavinnu (fyrir utan prentun og póstkostnað). Ef fólkið sem vinnur að útgáfunni fengi lágmarkslaun fyrir vinnu sína, væri það fyrir löngu búið að leggja upp laupana. Einhvern veginn hefur útgáfan borið gæfu til þess að hafa aðgang að fólki sem hefur nægan áhuga til að nota heilmikilnn tíma til að vinna blaðið. 
Í þessu felst einnig ákveðin hætta, sem virðist ekki fara minnkandi: dvínandi ungmennafélagsandi í samfélaginu, með spurningunni: Hversvegna ætti ég að vera að eyða dýrmætum tíma mínum og leggja jafnvel í nokkurn kostnað, við eitthvað sem ég fæ ekki greitt fyrir?  Verða það mögulega örlög blaðsins að deyja út með starfsfólki sem smátt og smátt eldist út úr því?  Hingað til hefur tekist að fá inn nýtt fólk til að viðhalda ákveðnum ferskleika og ná þannig til nýrra kynslóða. Það er nefnilega svo, að samfélagið hefur breyst mikið á þessum fjórum áratugum og því hefur þurft að svara.

2. Tryggir áskrifendur. Það hefur verið gæfa þessa blaðs að fólk hefur nánast talið sér skylt að vera áskrifendur að því og hefur áttað sig á mikilvægi þess sem tækis til að safna saman upplýsingum og frásögnum um það sem var og spegla samfélagið eins og það er nú. 
Það er  náttúrulögmál, sem veldur því, að tryggir áskrifendur týna smátt og smátt tölunni og það segir sig sjálft, að þá þarf að ná í nýja í staðinn. Það er engin trygging fyrir því að þeir nýju verið jafn traustur áskrifendahópur. Það er ein þeirra breytinga sem takast þarf á við í útgáfunni. Annar mikilvægur þáttur sem huga þarf að, er að samsetning samfélagsins sem blaðið þarf að höfða til er orðin talsvert breytt frá 1980. 

Mér finnst, að til þess að Litli Bergþór nái að lifa til ársins 2030, þurfi að leggja áherslu á tvennt, fyrst og fremst:
1. Að  ritstjórn blaðsins bætist nýtt og ferskt fólk, sem getur tekið við keflinu í fyllingu tímans. Ég þykist viss um að slíkt fólk er að finna í Biskupstungum nútímans. 
2. Að blaðið endurspegli það samfélag sem því er ætlað að höfða til, en lokist ekki um of inni í einhverjum afmörkuðum kima. Á undanförnum árum hafa verið stigin skref sem hefur verið ætlað að ná til breiðari hóps, ekki síst yngri kynslóða og það hefur tekist hreint bærilega. Áskorunin er að viðhalda áhuganum. 

----------------
Ég er nú að skrifa þetta í tilefni af því að til mín var leitað um að koma til liðs við ritstjórnina aftur, að einhverju leyti. Ég þáði þetta boð og er bara nokkuð stoltur af að vera treyst til þess arna. En - sko, ég er að nálgast sjötugt, sem telst nú varla besti aldur á nýju ritstjórnarfólki. Þar fyrir utan er ég fluttur burt af svæðinu og finnst þar af leiðandi vandasamt að fara að blanda mér of mikið í málefni þess. Ég hef nóg af skoðunum á því, en mögulega eiga þær betur heima annarsstaðar. 
Þetta breytir því ekki, að mér finnst að Litli Bergþór eigi mikið erindi til Tungnamanna á öllum aldri, ef rétt er haldið á spilunum. 
Megi hann lengi þrífast, karlinn.

24 nóvember, 2017

Saman í þessu

Það er verið að reyna að berja saman ríkisstjórnarnefnu, sem er svo sem gott og blessað. Sumir brjálaðir yfir því eins og venja er til. Aðrir bara sáttir og svo allir þeir sem gæti ekki verið meira sama.
Á meðan þetta stendur yfir undirbúum við hér í neðsta hluta Biskupstungna að minnast þess, með pompi og prakt, að innan nokkurra vikna verða liðin 60 ár frá því Hvítárbrúin, sem tengir byggðina vestan og austan árinnar. Hér væri margt með öðrum hætti ef þessi brú hefði ekki komið til.

