Sýnir færslur með efnisorðinu börn. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu börn. Sýna allar færslur

27 nóvember, 2019

Að hleypa barninu út

Í gegnum áratugina hafa börn í Laugarási alist upp í lífshættulegu umhverfi. Opnir hveralækir, jökulfljótið Hvítá og opnir skurðir. Sem betur fer hafa aðeins orðið þrjú banaslys á börnum, mér vitanlega, frá því Laugarás hóf að byggjast á fimmta áratug síðustu aldar.  Þrem banaslysum of mikið.
Ég minnist þess ekki að hafa búið við boð og bönn í þessum efnum og tel því að frekar hafi ég lært að lifa með umhverfinu eins og það blasti við.
Ég reikna með að við getum í grunninn verið sammála um, að það sé mikilvægur þáttur í barnauppeldi, að leyfa ungdómnum að læra á umhverfi sitt og þar með að það býr yfir ýmsum hættum. Ef börn alast upp við ofverndandi umhverfi, þar sem þau fá ekki tækifæri til að reka sig á, fá kúlu á höfuðið, upplifa höfnun eða taka afleiðingum gerða sinna, til dæmis, er hætt við að þau verði vanbúin til að takast á við alvöru lífsins þegar þar að kemur. Mér finnst ekki ólíklegt, að kulnun í starfi eða kvíðaraskanir og þunglyndi, geti að einhverju leyti orsakast af því að í uppeldið miðaði að því að forðast allt hið illa. Einhverntíma verður hver einstaklingur að skríða undan dúnsænginni og takast á við sjálfan sig og umhverfi sitt, sem hvorttveggja getur oft verið óblítt.

Þetta var inngangurinn.
Undir og fyrir norðan Hvítárbrú, Laugarásmegin, er sandeyri, sem tekur breytingum eftir því hve mikið er í ánni. Þarna getur verið ágætis náma fyrir tiltölulega fíngerðan sand, sem mikið hefur verið notaður gegnum árin. Þarna getur líka verið hættulegt að vera, því þó áin um umhverfi hennar séu fögur og freistandi, þá leynast þar hættur sem varast ber.
Við geymum flest í okkur leifar af barninu sem við  vorum. Okkur langar oft að geta hegðað okkur eins og við gerðum þegar við vorum börn. Við búum hinsvegar yfir reynslu, sem börnin skortir. Reynslu sem veldur því að við erum varkárari og hugsum málin áður en við framkvæmum.

Bílstjórinn sem spólaði á bílnum sínum í fjölmarga hringi á eyrinni. Hvað getum við sagt um hann? Mér finnst að líklega hafi hann þurft að hleypa út barninu í sér, óvitaskapnum og hvatvísinni.

Það birtust fyrir skömmu myndir á Facebook þar sem afleiðingar aksturs út  á Þengilseyri sáust glögglega, svo og skurðir eftir hringspól á nýja planinu við söguskiltin.


Mér dettur í hug, að kannski sé hér bara um að ræða merki um að Laugarás sé að glata sakleysi sínu. Hver veit?
Ekki ég, en hitt er víst að umhverfið fagurt í Laugarási. Kannski hættulegt, en fagurt.




10 október, 2017

Ástleysi? Sjálfhverfa? Kunnáttuleysi? Skilningsleysi?

Allt sem ég mögulega læt frá mér fara hér fyrir neðan, er eitthvað almennt, sem beinist ekki að neinum einstaklingum, lífs eða liðnum. Bara almennar vangaveltur um aðstæður barna á þessu landi, eins  og þær birtast mér eða ættu að birtast mér, karlinum, á þeim aldri sem ég er, laus við ábyrgð af barnauppeldi, sem í mínu tilviki lauk fyrir talsvert löngu, á öðrum og talsvert ólíkum tíma og var mögulega ekkert sérstakt, þannig séð. 
Mögulega var sá tími að ýmsu leyti ekkert skárri en í dag, að þessu leyti. En börnin eru hinsvegar óbreytt þegar þau fæðast.



Nýfæddur ég
Ef ég væri nýfæddur í dag, myndi ég í rauninni bara gera kröfu um eitt: skilyrðislausa ást og umhggju foreldra minna.  Mér væri alveg sama um hvernig rúmið mitt væri, eða vagninn, eða rúmfötin, eða fötin, eða bleyjurnar, eða snuðin... eða hvort ég fengi æpadd.
Ég myndi bara vilja geta treyst því að foreldrar mínir sæju um mig og sæju til þess að mig skorti ekkert af því sem mér væri nauðsynlegt, hugsuðu um mig nótt sem nýtan dag, leiðbeindu mér, kenndu mér, töluðu við mig, læsu fyrir mig, kenndu mér muninn á réttu á röngu, væru alltaf tilbúin að efla mig og bæta, styddu með ráðum og dáð gagnvart þeim og með þeim sem síðar tækju við mér og aðstoðuðu mig við menntun mína.

