10 október, 2017

Ástleysi? Sjálfhverfa? Kunnáttuleysi? Skilningsleysi?

Allt sem ég mögulega læt frá mér fara hér fyrir neðan, er eitthvað almennt, sem beinist ekki að neinum einstaklingum, lífs eða liðnum. Bara almennar vangaveltur um aðstæður barna á þessu landi, eins  og þær birtast mér eða ættu að birtast mér, karlinum, á þeim aldri sem ég er, laus við ábyrgð af barnauppeldi, sem í mínu tilviki lauk fyrir talsvert löngu, á öðrum og talsvert ólíkum tíma og var mögulega ekkert sérstakt, þannig séð. 
Mögulega var sá tími að ýmsu leyti ekkert skárri en í dag, að þessu leyti. En börnin eru hinsvegar óbreytt þegar þau fæðast.



Nýfæddur ég
Ef ég væri nýfæddur í dag, myndi ég í rauninni bara gera kröfu um eitt: skilyrðislausa ást og umhggju foreldra minna.  Mér væri alveg sama um hvernig rúmið mitt væri, eða vagninn, eða rúmfötin, eða fötin, eða bleyjurnar, eða snuðin... eða hvort ég fengi æpadd.
Ég myndi bara vilja geta treyst því að foreldrar mínir sæju um mig og sæju til þess að mig skorti ekkert af því sem mér væri nauðsynlegt, hugsuðu um mig nótt sem nýtan dag, leiðbeindu mér, kenndu mér, töluðu við mig, læsu fyrir mig, kenndu mér muninn á réttu á röngu, væru alltaf tilbúin að efla mig og bæta, styddu með ráðum og dáð gagnvart þeim og með þeim sem síðar tækju við mér og aðstoðuðu mig við menntun mína.

Auðvitað hefði ég ekki vit á því, en ég myndi reikna með, þau teldu það ekki eftir sér, að fórna stórum hluta af frelsi sínu fyrir mig, myndu leggja mikið á sig til að æska mín veitti mér þann grunn sem væri mér nauðsynlegur þegar ég síðar færi út að kanna heiminn.

Auðvitað hefði ég ekki vit á því, en ég myndi vilja að ást þeirra til mín og umhyggja fyrir velferð minni myndi aldrei flökta, að þeim væri það ljóst, dag og nótt, að ég væri eitthvað sem fyllti þau stolti og að þau bæru á því ábyrgð að sá grunnur sem ég færi með út í heiminn væri nægilega traustur til þess að líkurnar á því að ég hrasaði yrðu sem minnstar.

Auðvitað hefði ég ekki vit á því, en ég myndi vilja vera í leikskóla bara hálfan daginn, hinn helminginn með foreldrum mínum, sem veittu mér alla þá athygli sem ég hefði þörf fyrir, segðu mér hvað ég mætti og mætti ekki, hrósuðu mér fyrir það sem ég raunverulega gerði vel þannig að ég gæti þá bætt mig enn meira, leyfðu mér að vera hluta af lífi sínu, létu mig ekki þurfa að keppa við neitt um athygli þeirra, létu mig finna að ég væri mikilvægur og skipti máli.  Mér væri alveg sama þó við slepptum því að fara út að borða, eða til útlanda, eða í bíó, eða í hvalaskoðun. Mér væri alveg sama þó húsgögnin heima hjá okkur væru gömul og slitin, mér væri alveg sama þó bíllinn væri gömul drusla, mér væri alveg sama þó sjónvarpið væri túbusjónvarp.  Mér væri alveg sama um allt þetta efnislega, bara ef ég hefði þá, eins mikið og mögulegt væri, alltaf strax og þau væru búin að vinna á daginn, alltaf þegar þau ættu frí, allar helgar, alltaf.

Auðvitað hefði ég ekki vit á því, en ég myndi ekki gera ráð fyrir að foreldrar mínir væru mikið í einhverju þar sem ég kæmi ekki við sögu. Ég myndi vilja vera aðalpersónan, ekki þannig endilega að allt snerist í kringum mig, heldur þannig að ég gæti alltaf notið fullrar athygli þegar ég þyrfti á að halda, ekki hálfa athygli, eða brots úr athygli - fullrar athygli.

Auðvitað hefði ég ekki vit á því, en ég myndi gera rað fyrir því að foreldrar kynnu að vera foreldrar, að þeir bara kynnu það. Vissu að með því að ákveða að eiga mig, væru þeir að fórna eigin frelsi,  vissu að þeir þyrftu að setja mér mörk, vissu að samvera mín við þau væri nauðsynlegur þáttur í uppeldi mínu, vissu að leikskólinn eða grunnskólinn gæti aldrei komið í stað þeirra, vissu að það væri enginn annar en þeir, sem bæru endalega ábyrgð á því hvað úr mér yrði.


-------------------

Ég setti þetta ekki hér niður á skjá til að reyna að kalla fram einhverja sektarkennd hjá foreldum ungra barna. Tilgangur minn er nú bara að freista þess vekja til umhugsunar, ekki bara foreldra, heldur alla þá sem koma að barnauppeldi.
Sannarlega neita ég því ekki, að mér finnst átta til níu stunda vistunartími barna á því viðkvæma aldursskeiði sem leikskólabörn eru á, fjarri því að vera viðunandi fyrir þroska þeirra og sálarlíf.

Með þessum skrifum er ég ekki að og vil ekki beina spjótum að foreldrum, en aðstæður þeirra eru jafn mismunandi og þeir eru margir.
Mögulega erum við búin að búa okkur til samfélag þar sem báðir foreldrar þurfa vinna nótt sem nýtan dag til að hafa í fjölskylduna og á.
Mögulega eru kröfur okkar um efnisleg gæði komnar talsvert út fyrir það sem nauðsynlegt er eða skynsamlegt.
Mögulega er kominn tími til að endurhugsa þetta allt saman.
Huga meira inn á við.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...