Við ætlum að taka í notkun nýja ljósakeðju, sem næstu árin mun lýsa vegfarendum leið í mesta skammdeginu, minna okkur á jólahátíðina og skreyta þetta fagra mannvirki sem brúin óneitanlega er.
Ljósakeðja af þessu tagi kostar sitt. Við hófum söfnun sem hefur gengið framar vonum og við erum afskaplega þakklát þeim sem hafa lagt sitt til, hvort sem það er í smáu eða stóru. Án þeirra hefði þetta ekki orðið.
Þeirra verður getið og þeim þakkað betur þegar upp verður staðið.

Það er venjan, þegar mikil mannvirki eru tekin í notkun, að til eru kallaðir forystumenn og stjórar af ýmsu tagi til að klippa á borða, ýta á takka, nú eða gefa skipun um formlega opnun viðkomandi mannvirkis.
Þetta fórst fyrir þegar Hvítárbrúin var opnuð þann 12. desember 1957.
Úr því verður bætt nú.
Það verður enginn borði klipptur, það verður ekki ýtt á neinn takka, það verður ekki gefin nein skipun. Það verður miklu magnaðra en allt það sem fólki hefur áður dottið í hug við svipuð tækifæri.

Nú vinna íbúar í Skálholtssókn, frá Spóastöðum í norðri að Helgastöðum og Eiríksbakka í suðri, að undirbúningi fyrir formlega opnun brúarinnar, tendrun brúarljósanna og sextíu ára afmælið.
Margir leggja hart að sér til þess að gera þessa hátíð okkar sem skemmtilegasta og eftirminnilegasta. Ekki endilega óskaplega hátíðlega, enda ætlum við að freista þess að hafa þetta allt fremur lágstemmt, en bara því afslappaðra og skemmtilegra.

Það er ekki  markmið okkar að freista fjöldans til að vera viðstaddan, heldur fyrst og fremst þá sem búa eða einhverntíma hafa búið í grennd við og notið góðs af þjónustu brúarinnar, þá sem hafa styrkt kaupin á ljóskeðjunni og aðra þá sem áhuga kunna að hafa á brúnni og okkur.
Það eru allir velkomnir, en við munum ekki auglýsa þessa samkomu með neinum áberandi hætti í fjölmiðlum, svona fyrirfram. Þetta blogg mitt tel ég ekki vera fjölmiðil, nema kannski þegar ég ýti á einhverja takka sem tengjast........ já, ekki fara lengra þangað.

Ekki get ég látið hjá líða, úr því ég er að fjalla um Hvítárbrúna, en nefna að að í blaðinu okkar hér í Tungunum, Litla Bergþór, sem á að koma út fyrir hátíðahöldin, er síðari hluti samantektar minnar á aðdragandanum að, og byggingu þessarar miklu brúar.  Ég hika ekki við að misnota hér aðstöðu mína, og hvetja áhugafólk um brúna og bara lífið í Biskupstungum almennt í fortíð og nútíð, að verða sér úti um áskrift að þessu merka riti.  Það er létt verk: þarf bara að senda tölvupóst á netfangið lbergthor@gmail.com, með nafni, kennitölu og heimilisfangi.




Ég þakka mínum sæla fyrir það að vera nú kominn á eftirlaun, því sjaldan hefur verið í eins mörg horn að líta og nú og einstaklega ánægjulegt að hafa tækifæri til að taka þátt í svo gefandi iðju eins og hér er um að ræða.








28 febrúar, 2017

ÖGURSTUND?


Fann ekki upplýsingar
um höfund myndarinnar
Til útskýringar á því að ég set þennan texta inn hér, í mínu einkabloggi tel ég rétt að greina frá því, að ástæðan er svo sem engin sérstök, nema ef vera skyldi að hér á ég auðveldara með að setja myndir þar sem ég vil og haga leturgerð eins og mér finnst við hæfi.
Það sem hér fylgir eru bara mínar pælingar um Litla-Bergþór, og ég einn ber ábyrgð á þeim. 