Auðvitað hefði ég ekki vit á því, en ég myndi reikna með, þau teldu það ekki eftir sér, að fórna stórum hluta af frelsi sínu fyrir mig, myndu leggja mikið á sig til að æska mín veitti mér þann grunn sem væri mér nauðsynlegur þegar ég síðar færi út að kanna heiminn.

Auðvitað hefði ég ekki vit á því, en ég myndi vilja að ást þeirra til mín og umhyggja fyrir velferð minni myndi aldrei flökta, að þeim væri það ljóst, dag og nótt, að ég væri eitthvað sem fyllti þau stolti og að þau bæru á því ábyrgð að sá grunnur sem ég færi með út í heiminn væri nægilega traustur til þess að líkurnar á því að ég hrasaði yrðu sem minnstar.

Auðvitað hefði ég ekki vit á því, en ég myndi vilja vera í leikskóla bara hálfan daginn, hinn helminginn með foreldrum mínum, sem veittu mér alla þá athygli sem ég hefði þörf fyrir, segðu mér hvað ég mætti og mætti ekki, hrósuðu mér fyrir það sem ég raunverulega gerði vel þannig að ég gæti þá bætt mig enn meira, leyfðu mér að vera hluta af lífi sínu, létu mig ekki þurfa að keppa við neitt um athygli þeirra, létu mig finna að ég væri mikilvægur og skipti máli.  Mér væri alveg sama þó við slepptum því að fara út að borða, eða til útlanda, eða í bíó, eða í hvalaskoðun. Mér væri alveg sama þó húsgögnin heima hjá okkur væru gömul og slitin, mér væri alveg sama þó bíllinn væri gömul drusla, mér væri alveg sama þó sjónvarpið væri túbusjónvarp.  Mér væri alveg sama um allt þetta efnislega, bara ef ég hefði þá, eins mikið og mögulegt væri, alltaf strax og þau væru búin að vinna á daginn, alltaf þegar þau ættu frí, allar helgar, alltaf.

Auðvitað hefði ég ekki vit á því, en ég myndi ekki gera ráð fyrir að foreldrar mínir væru mikið í einhverju þar sem ég kæmi ekki við sögu. Ég myndi vilja vera aðalpersónan, ekki þannig endilega að allt snerist í kringum mig, heldur þannig að ég gæti alltaf notið fullrar athygli þegar ég þyrfti á að halda, ekki hálfa athygli, eða brots úr athygli - fullrar athygli.

Auðvitað hefði ég ekki vit á því, en ég myndi gera rað fyrir því að foreldrar kynnu að vera foreldrar, að þeir bara kynnu það. Vissu að með því að ákveða að eiga mig, væru þeir að fórna eigin frelsi,  vissu að þeir þyrftu að setja mér mörk, vissu að samvera mín við þau væri nauðsynlegur þáttur í uppeldi mínu, vissu að leikskólinn eða grunnskólinn gæti aldrei komið í stað þeirra, vissu að það væri enginn annar en þeir, sem bæru endalega ábyrgð á því hvað úr mér yrði.


-------------------

Ég setti þetta ekki hér niður á skjá til að reyna að kalla fram einhverja sektarkennd hjá foreldum ungra barna. Tilgangur minn er nú bara að freista þess vekja til umhugsunar, ekki bara foreldra, heldur alla þá sem koma að barnauppeldi.
Sannarlega neita ég því ekki, að mér finnst átta til níu stunda vistunartími barna á því viðkvæma aldursskeiði sem leikskólabörn eru á, fjarri því að vera viðunandi fyrir þroska þeirra og sálarlíf.

Með þessum skrifum er ég ekki að og vil ekki beina spjótum að foreldrum, en aðstæður þeirra eru jafn mismunandi og þeir eru margir.
Mögulega erum við búin að búa okkur til samfélag þar sem báðir foreldrar þurfa vinna nótt sem nýtan dag til að hafa í fjölskylduna og á.
Mögulega eru kröfur okkar um efnisleg gæði komnar talsvert út fyrir það sem nauðsynlegt er eða skynsamlegt.
Mögulega er kominn tími til að endurhugsa þetta allt saman.
Huga meira inn á við.

