06 nóvember, 2022

Um hann herra Litla Bergþór

Hvernig dettur fólki í hug, að það sé raunhæft að gefa út efnismikið tímarit, tvisvar á ári, sem fjallar bara, eða nánast alfarið um Biskupstungur?  
Ja, þegar stórt er spurt verður oft fátt um svör. Það þýðir samt ekki að svörin séu ekki til.
Nú eru ríflega fjórir áratugir síðan Litli Bergþór - blað ungmennafélags Biskupstungna, hóf göngu sína. Ég ætla mér ekki að segja þá sögu hér, en nefni þetta bara til að að benda á að það er nokkuð merkilegt að frá 1980 hefur þetta blað komið út tvisvar til þrisvar á ári og enn ber ekki á skorti á umfjöllunarefni.

Þó svo ég sé eflaust að hætta mér út á braut, sem ég er ekki búinn að skoða alveg niður í kjölinn, með því að reyna að svara spurningunni um þetta langa líf blaðsins, ætla ég að gera smá tilraun.

Þetta er það sem ég tel að eigi stóran þátt í langlífi karlsins og jafnframt það sem mér finnst að huga þurfi að:

1. Blaðið er alfarið unnið í sjálfboðavinnu (fyrir utan prentun og póstkostnað). Ef fólkið sem vinnur að útgáfunni fengi lágmarkslaun fyrir vinnu sína, væri það fyrir löngu búið að leggja upp laupana. Einhvern veginn hefur útgáfan borið gæfu til þess að hafa aðgang að fólki sem hefur nægan áhuga til að nota heilmikilnn tíma til að vinna blaðið. 
Í þessu felst einnig ákveðin hætta, sem virðist ekki fara minnkandi: dvínandi ungmennafélagsandi í samfélaginu, með spurningunni: Hversvegna ætti ég að vera að eyða dýrmætum tíma mínum og leggja jafnvel í nokkurn kostnað, við eitthvað sem ég fæ ekki greitt fyrir?  Verða það mögulega örlög blaðsins að deyja út með starfsfólki sem smátt og smátt eldist út úr því?  Hingað til hefur tekist að fá inn nýtt fólk til að viðhalda ákveðnum ferskleika og ná þannig til nýrra kynslóða. Það er nefnilega svo, að samfélagið hefur breyst mikið á þessum fjórum áratugum og því hefur þurft að svara.

2. Tryggir áskrifendur. Það hefur verið gæfa þessa blaðs að fólk hefur nánast talið sér skylt að vera áskrifendur að því og hefur áttað sig á mikilvægi þess sem tækis til að safna saman upplýsingum og frásögnum um það sem var og spegla samfélagið eins og það er nú. 
Það er  náttúrulögmál, sem veldur því, að tryggir áskrifendur týna smátt og smátt tölunni og það segir sig sjálft, að þá þarf að ná í nýja í staðinn. Það er engin trygging fyrir því að þeir nýju verið jafn traustur áskrifendahópur. Það er ein þeirra breytinga sem takast þarf á við í útgáfunni. Annar mikilvægur þáttur sem huga þarf að, er að samsetning samfélagsins sem blaðið þarf að höfða til er orðin talsvert breytt frá 1980. 

Mér finnst, að til þess að Litli Bergþór nái að lifa til ársins 2030, þurfi að leggja áherslu á tvennt, fyrst og fremst:
1. Að  ritstjórn blaðsins bætist nýtt og ferskt fólk, sem getur tekið við keflinu í fyllingu tímans. Ég þykist viss um að slíkt fólk er að finna í Biskupstungum nútímans. 
2. Að blaðið endurspegli það samfélag sem því er ætlað að höfða til, en lokist ekki um of inni í einhverjum afmörkuðum kima. Á undanförnum árum hafa verið stigin skref sem hefur verið ætlað að ná til breiðari hóps, ekki síst yngri kynslóða og það hefur tekist hreint bærilega. Áskorunin er að viðhalda áhuganum. 

----------------
Ég er nú að skrifa þetta í tilefni af því að til mín var leitað um að koma til liðs við ritstjórnina aftur, að einhverju leyti. Ég þáði þetta boð og er bara nokkuð stoltur af að vera treyst til þess arna. En - sko, ég er að nálgast sjötugt, sem telst nú varla besti aldur á nýju ritstjórnarfólki. Þar fyrir utan er ég fluttur burt af svæðinu og finnst þar af leiðandi vandasamt að fara að blanda mér of mikið í málefni þess. Ég hef nóg af skoðunum á því, en mögulega eiga þær betur heima annarsstaðar. 
Þetta breytir því ekki, að mér finnst að Litli Bergþór eigi mikið erindi til Tungnamanna á öllum aldri, ef rétt er haldið á spilunum. 
Megi hann lengi þrífast, karlinn.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Sæludagar í sandkassanum (12 - LOK)

Framhald af þessu Þannig er það víst alltaf, að það sem byrjar á annað borð, því lýkur á endanum. Þannig var það einnig með þessa ferð til D...