Ég er nú búinn að sitja í nokkur ár þessu sinni, en var einnig um tíma í ritnefndinni á upphafsárum útgáfunnar 
Mér stendur hreint ekki á sama um þetta blað og vil gjarnan sjá útgáfu þess haldið áfram með einhverjum hætti.

Það hefur reynslan kennt okkur, sem lifað höfum einhverja áratugi, að allt er breytingum háð. Það sem var sjálfsagt, og jafnvel „hipp og kúl“  í gær, þykir heldur klént í dag og stefnir í að verða fornleifar á morgun. Svo hraðar eru breytingarnar sem við lifum í kringum mót 20. og 21. aldar.
Það má jafnvel halda því fram, að breytingarnar séu hraðari en mannskepnan ræður við með góðu móti. Við erum ekki fyrr búin að venja okkur við eitthvað, en eitthvað annað er komið í staðinn, sem er auðveldara, skemmtilegra og jafnvel betra. Jafnvel betra, já.

Svo er það auðvitað með okkur mennina eins og allar venjurnar, hlutina, smekkinn eða svo sem allt, hverju nafni sem nefnist, að við erum háð tímanum, sem leiðir okkur áfram, mínútu eftir mínútu, klukkustund eftir klukkustund, viku eftir viku, mánuð eftir mánuð, ár eftir ár, öld eftir öld.  Við eigum okkar blómatíma í tilverunni og hverfum síðan smám saman og breytumst í sögu.  Í stað okkar koma aðrir menn, aðrir siðir, annarskonar smekkur.

Svona er þetta bara. Það eina sem við þurfum í rauninni að passa okkur á er að verða ekki að nátttröllum. Til að forðast það er tvennt í stöðunni: að láta okkur hverfa áður en svo verður, eða taka slaginn með nýjum hætti.

Ritnefnd Litla Bergþórs hittist á fund í gær.  Fyrst vorum við þrjú, en síðan tvö.

Litli Bergþór, blað Ungmennafélags Biskupstungna er arftaki Bergþórs (í Bláfelli). Eftir að útgáfu Bergþórs var hætt varð langt hlé allt þar til í mars 1980, að upp reis Litli Bergþór úr duftinu og var þá í höndum Gríms Bjarndal, ritstjóra,  Sigríðar Björnsdóttur, fréttamanns, Sólveigar Róbertsdóttur, prófarkalesara og vélritara og Sigrúnar Maríu Þórisdóttur, sem gerði káputeikningu. Fyrsta tölublaðinu var dreift lesendum að kostnaðarlausu en síðan var hægt að fara í áskrift.
Það eru á þessu ári 37 ár síðan Litli Bergþór hóf göngu sína.
Fyrsta ritstjórnargreinin var svohljóðandi:
Í GAMNI OG ALVÖRU Einu sinni var ritnefnd og afrek hannar eru elstu Tungnamönnum kunn, þvi hún gaf út blað  er nefnt var Bergþór, eftir karli rniklum er bjó i Bláfelli.
Nú er öldin önnur.
Ritnefnd er að visu til, en hver hún er og hvar hún er, vita sjálfsagt fáir. Það dettur engum í hug að vekja Bergþór i Bláfelli til lifsins, en ég er sannfærður um, að til eru þeir sem hafa hug á að hefja á ný útgáfu Bergþórs.  En hinir frómustu menn segja þaö jafnerfitt verk að vekja ritnefnd til dáða og aö særa fram draug. Fleiri nefndir eru brenndar sama brennimerki og ritnefnd.  Nálega eitt ár er frá þvi aö útgáfunefnd var komiö á fót og má segja að þetta sé hennar fyrsta skref, það er þvi hœgara um aö ræða en í að komast, en vonandi er timi kraftaverkanna ekki liðinn. Hér með hefur göngu sina „Fréttablaðið Litli – Bergþór“. Nafniö er komið frá áður nefndu blaði og er nafngift útgáfustjóra. Markmið þessa blaðs er að koma alls konar uppiýsingum, fréttnæmu efni héðan úr byggðarlaginu á framfæri við ykkur lesendur góðir. Öllum er heimilt að senda inn efni til birtingar og mun útgáfunefndin sjá til þess að sem flest komi i blaðið. Formenn starfandi nefnda eru hvattir til þess að koma öllum starfsárangri í blaðiðj en það fylgir böggull skammrifi þvi þeir verða að koma efninu á stensla. Vonandi verður þetta blað til fróðleiks og skemmtunar.
Grimur Bjarndal.
Eins og áður er sagt, hér ofar, á allt sinn tíma. Það á Litli Bergþór einnig.