04 júní, 2017

Uppeldi og viðhald

Það fæðist barn í þennan heim, sem er vissulega ekki í frásögur færandi, í það minnsta ef það er ekki þitt barn eða þinna.
Foreldrarnir eru yfirmáta stoltir af litlu krúttbollunni sinni og kalla eftir því, með myndum af afkvæminu, að aðrir "læki" myndirnar á ólíkustu miðlum og skrifi jafnvel eitthvað yfirmáta fallegt um krúttsprengjuna.  Þetta er ekkert undarlegt í sjálfu sér, enda ung börn yfirleitt afskaplega falleg fyrirbæri og kalla á aðdáun og væntumþykju.
Svo líða dagarnir, mánuðirnir og árin. Hversdagurinn er algengari en hátíðirnar. Daglegt líf er kannski ekkert stórfenglegt svona út á við, en það er einmitt þar sem reynir á.  Þar þarf að veita umhyggju, næringu, fæði, klæði og skjól,,,, og uppeldi.  Þar skiptir máli hvernig á málum er haldið, því lengi býr að fyrstu gerð og allt það.
Sem betur fer, á þessu landi er það sennilega algengara að umhverfi barna sé til þess fallið að úr verði góðir einstaklingar, vel byggðir, sem njóta síðan góðs viðhalds.  Skrýtið orð "viðhald" í þessu samhengi.

Hús eru byggð, stór og lítil.
Að mörgu leyti má segja að þau þurfi það sama og börnin, Falleg hús, sem er vel við haldið, endast lengi og gegna hlutverki sínu vel, áratugum og jafnvel árhundruðum saman. Ending þeirra ákvarðast auðvitað að stórum hluta af því hvernig grunnurinn var lagður. Hverjir byggðu og hverjum var ætlað viðhaldið.  Sum hús eru byggð af einstaklingum sem bera síðan ábyrgð gangvart sjálfum sér, á því að viðhaldið sé það gott að gott verð fáist ef húsið er selt.

Önnur hús eru byggð á öðrum forsendum; t.d. til að halda nafni einhvers á lofti. Þau hús er þá alla jafna byggð fyrir almannafé til pólitískrar upphafningar einhverra einstaklinga, eða sameiginlegt átaksverkefni þjóðar til að halda á lofti trú eða menningu hennar.

Það er yfirleitt gert mikið með þessi hús og mikið í þau lagt. Færustu byggingamenn fengnir til að hanna og reisa, Mestu listamennirnir fengnir til að fegra og skreyta.  Þessar byggingar eru stolt þjóðarinnar. Þær eru eign þjóðarinnar.
Svo líða árin og áratugirnir.
Hversdagurinn tekur við.
Pólitíkusarnir byggja ný hús í nafni þjóðarinnar, en þó aðallega til að halda eigin nafni á  lofti.
Það er þarna sem byggingar eiga það til að verða munaðarlausar. Þær eru búnar að fá öll "lækin" og aðdáunina. Þar með telst markmiðinu náð.  Það telst víst ekki neinum til framdráttar að sinna viðhaldi.

Hver á að sinna viðhaldi þjóðargersema? ÉG að gera það?" segja menn. "Ég á engan pening í það. Hann fer allur í nýju, glæsilegu bygginguna sem ég er að reisa. Það verða einhverjir aðrir að sjá um þessar gömlu byggingar".

Þannig er þetta.
Samanburður við börnin.
Þegar kúfnum af myndasýningunum, með öllum "lækunum" og krútt "kommentunum" er lokið, er barnið látið í hendur annarra og þeim ætlað að sjá um uppeldið.
Foreldrarnir taka myndir fyrir samfélagsmiðla á jólum, páskum og jafnvel hvítasunnu, eða einhverjum sérstökum hátíðastundum. Eftir því sem tímar líða fækkar þessum myndum, og "lækunum" fækkar að sama skapi. Þörfin fyrir "lækin" hverfur ekki og það er búið til nýtt barn, til að endurvekja, í hugum annarra, einhverskonar aðdáun.
Öðrum er ætlað á sjá um uppeldið, öðrum er ætlað að sjá um viðhaldið. Hverjir eru þeir? Eru þeir starfi sínu vaxnir? Fylgir nægilegt fjármagn? Eru þeir kannski sjálfir að búa til sín eigin börn, eða byggja sínar byggingar?

Við lifum á tímum þar sem  við erum lítið að velta fortíðinni fyrir okkur, hvað þá framtíðinni. Við lifum í núinu, rétt eins og hundurinn sem fyrirgefur eiganda sínum allt og þakkar honum ekkert. Eins og fuglar himinsins sem gleðja með söng sínum, en geta lent í kattarkjafti á morgun.

Það er eins og við lifum í samhengislausum heimi.

Ég ætla að hætta hér, áður en ég sekk mikið dýpra. Einnig tel ég að þú sért ein(n) afar fárra sem hafa lesið alla leit hingað niður.

Við þig segi ég: "Gleðilega hátíð"


.

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...