Já, ritnefnd Litla Bergþórs hittist á fundi í gær. 
Fyrst vorum við þrjú, en síðan tvö. 

Þar var rætt um efni næsta blaðs. Þar voru lagði fram reikningar fyrir síðasta ár. og þar var rætt um framtíð útgáfunnar.
Auðvitað ákvað nefndin ekki nokkurn skapaðan hlut um framtíð útgáfu á þessu menningarriti, sem Litli Bergþór óneitanlega er.  Nefndin ræddi hinsvegar hvað framtíð blaðsins gæti falið í sér í ljósi þess að áskrifendur, eins og nefndarmenn sjálfir, bæta við sig ári eftir ár. Þannig hefur tíminn þau óhjákvæmilegu áhrif, að áskrifendur hverfa af sjónarsviðinu, hver á fætur öðrum.  Nýjum fjölgar lítið.
Það kann að mega rekja til þess að ritnefndinni tekst ekki að fylgja tímanum nægilega vel, slær ekki rétta tóninn, heldur sig við að gefa út blað á pappír á sama tíma og útgáfa og miðlun efnis færist hratt eitthvert upp í skýið.

Á nefndarfundinum var framhaldið rætt - en bara rætt.

Fyrir áratugum síðan var gefin út hljómplata sem bar heitið Útvarp Matthildur, sem á var allskyns gamanefni.  Í einu atriðinu spyr fréttamaður formann ungmennafélags hver sé stærsti vandi ungmennafélaganna í dag.  Formaðurinn, sem eftir röddinni að dæma, var karlmaður á níræðisaldri, svaraði: „Maðurinn með ljáínn“.

Þeir eru örugglega fáir sem vilja sjá útgáfu Litla Bergþórs hætt án þess að nokkuð komi í staðinn.  Það sem blaðið hefur fram að færa er mikilvægt og skiptir máli fyrir samfélagið sem hann reynir að endurspegla og tala til.

Nefndin, sem er búin að safna árum talsvert lengi, telur ástæðu til að innan ungmennafélagsins fari fram umræða um hvaða stefnu er rétt að taka.


18 september, 2016

Rannsóknarblaðamenn LB

Eitt viðamesta málið sem blasir við ritstjórn Litla Bergþórs þetta haustið, er talsvert viðamikil úttekt á ferðaþjónustu í Biskupstungum, á mælikvarða blaðsins. Þarna að sannarlega að mörgu að hyggja, því margt er það í ferðaþjónustunni sem ekki blasir við í daglegu lífi Tungnamanna. Mikið liggur við að vandað verði til verka, og því varð úr að tveir aldursreyndustu blaðamennirnir voru sendir út af örkinni til að afla efnis. Þeir völdu sér þennan sunnudagsmorgun til að bruna út af örkinni.

Annar ók og gerði tillögur að tökustöðum. Hinn tók á tökustöðunum.
Ljóst er, eftir þennan tökuleiðangur, að verkið er jafnvel umfangsmeira en áætlað var í fyrstu og mögulegt, jafnvel, að einhverjum spurningum verði ósvarað eftir að vinnslu umfjöllunarinnar lýkur, en hún mun birtast í næst tölublaði, sem kemur um mánaðamót nóvember og desember, næstkomandi.

Vegna leyndar, sem óhjákvæmilega hvílir yfir verkefninu og samkeppnissjónarmiða, verða ekki birtar hér neinar myndir sem teknar voru í ferðinni, utan þrjár: af girnilegum brauðhleifum frá  Sindra bakara í Bjarnabúð, af öðrum blaðamanninum skyggnast um nærumhverfi sitt og sú þriðja af húsbyggingum í Biskupstungum, sem líklegt er að fáir hafi augum litið frá því sjónarhorni sem sýnt er.
Loks er birt ein mynd af afurðum einhvers svaðalegasta kleinubaksturs sem átt hefur sér stað í Kvistholti.


Hér lýkur þessari skýrslu um enn eitt þarfaverkið sem ritstjórn Litla Bergþórs ræðst í.  

27 febrúar, 2016

Að vera blaðamaður

Það gerðist bara einhvernveginn fyrir um það bil ári síðan, að ég var settur (eða kannski: það var sett mig) inn í ritnefnd merkisrits sem er gefið út í Biskupstungum og sem ber nafnið Litli Bergþór. Þarna var auðvitað á ferðinni kolóleg aðgerð þar sem með réttu skal ritnefnd kjörin á aðlfundi Ungmennafélags Biskupstungna, en það félag stendur að útgáfu þessa rits. Það kann að fara svo á aðalfundi félagsins, sem ekki er langt undan, að ég tel, að sú gjörð að taka mig inn í nefndina verði vítt og mér sparkað, en það kemur þá bara í ljós.
Litli Bergþór kemur út tvisvar á ári, að vori (ef það tekst, annars í lok sumars) og í nóvember eða desember.

Nú er ég búinn að taka þátt í útgáfu tveggja tölublaða Litla Bergþórs og undirbúningur að útgáfu þess þriðja er hafinn.

Þetta blað á sér orðið talsvert langa sögu. Undir þessu nafni hefur  það verið gefið út síðan 1980. Vinnsluaðferðin þá var talsvert frumstæðari en nú. Blaðið var vélritað, skrifað og teiknað á blekstensla, sem stöðugt færri hafa hugmynd um hvað var. Síðan þróaðist það með bættri tækni og fleiri áskrifendum þar til það komst í núverandi mynd. Hvert framtíðarútgáfuformið verður, er erfitt að ímynda sér, en ekki finnst mér úr vegi að ímynda sér að rafræn útgáfa sé það sem verður raunin.

Fyrsta tölublaðið sem ég koma að. Að
sjálfsögðu tókst mér að troða teikningu
eftir frumburðinn á forsíðuna.
Ég kom til starfa við Reykholtsskóla 1979, árið eftir kom fyrsta blaðið út og fyrir því stóð Grímur Bjarndal, sem þá var skólastjóri.  Ég dróst síðan inn í útgáfuna og kom að henni til 1985.  Síðan þá, eða í ein 30 ár, hef ég ekki haft annan snertiflöt við þetta ágæta blað annan en venjulegir áskrifendur hafa.
Nú er ég mættur aftur á svæðið, orðinn blaðamaður og farinn að safna og skrifa efni. Hvernig það gengur verður tíminn að leiða í ljós og þar getur margt gerst, þetta helst:
1. Ég verð settur úr útgáfunefndinni á aðalfundi ungmennafélagsins.
2. Áskrifendur deyja frá áskriftum sínum og rekstrargrundvöllur brestur.
3. Útgáfunefndinni tekst að ná til yngri kynslóða og efla blaðið.

Það má kannski segja og það í fullri alvöru, að útgáfa eins og sú sem hér um ræðir, sé ómetanleg í sögulegu samhengi. Í nútímanum er maður nefnilega ekkert mikið að spá hvernig nútíminn núna birtist í nútímanum eftir 30 ár.

Mér finnst, að stærsta verkefnið sem blasir við útgefendum Litla Bergþórs sé, að fjölga áskrifendum; ná til yngri kynslóða.
Hvernig gerum við það?
Varla með því að freista þess að efla útgáfuna með því að setja karl á sjötugsaldri nýjan inn í nefndina, er það?  Nefndarfólkið sem fyrir var þar, var svo sem að stórum hluta engin unglömb. Vissulega ungt og hresst í andanum, en með árafjöld að baki.

Megi Litli Bergþór lifa.

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...